12.02.1979
Efri deild: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

177. mál, húsaleigusamningar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Frv. það til l. um húsleigusamninga, sem hér er lagt fram, er flutt í samræmi við ákvæði í samstarfsyfirlýsingu aðildarflokka núv. ríkisstj., en þar segir m.a. svo, að ríkisstj. muni gangast fyrir því, að sett verði lög um réttindi leigjenda. Lagasetning um þetta efni er raunar einnig meðal þeirra félagslegu umbóta sem ríkisstj. hét launþegum að hraða undirbúningi að í aths. við frv. til l. um tímabundnar ráðstafanir til viðnáms gegn verðbólgu sem samþ. var hinn 30. nóv. s.l.

Frv. er samið af n., sem ég skipaði hinn 28. sept. s.l. Áttu sæti í henni Páll S. Pálsson hrl., eftir tilnefningu Hús- og landeigendasambands Íslands, Ragnar Aðalsteinsson hrl., eftir tilnefningu Leigjendasamtakanna, og Sigurður E. Guðmundsson framkvæmdastjóri, sem var formaður n. Auk þess starfaði með n. Georg H. Tryggvason sem gegnir starfi aðstoðarmanns míns.

Nefndinni var settur frestur til að ljúka störfum til 10. jan. s.l., og skilaði hún frv. ásamt grg. og aths. við einstaka kafla þann dag. Alls hafði hún þá haldið 27 fundi og hefur n. unnið bæði fljótt og vel að þessu máli.

Í grg. með frv. kemur fram að samkomulag er um það innan n. Þó er tekið fram að skoðanamunur hafi orðið um ýmis atriði og séu sum ákvæðanna því málamiðlun, en um frv. í heild náðist samstaða í n. og fylgja því engir fyrirvarar eða sérákvæði af hálfu einstakra nefndarmanna. Á þetta legg ég þunga áherslu.

Venjulega munu frv. um það efni, sem hér er fjallað um, hafa heitið frv. til húsaleigulaga. Nú er hins vegar lagt til að láta frv. heita frv. til laga um húsaleigusamninga. Er ástæðan sú, að í þessu frv., er ekki að finna sérstök ákvæði um fjárhæð húsaleigu eða hámark húsaleigu. Hefur orðið að ráði að skilja þann þátt frá þessu frv. sem fjallar almennt um réttarstöðu leigutaka og leigusala, en semja þess í stað sérstakt frv. um leigufjárhæðina. Sú n., sem samdi þetta frv., hefur fengið það verkefni einnig. Líklegt er að það frv. verði látið heita frv. til laga um húsaleigu.

Tvær ástæður eru til þess að skipa verkefninu með þessum hætti. Önnur er sú, að lög um fjárhæð húsaleigu geta reynst öllu forgengilegri og þarfnast tíðari breytinga en lög sem almennt fjalla um réttarstöðu aðila húsaleigusamninga. Eins kemur það til, að ákvæði um leigufjárhæð virðast til þess fallin að valda ágreiningi og deilum. Hefur slíkur ágreiningur a.m.k. tvisvar orðið setningu almennra húsaleigulaga fjötur um fót og átt þátt í að stöðva framgang þeirra. Því þykir ráðlegra að skipta nú verkefninu með þeim hætti sem ég hef lýst hér að framan.

Fróðlegt hefði verið að gera hér nokkra grein fyrir því, hvernig löggjöf um leiguhúsnæði hefur þróast hér á landi frá því lög voru hér fyrst sett um þetta efni árið 1917. Má í stuttu máli fullyrða að um slíka lagasetningu hefur ætíð staðið töluverður styrr og ýfingar orðið með mönnum bæði innan þings og utan. Frv. um þetta efni hafa ekki náð að öðlast lagagildi nema á tímum heimsstyrjalda, að frátöldum minni háttar breytingum, og ítarlega lagabálka dagaði uppi á Alþingi bæði árið 1949 og aftur árið 1951. Þessi saga er rakin í aths, með frv. og mun ég því ekki endurtaka hana hér.

Það er ljóst, og um það vitnar raunar reynslan glöggt, að setning húsaleigulaga er vandasamt verk. Þar þarf að rata hinn gullna meðalveg, eins og oft endranær. Þótt ekki liggi fyrir um það óyggjandi upplýsingar, virðist næsta öruggt að fullyrða megi, að um 45–50 þús. manns eða sem næst 20% þjóðarinnar búi í leiguhúsnæði hér á landi. Þessi mikli fjöldi fólks hefur óumdeilanlega búið við tilfinnanlegt öryggisleysi. Samningsstaða þess hefur verið veik gagnvart leigusölum vegna þess skorts sem hér hefur verið og er enn á leiguhúsnæði. Takmark leigulöggjafar hlýtur því að vera það fyrst og fremst að veita þessu fólki aukna vernd, treysta réttarstöðu þess og öryggi. En jafnframt ber nauðsyn til að kveða á í meginatriðum um réttarstöðu beggja aðilanna, eyða margvíslegri réttaróvissu og stuðla eftir föngum að því, að viðskipti leigusala og leigutaka séu sem aðgengilegust og öruggust og sambúð þeirra sem best.

Veigamikill þáttur í því að veita leigjendum aukna vernd er auðvitað sá að fæla húseigendur ekki frá því með of einstrengingslegu lagaboði að selja á leigu það húsnæði sem þeir hafa til ráðstöfunar. Það er skoðun mín, að fyrri tilraunir til setningar leigulaga hafi öðru fremur strandað á því, að þær hafi verið of einhliða, þær hafi gengið nær eðlilegum ráðstöfunarrétti húseigenda á eigum sínum en samrýmst hefur réttarmeðvitund fólks og gert leigusölum í heild upp langtum verra innræti en nokkur efni standa til.

Ég leyfi mér að tilfæra til skýringar þessum orðum mínum eftirfarandi klausu úr umsögn Félags húseigenda um húsleigufrv. frá 1949. Þar segir svo um 19. gr. m.a., með leyfi forseta, „að þessar sífelldu endurtekningar um svik og sviksemi af hálfu leigusala séu algerlega óþarfar, því sem betur fer sé íslensk dómvenja á því menningarstigi, að þess háttar atferli af hálfu einhvers málsaðila mundi ekki hljóta náð fyrir augum íslenskra dómstóla, allir þessir sviksemivarnaglar séu því til þess eins fallnir að ergja þá sem lesa frv. yfir og finna að þeim er nær eingöngu beint gegn öðrum aðilanum“.

Ég hygg að í því frv., sem hér er til umfjöllunar, hafi tekist að sneiða hjá þessum ágöllum. Aðilum er þar ekki gerð upp nein sviksemitilhneiging og eðlilegt ráðstöfunarfrelsi húseigenda ekki skert umfram það sem nauðsynlegt er til að hægt sé að veita leigutökum eðlilega og sanngjarna lágmarksvernd.

Í aths. með frv. kemur fram að n. sú, sem það samdi, hefur aflað sér mjög viðamikilla gagna, m.a. húsnæðislöggjafar hinna Norðurlandanna. Frv. er hins vegar ekki sniðið eftir neinum einstökum erlendum lögum, heldur er það nýsmíði frá grunni og þá auðvitað lagað að íslenskum staðháttum, þar sem fullt tillit er tekið til þeirrar venju sem skapast hefur í leiguskiptum manna í milli hér á landi þar sem slíkar venjur eru eftirbreytniverðar.

Frv. fylgja ítarlegar aths. við einstaka kafla og greinar þess, og ætla ég ekki að eyða dýrmætum tíma þingsins í upplestur á þeim. Læt ég því við það eitt sitja að geta þeirra nýmæla sem í því eru og mestu máli skipta.

Í I. kafla frv. er ekki margt sem ástæða er til að geta sérstaklega. Gildisvið laganna er þar skilgreint og tvímæli tekin af um það í 2. gr., að lögin eru almennt óundanþæg nema annars sé sérstaklega getið. Þá er með 3. gr. tekin af vafi um réttarstöðu sambýlisfólks og ákveðið að hún sé hin sama og hjóna, enda þykir það samrýmast best réttarvitund nútímans. Skilgreining á sambúð er nokkuð rýmkuð frá því sem er í almannatryggingalögunum.

1 II. kafla eru ákvæði sem lúta að gerð leigumálans. Eru það nýmæli hér á landi, þótt alþekkt sé víða erlendis, að skylda til útgáfu sérstakra eyðublaða fyrir leigumála eða til að staðfesta slík eyðublöð, þótt aðrir gefi þau út, er lögð á það rn. sem húsnæðismál falla undir. Nauðsynlegt hefur þótt að stemma með þessum hætti stigu við þeirri fjölskrúðugu eyðublaðaútgáfu, sem nú tíðkast og þykja sum hver ekki óvilhöll eða til þess fallin að stuðla að öryggi í viðskiptum leigusala og leigutaka.

Lagt er fyrir að gera leigumála skriflegan svo og allar þær breytingar eða viðbætur sem síðar kunna að reynast nauðsynlegar. Er þetta sjálfsögð regla og í samræmi við venjur. Heimilt verður áfram að gera leigumála til ákveðins tíma eða ótímabundna, eftir því sem aðilar kjósa sjálfir. Kemur þó skýrt fram í grg., að höfundar frv. telja að tímabundnir samningar séu stundum misnotaðir, bæði til að þrengja óeðlilega kost leigutakans, sem haldið er í óvissu um hvert framhald verði á afnotum hans, en stundum einnig til að knýja fram frekari hækkun leigunnar en heimilt er skv. ákvörðun stjórnvalda. Loks fylgir tímabundnum samningum það óhagræði, að þeim getur lokið hvenær sem er ársins. Leigutaki, skv, slíkum samningi er því firrtur þeirri vernd sem er fólgin í ákvæðum laganna um fardaga.

Þrátt fyrir þessa vankanta hefur ekki þótt rétt að leggja til að bannað sé með öllu að gera samninga tímabundna. Í stað þess er leigusala með ýmsum ákvæðum boðið tiltekið hagræði, ef samningstíminn er lengdur frá því sem nú er almennast. Auk þess eru heimildir hans til uppsagnar og breytinga á leigukjörum þrengdur nokkuð með 8. gr. frv, þegar samningur er gerður ótímabundinn. Telja nm. þetta vænlegri kost en að beita fortakslausu banni, sem þeir telja að gæti reynst tvíeggjað og óvíst sé að samrýmist réttarvitund fólks. Þótt einhverjum kunni að þykja ákvæðin um forleigurétt nokkuð ströng í garð leigusala, verður að meta þau með hliðsjón af því mikla óhagræði og öryggisleysi, sem tímabundnir samningar valda oft leigutökunum, og þeirri hættu á misbeitingu, sem óumdeilanlega er samfara slíkum leigumálum. Einnig er þess að gæta, að leigusali á þess ætíð kost að breyta leigumálanum í venjulegan ótímabundinn samning, og falla þá niður allar forleigukvaðir.

Mikilsvert er einnig fyrir leigusala að forleiguréttur tekur ekki til íbúðar sem hann leigir í sama húsi og hann býr í sjálfur. Þykir ekki rétt að beita neinum þvingunum þegar sambýli er svo náið og ýmis atriði, sem þó eru ekki uppsagnar- eða riftunarástæður, eins og t.d. almennt samkomulag fólks, geta farið að skipta verulegu máli.

Í III kafla eru ákvæði um uppsögn leigumála og leigufardaga. Meðal nýmæla í þessum kafla eru ákvæði um að uppsagnarfrestur á íbúðarhúsnæði lengist, þegar leigusamband aðila hefur varað tiltekið árabil. Sú tilhögun þykir réttlætast af því, að til gagnkvæms trausts hafi stofnast með aðilum þegar samband þeirra hefur staðið lengi án þess að tilefni gæfist til riftunar eða uppsagnar leigumála. Það er jafnframt miklu meira átak fyrir leigutaka að rífa sig upp frá þeim stað sem hann hefur búið á í langan tíma. Slíku fylgja oft margvísleg óþægindi, kostnaður og röskun sem bitnar ekki síst á börnum, þegar þeim er til að dreifa.

Að því er atvinnuhúsnæði varðar er uppsagnarfresti settur nokkuð rúmur rammi, enda geta aðstæður verið mjög misjafnar þar. Ákvæði 16. gr. um tilkynningarskyldu leigusala, þegar leigumáli er tímabundinn, er nýmæli, en sjálfsögð tillitssemi við leigutaka og raunar nauðsynleg vegna forleiguréttarins.

Smávægileg tilfærsla er gerð á fardögum. Hefur fyrri fardagur hingað til verið talinn 14. maí, en er nú fluttur aftur til l. júní. Er þetta einkum gert með tilliti til skólagöngu barna.

Loks er í 18. gr. lagt til að lögfest sé almenn heimild fyrir fógeta til takmarkaðrar framlengingar á leigutíma á grundvelli hagsmunamats og almennra sanngirnissjónarmiða.

Í IV. kafla er fjallað um riftunarástæður og er hann að mestu í samræmi við það sem ætla má að hér væri talið gilda. Í 23. gr. er þó nýmæli sem heimilar fógeta að láta málskot til Hæstaréttar fresta verkun útburðarúrskurðar gegn hæfilegri tryggingu og þegar sérstakar aðstæður mæla með slíkri frestun. Með þessu er sköpuð leið til að komast hjá þeim kostnaði og vandkvæðum sem af því mundu hljótast ef leigusali lætur bera leigutaka út úr húsnæði skv. úrskurði fógetaréttar og leigir það jafnvel öðrum, en Hæstiréttur kemst síðan að þeirri niðurstöðu, að skilyrði til útburðar hafi ekki verið fyrir hendi, og hafnar útburðarbeiðni.

Í V. kafla er fjallað um afhendingu og skil leiguhúsnæðis. Er hér kveðið á um það, í hvaða ástandi leiguhúsnæði skal vera þegar það er afhent leigutaka og þegar hann skilar því aftur að leigutíma loknum. Að meginefni til eru ákvæðin í samtæmi við þær reglur sem hér hafa verið taldar gilda, en vafi er tekinn af í nokkrum efnum. Helstu nýmælin eru ákvæði um úttektarmenn, sem ég mun víkja nánar að síðar, og ákvæði um úttekt leiguhúsnæðis í upphafi og lok leigutíma. Er hér gerð tillaga um einfalda leið sem er vel til þess fallin að afstýra ágreiningi eða auðvelda sönnun í deilumálum er varða hugsanlega hótaskyldu leigutaka vegna meðferðar hans á hinu leigða húsnæði. Slík deilumál munu vera einn algengasti ásteytingarsteinninn í leiguviðskiptum. Áþekkar reglur munu þekkjast erlendis. Og mér er kunnugt um að a.m.k. eitt sveitarfélag hér á landi, sem á töluvert af leiguhúsnæði, hefur haft slíkt úttektarákvæði í leigusamningum sínum um árabil. Þykja þau hafa gefið góða raun.

Í VI. kafla er fjallað um viðhald leiguhúsnæðis. Er brýn þörf á föstum reglum um þetta efni því það hefur verið mjög á reiki hér á landi, bæði í húsaleigusamningum og í framkvæmd, hvernig kostnaði af viðhaldi er skipt milli aðila. Sú meginstefna er hér mörkuð að leigusali skuli annast allt viðhald íbúðarhúsnæðis á sinn kostnað. Hlýtur sú stefna að teljast eðlileg, enda í samræmi við það sem tíðkast með nálægum þjóðum. Margvíslegt smávægilegt viðhald innanhúss er þó lagt á leigutaka. Eru það einkum atriði sem kosta lítil fjárútlán, en mundu hins vegar oft geta bakað leigusölum mikla fyrirhöfn og ónæði vegna tíðra smábilana. Á leigutaka er einnig lagt viðhald á rúðum og tækjum, sem getur að vísu orðið töluvert kostnaðarsamt, en umgengni hans og meðferð þessara hluta ræður miklu um viðhaldsþörfina. Áhætta leigutaka nær þó í þeim tilvikum ekki lengra en til þess tjóns sem ekki er bætt af venjulegri húseigandatryggingu. Er því beinlínis hvatt til þess, að leigusalar kaupi slíka tryggingu. Gegn ákveðnum skilyrðum er svo heimilt að semja um aukna þátttöku leigutaka í viðhaldi innanhúss, ef leigumáli er gerður til lengri tíma en 2 ára. Er sú regla dæmi um þá viðleitni, sem víða verður vart í frv., að hvetja til þess, að leigumálar verði gerðir til lengri tíma í senn en nú tíðkast almennt.

Í þessum kafla eru einnig ákvæði um meðferð leigutaka á húsnæðinu og fylgifé þess, ábyrgð á því tjóni, sem hann verður valdur að og viðgerðarskyldu hans. Auk þess er almenn vísiregla um það, í hvernig ástandi leigusali skal halda húsnæðinu meðan á leigutíma stendur.

Í VII. kafla er fjallað um greiðslu rekstrarkostnaðar. Þótt öll ákvæði þessa kafla séu nýmæli í hérlendri löggjöf, munu þau að mestu í samræmi við það sem tíðkast hefur. Er þó mikils um vert að fá skýrar reglur um þetta efni, einkum um skiptingu og greiðslu slíks kostnaðar í fjölbýlishúsum. Ákvæði 45. gr. er sett gagngert vegna þeirra miklu hitaveituframkvæmda sem nú eru í gangi víða um land. Er með því reynt að sporna gegn því, að menn dragi úr hömlu að láta tengja slíkum veitukerfum húseignir sem þeir hafa selt á leigu til langs tíma, þar sem sparnaðurinn kemur leigutakanum einum til góða, en húseigandinn þarf hins vegar að leggja út allan tengi og stofnkostnað, sem oft er veruleg fjárhæð. Má ætla að þetta ákvæði geti bæði reynst hlutaðeigandi hitaveitum hagkvæmt og einnig þjóðfélaginu í heild, eins og raunar allt það sem stuðlað getur að minnkun innflutnings á olíu, svo uggvænlega sem nú horfir í þeim efnum.

Í VIII. kafla er fjallað um umgengnisskyldur og réttindi. Miða ákvæði þessa kafla einkum að því að lögfesta reglur sem myndast hafa í samskiptum leigusala og leigutaka. Ákvæði um rétt leigusala til að sýna húsnæðið væntanlegum leigutökum er nýmæli sem ætti að firra leigutaka óþarft ónæði og ágang. Þá eru og tekin af tvímæli um það, að leigusala húsnæðis, sem er í fjölbýlishúsi, ber skylda til að sjá um að aðrir þeir, sem í húsinu búa eða starfa, fari að settum umgengnisreglum. Er aðstaða hans í því efni auðvitað mun sterkari en leigutakans.

Í IX. kafla er fjallað um greiðslu húsaleigu og tryggingarfé. Lagt er til, að húsleiga greiðist að jafnaði fyrir fram fyrir einn mánuð í senn, sem mun aðalreglan nú. Með ákvæðum 51. gr. eru því settar skorður, hve mikla fyrirframgreiðslu leigutaki verður krafinn um, bæði í upphafi leigutímans og síðar á honum. Er hér reynt að sporna gegn þeirri óhóflegu kröfugerð sem nú þekkist í þessum efnum. Ákvæðinu um tryggingarfé er ætlað að stuðla að bættri umgengni um leiguhúsnæði og vera leigusölum vörn gegn því, að leigutakar hlaupist brott frá ógreiddri leigu eða ógreiddum spjöllum á húsnæðinu. Tryggingarféð kemur að nokkru í stað fyrirframgreiðslu, því leigutaki verður ekki samtímis greiðslutryggingarfjár eða framvísun bankatryggingar krafinn um leigugreiðslu fyrir fram nema til eins mánaðar í senn.

Í X. kafla er fjallað um framsal leiguréttar, réttaráhrif þess á leigumála er leigutaki andast, um áhrif hjúskaparslita o.fl. óhætt mun að fullyrða að með lögfestingu þessara ákvæða væri mikilli réttaróvissu eytt og deilumálum afstýrt.

Í 61. gr. felst nýmæli sem varðar atvinnuhúsnæði og ég ætla að geti haft töluverða fjárhagsþýðingu. Það getur skapað mikla erfiðleika þegar t.d. dánarbú vill selja atvinnustarfsemi, sem hinn látni stundaði í leiguhúsnæði, en leigusali hafnar aðilaskiptum og riftar leigumálanum. Markaðsverð slíkrar starfsemi getur bókstaflega oltið á því, hvort afnot húsnæðis fylgja eða ekki. Í tengslum við húsnæðisafnotin getur atvinnustarfsemi verið mjög verðmæt, t.d. gróin verslun með langa viðskiptahefð og viðskiptavild, en aðeins verðlitlar vörubirgðir, ef húsnæðið fylgir ekki. Af þessum sökum er í frv. sett ákvæði sem reisir skorður við uppsögn af hálfu leigusala þegar dánarbú eða þrotabú leigutaka vill selja atvinnustarfsemi sem hinn látni rak í leiguhúsnæði, og söluverð starfseminnar er háð áframhaldandi afnotum húsnæðisins. Það skilyrði er þó sett með tilliti til hagsmuna leigusala, að afnot húsnæðisins haldist óbreytt áfram. Sama regla gildir eftir atvikum þegar ástæða sölunnar er sambúðar- eða hjúskaparslit.

Annað nýmæli er fólgið í 62. gr., þar sem skorður eru reistar við því að starfsmaður, sem fær afnot af leiguhúsnæði í tengslum við starf sem hann ræðst í, sé látinn víkja úr húsnæðinu fyrirvaralaust samhliða uppsögn úr starfi, glati þannig samtímis atvinnu sinni og húsnæði. Það er þó að sjálfsögðu skilyrði, að starfsmaðurinn hafi ekki látið af starfanum að eigin ósk eða verið löglega vikið úr starfi vegna brota í því.

Í XI. kafla eru ákvæði um úttektarmenn, sem eru nýmæli í húsaleigulöggjöf hér á landi. Er hér reynt að finna einfalda og skjótvirka leið til sáttaumleitana í ágreiningsmálum leigusala og leigutaka, jafnhliða því að leggja grundvöll að því að réttar og glöggar upplýsingar geti legið fyrir um ýmislegt það sem til þess er fallið að valda deilum síðar. Auðvitað orkar það ætíð tvímælis í byrjun, hversu virk svona nýmæli muni reynast þegar að framkvæmdinni kemur. Það verður að koma í ljós. Hins vegar ber þess að gæta, að það fyrirkomulag, sem hér er lagt til, á sér ýmsar hliðstæður sem góð reynsla hefur fengist af. Dómkvaðning úttektarmanna fer fram með sama hætti og virðingarmanna fasteigna til brunabótamats. Er af þeirri tilhögun fengin góð reynsla. Störfum sínum munu þeir haga með áþekkum hætti og úttektarmenn skv. ábúðarlögum eða matsmenn íbúða framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, þótt verksvið úttektarmanna leiguhúsnæðis sé skv. frv. töluvert víðtækara en þessara manna. Hliðstæða er þekkt í húsaleigulöggjöf annarra Norðurlanda, þar sem svonefndir „mellemmænd“ koma við sögu. Ég hef þá trú, að með tímanum eigi eftir að komast föst skipan á störf úttektarmanna, a.m.k. í stærri kaupstöðum landsins, og að tilvist þeirra eigi eftir að stuðla að bættum og árekstraminni samskiptum leigutaka og leigusala. Sú er a.m.k. von mín.

Í XII. kafla eru ákvæði um leigumiðlanir. Með þeim er leitast við að koma fastari skipan á þessa starfsemi en verið hefur til þessa. Hygg ég að á því sé full þörf. Lagt er til að leigumiðlara verði heimilt að annast ýmislegt fleira en það eitt að koma á leigumála. Hann getur tekið að sér umsjón með viðhaldi, innheimtu leigufjár og raunar almennt eftirlit með framkvæmd leigumála. Er talið að þetta geti ýtt undir það, að meira húsnæði kæmi til ráðstöfunar á leigumarkað, einkum frá eldra fólki sem óttast deilur og amstur samfara útleigu húsnæðis.

Almennt held ég að ákvæði þessa kafla séu til þess fallin að auka festu og öryggi við gerð leigumála, því leigumiðlara ber að gæta fyllsta hlutleysis í starfi gagnvart báðum aðilum, stuðla að því að aðilar geri sér ljósari grein fyrir réttindum sínum og skyldum og réttaráhrifum leigumála, auk þess að auðvelda lausn ágreiningsmála með öruggri varðveislu skjala sem snerta samningsgerðina.

Í XIII. kafla eru ákvæði um kynningu laganna sem er mjög ítarlega skýrð í aths. með frv., og læt ég nægja að vísa til þeirra. Ég álit að þetta sé eitthvert mikilvægasta nýmæli frv., sem gjarna mætti verða fyrirmynd við ýmsa aðra lagasetningu, þegar framkvæmd laga veltur að miklu leyti á því, að almenningi sé kynnt efni þeirra rækilega og með öllum tiltækum ráðum.

Um refsiákvæði XIV. kafla og gildistökuákvæði XV. kafla er ekki nauðsynlegt að fjalla hér. Ég vísa um þau til aths. með frv. Sama gildir um bráðabirgðaákvæði.

Þetta fer að verða æðilöng framsaga, enda frv. til laga um húsaleigusamninga efni í mikinn lagabálk.

Herra forseti. Ég vil að lokum ítreka það, að hér er fjallað um efni sem snertir ótrúlega stóran hluta þjóðarinnar beint og enn fleiri óbeint, — efni sem sárlega hefur vantað um skýr ákvæði í löggjöf um langt árabil. Ég lýsi þeirri von minni, að frv. fái greiða leið í gegnum þingið og hljóti hið allra fyrsta afgreiðslu með þeim breytingum eða endurbótum sem hv. þm. kann að þykja til bóta að gera á því.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað að lokinni þessari umr. til félmn. þessarar hv. d. og 2. umr.