08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tek undir með ýmsum öðrum sem hér hafa talað um till. á þskj. 39. Ýmislegt horfir í rétta átt þar, en þó eru ákvæði till. ekki öll á eina lund.

Í grg. kemur m.a. fram sú réttmæta ábending, að nauðsyn beri til að leggja áherslu á að tengja veiðar og vinnslu í meira mæli en gert hefur verið. Sú stefna, sem þarna er imprað á, er ekki ný. Einstök bæjar- og sveitarfélög hafa beinlínis unnið að því á undanförnum árum að þetta gæti gerst, þó svo ekki hafi verið mótuð af ríkisstj. og stjórnvöldum nein sérstök stefna í þá átt. Þetta hefur verið gert t.d. með þeim hætti, að bæjarfélög byrjuðu á því að greiða uppbætur á fisk, sem landað var í viðkomandi bæjum, til þess að tryggja fiskverkunarstöðum nægilegt hráefni og fiskverkunarfólki næga atvinnu. Þetta var að sjálfsögðu gert með framlögum úr bæjarsjóði, með skattlagningu á bæjarbúa sjálfa og gersamlega án aðstoðar úr opinberum lánasjóðum, án aðstoðar frá ríki eða s jóðakerfi á einn eða neinn hátt. Það eru mörg ár liðin síðan þau bæjarfélög, sem þannig hugsuðu, beittu sér beinlínis fyrir því, að útgerðaraðilar og eigendur fiskverkunarstöðva sameinuðu rekstur sinn þannig að tryggt væri að þeir bátar og þau skip, sem gerð væru út frá viðkomandi stað, lönduðu undantekningarlítið eða undantekningarlaust heima. Þessi stefna var mörkuð af sveitarstjórnunum sjálfum og hverri sveitarstjórn í landinu er vitanlega í sjálfsvald sett að marka slíka stefnu. Hafi hún ekki verið mótuð af viðkomandi stöðum er ekki við aðra að sakast en sveitarstjórnarmennina sjálfa. En reynslan hefur leitt í ljós að þessum stöðum, sem þannig hafa staðið að málum, hefur vegnað betur öðrum.

Það hefur líka komið í ljós að þegar um hefur verið að ræða á smærri stöðum nokkuð mörg og smá fyrirtæki í fiskvinnslu og fiskverkun sem ekki hafa átt sameiginlegra hagsmuna að gæta, þá hefur það ráð, sem dugað hefur til bjargar, reynst vera að hið opinbera, ef annar verður ekki til þess, beitti sér fyrir því að lánsfjárfyrirgreiðsla og styrkveiting til þessara staða með einum eða öðrum hætti ætti sér ekki stað nema þeir aðilar, sem hlut eiga að máli, féllust á að sameina rekstur sinn, veiði og vinnslu, þannig að hægt væri að byggja upp fyrirtæki á þessum stöðum sem líkleg væru til að geta staðið ein og óstudd og án sífellds stuðnings af almannafé. Það hefur líka komið í ljós, að þar sem þessum ráðum hefur verið beitt þurfa menn ekki að hafa miklar áhyggjur af stöðu fiskvinnslu og fiskveiða. Svo eru auðvitað aðrir staðir víðs vegar um land, þar sem menn hafa látið reka á reiðanum í þessum efnum. Ég held að reynslan hafi líka leitt í ljós að þessir staðir standa hvað verst hvað fiskveiðar og fiskvinnslu varðar.

Hér er því um að ræða stefnu sem eins og glögglega kemur fram í grg. með þessari þáltill. þarf ekki ríkisstj. eða Alþingi til að móta. Þessa stefnu hafa sveitarfélög og viðkomandi aðilar getað mótað sjálf, þar sem áhugi hefur verið á því. En ég tel að það sé orðið auðséð, þegar reynslan liggur fyrir; að rétt sé að ríkisvaldið hafi, hvað þessu viðvíkur forustu og frumkvæði, bæði með beinum og óbeinum afskiptum af málefnum útgerðar og fiskvinnslu, það verði dreginn lærdómur af þessari reynslu, þannig að reynt sé að haga þessum málum alls staðar á landinu með sama hætti og reynslan hefur leitt í ljós að best hefur gefist.

Ég vil taka það fram, sem í raun og veru hefur komið fram áður, að það er ekkert nýtt að samvinna sé á milli fiskvinnslustöðva um nýtingu hráefnis. Þetta er t.d. mjög almennur siður á norðanverðum Vestfjörðum. Hjá fiskvinnslustöðvunum á Ísafirði, í Hnífsdal og í Bolungarvík er þetta orðin regla, en ekki undantekning, að fiski sé ekið á milli. Þar er rekstur fiskvinnslustöðvanna raunar orðinn stóriðja. Þar er unnið jafnt og þétt allt árið um kring og þessu hagað einmitt þannig, að þegar eitt hús kann að vanta hráefni og of mikið er af hráefni hjá öðrum er samvinna á milli um að vinna þetta hráefni. Það kemur því varla fyrir að um sé að ræða stöðvun á rekstri í einu húsinu á sama tíma og annað hús situr uppi með fullar geymslur af góðum fiski. Þetta hefur gerst án beinna afskipta ríkisvaldsins eða annarra, en er beinn liður í þeirri þróun sem þarna varð fyrst fyrir mörgum árum þegar unnið var að sameiningu fyrirtækja sem stunduðu veiðar og vinnslu og að ýta undir samstarf hraðfrystihúsanna á þessu svæði.

Hins vegar er auðvitað alveg ljóst að landshættir, samgöngur, geta gersamlega komið í veg fyrir að hægt sé að framkvæma þetta, því að um margra mánaða skeið getur verið að algerlega sé ófært landleiðis á milli staða sem ella gætu haft með sér samvinnu um nýtingu afla.

Jafnvel þó vera mætti að þetta væri hægt getur það líka haft ákveðna aðra erfiðleika í för með sér, sem menn hafa ekki bent á í þessum umr. Það er mjög algengt, eða allt of algengt, því miður, að afkoma fiskvinnslufyrirtækja, jafnvel í sama landshluta, jafnvel í næstu fjörðum, sé ákaflega ójöfn. Til eru þau fiskvinnslufyrirtæki, og raunar allt of mörg, sem geta ekki greitt fyrir þann afla sem upp er lagður. Og það er náttúrlega talsvert alvarlegt mál ef útgerðaraðilum, skipstjórum og skipshöfnum er skipað að landa afla sínum og selja hann fiskverkunarstöð sem getur ekki staðið í skilum með greiðslu. Slíkt kemur að sjálfsögðu beint niður á viðkomandi útgerð og s jómönnum, vegna þess að þarna er um að ræða, a.m.k. að hluta til, laun þeirra. Og það getur verið ansi erfitt, menn hljóta að skilja það, að fyrirskipa skipshöfn eða útgerðaraðilum, sem skipta við ákveðnar fiskverkunarstöðvar sem geta greitt á borðið fyrir allan þann fisk sem þær fá, að fara með fisk sinn og selja hann til vinnslustöðva sem geta ekki greitt fyrir nema brot af aflanum. (StJ: Er þetta vandamál einhvers staðar?) Þetta er talsvert vandamál. Þetta er vandamál t.d. á nokkrum stöðum sem ég þekki til. Ég veit dæmi þess, að menn, sem lögðu upp afla hjá fiskvinnslufyrirtæki í sumar, urðu að leggja hann upp hjá fyrirtækinu undir þeirri kvöð að fá aðeins greiddan helming aflans. Þann helming aflans, sem þeir fengu ekki greiddan í sumar, eru þeir ekki búnir að fá greiddan enn. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig það er fyrir bæði sjómenn og útgerðaraðila að þurfa að reka útgerð og taka kaup við slíkar aðstæður.

Þetta mál er ekki eins einfalt og það virðist vera í fljótu bragði, jafnvel innan sama landshluta. Vandræðastaðir og vandræðafyrirtæki okkar í sjávarútvegi eru ekki bundin við einn landshluta. Slíkir staðir eru í flestum kjördæmum. Það þekkja menn af eigin reynd sem eru hér fyrir landsbyggðina. Þetta mál er því ekki eins einfalt og það sýnist og gefur ekki auga leið að hægt sé að setja reglur þess efnis að beinlínis sé hægt að mæla fyrir um að skip skuli selja afla á þessum eða hinum staðnum, ef svo háttar að það fyrirtæki, sem verið er að skylda skipin að selja til, getur ekki greitt.

Þá vil ég einnig fara nokkrum orðum um 5. tölul. í þessari þáltill., þar sem sagt er að að því beri að stefna að fiskveiðiflotinn, sem veiðir fyrir viðkomandi svæði, sé í góðu samræmi við afkastagetu vinnslustöðvanna. Ég vil segja eins og hv. þm. Stefán Jónsson, sem ræddi um þetta sama mál áðan, að það verður auðvitað að reyna að átta sig á því, hvað er eðlilegt að miða við í þessu sambandi. Á að miða fiskveiðiflotann við atkastagetu vinnslustöðvanna, á að miða vinnslustöðvarnar við afkastagetu fiskveiðiflotans eða á að miða hvort tveggja við veiðimöguleikana innan eðlilegra marka á viðkomandi vinnslusvæði? Er eðlilegt að byggja upp mjög afkastamiklar fiskvinnslustöðvar, t.d. í sambandi við þorskveiðar, ef þarf að sækja hráefnið til þessara stöðva hálfa leiðina í kringum landið? Það er spurning sem einnig þarf að huga að. Og við getum ekki gengið út frá því sem gefnu, síður en svo, að þær vinnslustöðvar, sem við höfum í landinu núna; sá mikli fjöldi þeirra, sem ýmist er í starfrækslu eða ekki, séu hið eðlilega fyrirkomulag sem eigi að vera á þessum málum. Hingað til hefur fiskurinn ekki verið takmörkuð auðlind. Við höfum byggt upp vinnslustöðvar okkar nánast án þess að taka tillit til þess, að fiskurinn geti orðið takmörkuð suðlind. Við höfum byggt upp eftir reglunni: ein fiskvinnslustöð er góð, tvær fiskvinnslustöðvar á sama stað eru tvöfalt betri, þrjár fiskvinnslustöðvar eru þrefalt betri o.s.frv., o.s.frv., uns svo er komið að við stöndum uppi með miklu fleiri fiskvinnslustöðvar í ákveðnum landshlutum en nemur þeim afla sem með eðlilegu móti berst þar á land. Þá kemur upp vandamál þegar sækja þarf afla fyrir þessar fiskvinnslustöðvar hálfa leiðina í kringum landið.

Það hefur áður komið fram hjá mér í þessum ræðustól, að mér finnst að það verði að umgangast fiskinn í sjónum eins og aðrar náttúruauðlindir sem eru takmarkaðar í þessu landi. Við þurfum að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvernig þjóðin getur haft mestan arð af því að nytja þessar takmörkuðu suðlindir. Í því sambandi þurfum við auðvitað að velta fyrir okkur spurningum um það í fyrsta lagi hvernig á að nýta auðlindina, í öðru lagi hvar og í þriðja lagi af hverjum.

Orka er takmörkuð auðlind í landi okkar og ýmis hráefni sem til falla hér. Okkur var sagt á sínum tíma að hagkvæmnisathuganir hefðu leitt í ljós að það væri hagkvæmara fyrir þjóðarbúið að staðsetja sementsverksmiðju á Akranesi en við Patreksfjörð, þar sem var þó ekki skortur á hráefni, síður en svo. Ekki drógum við það í efa, þm. landsbyggðarinnar. Okkur var líka sagt, að gerðum hagkvæmnisathugunum, að hagkvæmara væri að staðsetja álver við Hafnarfjörð en t.d. við Eyjafjörð eða norður í landi. Og ekki drógum við það í efa. Okkur var líka sagt að hagkvæmara væri að öllum forsendum skoðuðum að staðsetja málmblendiverksmiðju við Grundartanga í Hvalfirði en einhvers staðar annars staðar. Ekki drógu menn í efa heldur, að það væri betri staðsetning en önnur. En nú þegar fiskurinn í sjónum er orðinn takmörkuð auðlind, ber þá ekki að móta þá stefnu að taka eigi mið af sömu forsendum þegar ákvörðun er tekin um hvar og hvernig eigi að nýta þessa auðlind í framtíðinni? Er þá ekki betra að það verði a.m.k. reynt að marka þá framtíðarstefnu, þó að vissulega verði henni ekki komið til framkvæmda nema á mjög löngum tíma, að fiskveiðar og fiskvinnsla verði byggð upp miðað við hvar hagkvæmast er fyrir þjóðarheildina að veiða fiskinn og hvar hagkvæmast er fyrir þjóðarheildina að verka fiskinn? Menn verða að gera sér fulla grein fyrir því, að ef um allar nytjar á takmörkuðum auðlindum okkar á að fara eftir þessum reglum, þá hljóta menn líka að gera þá kröfu, þegar fiskurinn er orðinn takmörkuð auðlind, að sama regla gildi um hann.

Ég held að það sé talsvert atriði í þessu sambandi að huga vel og vandlega að því, hvort ekki sé öllu hentugra t.d., eins og ég hef persónulega reynslu af, að geta borgað 15 og 16 ára gömlum unglingum um 90 þús. kr. á viku fyrir 8 tíma vinnu í fiskiðjuveri við allar bestu aðstæður, þar sem ekki heyrist hljóð í nokkurri vél til óþæginda fyrir starfsfólkið, en að senda þessa unglinga og fullorðna á suma aðra staði sem ekki geta greitt nema lítið brot af þessu kaupi við aðstæður sem ekki eru mönnum bjóðandi. Ég held að menn verði að skoða mjög vandlega þessi mál, þegar þeir marka framtíðarstefnu í fiskveiðimálum og fiskvinnslumálum fyrir landið í heild.

Mér er það alveg ljóst, að þetta verður ekki gert í einu vetfangi. Þetta verður ekki gert á einu ári, einu kjörtímabili né heldur tveimur kjörtímabilum. Og það eru ýmis vandamál atvinnulegs eðlis, þar sem fólk á við atvinnuleysi að búa eða hætta er á atvinnuleysi, þar sem ekki er í bráð hægt að taka tillit til slíkra sjónarmiða. En þetta hlýtur að verða sú framtíðarstefna sem við mörkum, ef við ætlum að hafa full not af þeirri takmörkuðu náttúruauðlind sem fiskurinn er. Það getur ekki verið rétt, að marka eigi þá stefnu og stefna beinlínis að því upp á framtíðina að flytja beri þorskinn, sem veiðist fyrir Vestur- og Norðurlandi, hálfa leiðina í kringum landið til þess að fá hann verkaðan. Það getur ekki verið, að það sé æskileg framtíðarstefna, vegna þess að þessi kostnaður hlýtur að sama skapi að rýra þær tekjur sem þjóðin fær af þessum takmörkuðu náttúruauðlindum. (StJ: Heldurðu að fiskurinn sé alltaf kyrr á sama stað?) Nei, en ég tel að marka beri þá stefnu með þessa náttúruauðlind eins og allar aðrar náttúruauðlindir í landinu, að nýting hennar sé þannig að þjóðin hafi sem allra mestan arð af. Þetta er framtíðarstefnan sem við eigum að móta. Eins og ég sagði geri ég mér það fyllilega ljóst, og það er öllum ljóst, að ekki er hægt að gera slíkt á einu ári, ekki á einu kjörtímabili, ekki á tveimur kjörtímabilum, jafnvel ekki á heilli mannsævi. Brýna nauðsyn ber til þess, að þessi sjónarmið séu ekki einráð, heldur sé horft á þann brýna vanda sem við er að etja í einstökum byggðarlögum hringinn í kringum landið, þar sem atvinnuskortur er mikið vandamál. Þetta verður að leysa. Þm. verða að taka höndum saman til að finna lausn á því. En þessa fiskveiðistefnu, sem ég hef verið að reyna að lýsa hér, held ég að verði að móta.

Varðandi það, að það kunni að koma fyrir að meiri fiskur berist á land en menn ráða við með góðu móti, þá er að sjálfsögðu satt að það gæti gerst. Það hefur oft gerst, bæði fyrir sunnan, norðan, vestan og austan. Það er ekkert nýtt. Það gerðist þegar vel aflaðist á vetrarvertíðinni við Suðvesturland. Þá barst miklu meiri fiskur á land en hægt var að verka með góðu móti, og mikið af þeim fiski var þá verkað þannig að skilaði minni arði en ella hefði getað verið.

Þegar menn stunda veiðibúskap, eins og fiskveiðar hjá okkur eru, hlýtur slíkt að koma upp, að það verði sveiflur í aflabrögðum og jafnvel að það þurfi að leita út fyrir lítið pláss eftir vinnuafli, vegna þess að í plássinu er ekki nægilega margt vinnandi fólk til að verka afla sem til fellur. En hvað var gert og hvað var sagt hér á Alþ. þegar hundruðum milljóna af sameiginlegu fé þjóðarinnar var varið til þess að auka spennuna í byggingariðnaði í Reykjavík, þegar sameiginlegir skattpeningar þjóðarinnar voru teknir í það, að vísu eftir samkomulagi við verkalýðshreyfinguna, að tvöfalda íbúðaframleiðslu hér á Reykjavíkursvæðinu einu á sama tíma og iðnaðarmenn úti á landsbyggðinni gengu atvinnulausir? Hvað var þá sagt um framboð og eftirspurn eftir vinnuafli? Og hvað var sagt um framboð og eftirspurn eftir vinnuafli þegar ráðist var í Sigölduvirkjun og byggingarframkvæmdir þar, með þeim afleiðingum að nú telja á þriðja hundrað manns í Rangárvallasýslu að ríkið sé búið að skuldbinda sig til þess, að því er virðist, að sjá til þess að um aldur og ævi verði byggingarframkvæmdir af þessu tagi við Þjórsá, því að ella sé þessu fólki ekki lífvænlegt í sinni sveit? Hvað skyldi hafa verið sagt þá, eða þegar heilar bújarðir í Suðurlandskjördæmi voru lagðar í eyði vegna þess að heimilisfólkið allt, maður, kona og börn, hljóp upp í Sigöldu til að ná sér þar í fljóttekinn gróða vegna opinberra framkvæmda sem kostaðar voru af skattfé sem fæst með skattlagningu á landsmenn alla? Þessi dæmi um að tímabundinn skortur sé á vinnuafli í sjávarútvegi og fiskvinnslu á einhverjum ákveðnum stöðum á landinu hafa komið fyrir hringinn í kringum landið, öllum þorpum, öllum kaupstöðum á Íslandi sem atvinnu hafa haft af sjósókn og fiskveiðum á ýmsum tímum. Þó svo það ástand sé á þessu ári og þessum áratug ekki fyrir hendi á hinum eða þessum stað á landinu, þá þarf ekki að leita langt aftur í tímann til að finna dæmi um að svo hafi verið.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Ég vil sem sé leggja áherslu á að mörkuð verði sú stefna til langs tíma í fiskveiðum og fiskverkun, að reynt sé að s já til þess, að þó svo fyrirtæki veiða og vinnslu verði ekki sameinuð, þá verði gert sameiginlegt áhugamál þeirra aðila, sem annars vegar sjá um veiðar og hins vegar um vinnslu, að þessir tveir þættir standi nokkurn veginn saman á þeim stöðum þar sem um slíkan rekstur er að ræða, það séu hagsmunir þeirra, sem veiðarnar stunda, að lagt sé upp á þeim stöðum sem skipin eru gerð út frá og afli sé unninn á þeim stöðum þar sem eðlilegt er, miðað við aðstæður, að vinna við hann fari fram.

Herra forseti. Ég verð að leyfa mér að spyrja að því, hvort það sé rangt hjá mér að hv. þm. Stefán Jónsson hafi verið búinn að ljúka ræðu sinni áðan. Mér sýnist nefnilega að hann haldi áfram ræðuflutningi úr stól sínum. Ég bið eindregið afsökunar á því, ef ég hef ruðst í ræðustólinn áður en hv. þm. gat lokið máli sínu, og vil gjarnan óska eftir því við hæstv. forseta að hann veiti mér svör við því, hvort ég hafi rutt hv. þm. úr vegi. Ég veit að hv. þm. getur komið aftur, hann getur meira að segja komið tvisvar og haldið áfram ræðu sinni. En ég vil gjarnan óska eftir því, að hv. þm. yrði gert það ljóst að það, sem við sjáum hérna fyrir framan okkur, eru stólar til að sitja á, en hér er ræðustóll til að tala úr.