08.02.1979
Sameinað þing: 49. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2485 í B-deild Alþingistíðinda. (1942)

36. mál, fisklöndun til fiskvinnslustöðva

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég held að þetta mál sé mjög athyglisvert og sé í raun og veru mjög brýnt að reynt sé að gera eitthvert átak í stjórnunarmálum í sambandi við landanir og hvernig á að nýta og er hægt að nýta sem best bæði vinnslustöðvar í landi og vinnuafl, þannig að það sé hófleg vinna, en þó næg á hverjum stað. Ég held að þessi till. sé miðuð við að reyna að takast á við þetta vandamál. Ég tel því að hún sé spor í rétta átt.

Hitt er annað mál, að menn hafa á undanförnum árum verið að velta því fyrir sér, hvernig þetta væri hægt, sérstaklega með það í huga t.d. að fá togara til að landa hér og þar, eftir þennan túr í einum staðnum og í öðrum stað aftur næst. Menn hafa rekið sig á að þetta fyrirkomulag gengur ekki vegna þess að skipshafnirnar sætta sig ekki við það t.d. að geta ekki landað, venjulega a.m.k., í sinni heimahöfn eða á sama stað. Það hefur líka verið hugleitt að reyna að skipta aflanum, landa sama farminum á fleiri stöðum, og hefur komið í ljós að bara vegna áhafnarinnar eru á því miklir annmarkar. En það felst ekkert af þessu í raun og veru í þessari þáltill., heldur á, að mér skilst, að reyna að færa aflann á milli staða og hafa samvinnu einmitt um þetta. Eftir því sem samgöngurnar eru komnar í betra horf á landinu, eftir því er þetta auðveldara. Það hlýtur að vera skynsamlegt að reyna þetta.

Ég tala þarna af dálítilli reynslu, vegna þess að í okkar kjördæmi, eins og hefur komið hér fram, hefur það verið þannig t.d. á Raufarhöfn, að þar er einn togari og fólkið hefur aðra vikuna allt of mikið að gera, en hina vikuna ekkert. Og hvort tveggja kemur í ljós, að fólkið sættir sig ekki við þetta, það fer í aðra atvinnu ef það getur, og það leiðir svo til þess, að þessari vinnslustöð, sem er svo þýðingarmikil fyrir svæðið, helst ekki á besta fólkinu. Ef hefði verið hægt að jafna t.d. á milli staðanna, þá kæmi allt annað út.

Það hefur verið talað um jafnvel að ríkisreka skip. Það er út af fyrir sig mál sem ég ætla ekki að fara að ræða um — mál sem verður þá að taka ákvörðun um og gæti svo sem vel komið til greina. En ef það verður gert, þá held ég að verði að fela einhverjum ákveðnum stað að reka þetta skip til þess að miðla á milli. Það vill nú svo til, að þarna á Norðausturlandi, sem býr við ákaflega mikið vandamál, sem allir hér þekkja og hefur komið inn í þessar umr., eru þeir einmitt tilbúnir að prófa þetta. Ég vil skora á hv. þm. og ríkisstj. að gera þessa tilraun, að lofa þeim á Norðausturlandi að gera þá tilraun að gera út skip, leigja þeim skip til þess að miðla þar aflanum og reyna að koma í veg fyrir þá upplausn sem blasir við á þessum stað.

Ég vil taka undir það, sem kom fram í ræðu hv. þm. Árna Gunnarssonar, að það er mjög hart að liggja undir því að ekki skuli hafa verið staðið við þá samninga sem gerðir voru í sambandi við togarann Dagnýju, sem átti að landa á Þórshöfn og fékk þorskveiðileyfi einmitt í því skyni. Nú er komið fram í febrúar, og ég held að ég fari rétt með, að ekki sé búið að landa nema um 10% af því aflamagni sem var gert ráð fyrir að bærist þar á land vetrarmánuðina. Við sjáum því hvert stefnir í því máli, en fólkið þar er atvinnulaust af þessum ástæðum.

Mér þótti vænt um að það skyldi koma fram í þessum umr., að áhugi væri á því að prófa slíka útgerð. Nú er komið tilboð um að prófa þetta og reyna að bjarga atvinnuástandinu á þessum stað, og því vil ég endurtaka áskorun mína um að þetta verði gert og þetta sé reynt.