08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (1931)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Þegar hv. þm. Matthías Bjarnason andmælti því sem hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson sagði um framúrskarandi mikla bankafyrirgreiðslu til kaupa á einstökum fiskiskipum, kvað sér vera ókunnugt um að lánað hefði verið upp í 105% til kaupa á togurum, þar sem raunverulega voru meðreiknuð í verði skipsins veiðarfæri, þá hvarflaði að mér að nú væri hv. þm. Sverrir Hermannsson illa fjarri góðu gamni, því að hann hefði sennilega sagt: Það er alveg satt sem Matthías segir.

Ég tel að hér sé flutt ákaflega þýðingarmikið mál, sem varðar ýmis grundvallarvandamál í íslenskum sjávarútvegi og sannarlega grundvallarvandamálið í sambandi við nýtingu fiskislóða hjá okkur. Ég væri ekkert hissa á því, þótt upp mundu rísa nú einhverjir hv. þm. til þess að andmæla einnig fullyrðingu af hálfu hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar sem laut að því, að í sumum landshlutum kynni kannske að vera færður á land meiri afli en starfsfólk og tæknileg afkastageta fiskvinnslustöðvanna nægði til að taka á móti. Ég væri ekkert hissa á því þótt einstakir þm. mundu risa upp og andmæla því, því að einnig það er satt.

Það er staðreynd, að á s.l. sumri var bræddur þorskur í aflahrotunni miklu á gervöllu svæðinu frá Vestfjörðum norður um landið og til Austfjarða. Það fór þorskur í bræðslu á þessu svæði. Ég sagði frá því á kvöldfundi fyrir skemmstu, er ég bar það upp á góðan kunningja minn og gamlan vin og skipsfélaga á Austurlandi að þeir væru að bræða þorsk þar fyrir austan, og hann sagði: Blessaður vertu, þeir bræða miklu meira í Krossanesi. — Það var ekki spillt 200 tonnum af þorskflökum í sumar í fiskiðjuverunum hjá okkur með beinum, ormum og með ýldu, — það voru rösk 500 tonn, þó að það muni satt vera að enn þá sé ekki eftir af þessu í geymslu sem skemmd matvara vestur í Ameríku nema rösk 200 tonn. Hvers vegna haldið þið að ekki sé meira eftir? Vegna þess að það er búið að henda hinu. Og meginvandamálið var ekki þrýstiskekkja á þorskblokkum. Það var ekki meginvandamálið.

Eftir því sem þeir segja mér, sem kunnugastir eiga nú að vera þessum málum, munum við hafa eyðilagt þorsk í þessari einu aflahrotu í sumar sem leið sem að magni til mun samsvara rösklega 1200 tonnum af slægðum fiski. Þetta átti sér stað samtímis því sem við hömruðum á nauðsyn þess að vernda ungfiskinn okkar, sem mokað var í sjóinn af þessum sömu skipum, sem færðu meira og minna skemmdan fisk að landi á stöðum þar sem ekki var vinnuafl til þess að koma því, sem óskemmt var, í sæmilega verkun. Þetta skeði samtímis því sem fisk skorti til vinnslu í ýmsum sjávarplássum kringum landið. Þessu þýðir ekki að andmæla. Það mun sannast sagna, að enda þótt, eins og segir í þáltill., þörf sé á því að sníða fjölda veiðiskipanna, togaranna, við vinnslugetuna í landi, við afköst frystihúsanna í landi, þá mun á sumum stöðum ekki vera vanþörf á því að sníða fjölda og afkastagetu fiskiðjuveranna jafnframt við afkastagetu fólksins sem við fiskiðnað vinnur í landi.

Ég vildi ekki horfa upp á það, með fullri tillitssemi til þess vandamáls sem blasir við útveginum á Suðurnesjum, að nú væri tekið upp á því að útvega Suðurnesjamönnum fiskiskip, skuttogara, við hæfi hugsanlegrar afkastagetu þess fjölda frystihúsa sem nú standa ónotuð, eða meira og minna ónotuð, við Faxaflóa af allt öðrum ástæðum en beinum skorti á hráefni, m.a. af þeirri ástæðu að fólkið á þessu svæði hefur verið tamið við annars konar vinnu á liðnum áratugum en að verka fisk. Fjáraflamenn á þeim slóðum hafa fundið aðrar leiðir til þess að festa fé sitt en að kaupa góð skip og verka fisk. Og það vildi ég að ég slyppi við það nú á næstu vikum að heyra endurtekna þá fullyrðingu, að fiskiskipastóll, þ.e.a.s. mótorbátafloti þeirra Suðurnesjamanna sé miklu eldri og úreltari en mótorbátaflotinn á öðrum landssvæðum. Þetta er ekki satt. Ef hv. þm. vilja hafa fyrir því að fletta skipaskránni núna og reikna út meðalaldur fiskiskipa á Suðurnesjum, má sjá að hann er ívið lægri en meðalaldur mótorbátaflotans á Vestfjörðum. Ég vildi óska þess, að hv. þm. tækju sig til og sannreyndu þetta nú sumir hverjir sem hafa verið að éta þetta upp hver eftir öðrum síðustu árin.

Ég er þess fullviss, að með því að taka upp þess háttar skipulag á löndun á bolfiski til vinnslu í fiskiðjuverunum sem gert er ráð fyrir í þessari þáltill. gætum við leyst á einfaldan, ódýran og góðan hátt ýmis þýðingarmikil vandamál í sambandi við hráefnisöflunina á land og þó fyrst og fremst vandamál smáu sjávarplássanna, sem hafa verið knúin til þess vegna skorts á skipulagi af þessu tagi að ráðast í kaup á skuttogara fyrir sig, sem síðan hefur af ýmsum ástæðum reynst ofviða að reka.

Hæstv. sjútvrh. talaði um nauðsyn þess að skipuleggja landanirnar milli hafna, jafnframt því sem vetrarvegir væru ótryggir til flutninga í kældum bílum. Það er alveg rétt, enda er sannarlega í þáltill. haldið opinni þeirri leið að gera einnig þetta. Á mörgum stöðum er slíkt nauðsynlegt. Aftur á móti hef ég fullkomna ástæðu til að vantreysta — a.m.k. í sumum tilfellum — algerlega frjálsu samkomulagi milli einstakra sjávarplássa um miðlun á afla, og jafnvel þó svo að ríkisvaldið grípi inn í, án sérstakrar lagasetningar.

Við höfum reynslu af því norður á Þórshöfn á Langanesi. Hæstv. forsrh. sagði okkur frá í svari við fsp. hv. þm. Árna Gunnarssonar í haust, þegar spurt var hvað gert hefði verið til þess að tryggja atvinnu á Þórshöfn á Langanesi, að nú hefði verið gerður samningur við eiganda togarans Dagnýjar á Siglufirði, sem um það leyti hafði eignast annað skip, þannig að Dagný hafði ekki þorskveiðileyfi. Það var samið um það við eiganda Dagnýjar, að gegn því að hún fengi leyfi til þorskveiða skyldi hún landa afla sínum á Þórshöfn á Langanesi. Efndirnar hafa gengið illa. Nú er ég ekki að halda því fram, að þar sé eiganda Dagnýjar sjálfrátt, en svo hefur viljað til í lok nær því hverrar veiðiferðar að Dagný hefur bilað, þannig að orðið hefur að landa aflanum annars staðar. Ég hefði kveðið öðruvísi að orði um þetta en ég geri nú ef eigandi togarans Dagnýjar hefði þá látið hinn togarann, þann nýja, sem ekki var bilaður, landa aflanum á Þórshöfn í staðinn. En hann hefur verið látinn sigla með afla sinn til sölu erlendis samtímis því sem afla Dagnýjar hefur verið landað annars staðar vegna bilunar. Ég ítreka það, ég er ekki með þessu að staðhæfa að þessi mát hafi verið á valdi útgerðarmanns, og það geri ég undirmálalaust að lýsa yfir því að ég er ekki með þessu að staðhæfa að hér sé um að ræða svik á samningi. Hitt er ljóst, að skort hefur hráefni á Þórshöfn af þessum sökum, þrátt fyrir þennan sérstaka samning sem gerður var um löndun á afla úr einum togara.

Ég efast ekki um að með þeirri tilhögun, sem að er stefnt í þáltill. sem hér er um fjallað, getum við sparað okkur stórfé í heild yfir landið í útgerð togara og skipakaupum og stuðlað að því að ná þeim afla sem er við hæfi til vinnslu í fiskiðjuverum kringum landið, til þess að útvega hráefni til að tryggja atvinnu í fiskiðjuverunum. Með þessum hætti getum við náð traustari stjórn, hagkvæmari stjórn á fiskveiðunum sjálfum. Ég bið hv. alþm. forláts ef ég hefði átt að nota nýyrðið „stjórnun“ í þessu sambandi, en ég hef veitt því athygli að ýmsir hv. þm. þora ekki annað, svona til vonar og vara, en að nota það orð yfirleitt nú orðið til þess að auka líkindin á því að orðið skiljist. Ég tel að þetta fyrirkomulag muni auðvelda stjórn á veiðunum og vera til þess fallið að koma í veg fyrir að tekinn sé meiri fiskur úr sjó í aflahrotunum en sá sem hægt er að vinna. Hitt verður svo annað mál og annað viðfangsefni, að stemma stigu við því að leynt sé stórkostlegri úrtöku úr þorskstofni okkar af smáfiski, undirmálsfiski, með því að moka honum fyrir borð á miðunum. Það er enn annað mál.

Ég get tekið undir það álit sem fram hefur komið af hálfu annarra hv. þm., að nýta beri togaraflotann til hlítar til öflunar hráefnis fyrir frystihúsin í landinu í heild. En ég undirstrika þetta atriði: Fyrir þau frystihús, fyrir þau fiskiðjuver þar sem fyrir hendi er mannafli til þess að vinna aflann.