12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

37. mál, meðferð opinberra mála

Páll Pétursson:

Herra fundarstjóri — afsakið, herra forseti. Ég er nú hálfpartinn enn á miðstjórnarfundi Framsfl., en ég verð að gera mér grein fyrir því að hann er liðinn og ég er kominn í annan ræðustól en þar.

Sennilega er hér um allgott mál að ræða. Eins og hv. flm. rakti áðan hafa samtök lögmanna og menn, sem starfa að þessum málum, áhuga á framgangi málsins og hafa e.t.v, líka haft nokkurt frumkvæði um að það er flutt, en þetta hefur verið á döfinni og til umræðu hjá þessum aðilum.

Réttaröryggi fólksins í landinu þarf náttúrulega að tryggja, og það er mikið mál. Hins vegar get ég ekki neitað því, að ég varð hálfhissa á hv. þm. Alþfl. þegar hann hóf máls á þessu máli, ekki fyrir það að hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson hafi ekki lögfræðilega þekkingu til að bera og sé ekki sjálfsagt ljós nauðsyn málsins, en mér finnst að með því að hafa frumkvæði um þetta sé hann að nefna snöru í hengds manns húsi. Ég held að það hefði verið ekki síður mikilvægt að setja skorður við blaðamennsku af því tagi sem einn af hv. fyrrv. forsetum þingsins kallaði ofsóknarblaðamennsku. Ég vil leyfa mér að vitna til skaðsemi hennar.

„Eru mörg dæmi þess,“ segir með leyfi forseta í grg., „að menn, sem síðar reyndust saklausir, hafa þurft að sitja langtímum saman í varðhaldi. Enn fremur þekkist það, að mönnum er haldið inni lengur en brýnustu rannsóknarþarfir krefjast. Þetta á vafalaust rætur að rekja til þeirrar áherslu sem dómstólar leggja á að knýja fram játningu sökunauts, og er gæsluvarðhald áhrifaríkt tæki í því skyni.“

Og síðar segir í grg., með leyfi forseta:

„Rangar sakargiftir geta auðveldlega orðið til þess, að menn verði hnepptir í gæsluvarðhald, og eru þess sorgleg dæmi.“

Þetta get ég allt saman tekið undir. Það er ljótt að bera óvini sína ósönnum sökum. Ég er tilbúinn að rekja úr dagblaðasafni Alþingis hvernig menn hafa með sakfellingu almenningsálits í nafni rannsóknarblaðamennsku dróttað hlutum að mönnum, þannig að menn hafa verið hnepptir í gæsluvarðhald, og dagblöð, dálkahöfundar og almenningsálit hafa kveðið upp sektardóma yfir mönnum, sem setið hafa í gæsluvarðhaldi, en síðar reynst saklausir. Ég get meira að segja rakið dæmi þess, að blaðamenn af þessu tagi hafa reynt að koma höggi á pólitíska andstæðinga og jafnvel á heila stjórnmálaflokka með ósönnum aðdróttunum um ólögleg samskipti við menn sem setið hafa í gæsluvarðhaldi.

Um leið og ég tek það fram, að ég styð þetta frv., þakka flm. fyrir að drífa í að flytja það, þá held ég að það sé enn brýnna verkefni að setja skorður við blaðamennsku af þessu tagi.