07.02.1979
Efri deild: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

137. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna þess erindis, sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson var að kynna og mér hefur borist frá Rafveitu Siglufjarðar, tel ég rétt að hv. þm. hér í d. hafi í huga, að þótt það liggi fyrir að Rafveita Siglufjarðar á við nokkra erfiðleika að etja vegna fjárhagsbyrðar af lánum vegna virkjunar sem ráðist var í þar fyrir nokkru, þá tel ég ekki vera fullgild rök fyrir því að taka þessa rafveitu inn í þann hóp sem gert er ráð fyrir að njóti góðs af verðjöfnunargjaldi.

Ástæðan fyrir því, að ég tel mig ekki geta mælt með þessu, er sú, að Rafveita Siglufjarðar hefur ekki talið nauðsynlegt að bregðast við þeim fjárhagsvanda, sem hún hefur tjáð að hún eigi við að glíma, með því að hækka hjá sér raforkuverð. Samkv. því verði, sem gilti 1. okt. s.l. og prentað var í yfirliti um gjaldskrár rafveitna, liggur fyrir að verð til heimilisnotkunar hjá Rafveitu Siglufjarðar er 19.80 kr. á kwst., eða 2 aurum lægra en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þetta á við heimilistaxtann og svipað er þetta um iðnaðartaxtann.

Þó að ég hafi fulla samúð með Rafveitu Siglufjarðar og skilji þá erfiðleika sem hún á við að etja, eins og margar aðrar rafveitur í landinu, — ég hugsa að Rafmagnsveita Reykjavíkur geti fært fram ýmislegt sem er henni til íþyngingar og erfiðleika og hafi raunar gert það í sambandi við umsóknir um gjaldskrárhækkanir, — þá tel ég að þetta fyrirtæki hafi ekki þá sérstöðu sem geri eðlilegt að við óskum hennar sé orðið að þessu leyti. Hitt er svo annað mál, að ég tel mjög eðlilegt að á vanda þessa fyrirtækis sé litið með tilliti til lengri tíma m.a., og ég hef látið það koma fram við þá sem til mín hafa leitað varðandi þessa erfiðleika, að iðnrn. sé reiðubúið til að taka upp viðræður við Rafveitu Siglufjarðar um erfiðleika hennar með það í huga að athuga, hvaða leiðir eru helstar út úr þeim.

Þetta taldi ég nauðsynlegt að kæmi fram vegna þessa erindis.