08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2472 í B-deild Alþingistíðinda. (1937)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 4. landsk. þm., sem hóf hér landshlutaumr. í dag, Gunnlaugur Stefánsson frá Hafnarfirði, er nú ekki staddur í salnum, en hann taldi að meðan ég gegndi starfi sjútvrh. hefðu menn fengið allt að 105% lán til skipakaupa. Ég þarf nú ekki að leiðrétta þetta, því að hv. 1. þm. Austurl. tók það dæmi, og það var löngu fyrir mína tíð og meira að segja fyrir ráðherratíð 1. þm. Austurl. að þessi samanburður varð til.

Sömuleiðis nefndi sami hv. þm. að það væri verið að selja fisk óunninn til útlanda í stórum stíl á sama tíma og fiskvinnslustöðvar í landinu væru hráefnislausar. Nú er það alveg í höndum stjórnvalda, hvort þau leyfa útflutning á ísvörðum fiski. Það er viðskrn. sem ræður þar algerlega. Þessi hv. þm. er stuðningsmaður núv. ríkisstj., og ef hann telur að það eigi alfarið að banna siglingar skipa með ísvarinn fisk, þá finnst mér að hann eigi að snúa sér að þeirri ríkisstj. sem hann styður. Hins vegar vil ég segja það til þess að fyrirbyggja misskilning, að við þurfum að eiga og gæta víða markaða, og það er best að hafa bæði þessar siglingar og annað í þófi og taka mið af verði á mörkuðum hverju sinni. En það má ekki heldur ganga svo langt, að þegar markaðir falla, þá eigi íslenskar fiskvinnslustöðvar að taka við. Undir mörgum kringumstæðum er nauðsynlegt að leyfa slíka sölu og það hefur viðskrn. á hverjum tíma gert.

Hinu var ég meira hissa á, þegar hæstv. félmrh., sem einnig er nú farinn úr þingsalnum, kom í ræðustólinn og taldi að það þyrfti að stemma stigu við erlendu fólki sem ynni við fiskvinnslu. Ég veit ekki betur en félmrn, hafi verið að leggja blessun sína yfir innflutning á erlendu vinnuafli og þar með áströlskum stúlkum, sem mikið er talað um. Þá er það hans að stöðva það, að þetta vinnuafl fáist. Hann tekur e.t.v. um leið á sig allverulega ábyrgð að stöðva vissar fiskvinnslustöðvar á vissum stöðum. Og annar hv. þm., Stefán Jónsson, taldi að bæði fiskvinnsla og fiskveiðar ættu að fara eftir mannskapnum á hverjum stað. M.ö.o., ef fólk flytur frá einhverjum stað þá ætti um leið að flytja frystihúsin á eftir því og þannig fram og til baka. Ég held að þetta sé ekki svona einfalt, síður en svo, og ég held líka að það sé ekki rétt að vera alltaf að öfundast yfir því, þó að vel gangi í einhverjum ákveðnum landshluta í eitt, tvö eða þrjú ár. Enginn veit hvað fyrir kann að koma að þeim árum liðnum.

Við skulum taka t.d. stað eins og Vestmannaeyjar, þar sem var besti afli á landinu árum saman. Ég hef verið að glugga í gömlum Ægi og víðar, og þar segir að árið 1940 voru gæftir nokkuð góðar og þátttaka landsmanna í fiskveiðum með mesta móti. Samt var aflinn ekki að sama skapi mikill, þrátt fyrir að menn hefðu fyrir tveimur árum spáð að þetta ár mundi verða gott þorskveiðiár, vegna þess að sterkir árgangar áttu þá að koma inn í veiðina. Í Vestmannaeyjum t.d. var einhver sú lélegasta vertíð sem komið hafði síðan farið var að stunda veiðar á hinum stóra vélbátaflota. Er talið að aflinn hafi numið um 40% af meðalvertíðarveiði, þótt hvergi hafi brugðist eins gersamlega veiðin eins og í Vestmannaeyjum. Þetta var á árinu 1940. Eftir það komu mörg ár í Vestmannaeyjum þar sem Vestmannaeyjar báru af hvað afla snertir.

Ef við eigum að fara eftir vinnuaflinu á hverjum stað, þá hefðum við átt að flytja þetta vinnuafl frá Vestmannaeyjum til þeirra staða þar sem veiðin hafði aukist og svo aftur til baka, því að þorskurinn, alveg eins og hv. þm. sagði, er ekki alltaf á sama stað og tekur sennilega ekki upp á því hér eftir frekar en hingað til. Hér hafa verið, eru og munu verða miklar breytingar í þessa átt, og það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni og fleirum, að það koma tímabil þar sem afli er reyndar of mikill, ef maður má svo að orði komast, þegar ekki er hægt að vinna og gera úr honum mest verðmæti fyrir þjóðarbúið. En þetta hefur gerst á öllum tímum og í öllum landshlutum. Þegar hafa komið fiskihlaup, mikill fiskur komið að landi, eru menn ekki að hafna því að fá hann á skip og þeir koma með hann að landi. En ég vil ekki fallast á það, sem sami þm. sagði, að smáfiski væri mokað í sjóinn. Mér finnst þetta vera þungar ásakanir á skipstjórnarmenn og sjómenn, að segja að smáfiski sé mokað í sjóinn.

Í sambandi við vinnsluna vil ég segja það, að þegar síld var fyrir Norðurlandi, þegar Siglufjörður var aðalsíldarsöltunarstöð landsins, átti þá alls ekki að koma meiri síld á land á Norðurlandi en fyrir fólkið sem bjó á þessum stöðum? Þá fór fólk frá Vestfjörðum, Suðurlandi og Austfjörðum í hundraðatali til Norðurlands til þess að vinna þessa síld. Síðan var farið til Austfjarða þegar síldin kom þangað. Fólk hefur farið þangað á hverjum tíma til að bjarga verðmætum og til þess að fá góðar tekjur. Hvað gerðist fyrir allmörgum árum þegar var fisklaust fyrir Norðurlandi ár eftir ár og fyrir Austfjörðum ár eftir ár? Þá fór fólkið, sjómennirnir á þessum stöðum, á vertíð eftir vertíð til Vestmannaeyja og Suðurnesja þar sem fiskur var uppi í landsteinum. Og það endaði með því, að ekki tugir, heldur hundruð manna á þessum svæðum fluttust búferlum, af því að þar var atvinnan meiri og betri. Það yfirgaf sína heimahaga. Sama gerðist á Vestfjörðum þegar fiskur brást þar. Þá þurftu Vestfirðingar að sækja frá Djúpi suður á Breiðafjörð á ekki stærri bátum en 40 tonna, sem þá þóttu stór skip. Og það er ekki lengra síðan en að ég var kominn á unglingsaldur eða á fullorðinsár þegar þetta gerðist. Ég heyrði þá aldrei að kvartað væri undan því, það ætti að jafna aðstöðumuninn og það þætti synd hvað gengi vel á einhverjum ákveðnum stöðum. Nú hefur aðeins þokast í áttina í þessum landsfjórðungum, það hefur heldur orðið fjölgun, um 1% eða svo. Mér finnst ekki stórkostlegar breytingar hafa átt sér stað, og við vitum ekkert í raun og veru hvað þetta stendur lengi.

Ef við lítum á hina minni staði, og þá á ég ekki sérstaklega við einhvern ákveðinn landsfjórðung, við skulum taka Akureyri, þá er Akureyri auðvitað með miklu fjölbreyttara atvinnulíf en minni staðir á Norðurlandi eystra, eins og Ísafjörður er aftur með fjölbreyttara atvinnulíf en staðir í hinum minni kauptúnum. Þar er svo að segja hver maður háður fiskveiðum og fiskvinnslu. Þess vegna er ekki óeðlilegt að þessir minnstu staðir, ef þeir fá ekki innlent vinnuafl, fái þá erlent vinnuafl, alveg eins og gerðist hér fyrir nokkrum árum, þegar Íslendingar vildu heldur vinna á Keflavíkurflugvelli, en Færeyingar mönnuðu okkar fiskiskipaflota sællar minningar. En hvað skeður svo aftur þegar fólkið kemur úr skólunum á vorin, ef þetta væri ekki fyrir hendi, ef ætti að sníða það eftir vetrarvinnunni? Hvar á þá að koma því fólki öllu fyrir að vorinu? Það er undirstaða margra heimila um allt land að skapa unga fólkinu vinnu yfir sumartímann.

Ég tek undir það, að hvar sem er og hver sem á hlut að máli, þá er til skaða þegar svo mikill fiskur berst að, að hann er ekki nýttur. Það, sem skeði í sumar, var ekki aðeins að of mikill fiskur væri bæði fyrir vestan, norðan og austan, það var einnig suðvestanlands á þessu sama tímabili. Það var reynt að koma fiski af sér á þau svæði, eins og Reykjanessvæðið, í þessu hlaupi, en það gekk ekki nema að mjög takmörkuðu leyti. Alveg eins á sér stað, að stór og góður fiskur hefur ekki verið unninn í verðmætustu pakkningar eða gert úr honum sem mest útflutningsverðmæti, vegna þess að hann hefur verið of lengi t.d. í netum. Allt þetta hefur batnað á síðustu árum.

Hv. 4. þm. Reykn. talaði um smáfiskinn. Hann viðurkenndi réttilega þær aðgerðir sem gerðar hafa verið til þess að koma í veg fyrir smáfiskadrápið. Ég fullyrði alveg óhikað, að það er ekki neitt sem heitir smáfiskadráp lengur, ekki sem er hægt að segja að sé í neinu magni. Þar hefur orðið stórfelld breyting á síðustu árum, í fyrsta lagi með brottför Bretanna, með stækkun möskva og stórauknu eftirliti á veiðiskipum okkar, svo að hér er ekki um slíkt að ræða.

Í sambandi við togarauppbygginguna er sannleikur málsins sá, að blessaðir Suðurnesjamennirnir vildu enga togara þegar aðrir voru að kaupa þá. Þeir héldu svo fast við bátana sína þangað til allt var orðið fullt af skipum. Og ég vil taka það fram, að rúmlega helming af tímabili fyrri ríkisstj. voru lánakjörin óbreytt hvað þetta snertir. Þetta eru vandamál sem fyrir liggja og við eigum auðvitað að sýna sanngirni í að reyna að leysa.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessi mál. Ég hef áður sagt að efnislega sé sú till., sem fyrir liggur, þörf og sérstaklega með þeirri túlkun, sem 1. flm. málsins viðhafði í ræðum sínum í dag, eigum við flestir að geta tekið undir till., en sjálfsagt að athuga frekara orðalag í nefnd og við afgreiðslu málsins.

Ég vísa að öðru leyti til þess sem ég sagði í fyrri ræðu minni um þetta mál.