08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2453 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Hér varð örlítil röskun á þingstörfum á meðan kennaranemar gáfu þm. tækifæri til að heyra boðskap sinn. Það er ekki á dagskrá þessa fundar að ræða málefni Kennaraháskólans, þó að það sé e.t.v. fyrir löngu kominn tími til þess að þau mál verði tekin til gagngerðrar endurskoðunar hér í þinginu. Ég ætla ekki að leggja einn eða annan dóm á framkomu þessa fólks hér í dag, oft brýtur nauðsyn lög. Það er þó slæmt að menntmrh. skuli ekki vera viðstaddur. En það er tími til kominn að þingið grípi í taumana varðandi það ástand sem ríkjandi er í Kennaraháskólanum.

Það mál, sem hér er til umr., er till. til þál. um skipulagningu á fisklöndun til fiskvinnslustöðva. Ég tel að hér sé um athyglisvert mál að ræða sem þurfi frekari íhugunar við. Eins og öllum er kunnugt um, má segja að það, sem hafi einkennt fisköflun þjóðarinnar á undanförnum árum, sé algert stjórnleysi. Að einu leyti er þó hægt að finna undantekningu, að því er varðar loðnuveiðarnar, en sú stjórnun, sem búið er að koma á fót á því sviði, er til mikillar fyrirmyndar og er furðulegt að ekki hefur fyrir löngu verið komið slíkri skipan á aðrar fiskveiðar.

Það má segja sem svo, að það skipti raunverulega ekki höfuðmáli hverjir eiga íslensk fiskiskip. Það skiptir kannske ekki höfuðmáli hverjir reka þau. Það skiptir meginmáli hvar íslensk fiskiskip landa aflanum. Því þarf heildarstjórn.

Það er ekki úr vegi að geta þess ástands sem ríkir nú á einu svæði í þessu landi, Suðurnesjasvæðinu, með tilliti til afleiðinga af stjórnleysinu í fisklöndunarmálum á undanförnum árum. Allt frá árinu 1971 og til þessa dags hefur átt sér stað ör endurnýjun á fiskiskipaflotanum um allt land, nema á þessu eina svæði. Einnig hefur átt sér stað ör endurnýjun í fiskvinnslurekstrinum um allt land með fjármagnsfyrirgreiðslu í hundruðum millj. kr. til Norðurlands, Vestfjarða og Austfjarða, en tiltölulega lítið, jafnvel ekkert, hefur farið á Suðurnes. Þannig er nú ástandið orðið, að þar er atvinnuleysi annað slagið, nema þá hægt sé með bráðabirgðaráðstöfunum að halda húsum og þeim skipum, sem eftir eru, gangandi. Þetta ástand er óviðunandi.

Ég tel að sú till. til þál., sem hér er til umr., geti á margan hátt leyst svæðabundin vandamál, eins og það vandamál sem við er að etja á Suðurnesjum, ef við líka skipan yrði búið sem þáltill. gerir ráð fyrir. Ég er kannske ekki beint sammála því að binda eigi löndunina við ákveðin fjögur löndunarsvæði, heldur er sú spurning einnig íhugunarverð, hvort ekki sé rétt að gera landið allt að einu löndunarsvæði, þar sem fiski yrði dreift um landið eftir því sem aðstæður leyfðu og eftir því sem mögulegt væni að taka á móti á viðkomandi stað. Nú er ástandið t.d. þannig á Vestfjörðum og Austfjörðum, að þar berst á land það mikill umframafli að flytja þarf til þessara staða starfsfólk frá útlöndum til þess að vinna þann umframafla. Það er ekki nóg með að það þurfi að flytja fólk frá útlöndum, heldur er fólkið á þessu svæði svo yfirkeyrt af vaktavinnu, þegar unnið er allan sólarhringinn á sumum tímum, að tæplega er hægt að bjóða fólkinu á þessu svæðum meira. Á meðan horfum við upp á önnur landssvæði, eins og Suðurnesin, og staðbundin vandamál á nokkrum stöðum öðrum úti á landi, þar sem ekki er um umframafla að ræða, heldur hitt, að fólkið, sem þar býr, skortir atvinnu, það skortir fisk til að vinna við. Þess vegna vil ég ítreka það sem ég sagði áðan, að það skiptir höfuðmáli hvar fisknum er landað.

Það er furðulegt að ekki skuli enn vera búið að koma á frekari stjórnun og áætlanagerð varðandi löndunarmálin og uppbyggingu fiskiskipaflotans. Þau eru mörg vandamálin sem við er að etja í þessu samhengi. Hitt er rétt að benda á, að það er ekki nóg að koma stjórnun á fisklöndunina, það þarf einnig að gera áætlun um fjárfestingu í fiskiskipum, — áætlun sem mundi e.t.v. ná til tveggja eða þriggja ára.

Árið 1971 hófst hin svokallaða skuttogaraalda, þegar byrjað var að flytja til landsins skuttogara í stórum stíl. Má segja að það hafi einkennt þessi skuttogarakaup, að þar var ekki fylgt einni eða annarri áætlun. Þá var togurum dreift vítt og breitt í kringum landið. Útgerðarmenn og bæir kepptust um að ná sér í ódýr eða jafnvel gefins fisköflunartæki, sem síðan lentu jafnvel tvö og þrjú og fleiri á einum stað, þegar kannske var ekki þörf nema fyrir eitt eða þá að tveir eða fleiri staðir hefðu getað sameinast um tvö eða fleiri. (Gripið fram í: Hverjir gáfu þessi tæki?) Ríkissjóður stóð þannig að þessum kaupum á sínum tíma, að margir þeir útgerðarmenn og þau fyrirtæki, sem stóðu að kaupunum, keyptu þau nánast án þess að leggja nokkurt fé af mörkum. Það er til í dæminu, að fyrirgreiðslan hafi verið allt upp í 105–110%. Fyrrv. sjútvrh. er áreiðanlega kunnugt um slíkt, vegna þess að hann hefur án efa einhvern tíma staðið að svipaðri fyrirgreiðslu þótt hún hafi ekki alveg náð þessu marki. (Gripið fram í.) Þess vegna legg ég áherslu á það hér, að ekki verði einungis komið stjórnun á fisklöndunina, heldur verði gerð áætlun um það, hvernig á að standa að uppbyggingu fiskiskipaflotans með tilliti til byggðasvæða, þannig að frekari ringulreið verði ekki einkennandi á þessu sviði eins og hefur verið hingað til.

Það er ekki einungis nægilegt að standa þannig að málum að kaupa togara til landsins til þess að veiða á íslenskum fiskimiðum. Það verður að sjá til að sá fiskur, sem berst á land, verði sem best nýttur, þannig að sem best verð fáist fyrir hann, Það er dálítið kaldhæðnislegt að horfa á það um þessar mundir, að hver togarinn á fætur öðrum siglir til útlanda með afla sinn sem hreint hráefni til þess að selja í Þýskalandi, Bretlandi eða í öðrum löndum. Á meðan standa tóm frystihús uppi með lítinn eða engan afla, skortir hráefni til að vinna, en skipin sigla sinn veg til útlanda til að selja og þá fyrst og fremst e.t.v. vegna þess að það er ekki afkastageta fyrir hendi á viðkomandi byggðasvæði til að vinna aflann. Það þarf ekki aðeins að setja stjórnun á löndunina, stjórnun á dreifingu fjárfestingarfjár út um land, stjórnun á innflutning skipa til landsins, heldur þarf einnig að setja stjórnun á það, hvernig staðið verður að fisklöndunum skipa erlendis jafnt sem hér heima.

Að síðustu vil ég leggja áherslu á það, að ég fagna till., sem hér er til umr., og styð hana, vegna þess að ég veit að hún er í átt til betra skipulags, — skipulags sem fyrir löngu ætti að vera komið á, en vonandi verður hægt að koma á innan skamms.