08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2480 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Því miður átti ég þess ekki kost að vera við upphaf þessara umr. vegna annarra knýjandi starfa, en ég heyri það á þeim ræðumönnum, sem ég hef hlýtt á, að hv, 1. flm. þessarar þáltill. hefur gert rækilega grein fyrir henni. Ég þarf því ekki að fara eins vandlega ofan í þetta mál og þurft hefði ef hann hefði ekki verið hér á undan mér í þessum umr. Ég vil þó fyrst, herra forseti, víkja örfáum orðum að því, sem menn hafa verið að segja hér að undanförnu, og er þar af mörgu að taka.

Það er ekki óeðlilegt að umr. um mál af þessu tagi dreifist svolítið út fyrir það svið sem nákvæmlega er verið að fjalla um í þessari till. Ég fagna því að það skuli koma upp umr. um sjávarútvegsmál í þinginu með stuttu millibili. Það er sannarlega kominn tími til að fjalla um ýmis mál í svo margslungnum og mikilvægum málaflokki sem sjávarútvegsmálin eru fyrir okkur Íslendinga.

Ég hlýt að segja nokkur orð vegna þess að hér var talað um sölur skipa erlendis. Ég er á þeirri skoðun, að ekki sé hægt að banna þessar sölur algerlega, en hins vegar lít ég svo á að þær beri að takmarka. Hvernig á að takmarka þær, það er ég ekki tilbúinn að segja á þessu augnabliki. Það mál þarf að skoða. Það mætti hugsa sér t.d. að ákveðin veiðiskip mættu ekki landa meira erlendis en vissu hlutfalli af ársafla sínum, því það er staðreynd að sum skip eru hreinlega gerð út með það fyrir augum að selja allan afla sinn erlendis. Það finnst mér óeðlilegt og það finnst mér að ætti alls ekki að leyfa. Einnig fyndist mér að ætti að taka tillit til markaðsástandsins og ýmissa annarra þátta um leið, m.a. hvernig ástandið er á vinnumarkaðnum innanlands þegar menn sækja mest í þessar sölur. Þess eru dæmi og það úr mínu kjördæmi, að togari, sem gerður er út þar, í smáþorpunum á Suðurlandi, hefur farið í siglingu meðan atvinnuleysi var í þessum sömu þorpum. Slíkt er auðvitað aldeilis ótækt. Fleira mætti auðvitað segja í þessu sambandi, en ég vil segja það, að þegar talað var um að mikill fiskur hefði verið um allt land þegar aflahrotan var fyrir norðan og vestan land í sumar, þá er mér kunnugt um að ekki var nægilegur fiskur í frystihúsunum á Suðurlandi á þeim sama tíma. Að vísu voru aðrir erfiðleikar þar á ferðinni á sama tíma. Í þessu efni, að selja afla erlendis, ber að fara varlega og hafa þar viss mörk og gæta þá ekki síst að því, að við megum helst ekki láta það henda að mjög margar vinnufúsar hendur í sjávarþorpum séu atvinnulausar á sama tíma og verið er að flytja aflann út á markaði.

Hv. þm. Matthías Bjarnason var nokkuð reiður yfir þeim orðum, sem annar þm. viðhafði úr þessum ræðustól, að smáfiski hefði verið mokað í sjóinn, taldi það hina verstu árás á viðkomandi sjómenn. Það er nú svona. Þeir, sem hafa verið á þessum skipum, vita að alltaf fer eitthvað í sjóinn, og þegar mest gengur á, eins og í aflahrotu af því tagi sem ég minntist á áðan, vill það vera svo, að meira fer í sjóinn við slík tækifæri. Þegar af nógu er að taka er freistast fremur til þess að gefa þeim þéttvaxnari meira rými og ýta þá fleiri þeim smávöxnu í sjóinn í staðinn. Þetta eru staðreyndir sem þýðir ekkert að mótmæla. Þó að um vissa ádeilu sé að ræða á sjómenn í þessu tilfelli, þá er hún réttmæt, hvað svo sem menn vilja um það segja. Það er staðreynd, að vísu ákaflega leið staðreynd, en menn verða líka að horfast í augu við óþægilegu staðreyndirnar.

Ég undraðist satt að segja þegar hv. þm. Matthías Bjarnason fór að bera saman atriði sem tengjast þessu máli, þar sem verið er að fjalla um jafna og stöðuga vinnslu í frystihúsunum, — fór að bera saman ástandið núna og þegar menn flykktust í síldina á Siglufirði á sumrin yfir stuttan tíma. Þá komu þar stórir toppar á ákveðnum, föstum árstíma, og auðvitað var engin leið að miða mannskapinn á þeim stöðum yfir allt árið við þessa stærstu toppa. Það gefur auga leið. Það er auðvitað allt annað en það sem hér um ræðir. En til slíkrar röksemdafærslu hættir mönnum til að grípa þegar önnur betri og haldbærari rök eru ekki hendi nær.

Það er ekki heldur hægt að líkja saman sveiflum í veiðum á árunum milli stríða og 1940, eða um það bil, þegar fiskigengd minnkar fyrir Austfjörðum og Austfirðingar sækja á vetrarvertíð. Þar er um allt annað að ræða. Þá er t.d. sleppt úr þeim samanburði þeim veiðimöguleikum sem nú eru fyrir hendi og breyta þessu dæmi gjörsamlega. Það er ég viss um, að þó að fiskibátar þeirra Austfirðinga hafi ekki fengið á þeim árum ýkjamikinn afla fyrir Austurlandi hefðu togararnir, sem við höfum núna, getað náð þar í fisk. Og um þetta eru auðvitað fleiri dæmi. Þegar ég fór fyrst á síld fyrir 30 árum var síldarleysisár, eins og kallað var. Hver veit hvað var mikið af síld í sjónum þá. Hún var bara ekki vaðandi eins og hún hafði verið og var ekki hægt að ná í hana uppi í sjó. Við höfðum ekki tæki til að kasta á síldina, nema þá síld sem sást eða moraði fyrir.

Það er ekki ólíklegt að einmitt hafi verið mjög mikil síld á íslensku hafsvæði frá 1945 og mörg ár þar á eftir, þó að stærsta árið hafi verið 1944. Það er m.a.s. mjög líklegt. Þá sóttu menn þessa síld yfirleitt á grunnslóð, jafnvel inn á firði: Skagafjörð, Húnaflóa, vestur undir Strandir, Grímseyjarsund o.s.frv. og austur með landi. En það segir ekki neitt um það, að ekki hafi verið mikil síld í sjónum. Hún sást ekki, en hefði getað fundist ef við hefðum haft nútíma sónartæki um borð.

Fleiri atriði mætti auðvitað tína til athugunarverð í ræðu hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar, eins og t.d. að hann fullyrðir að nú sé ekki lengur um neitt smáfiskadráp að ræða sem heitið geti, eða eitthvað í þá veru. Það er matsatriði. Þeir, sem sjá aldrei annað en mismunandi stóran smáfisk, kalla stóra smáfiskinn stóran fisk, en fiskur, þó hann nái máli, er ekki stór fiskur. Ekki er stór sá þorskur sem rétt losar 50 cm með haus og hala. Fullyrðingar af þessu tagi eru því vafasamar. Það er erfitt að skilgreina í fáum orðum, eins og hann sagði, en mér segir svo hugur um að því miður sé enn um allmikið smáfiskadráp að ræða. Það er ekki þar fyrir, ég er ekki að mæla með því eða segja að við eigum ekki að drepa fisk sem ekki sé orðinn kynþroska. Það væri alveg út í hött við þær aðstæður sem við búum við hér á Íslandi. Þorskurinn verður ekki kynþroska fyrr en 6–7 ára, þegar hann er orðinn kannske 5–6 kg. En mér finnst ábyrgðarhluti að drepa óhóflega stórt hlutfall af fiski sem á það fram undan á næsta ári að tvöfalda þyngd sína — einmitt á því ári. Það er óskynsamlegt að slátra fiskinum, ef svo má að orði komast, árinu fyrr þegar svo stendur á. Það getur hver maður séð í hendi sinni, ef hlutfallið er kannske um fjórðungur af öllum þorskaflanum, hversu mikið munar um að tvöfalda þyngdina á þeim fjórðungi sem veiddur er, því að stykkin eru mörg. Eins og hv. þm. Oddur Ólafsson talaði um er það ekki tonnatalan ein, heldur stykkjafjöldinn úr þeim stofni sem við erum að reyna að passa. Þetta atriði ættu menn almennt að hugsa svolítið meira um og gera sér grein fyrir að þetta atriði þarf að vega miklu meira en hefur verið.

Ég var svolítið undrandi að heyra hv. þm. Pál Pétursson, þegar hann hafði hætt kratatali sínu, sem er nú ekki neitt vikið að í þessu plaggi okkar Lúðvíks, enda ræðu sína með því að það ætti ekki að samþ. þessa till, það væri ástæðulaust og jafnvel skaðlegt að samþ. þessa till., það mætti hins vegar hafa hana sem vinnuplagg. Ég held að hv, þm. Páll Pétursson hefði átt að hlýða betur á það sem hv. 1. þm. Austurl, sagði í seinni ræðu sinni, þar sem hann lagði áherslu á eðli þessa máls.

Það kom einnig fram í ræðu hv. 2. þm. Vesturl., að löggjöf gæti ekki verið með öðrum hætti en að boða eða banna. Ég vil í sambandi við það leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa örfá orð upp úr till., þar er ekki mjög harkalega að orði komist. Þar segir alveg skýrt:

Alþ. ályktar að fela sjútvrn. að undirbúa löggjöf um skipulag á fisklöndun til fiskvinnslustöðva með það að markmiði, að fiskiskipafloti landsmanna nýtist sem best til þess að tryggja fiskvinnslustöðvum sem jafnast og best hráefni til samfelldrar vinnslu.

Áhersla skal lögð á eftirfarandi meginatriði í hinu nýja skipulagi:

1. Landinu sé skipt í löndunarsvæði í samræmi við samgönguaðstæður og hagkvæm samskipti á milli fiskvinnslustöðva. Endanlegt ákvörðunarvald um svæðaskiptingu hafi hagsmunaaðilar á svæðunum.“

Þetta segir nú ansi mikið. Og svo áfram:

„2. Yfirstjórn á hverju löndunarsvæði sé í höndum heimaaðila á svæðinu, þ.e.a.s. í höndum fulltrúa fiskvinnslustöðva, útgerðaraðila og sjómanna og fiskvinnslufólks.“

Þetta finnst mér að sé alveg nægilegt að lesa til þess að andmæla þeim tón sem kom fram í ræðu hv, þm. Friðjóns Þórðarsonar, — því hver vill ekki hafa það markmið í íslenskum sjávarútvegi að fiskiflotinn nýtist sem best? Hver vill ekki hafa það að markmiði að tryggja fiskvinnslustöðvum sem jafnast og best hráefni? Og hver vill ekki tryggja sem jafnasta og besta vinnu fiskvinnslufólks? Um þetta fjallar till. Ég undrast satt að segja þegar menn hafa verið að fetta fingur út í þessi atriði.

Mér finnst — ég verða að segja það — að í þessari till. sé verið að fjalla um ákaflega stórt mál, um ákaflega mikið hagsmunamál allrar þjóðarinnar. Í sambandi við vinnslu þessa máls og framkvæmd hefur hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagt að þarna sé langtímaverk á ferðinni, þar sem þurfi að reyna að koma þessum hlutum á með samkomulagi og undir stjórn þeirra aðila sem ég gat um hér áðan.

Hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði að það ætti ekki að set ja nein lög um það eða reglur að ekki mættu vera fleiri eða stærri fiskvinnslustöðvar en svona og svona, eins og hann orðaði það. Ég vildi óska að það hefði verið búið að setja reglur um slíkt fyrir löngu löngu, því að það er nú svo í íslensku atvinnulífi víða, að þar hefur.verið farið ógætilega með fjárfestingar. Ef einhver hlutur í atvinnurekstri hefur gefið sæmilega af sér á einhverjum tíma, þá hafa allir rokið í að gera það sama. Það er t.d. hluti af vandamáli þeirra Suðurnesjamanna, að þar eru að vísu alls ekki allt of mörg vinnupláss í heild, eins og hv. þm. Oddur Ólafsson sagði áðan, heldur eru kannske fiskvinnslustöðvarnar allt of margar og smáar og í því felst mikil óhagkvæmni. Það felst vissulega mikil óhagkvæmni í því að smíða allt of stórar og margar fiskvinnslustöðvar. Það á ekki við Suðurnesin endilega, það á t.d. við í Vestmannaeyjum. Þetta var gert til þess að ráða við stóru toppana sem koma á vertíðinni. Það er í öllum atvinnurekstri og í öllu ákaflega óskynsamlegt að miða fjárfestinguna eða yfirleitt afkastagetu allra hluta við stærstu toppana, þannig að við ráðum alltaf við stærstu toppana. Það er t.d. ákaflega óskynsamlegt að smíða farþegaskip, sem er miðað við alstærsta toppinn á árinu, sem stendur kannske í viku, eða flugvélar sem eiga að ráða við mestu aðsóknina á ákveðum stuttum tíma o.s.frv., o.s.frv. Þarna er um gífurlega dýrar fjárfestingar að ræða og mikinn tækjakost. Í stað þess að miða byggingarnar við þessa stóru toppa hefði þurft að hagræða þessu öðruvísi, með því að færa aflann til þegar mest gekk á, og það er líka hluti af því sem í þessari þáltill. stendur.

Í þessari þáltill. er í stuttu máli verið að boða meiri hagkvæmni með ákveðinni stjórnun, því sannleikurinn er sá, að okkur vantar í sjávarútvegi miklu meiri stjórnun, ekki einungis í þessu, heldur í fleiri atriðum. Við þurfum að stjórna fiskveiðunum meira, við þurfum að stjórna ýmsu fleira í sókninni, í sambandi við veiðisvæði og margt og margt fleira. Um það ætla ég ekki að fara að ræða hér, því að það tæki marga klukkutíma. Þarna eru mörg óunnin verkefni, sem við þurfum að takast á við.

Þáltill. fjallar um að bæta hagkvæmni í veiðum og vinnslu. Till. fjallar um að reyna að treysta samfellt hráefni og samfelldari og vonandi hæfilegri vinnutíma en er og betri meðferð hráefnisins og þá um leið betri nýtingu hráefnisins. Um leið og framleiðslan batnar að þessu leytinu verður hún verðmeiri. Þá er hægt að einbeita sér að dýrari pakkningum og dýrari lokaútfærslu. Og það er ekki aðeins hvað varðar rekstrarhagkvæmninga, heldur kemur þetta líka fólkinu á marga lund til góða.

Með því að hafa stjórn á þessum hlutum og gott samkomulag — ég legg á það áherslu — er miklu minni hætta á aflaskemmdum eins og um hefur verið talað hér — það er auðvitað liðin tíð, en jafnleiðinlegt fyrir því — og kemur fremur í veg fyrir að framleiðsluvörurnar séu gallaðar, og kannske ekki síst, svo að ég segi það einu sinni enn, að tryggja því fólki, sem vinnur við fiskvinnu, jafnari vinnu og stöðugri vinnu. Í mínu kjördæmi höfum við því miður mörg, mörg dæmi þess, að þar er í ýmsum þorpum tímabundið atvinnuleysi, þó að yfirdrifið sé að gera annars staðar. Þess vegna finnst mér mikilvægt að þarna sé setningin: að reyna að hafa samræmi á milli aflagetu og afkastagetu. Það er auðvitað aldrei hægt til fulls, en að þessu á að stefna, því að það er skynsamlegt. Það er að mínum dómi mjög óeðlilegt að á nokkrum stöðum á landinu komi allt of mikill afli á land langtímum saman, þar sem er fátt fólk fyrir sem þarf þess vegna að verða að þræla og vinna meira en myrkranna á milli, jafnvel þó að fengið sé fólk alla leið frá suðurhelmingi jarðarinnar — frá Ástralíu — í þúsundatali. Það er líka ákaflega óskynsamlegt og illa farið með gjaldmiðil þjóðarinnar að kaupa vinnuaflið í fiskvinnslu fyrir erlendan gjaldeyri í stórum stíl.

Herra forseti. Ég sé varla ástæðu til þess að eyða miklu lengri tíma í einmitt þetta. Ég vil samt minna á það að lokum, að margir hafa minnst á Suðurnesin og þá stundum sagt ýmislegt sem er því ágæta fólki til hnjóðs. Ég sé enga ástæðu til þess né heldur að vera með neinn landshlutaríg. Það hefur þó verið sameiginlegt mörgum, sem hér hafa talað, að þar séu meginvandamálin á ferðinni, það þurfi sérstaklega að lagfæra og gera ráðstafanir til að efla hráefnisútvegun á því svæði. En þetta gildir nefnilega ekki aðeins um Suðurnesin. Þetta á við um verstöðvarnar á Suðurlandi, kannske ekki síður, jafnvel fremur, og eru þó alvarlegustu dæmin Stokkseyri og Eyrarbakki, þessi myndarlegu fiskvinnslupláss, sem hafa misst það sem verstöðvar mega helst ekki missa, hafnirnar sínar. Það er eins og menn hafi ekki tekið eftir því, þegar þeir eru að gera grín að því að ég hef flutt till. um að athuga með smíði brúar yfir Ölfusá. Þar er ekki verið að tala um að smíða neina sportbrú eða stytta vegalengdir fyrir fólksbíla á milli staða. Þar er verið að tala um brú sem kæmi í staðinn fyrir tvær hafnir. En það er nú annað mál.

Ég segi að lokum, að ef þetta hráefnisvandamál er til á Suðurnesjum á það ekki síður við um þorpin Þorlákshöfn, Stokkseyri, Eyrarbakka og Vestmannaeyjar.