07.02.1979
Neðri deild: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

69. mál, Framleiðsluráð landbúnaðarins

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) [frh.]:

Herra forseti. Ég mun hafa verið þar kominn máli mínu sem ég var að svara þeim tilmælum hv. þm. Stefáns Valgeirssonar, að Alþfl. og þá væntanlega Alþb. líka tækju höndum saman við Framsfl. um nýskipan í stefnu í landbúnaðarmálum. Ég mun hafa sagt einhvern veginn á þá leið, að að sjálfsögðu værum við Alþfl.-menn nú sem fyrr reiðubúnir til þess að taka höndum saman við Framsfl. eða hvaða aðra flokka sem væri um mótun nýrrar og skynsamlegri stefnu í landbúnaðarmálum heldur en fylgt hefur verið. Hins vegar er það ekki mitt verk að svara fyrir Alþb. Það er annarra verk, en mér þykir heldur ólíklegt að við mundum geta átt samleið um þau mál. Við nánari athugun hef ég mér til gamans sett á blað nokkur efnisatriði skoðunar sem mér finnst að Alþb. hafi haft í þessum málum og menn eru að kallsa með það sér til gamans hér í þinginu, en ég held að ég láti þar við sitja og fari ekki að ræða það frekar hér.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson fann það helst til málsbóta þeirri skipan, sem verið hefur á útflutningsuppbótum vegna landbúnaðarafurða, verðábyrgð ríkissjóðs í því skyni, að sú verðábyrgð hafi verið sett með lögum sem viðreisnarstjórnin sællar minningar sá um að sett urðu. Það er alveg rétt að sú breyting, sem gerð var á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins þar sem kveðið er á um verðábyrgð vegna útflutnings á landbúnaðarafurðum, var gerð af þeirri ríkisstj. sem nefnd hefur verið viðreisnarstjórn. En um hitt erum við hv. þm. Stefán Valgeirsson ekki sammála, að öll þau verk, sem viðreisnarstjórnin gerði, hafi verið svo með afbrigðum góð að það geti ekki komið til að þau þurfi að betrumbæta. Ég tel að þó að viðreisnarstjórnin hafi gert margt gott, þá sé flest af því sem hún gerði þess eðlis að það megi bæta þegar árin líða. Um þetta virðumst við hv. þm. Stefán Valgeirsson alls ekki vera sammála, því að hann færði það sem helstu rök fyrir því að hafa þetta óbreytt með öllu, að viðreisnarstjórnin hafi gert þetta.

Við höfum auðvitað tvær ólíkar skoðanir á þessum málum, við hv. þm. Stefán Valgeirsson, en ég vil halda því fram samt sem áður, að hin almenna söguskoðun verði sú, að þótt söguskoðunin staðfesti þá niðurstöðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að viðreisnarstjórnin hafi verið góð stjórn, þá sé ýmislegt, sem hún gerði, sem megi betrumbæta og þá ekki síst þegar jafnlangur tími er liðinn frá gerðum hennar og hér um ræðir.

Hv. þm. Stefán Valgeirsson spurðist enn fremur fyrir um hvaðan þær upplýsingar væru fengnar sem koma fram í grg. með frv., að fyrir gildistöku þeirrar skipunar á verðábyrgð, sem hefur verið í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, hafi útflutningur á landbúnaðarafurðum hæst numið 5.45% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar. Þessar upplýsingar eru fengnar frá Hagstofu Íslands. Hagstofa Íslands hefur gefið mér þær upplýsingar, að fyrir árið 1959–1960, þegar umrædd lög tóku gildi, hafi útflutningur á landbúnaðarafurðum hæst numið 5.45% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar á Íslandi. Ég ætla ekki að fara frekar út í þá sálma, en upplýsa það sem mér finnst sjálfsagt og eðlilegt, að ég treysti ummælum Hagstofu Íslands og upplýsingum um þessi efni. Í sambandi við það vil ég enn ítreka tilvitnun mína í ræðu Ingólfs Jónssonar, þáv. landbrh., frá því 11. mars 1960, þar sem þáv. hæstv. landbrh. sagði í Ed. orðrétt, með leyfi forseta:

„Og nú er öllum sú staðreynd ljós, að landbúnaðarframleiðslan vex ekki í hlutfalli við aukna notkun innanlands, ekkert í samræmi við fjölgun fólksins í landinu, og þess vegna er það rétt, að það eru litlar líkur til þess, að útflutningsbæturnar verði þungur baggi á ríkissjóði.“

Þegar lögin eru sett er það sem sagt skoðun þáv. hæstv. landbrh. og flestra þm., að það megi ekki búast við að landbúnaðarframleiðslan vaxi í samræmi við fjölgun fólksins í landinu. Ég tók fram í fyrri ræðu minni, að þessi breyting á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins, sem gerð var á þinginu 1959–1960, var einn þáttur í þeirri stefnu sem stjórnvöld mótuðu allt frá setningu afurðalaganna um að auka bæri framleiðslu landbúnaðarafurða vegna þess að það var skortur á landbúnaðarvörum á Íslandi. Flestallir þeir, sem upp aldir eru í kaupstöðum og kauptúnum og muna þá tíma, munu minnast þess, að á þeim árum var ákaflega erfitt t.d. með útvegun mjólkur og ýmissa mjólkurafurða og taka varð upp stranga skömmtun í mjög mörgum bæjum og þorpum á mjólk og smjöri. Ég veit meira að segja dæmi þess úr mínum uppvexti, að á þeim stað þar sem ég ólst upp, og ekki er nú ýkjalangt síðan, þá var mjólk ófáanleg nema fyrir ungabörn og þá sem við sérstaka sjúkdóma áttu að stríða. Þess vegna var sú stefna mótuð að styðja að því með styrkjum og lánafyrirgreiðslu og yfirleitt allri lagasetningu um málefni landbúnaðarins að hvetja til mjög aukinnar framleiðslu á landbúnaðarafurðum, vegna þess að það var mikill skortur á þeim í landinu. Einn þáttur þessa máls var sú skipan verðábyrgðar sem ákveðin var með breytingunni á lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins á þinginu 1959–1960. Eins og ég hef bent á, m.a. með tilvitnun í þáv. hæstv. landbrh. og tilvitnun í ummæli ýmissa þm. frá því ári, þá datt engum þm. í hug, allt frá hæstv. landbrh. og til óbreyttra þm., að sú staða gæti komið upp í landbúnaði, að umframframleiðslan á landbúnaðarvörum yrði svo mikil að sú hámarksverðábyrgð, sem lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins gerðu ráð fyrir, yrði notuð. Hæstv. þáv. landbrh. sagði, eins og ég vitnaði til áðan, að öllum væri sú staðreynd ljós, að landbúnaðarframleiðslan yxi ekki í hlutfalli við aukna notkun innanlands. Öllum er sú staðreynd ljós, sagði hæstv. ráðh., og þess vegna væru litlar líkur til þess að útflutningsbæturnar yrðu þungur baggi á ríkissjóði.

En auðvitað bar sú almenna stefnumörkun þann árangur sem gerð var í landbúnaðarmálunum, m.a. með þessari lagabreytingu sem ég hef rætt um, að framleiðslan á landbúnaðarvörum jókst mjög hröðum skrefum uns svo var komið að framleiðslan á helstu afurðum íslensks landbúnaðar, — þar á ég við framleiðsluafurðir sauðfjárræktar og nautgriparæktar, — var orðin svo mikil að hún var orðin miklu meiri en landsmenn sjálfir þurftu á að halda og er nú orðin meiri en hámark verðábyrgðar gerir ráð fyrir að borið verði af ríkissjóði. Tvö s.l. ár hefur þannig þurft að útvega til þess að greiða niður útfluttar landbúnaðarafurðir meira fé heldur en lögin leyfa. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Því miður er framleiðslan orðin svo mikil, að af dilkakjöti framleiðum við nú í landinu um 40% meira en þjóðin þarf og af mjólkurafurðum er offramleiðslan svo mikil, að nú þegar eru fyrirliggjandi í birgðageymslum heils árs birgðir af smjöri, sem ekki er hægt að koma út innanlands, en verður að flytja til útlanda gegn verði sem, eins og ég upplýsti í fyrri ræðu minni, nægir ekki til þess að standa undir kostnaði sem af því hlýst að flytja inn fóðurbæti til að framleiða þessa vöru. Verðið, sem fæst á erlendum mörkuðum fyrir hvert kg af íslensku smjöri, nægir ekki til þess að greiða þann fóðurbæti sem fer í að framleiða þetta eina smjörkg. Ég held að það gefi auga leið, að þegar offramleiðsluvandi er orðinn slíkur, þá ber að snúa af þeirri braut, sem þetta vandamál hefur skapað, og til réttari vegar.

Ég hef ekki frekari aths. að gera við ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar að öðru leyti en því að benda á, eins og ég gerði á síðasta fundi, að það er út af fyrir sig ánægjulegt að allir þeir, sem um málefni landbúnaðarins tala nú, eru sammála um að þar sé við mjög alvarlegan vanda að etja, sem m.a. stafi af því, að framleiðslan á landbúnaðarafurðum sé orðin miklu meiri en nemur þörfum þjóðarinnar. Það fer enginn lengur upp í ræðustól hér á Alþingi án þess að láta í ljós þessa skoðun.

Ég sagði, að það væri ánægjulegt að menn skyldu vera komnir að þessari niðurstöðu, vegna þess að þetta er sú niðurstaða sem þm. Alþfl. hafa árum saman einir barist fyrir að gera mönnum ljósa, m.a. úr ræðustól hér á þingi. Út af fyrir sig er ánægjulegt að menn skuli nú vera orðnir sammála um eðli vandans, um að þetta vandamál sé til og um hvernig eigi að lýsa því. Hitt er hins vegar ekki ástæða til að vera ánægður með, að afkoma bændastéttarinnar og vandi landbúnaðarins skuli þurfa að hafa orðið með þeim hætti sem nú er til þess að mönnum yrði þetta ljóst. Það er ekki ánægjuleg tilhugsun, að menn skuli ekki hafa komið auga á þetta eða a.m.k. ekki viljað viðurkenna þetta fyrr en vandinn er orðinn svo mikill að við sitjum uppi með milli 300 og 400 þús. dilkaskrokka á hverju einasta ári umfram það sem við getum tekið til eigin nota. Það er ekki ánægjulegt, að þetta skyldi þurfa að gerast til þess að menn sæju og viðurkenndu offramleiðslu á mjólk og mjólkurafurðum. Þó að við Alþfl.menn getum út af fyrir sig verið ánægðir með að nú skulum við ekki lengur einir þurfa að standa í því að gera fólki ljóst að við vanda er að etja í landbúnaðarmálum, þá er það ekki ánægjulegt fyrir þjóðina í heild, að ráðamenn þjóðarinnar, þ. á m. ráðh. og alþm., skyldu ekki hafa gert sér grein fyrir þessari einföldu staðreynd fyrr en svo er komið sem komið er.

Hv. þm. Páll Pétursson gerði í ræðu sinni nokkrar aths. við frv. þetta sem að verulegu leyti byggðust á misskilningi, byggðust á því, að hv. þm. hafi ekki gefið sér tíma til að lesa grg. frv. eða skoða þær talnalegu upplýsingar sem með því fylgja í töflum á bls. 6, 7 og 8. Hv. þm. Páll Pétursson sagði m.a., að ef frv. yrði samþykkt, og vísaði þar í töflu Í og töflu 3, þá gerði frv. ráð fyrir að tekjutap bænda yrði á einu ári 2000 millj. kr. eða sem svaraði 500 þús. kr. á hvern bónda í landinu. Þessar yfirlýsingar hv. þm. sýna aðeins að þó svo við höfum flutt þetta frv. tvívegis á hinu háa Alþingi hefur hv. þm. Páll Pétursson ekki gefið sér tíma, hvorki í fyrra skiptið né í síðara skiptið, til þess að lesa grg., sem frv. fylgir, eða skoða þær upplýsingar, sem fram koma í töflunum á bls. 6, 7 og 8. í fyrsta lagi ætti hv. þm. að gera sér grein fyrir því, eins og glögglega kemur fram í töflu 1 á bls. 6, að sú verðábyrgð fyrir verðlagsárið 1977–1978, sem þar er gert ráð fyrir að ríkissjóður þurfi á sig að taka, er talsvert umfram leyfilegt hámark. Þar er gert ráð fyrir að útflutningsbætur þyrftu að vera 4.9 milljarðar kr. Það eru 13.8% af samanlögðu heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar á Íslandi eða um 3.8 prósentustig fram yfir leyfilegt hámark verðábyrgðar, þannig að bændur eiga ekki lögum samkv. kröfu til þess að fá úr ríkissjóði útflutningsbætur að upphæð 4.9 milljarðar kr. Er því auðvitað fjarstæða að nota þá tölu til samanburðar eins og hv. þm. gerði í þessum útreikningum sínum.

Í annan stað virðist hv. þm. ekki hafa enn skilið það, að eins og frv. er fram lagt og glögglega kemur fram í 2. gr. þess er ráð fyrir því gert, að markmið 1. gr. verði náð í áföngum á 4 árum, þannig að frv. verði ekki að fullu komið til framkvæmda, ef að lögum verður, fyrr en 4 árum eftir að það hefur verið samþ. og afgreitt frá Alþingi. Sú niðurstaða, sem hv. þm. komst að í máli sínu að mundi af hljótast ef frv. yrði samþ., er því í fyrsta lagi byggð á rangri viðmiðun, á miklu hærri tölu verðábyrgðar en bændur eiga kröfu á, og í öðru lagi ekki tekið tillit til þess, að niðurstaðan á að verða í áföngum á 4 árum. Það er því með öllu rangt að bændur muni tapa, eins og hv. þm. sagði, 2 milljörðum kr. ef frv. þetta yrði samþ., eða með hans eigin orðum sem svaraði 500 þús. kr. sem kaup hvers bónda í landinu mundi lækka. Ef frv. hefði verið samþ. þannig að það hefði tekið gildi á verðlagsárinu 1977–1978 hefði verðábyrgð numið sem hér segir: Vegna útflutnings á afurðum nautgriparæktar, 8% af samanlögðu heildarframleiðsluverðmæti þeirrar búgreinar, 1355 millj. kr. Vegna bráðabirgðaákvæðanna í 2. gr., sem kveða á um að verðábyrgð vegna útflutnings á afurðum sauðfjárræktar megi nema allt að 20% heildarverðmætisins, þá yrði verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings á sauðfjárafurðum 2712 millj. kr., ef frv. hefði verið samþ. þannig að það hefði tekið gildi fyrir verðlagsár 1977–1978. Samanlögð verðábyrgð ríkissjóðs það ár, ef frv. hefði verið samþykkt, hefði þannig numið 4065 millj. kr. Tekjutap landbúnaðarins, ef mætti orða það svo, hefði því ekki numið 2 milljörðum kr., eins og hv. þm. gaf í skyn, heldur í mesta lagi 200–250 millj. kr. á fyrsta ári, vegna þess að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að þetta verði fyrsti áfanginn að því markmiði, sem sett er í 1. gr., og í öðru lagi, að talan 4956 millj. fyrir verðlagsárið 1977–1978, sem sett er í töflu 1, er, eins og glögglega kemur fram, 13.8% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar eða 3.8 prósentustigum hærri en lög leyfa. Auðvitað geta menn í þessum samanburði ekki miðað við annað hámark en landslög leyfa. Það hámark verða menn að miða við. Ef það hámark er tekið og það borið saman við ákvæði frv., ef að lögum hefði orðið fyrir verðlagsárið 1977–1978, þá hefði tekjutapið vegna þessa orðið ekki 2 milljarðar kr., eins og hv. þm. sagði, heldur um 250 millj. kr.

Þetta held ég að hljóti að vera öllum ljóst sem á annað borð kunna einfaldar reglur um samlagningu og frádrátt. Menn geta kynnt sér þetta af eigin raun, ef þeir treysta ekki þessum upplýsingum. En ég ætla eindregið að hvetja menn, sem ætla að leggja orð í belg um þessi mál, að gefa sér a.m.k. tíma til að lesa grg. frv. sem þeir eru nú að fjalla um í annað sinn. Og ég verð að segja eins og er, að það lýsir ekki sérlega vönduðum vinnubrögðum hjá þn., og vil í því sambandi minna á að í fyrra fór þetta frv. til landbn., þegar menn, sem áttu sæti í landbn. á síðasta þingi og fengu þetta frv. þar til umfjöllunar, hafa ekki einu sinni sýnt því þann sóma að lesa grg. sem frv. fylgir. Það ætti því að vera augljóst hvers vegna ég er ekkert ginnkeyptur fyrir því að senda frv. þetta til landbn. þegar það er flutt nú í annað sinn.

Hv. þm. Páll Pétursson og raunar fleiri þm., sem um þetta mál hafa talað, hafa mikið rætt um þarfir iðnaðarins í því sambandi, þ.e.a.s. þarfir þess iðnaðar sem vinnur úr því efni sem til fellur í landbúnaði svo sem ullariðnaðar, skinnaiðnaðar o.fl. Nú dettur mér ekki í hug að offramleiðslan í landbúnaði stafi af því, að íslenskur iðnaður kalli á þær þarfir. Það dettur mér ekki í hug. Ég veit t.d. ekki hversu mikið af gærum er flutt út saltað, þ.e.a.s. óverkað að mestu, en ég er sannfærður um, ef athugun væri gerð á því, að þá mundi hún leiða í ljós að íslenskur iðnaður, þ.e.a.s. sá iðnaður sem fullvinnur gærur í fatnað, hafi meira en nóg af hráefni í því skyni þó svo hann yrði að láta sér nægja að vinna úr þeim gærum sem samsvara því kjötmagni sem markaðurinn innanlands þarf á að halda. Ég er alveg sannfærður um að ef það mál yrði skoðað, þá þarf íslenskur iðnaður, sem vinnur úr lambsgærum, ekki á því að halda að framleiddir séu á Íslandi milli 300 og 400 þús. dilkskrokkar umfram það sem landsmenn sjálfir þurfa að nota. Og ef íslenskur iðnaður þarf á því að halda að þetta sé gert, þá er það auðvitað hans að borga kostnaðinn, vegna þess að þá er kjötið orðið hliðarafurð, en ekki aðalafurð. Þá hlýtur gæran að vera aðalafurð, en kjötið hliðarafurð. Og ef íslenskur iðnaður þarf á því að halda, að það sé framleitt í landinu 40% meira dilkakjöt en þjóðin þarf á að halda, vegna þess að íslenskur iðnaður þurfi svona mikið af gærum til vinnslu, þá verður iðnaðurinn að gera svo vel að borga það sem slíkt kostar. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt að leggja þá byrði á þjóðina og ríkissjóð. Fyrr má nú vera. Og íslenskur iðnaður, hvað sem um hann má segja, hefur ekki reynst, a.m.k. til skamms tíma, geta borgað bændum það verð sem þeir hafa talið sig þurfa fyrir ull sem íslenskur iðnaður þarf á að halda. Ullarverð í landinu hefur til skamms tíma verið svo lágt að bændur hafa vart talið borga sig að hirða ullina af sauðkindum sínum, heldur hafa þær verið látnar ganga í þremur og fjórum reyfum, eins og hefur mætt augum margra vegfarenda. Þarfir íslensks iðnaðar í þessu sambandi eru því alls ekki eins marktækar og menn vilja vera láta. Þarfir íslensks iðnaðar eru engin afsökun fyrir þeirri offramleiðslu sem stundum hefur verið í landbúnaði. Íslenskur iðnaður hefur ekkert við þá offramleiðslu að gera, vegna þess að hann hefur ekkert við þær afurðir að gera sem til falla við þá offramleiðslu, og í annan stað getur hann ekki greitt nema brot af því verði sem þarf að borga fyrir þá offramleiðslu.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að það fé, sem nú er varið úr ríkissjóði annaðhvort beint eða óbeint sökum landbúnaðar, mun nema um 15% af ríkisútgjöldunum. Það er farið að nálgast það, að við Íslendingar þurfum að greiða vegna þessarar atvinnugreinar úr ríkissjóði álíka upphæð og þær þjóðir þurfa að greiða sem þurfa að verja fé í herkostnað. 10–15% af ríkisútgjöldum ár frá ári fará í þennan eina atvinnuveg. Við greiðum í ár, ef allt er talið, um eða yfir 30 milljarða kr. beint eða óbeint vegna landbúnaðar og framleiðslu landbúnaðarins í landinu. Ég er ekki þar með að segja að ég sjái eftir þessum peningum til landbúnaðarins beint eða óbeint. En ég sé mjög mikið eftir því, þegar þessir miklu fjármunir eru þannig notaðir að sú króna, sem við verjum í þessu skyni á árinu 1979, kallar á 2 kr. árið 1980, vegna þess að stórum hluta af þessu mikla fé er beinlínis varið til að hvetja til áframhaldandi framleiðsluaukningar í atvinnugreininni. Þannig er t.d. um alla styrki sem landbúnaðurinn hlýtur. Þetta eru allt styrkir til þess að stuðla að aukinni ræktun, til þess að stuðla að aukinni framleiðslu.

Mér finnst sjálfsagt að styðja íslenskan landbúnað og íslenska bændur. En ég mundi heldur vilja sjá a.m.k. mjög stórum hluta af þessum framkvæmdaframlögum varið til þess að styrkja íslenska bændur í félagslegum málefnum, svo sem til þess að geta tekið sér orlof eins og aðrir landsmenn geta notið, svo sem til að styðja þá til aukinna athafna í sambandi við ábatasamar hliðarbúgreinar, eins og t.d. veiðirækt, fiskrækt og annað því um líkt, heldur en horfa á eftir þessum peningum, að þeim skuli varið þannig að sú króna, sem við erum að verja úr ríkissjóði á árinu 1979 beinlínis í því skyni að auka framleiðslu í landbúnaði, skuli óhjákvæmilega kalla á það á árinu 1980 að til landbúnaðarins verði að verja a.m.k. annarri krónu til viðbótar.

Þetta held ég að sé röng stefna. Þetta er sú stefna sem fylgt hefur verið í íslenskum landbúnaði nú um áratugaskeið, vegna þess, eins og ég sagði áðan, að ástandið var þannig þegar þessi stefna var mörkuð, að það var mikill skortur á landbúnaðarvörum í landinu. Þess vegna var óhjákvæmilega sú stefna tekin að styðja að því beint og óbeint að auka framleiðslu landbúnaðarafurða. Sú stefna hefur borið þann árangur, að það er fyrir löngu búið að sjá fyrir þörfum markaðarins. Um árabil hefur verið framleitt miklu meira en markaðsþörfinni hefur numið, þangað til svo er komið að verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings af offramleiðslu nægir ekki lengur. Og þá hefur tvívegis því hámarki verið aflétt og með sérstökum ráðstöfunum útveguð af almannafé hundruð milljóna til viðbótar til þess að greiða með útfluttri offramleiðslu á landbúnaðarvörum og að sjálfsögðu lagt á íslenska skattborgara í sama skyni.

Hæstv. landbrh. flutti hér mjög athyglisverða ræðu. Megininntak hennar var að taka bæri stefnuna í landbúnaðarmálum til endurskoðunar í heild, það væri ekki rétt að gera breytingar á einstökum atriðum í þessari stefnu, heldur bæri að endurskoða hana í heild og breyta henni með markvissum hætti. Undir þessa afstöðu hæstv. landbrh. vil ég mjög eindregið taka. Ég vil mjög eindregið taka undir það, að brýna nauðsyn ber til þess að brjóta upp á nýjungum í sambandi við mörkun landbúnaðarstefnu á Íslandi. Ég tel að það frv. á þskj. 75, sem við nokkrir þm. Alþfl. í Nd. höfum lagt fram, sé einn þáttur í því og beri að skoða það með öðrum aðgerðum sem í ráði eru eða þegar hafa verið gerðar. T.d. finnst mér mjög óeðlilegt, að þegar beinlínis er varið mjög verulegu fé, sem fengið er með skattlagningu á þjóðina, til þess að reyna að auka innanlandsneyslu á landbúnaðarafurðum, þá skuli ekkert vera gert til þess að breyta því, að það þurfi að verja jafnmiklu fé eins og varið hefur verið til verðbóta á útflutning á þessum sömu afurðum. Ráðgert er að verja á árinu 1979 hvorki meira né minna en 18 milljörðum kr. til þess að auka neyslu landbúnaðarafurða á innlendum markaði. Talið er að þessar miklu niðurgreiðslur muni auka innanlandsneysluna í kringum 16% og þá muni innanlandsneysla komast upp í það hámark sem hún hefur áður í verið og hefur aldrei verið meiri. En menn skyldu gera sér grein fyrir því, að á sama tíma gerist það, að á einu ári, árinu 1978, eykst landbúnaðarframleiðsla í landinu að magni til um u.þ.b. helminginn af því sem þessar miklu niðurgreiðslur auka innanlandsneysluna um, þannig að u.þ.b. 9 milljarðar kr. af þeim 18, sem notaðir eru í niðurgreiðslur, fara í það að fá almenning á Íslandi, neytendur í landinu til þess að borða þá aukningu sem varð á landbúnaðarframleiðslunni á s.l. ári. Helmingurinn af niðurgreiðslunum hverfur sem sé út í buskann vegna framleiðsluaukningarinnar. Og þó svo að við verjum þarna 18 milljörðum kr. í niðurgreiðslur, — það er engin smáupphæð, — þá er vandinn gagnvart útflutningnum enn sá hinn sami. Þetta er auðvitað vegna þess, eins og ég hef margsagt, að stefnan hefur verið sú í öllum afskiptum hins opinbera af landbúnaðarmálum að auka beri framleiðsluna. Þeirri stefnu hefur ekki verið breytt. Þess vegna skiptir engu eða a.m.k. litlu máli til hvaða bráðabirgðaráðstafana er gripið, hversu háar niðurgreiðslurnar verða, hversu háar útflutningsuppbæturnar verða. Það skiptir ekki nokkru máli, svo lengi sem meginkjarni stefnunnar er óbreyttur, svo lengi sem allar aðrar ráðstafanir beinast að því að auka stöðugt framleiðslu landbúnaðarafurða án tillits til innanlandsþarfa frá ári til árs.

Það hlýtur að segja mönnum sitt hvað um áhrif þeirra ákvæða sem í lögum hafa verið um verðábyrgð ríkissjóðs, að á 14 síðustu árum hefur hámarksverðábyrgð verið notuð 8 sinnum. Meginhluta þess tíma, sem þessi verðábyrgð hefur verið í gildi, hefur hámark verðábyrgðarinnar verið notað í 8 ár af 14. Samt sem áður sagði hæstv. þáv. landbrh. í upphafi þessa tímabils, að það væri fjarstætt að til mundi koma að þessar útflutningsbætur yrði baggi á ríkissjóði. Aðeins tvívegis á s.l. 14 árum hefur það gerst, að verðábyrgð ríkissjóðs hefur ekki þurft að nema meiru en um 8% af samanlögðu heildarframleiðsluverðmæti landbúnaðarafurða.

Þessi verðábyrgð hefur sem sé haft það í för með sér, að beinlínis hefur verið fest í landinu slík offramleiðsla á landbúnaðarafurðum, að næstum því undantekningarlaust hefur orðið að nota lögleyft hámark útflutningsuppbóta. Þetta kemur glögglega fram í töflu 1 á bls. 6 í þessu frv. Ég vil taka það fram, að þessi tafla er unnin af Hagstofu Íslands og hún sýnir þau ár þegar verðábyrgðin hefur verið í hámarki. Þau eru, eins og ég sagði áðan, 8 af 14.

Hæstv. landbrh. gerði eina aths. við grg. frv. sem ég vil svara. Hún var sú, að hann taldi þann samanburð sem gerður er á verðmæti útflutningsuppbóta frá ári til árs, þ.e.a.s. verðmæti í jafnvirðiskrónum, sem gerður er í töflu 2, ekki vera réttan. Hann sagði að ekki ætti að bera saman bótafjárhæðir milli ára eftir framfærsluvísitölu, heldur, að því er mér skildist af hans máli, að bera það saman við útgjöld fjárl. í heild. Það fer þá eftir því, hvað menn vilja fá út úr slíkum samanburði. Ef menn vilja athuga hvort útflutningsuppbætur úr ríkissjóði hafi aukist að raunverulegu verðgildi frá ári til árs, það er sú niðurstaða sem ég vildi fá, þá geta menn ekki fengið slíka niðurstöðu með öðrum samanburði en þeim sem gerður er í töflu 2. Þar er sýnt hvernig verðmæti útflutningsuppbótanna í jafnvirðiskrónum hefur aukist frá ári til árs þetta 14 ára tímabil, uns svo er komið að þær eru á verðlagsárinu 1976–1977 71.8% hærri en þær voru í upphafi í jafnverðmætum krónum.

Það, sem hæstv. landbrh. vill láta gera, er að miða útflutningsuppbæturnar úr ríkissjóði sem hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs á hverju ári. Þetta er ákaflega skrýtin kenning. Við skulum segja sem svo, að það sé ákveðið að hækka niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum innanlands, eins og gert hefur verið, úr milljörðum kr. í 18 milljarða og afla tekna í því skyni. Er þá nokkurt vit í því, að þessi hækkun á niðurgreiðslum um 12 þús. millj. kr. eigi beinlínis að verða þess valdandi að verðábyrgð ríkissjóðs á útfluttar landbúnaðarafurðir hækki. Auðvitað er þetta alger fjarstæða. Ef á að nota viðmiðanir hæstv. landbrh. mundi þetta gerast: Ef t.d. verðábyrgðin á útfluttar landbúnaðarafurðir ætti að vera á árinu 1979 jafnhátt hlutfall af ríkisútgjöldum og hún var á árinu 1978, þá mundu hækkanir á niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum innanlands, um 12 þús. millj. kr., valda því, að mjög mikil hækkun yrði á þeim skyldum sem ríkissjóður tæki á sig vegna útflutnings á þessum sömu afurðum. Það sér hver heilvita maður hvers konar fáránleiki kæmi út úr slíku.

Svo að annað dæmi sé nefnt: Ef t.d. væri gert talsvert átak af ríkisstj. í byggingu sjúkrahúsa og gerð yrði fjögurra ára áætlun um byggingu sjúkrahúsa, sem mundi t.d. tvöfalda framkvæmdamagn í sjúkrahúsbyggingum frá því sem nú er, og tekna aflað í því skyni, mundi það auðvitað hækka útgjöld ríkissjóðs. Ættu þá útflutningsbætur á landbúnaðarafurðir að hækka að sama skapi? Ef slíkt átak væri gert í vegamálum, og ríkisútgjöldin hækkuðu vegna þess og sá póll tekinn í hæðina að fundinn yrði nýr skattstofn til þess að skattleggja landsmenn, ætti þá að fylgja sjálfvirkt í kjölfarið að útflutningsbætur úr ríkissjóði vegna útfluttra landbúnaðarafurða ættu að hækka að sama skapi?

Auðvitað er fáránlegt að ætla að fara að miða útflutningsuppbætur á landbúnaðarafurðir úr ríkissjóði við eitthvert hlutfall af ríkistekjum eða ríkisútgjöldum á hverju ári. Ef menn vilja fá einhvern raunhæfan samanburð, þá er samanburðarins að sjálfsögðu að leita í jafnvirðismati á því, hvað útflutningsuppbætur hafa hækkað eða lækkað milli ára mælt í jafnverðmætum krónum. Þetta er það sem gert er í töflu 2 sem fylgir þessu frv. Sá samanburður sýnir að þarfir landbúnaðarins á útflutningsuppbótum úr ríkissjóði hafa vaxið um 71.8% á síðustu 14 árum mælt í jafnverðmætum krónum. Sá samanburður, sem hæstv. ráðh. er með, er hins vegar algerlega út í hött, eins og ég benti á áðan.

Auðvitað þarf að finna einhverja aðferð til þess að tryggja bændum eðlileg og sanngjörn lífskjör, eðlilegt og sanngjarnt kaup fyrir þeirra mikla ábyrgðarstarf. Eins og nú standa sakir er það gert þannig, að í lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. eru ákvæði um að bændur eigi að hafa sambærilegar tekjur og hinar svonefndu viðmiðunarstéttir, þ.e.a.s. verkamenn, sjómenn og iðnaðarmenn. Þetta er aðferð út af fyrir sig. En þá mætti spyrja, ef þetta væri eðlilegasta aðferðin: Hvers vegna mætti þá ekki alveg eins leiða það í lög, að sjómönnum skuli ávallt tryggja tekjur sem væru sambærilegar og einhverjar viðmiðunarstéttir hafa, t.d. verkamenn, bændur og iðnaðarmenn, setja önnur lög um að iðnaðarmönnum skuli á öllum tímum vera tryggðar tekjur sem séu sambærilegar við það sem sjómenn, verkamenn og bændur hafa, eða setja fjórðu lögin um að verkamönnum skuli ávallt tryggðar tekjur sem séu til samræmis við það sem sjómenn, bændur og iðnaðarmenn hafa? Þannig væri hægt að búa til lög um svo til allar starfsstéttir í landinu, að þeim skuli ávallt tryggðar tekjur með tilliti til einhverra viðmiðunarstétta, þannig að hver stéttin tæki mið af öllum hinum.

Ég held að reynslan hafi einmitt leitt í ljós að þessi viðmiðun, sem gerð var til þess að tryggja bændum ákveðið kaup fyrir starf þeirra, hefur ekki reynst vel. Henni þarf að breyta, og það er eitt af því sem ég tel að þurfi að taka til endurskoðunar í þeirri athugun á landbúnaðarstefnunni sem hæstv. landbrh. lætur framkvæma, þ.e.a.s. hvernig eigi að fara að því að tryggja bændum eðlilegt kaup fyrir þeirra mikla ábyrgðarstarf, sem ég vil á engan hátt draga úr að einu eða neinu leyti, vegna þess að ég held að það sé staðreynd, að engar aðrar stéttir þurfi að vinna jafnmikið og séu jafnbundnar vinnu sinni og bændastéttin.

Herra forseti. Að lokum þetta: Það er ekkert meginatriði í mínum huga, að dregið verði að svo stöddu úr þeim miklu fjármunum sem beint eða óbeint er varið til landbúnaðar eða vegna landbúnaðar. Það, sem er meginatriðið í mínum huga er að þessir peningar séu notaðir með þeim hætti, að þeir tryggi þjóðinni nauðsynlegar landbúnaðarvörur á eðlilegu og sanngjörnu verði og bændum eðlilegan afrakstur fyrir vinnu sína. Ég tel að eins og þeim málum hafi verið stýrt hafi reynslan leitt í ljós að sú trygging er ekki gefin. Íslenskar landbúnaðarafurðir eru mjög dýrar yfirleitt. Bændur segja sjálfir að þeir beri ekki úr býtum sambærilegt kaup við aðrar stéttir, og neytendur og skattborgarar þurfa að bera mjög þunga byrði af mjög verulegri umframframleiðslu í landbúnaði, af framleiðslu sem er langt umfram þarfir þjóðarinnar. Þess vegna held ég að það sé tími til kominn að skoða hvort ekki mætti nota það fé, sem ríkissjóður ver nú beint og óbeint til landbúnaðar og vegna landbúnaðar, með öðrum hætti, sem sé þeim, að í staðinn fyrir að öll þessi beina og óbeina aðstoð miði að því að auka stöðugt framleiðslu á vörum sem þegar eru offramleiddar, þá verði fjármagninu beint í þá átt að hvetja til aukinnar framleiðni í atvinnugreininni og hjálpa bændum með beinum styrkjum eða fjárframlögum í öðru sambandi til þess að bera úr býtum eðlilegt kaupgjald fyrir störf þeirra og njóta eðlilegrar félagslegrar þjónustu, svo sem í orlofsmálum og fleiri slíkum málum, á við aðrar stéttir í þjóðfélaginu. Það er miklu betra að gera þetta umbúðalaust heldur en að halda þannig á þessu fé, að bændur geti ekki í þessa sjóði sótt nema með því eina móti að auka við ræktun hjá sér, að auka við framleiðslu hjá sér til þess að auka tekjur sínar. Að sjálfsögðu er hægt að auka tekjur bændastéttarinnar með öðrum hætti, og þarfir þjóðfélagsins eru nú orðnar þær, að þjóðfélagið hefur þörf fyrir að landbúnaðurinn dragi úr framleiðslu sinni, en bæti ekki við. Þegar svo er komið er óeðlilegt að Alþingi Íslendinga, löggjafarstofnun þjóðarinnar, og ríkisstj. haldi dauðahaldi í þá stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum og áratugum og var rétt og eðlileg og sanngjörn á þeim tíma sem hún var mörkuð, en er það ekki lengur.