12.02.1979
Sameinað þing: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

Rannsókn kjörbréfs - varamenn taka þingsæti

Forseti (Gils Guðmundsson):

Mér hefur borist svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 9. febr. 1979.

Svava Jakobsdóttir, 10. þm. Reykv., hefur ritað mér á þessa leið:

„Þar sem ég er á förum til útlanda í opinberum erindum og mun því ekki geta sótt þingfundi á næstunni leyfi ég mér með skírskotun til 138, gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Alþb. í Reykjavík, Guðmundur J. Guðmundsson formaður Verkamannasambands Íslands, taki sæti á Alþingi í fjarveru minni.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Ingvar Gíslason,

forseti Nd.

Guðmundur J. Guðmundsson hefur áður tekið sæti á þessu þingi og kjörbréf hans verið rannsakað og býð ég hann velkominn til starfa.

Þá hefur mér borist svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 12. febr. 1979.

Formaður þingflokks Alþfl. hefur í dag ritað mér á þessa leið:

„Skv. beiðni Kjartans Jóhannssonar, 2. þm. Reykn., sem vegna utanfarar í opinberum erindum mun ekki geta sótt þingfundi á næstunni, leyfi ég mér skv. 138. gr. laga um kosningar til Alþingis að óska þess, að 1. varamaður Alþfl. í Reykjaneskjördæmi, Ólafur Björnsson útgerðarmaður í Keflavík, taki sæti á Alþingi í fjarveru hans.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt.

Jón Helgason,

forseti Ed.

Það stendur einnig þannig á, að Ólafur Björnsson hefur áður tekið sæti á Alþingi á þessu þingi og kjörbréf hans verið rannsakað og tekið gilt og býð ég hann velkominn til starfa.

Loks hefur mér borist svo hljóðandi bréf:

„Reykjavík, 7. febr. 1979.

Helgi F. Seljan, 3. þm. Austurl., hefur ritað mér á þessa leið:

„Skv. læknisráði mun ég ekki geta sótt þingfundi næstu þrjár til fjórar vikur. Ég óska hér með eftir því, að 2. varamaður Alþb. í Austurlandskjördæmi, Eiríkur Sigurðsson mjólkurbússtjóri, taki sæti á Alþingi í minn stað og kjörbréf hans verði rannsakað. 1, varamaður, Þorbjörg Arnórsdóttir húsmóðir, getur ekki sakir erfiðra aðstæðna tekið sæti á Alþingi nú um sinn. Þetta veikindaleyfi óskast veitt frá og með 12. febrúar n.k.“

Þetta er yður, herra forseti, hér með tilkynnt með ósk um að þér látið fara fram í Sþ. rannsókn á kjörbréfi varamanns.

Þorv. Garðar Kristjánsson,

forseti Ed.

Borist hefur kjörbréf til handa Eiríki Sigurðssyni, 2. varaþm. Alþb. í Austurlandskjördæmi, og einnig staðfest símskeyti frá 1. varamanni Alþb. í því kjördæmi, Þorbjörgu Arnórsdóttur. Vil ég biðja kjörbréfanefnd að gera svo vel að taka þessi gögn til athugunar og gef 10 mín. fundarhlé meðan kjörbréfanefnd starfar. — [Fundarhlé.]