12.02.1979
Efri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2495 í B-deild Alþingistíðinda. (1954)

161. mál, landflutningasjóður

Menntmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég vil mæla fyrir frv. til l. um landflutningasjóð.

Hinn 18. mars 1976 var samþ. á Alþ. þáltill. um stofnlánasjóð vegna stórra atvinnubifreiða og stórvirkra vinnuvéla. Þessi þáltill. var svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að komið verði á fót stofnlánasjóði eða stofnlánadeild, sem hefði það hlutverk að veita stofnlán til kaupa á vörubifreiðum, langferðabifreiðum og stórvirkum vinnuvélum.“

Samgrh. fyrrv. mun hafa skipað sérstaka n. í jan. 1977, — sem falið var það hlutverk að semja frv. til l. um þetta efni. N. þessi var skipuð embættismönnum og fulltrúum viðkomandi starfsgreina og skilaði áliti í nóv. 1977. Því miður var þar ekki um fullt samkomulag allra nm. að ræða, þar sem 7 nm. stóðu að meirihlutaáliti, en 2 voru í minni hl.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er að meginstofni til byggt á áðurgreindu meirihlutaáliti, en í samgrn. hafa þó verið gerðar ýmsar breytingar á frv. frá því að það kom frá n. Eru helstu frávikin þau, að Framkvæmdastofnun ríkisins er falið að hafa með höndum vörslu sjóðsins og ákvæði um framlög úr ríkissjóði eru almennar orðuð en var í frv. nefndarmeirihlutans.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir því samkv. 1. gr., að stofnaður skuli sjóður er nefnist landflutningasjóður. Ég vil strax taka það fram, að ég hef aldrei verið yfir mig hrifinn af þessu nafni frá því að ég sá það fyrst, en hef hins vegar ekki haft á reiðum höndum brtt. Ég vísa til n. að hún hugleiði hvort annað nafn gæti komið til greina, því að vissulega er það svo, að þeim farartækjum og flutningatækjum, sem hér um ræðir, er ekki ætlað að flytja land, heldur vörur á landi, og væri vissulega eðlilegt að nafnið væri rökréttara. Þó er ekki hægt að segja að þetta sé án fordæma, því að talað er um sjóflutninga þótt viðkomandi farartækjum sé ekki ætlað að flytja sjó. En sem sagt, n. getur hugleitt þetta nánar, og tel ég að væri vel farið ef hægt væri að finna annað nafn á sjóðinn.

Hlutverk sjóðsins er að stuðla með lánveitingum að bættum vöru- og fólksflutningum með stórum bifreiðum. Hér er rétt að vekja á því athygli, að stórvirkar vinnuvélar eru ekki meðtaldar. Í áðurgreindu meirihlutaáliti, sem fulltrúar Félags vinnuvélaeigenda stóðu að, sagði m.a. um þetta atriði:

„Nú er það svo, að framangreind tæki, þ.e. vinnuvélar, vöruflutningabifreiðar og langferðabifreiðar, eru óskyld og til ólíkra nota. Þau eru notuð til mannvirkjagerðar, til vöruflutninga og til fólksflutninga. Það, sem veldur því, að þessi tæki eru hér tekin til sameiginlegrar meðferðar, er það eitt, að almennt fást ekki lán til öflunar þeirra hjá starfandi fjárfestingarlánasjóðum, en svo er raunar um fleiri tilvik, þótt ekki séu þau til umfjöllunar hér. Með því að rekstur vinnuvéla er óskyldur flutningastarfseminni væri hinn fyrirhugaði lánasjóður sérhæfðari og hefði með að gera samstæðari verkefni, ef vandi fjármögnunar vinnuvéla yrði leystur á öðrum vettvangi. Af þessum sökum er hér lagt til, að lánveitingar til kaupa á vinnuvélum verði teknar upp hjá Iðnlánasjóði.“

Þessari stefnu hefur rn. fylgt við undirbúning málsins og er því ekki gert ráð fyrir að lán séu veitt til stórvirkra vinnuvéla, heldur er ætlast til að Iðnlánasjóður hafi það verkefni með höndum. Reyndar virðist það falla ágætlega að verksviði Iðnlánasjóðs.

Landflutningasjóður er sjálfstæð stofnun í eigu ríkisins skv. 2. gr. og lýtur yfirstjórn samgrh. Ráðh. skipar 5 menn í stjórn sjóðsins til 4 ára í senn og eru 4 stjórnarmenn tilnefndir af ákveðnum aðilum: Framkvæmdastofnun ríkisins, eigendum leigubifreiða til vöruflutninga, eigendum vöruflutningabifreiða í reglubundnum akstri og sérleyfishöfum og hópferðaleyfis höfum. Framkvæmdastofnun ríkisins er hér einn þeirra aðila sem ætlast er til að tilnefni í stjórn, vegna þess að skv. 3. gr. er stofnuninni falin varsla, umsjón og endurskoðun landflutningasjóðs skv. sérstökum samningi.

Tekjur landflutningasjóðs eru þær, að hann fær 2% gjald af starfsemi þeirra aðila sem rétt eiga á lánum úr sjóðnum. Einnig fær hann framlag úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Landflutningasjóði er að sjálfsögðu heimilt, að fengnu samþykki ríkisstj., að taka lán til starfsemi sinnar. Hér er um allnokkurt gjald að ræða, þar sem lagt er til að 2% af brúttótekjum þessara aðila renni til sjóðsins. En ég hef ástæðu til að ætla að eigendur þessara tækja vilji nokkuð vinna til að koma þessari starfsemi upp og vilji því taka á sig þessa fórn. Skv. lauslegri áætlun ætti þetta gjald að nema fast að 200 millj. kr. á fyrsta gjaldári, en til viðbótar kæmi þá mótframlag úr ríkissjóði eftir nánari ákvörðun síðar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., en legg til að að lokinni þessari umr. verði frv, vísað til hv. samgn.