08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2466 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Flm. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Ég verð að þakka þeim mörgu, sem hafa tekið til máls í sambandi við þessa till., góðar undirtektir, því að ekki er um það að villast að nær allir, sem hér hafa talað, hafa tekið undir þá meginstefnu sem fram kemur í till. og er aðalatriði málsins. En mér þykir ástæða til að leiðrétta nokkur atriði sem svolítið hefur borið á í þessum umr. varðandi hugmyndir okkar sem að þessari till. stöndum.

Síðasti hv. ræðumaður, Ágúst Einarsson, óttaðist nokkuð að hér væri farið inn á þá braut að setja löggjöf um löndun á fiski og þar með gætu komið upp margvísleg vandamál. Ég dreg enga dul á að það er einmitt skoðun mín og af því beri að leggja megináherslu á það, eins og segir í þessari till., kemur afar skýrt fram bæði í grg. og hefur komið fram í framsögu okkar og í till. sjálfri, að það kerfi, sem upp verði byggt og að einhverju leyti staðfest með lögum, verði og eigi að byggjast á nánu samstarfi og samráði við þá aðila sem hér eiga mestra hagsmuna að gæta á hverju svæði um sig. Einnig er lögð áhersla á það, að yfirstjórnin á hverju svæði verði í höndum heimamanna. Hins vegar getur verið nauðsynlegt að fá lagaramma um nokkur þýðingarmikil atriði málsins og hreinlega einhverja þátttöku ríkisins, ef ríkið telur að hér sé um þjóðhagslega hagstæða framkvæmd að ræða. Ég hef komist á þá skoðun, að við ættum að stefna að þessari braut, einmitt vegna þess að ég er ekki sáttur með þá till. sem hefur verið flutt stundum og í ágætri meiningu, að við ættum, miðað við núverandi aðstæður, að koma upp togaraútgerð ríkisins og annarri ríkisútgerð sem væri beinlínis hugsuð til hráefnisjöfnunar í landinu. Ég efast ekkert um að till. af þeirri gerð er flutt í góðri meiningu og vissulega, ef það heppnaðist, væri hægt að leysa vanda einstakra staða. En þá væri þarna um að ræða aðgerð sem miklu nær væri atvinnubótafyrirkomulagi, þ.e.a.s. að leysa atvinnuvandamál einstakra staða, e.t.v. með áhættu ríkisins og þeim erfiðleikum sem því fylgja að ætla að reka skip sem eiga nálega hvergi heima. En það er geysilega mikill vandi, það höfum við reynt sem höfum komið nærri þessum málum.

Það er því ekkert um að villast, að í till. okkar felst ekki að setja eigi löggjöf, sem skikki menn til að landa fiski hér og þar, eða þeim verði fyrirskipað að landa einhvers staðar þar sem fiskurinn verði jafnvel ekki borgaður. Slíkt hefur vitanlega ekki hvarflað að okkur og er algerlega út í hött. Ég tel að það komi aldrei til mála. Ef svo langt yrði gengið, sem ég er ekki sammála, að lagðar yrðu á menn einhverjar þær kvaðir að þeir yrðu skyldaðir til að landa afla sínum á tilteknum stöðum, þá mundi auðvitað leiða af því, að sá sem skyldar þá til þess, þ.e.a.s. ríkið, yrði að vera ábyrgur fyrir greiðslu. Allt annað væri óeðlilegt miðað við okkar rekstraraðstöðu.

Ég tel líka að hugleiðingar um þetta séu í rauninni sprottnar af miklum misskilningi sem mjög oft kemur fram í umr. um þessi mál.

Sá misskilningur hefur einnig komið fram í þessari umr. Þar gefa menn sér það iðulega ósköp beint að segja: ja, ríkið, almenningur í landinu á nú öll skipin. Þeir hafa fengið 100% lán og jafnvel yfir 100% út á öll skipin og þeir eiga ekkert í þeim, þeir eru bara skrifaðir fyrir þeim. — Og af því að þetta er svona eiga þeir að vinna fyrir þjóðina og landa þar sem þeim verður sagt — og búið. Svona eru málin ekki. Þetta er reginmisskilningur. Þetta segja þeir sem alls ekki vita hvernig þetta hefur verið að gerast. Það er auðvitað ekkert um það að villast, að það eru til hjá okkur dæmi um að ríkisafskipti af því að útvega mönnum skip og önnur atvinnutæki hafa verið mikil. Hér voru menn að minnast á þá frægu löggjöf þegar togarafloti okkar var eyddur svo að segja að fullu og öllu. Þá var stigið það skref hér á Alþ. að ákveða að keyptir skyldu til landsins 6 togarar með sérstökum kjörum. Menn sögðu við þá umr., að þó að það stæði að lána mætti 90% þeim aðilum sem þarna áttu hlut að máli, þá mætti alveg eins segja að þeir hefðu komist upp í 102.5%, þegar búið var að taka tillit til þess, að inn í lán fyrir stofnkostnaði, sem þeir ættu að fá, væri tekinn allur útbúnaður skipanna, þ.e.a.s. veiðarfæri og allt saman. Ákveðið var fyrir fram, þegar þessi skip voru keypt, að þau ættu að fara fjögur til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og tvö til Akureyrar og ekki um annað að ræða. Svo gerðist það að vísu við lok málsins, að bætt var við tveimur skipum fyrir Reykjavík, sem hafa reyndar orðið frægust af þessum öllum, enda dugað best. En hvað um það, ég og fleiri fluttum þá till. um að heimila að fleiri gætu komið til greina með að njóta fyrirgreiðslu í þessum efnum þó hún yrði ekki svona mikil, menn mættu t.d. kaupa skip sem væru undir 500 tonnum. Slíkar till. voru felldar og kom ekki til slíks.

Það er aukaatriði, bæði í þessu máli og öðru, finnst mér, að tala um þetta út af fyrir sig. Þarna var um mikla fyrirgreiðslu að ræða hjá þeim sem stundum í seinni tíð hafa talað mest um að aðrir hafi fengið einhverja alveg sérstaka fyrirgreiðslu. Ég vil hins vegar segja það, að á næsta tímabili á eftir þessu sem ég var að segja frá, þegar ég var í ríkisstj., frá 1971–1974, þá var sett sú regla, að hver og einn, hvar sem hann væri staðsettur á landinu, sem sagt allir landsmenn hefðu sama rétt, þeir gætu komist yfir togara með þeim hætti að þeir yrðu að útvega erlent lán til 8 ára upp á 80% af kaupverði skipsins og þeir gætu fengið 5% lán hér úr Byggðasjóði, allir, hvar sem þeir væru búsettir á landinu. Menn gátu því fengið samkv. almennri reglu fyrirgreiðslu upp á 85%. En þetta var með því skilyrði að viðskiptabanki viðkomandi aðila legði fram skriflega yfirlýsingu um að hann ábyrgðist að viðkomandi aðili hefði hin 15% fram að leggja. Þetta var regla, sem gilti fyrir alla. Og ég vil segja það við þá ágætu menn, sem hafa tekið prýðilega undir þessa till. og sérstaklega hafa hagsmuni Suðurnesja ofarlega í huga, að Suðurnesjamenn áttu rétt á þessu nákvæmlega eins og aðrir og keyptu sér skip samkv. þessu, þó í minna mæli væri en aðrir. Þeir gátu bæði fengið 5% úr Byggðasjóði og fengu, og þeir gátu líka fengið að nota þessa almennu reglu. Spurningin var bara um það, hvort menn voru tilbúnir til þess, kærðu sig um það eða voru að gefa sig að einhverju öðru.

Það er reginmisskilningur, að það hafi átt sér stað, bæði á því tímabili og öðrum, einhver allsherjar tilflutningur á bæði fiskiskipum og fiskverkunarstöðvum, vissir staðir á landinu hafi notið algerra fríðinda. Ég hef í þessum efnum tekið nokkrum sinnum sem dæmi tvö öflugustu og best reknu fyrirtækin í mínu kjördæmi, á Austurlandi, sem eru langstærst í þessum efnum, nokkur helstu fyrirtækin á Vestfjörðum sem líka skaga einna mest upp úr, og á Norðurlandi, — þeir aðilar hafa ekki fengið krónu úr Byggðasjóði. Þeir nutu þeirra almennu kjara sem giltu í landinu og stóðu öllum opin. Það er því alger misskilningur, að það, sem var að gerast á þessum tíma, hafi gerst af þeim ástæðum, að menn hafi búið við einhver sældarkjör eftir því hvar þeir bjuggu. Hitt er auðvitað alveg rétt. og það er ekkert nýtt, það hefur gilt um langan tíma og gildir enn, að hlaupið væri undir bagga með einstökum stöðum sem staðið hefur mjög illa á um. Það þekkjum við. Lengi vel var háttað þannig um Skagaströnd, sem nú er sem betur fer löngu komin út úr þeim vanda. Bíldudalur var einnig þekktur staður í þessum efnum og margir fleiri. Þeir hafa lent í erfiðleikum og fengið m.a. sérstaka fyrirgreiðslu úr Byggðasjóði. En það hefur ekki verið almennt, það er rangt.

Þetta innskot er í rauninni um allt annað atriði en þessi till. fjallar um. Till. fjallar um það, að við reynum að nýta þann veiðiflota, sem við höfum, á sem skynsamlegastan hátt, ekki bara fyrir einn og einn stað, heldur fyrir nálæga staði eftir því sem öllum aðilum getur hentað. Menn hafa verið að nefna það í þessu efni, að sum sveitarfélög og einstakir fiskverkunaraðilar hafi þegar leyst þessi mál sjálfir. Veit ég það vel. Ég veit að þessi mál eru komin mjög sæmilega á veg á einstaka afmörkuðu svæði. En því fer víðs fjarri að þetta hafi verið teyst fyrir landið sem heild og þeir möguleikar notaðir sem hægt er að nota í þessum efnum. Við stöndum frammi fyrir því, að einmitt þegar menn hafa lagt jafnmikla áherslu á það eins og verið hefur í seinni tíð að eignast skuttogara sem verið hafa öruggustu hráefnisöflunartæki, þá er það svo að byggðarlög, sem eru af stærðinni 400, 500, 600 manns, ráða ekki með góðu móti við tvo togara til þess að ætla að vinna þann fisk vel. Þau hafa ekki vinnuafl til þess eða aðstöðu. Hins vegar vitum við að það er ekki hægt að byggja góða fiskvinnslu, eins og nú er komið, aðeins á einu skipi. Það fellur ekki saman. Með tilteknu skipulagi getur verið hægt að koma á hagkvæmum og góðum flutningi á milli staða, samtengja þá. E.t.v. þarf ríkið að koma til og aðstoða menn við það að einhverju leyti, sérstaklega meðan verið er að koma skipulaginu á, og að því miðar þessi till. fyrst og fremst.

Um umr. að öðru leyti skal ég vera fáorður. Þó er eitt atriði sem segja má að komi inn í þessa umr., ekki alveg beint, en er skylt og er þess eðlis, að mér þykir full ástæða að seg ja örfá orð um það atriði. Það var hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, sem minnti á það, að þegar verið væri að ræða um þessi mál væri ekki óeðlilegt að við minntust á þær till. sem fram væru komnar hjá fiskifræðingum okkar um stöðu fiskstofnanna og hvernig við stæðum yfirleitt að vígi með að taka við slíkum till., bæði varðandi okkar fiskveiðiflota, fiskvinnsluna og alla afkomuna í þjóðarbúinu. Það er auðvitað ekki aðstaða til að ræða þetta mál núna ítarlega. En það vil ég segja, til þess að menn átti sig e.t.v. betur á því máli en gefst samkv. því sem talað er um málið í blöðum, að auðvitað er ekkert smáræði ef til þess ætti að koma að við yrðum að taka á þessum málum á þann hátt sem þessi nýja skýrsla gerir ráð fyrir og tillögur fiskifræðinganna eru um, ef við ættum að standa frammi fyrir því á þessu ári að skera niður þorskveiðar okkar um 80 þús. tonn.

Það fór einhver að reikna það út, hvert væri hráefnisverð 80 þús. tonna af þorski. Og það er rétt, þegar hráefnisverð er tekið á öllu því hráefni, sem þar er um að ræða, og líka þeim hlutanum, sem fer í sjóði, þá er það um 16 milljarða kr. En slík verðmæti er mönnum óhætt að margfalda með a.m.k. 21/2 þegar um er að ræða raunverulegt útflutningsverðmæti allra þessara afurða. Hér er því um tillögur að ræða um 40 milljarða, og þá er sleppt tillögu um að skera loðnuaflann niður um 150 þús. tonn. Ef menn vilja svo taka það sem Þjóðhagsstofnun hefur bent á og fleiri, að gjarnan megi reikna það á þann veg, að gjaldeyrisaflandi tekjur eins og þær, sem koma frá sjávarútveginum, sé óhætt að margfalda með 4–5 til þess að finna út hina raunverulegu þjóðhagsstærð, þ.e.a.s. til þess að finna raunverulegt þjóðarframleiðsluverðmæti í öllu hagkerfi, þá erum við komin þarna í 150–160 milljarða kr. af 730 milljörðum sem menn eru að reikna með að þjóðarframleiðslan verði á árinu 1979, m.ö.o. um 20%. Ég held að það væri hollt fyrir menn að hugsa um þetta.

Ýmsir ágætir menn segja: Er ekki sjálfsagt að verða við þessu? Er ekki sjálfsagt að við lokum togara okkar inni svo sem 4 mánuði á ári og stöðvum aðrar fiskveiðar? Er ekki sjálfsagt að gera þetta og gera hitt? En ég held að það hvarfli ekki að þeim ágætu mönnum að taka afleiðingunum af þessu, að það þurfi að loka ýmsu öðru í þjóðfélaginu um leið. Ég held að þeir væru fljótir að segja: Nei, það kemur ekki til mála.

Það er enginn vafi á því, að það er rétt sem hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, fyrrv. sjútvrh., minntist á, að hér er auðvitað um hrikalegt stórmál að ræða, stærra og meira en nokkurt annað sem hér hefur borið að höndum. Við höfum auðvitað fengið tillögur af svipaðri gerð og þessar áður, og það hefur verið brugðist við þeim á mismunandi veg. En hér er um verulegt stórmál að ræða, og ég er þess vegna ekkert hissa á að það dragist inn í umr. um þetta mál. En raunverulega fjallar þessi till. um allt annað. Hún fjallar um það, hvernig við eigum að spila sem best úr því sem við höfum af vinnslutækjum og sjósóknartækjum, hvernig við eigum að reyna að nýta þetta á sem hagkvæmastan hátt. Ég fagna því mjög, að hæstv. ráðh. hafa tekið mjög jákvætt undir þessa till. og sérstaklega hæstv. sjútvrh. Ég vona því að hann í starfi sínu takist á við það verkefni sem felst í till. Ég veit að það tekur langan tíma, þarf mikið undirbúningsstarf. Það þarf að vinna þetta á samkomulagsgrundvelli. Hér þýðir ekkert að setja saman lagafrv. og skipa mönnum algerlega fyrir. Öll uppbyggingin, eignarrétturinn og yfirráðin yfir þessu eru í því formi hjá okkur, að málið er ekki svo einfalt að það sé hægt að skipa hverjum og einum fyrir alveg án tillits til allra aðstæðna. En ég vona sem sagt, að sú n., sem fær þetta mál til athugunar, geti afgreitt það fljótlega og síðan verði hafist handa um að reyna að koma því í framkvæmd sem í till. felst.