12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (1961)

37. mál, meðferð opinberra mála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Ég þarf varla að fara um það mörgum orðum að málið, sem hér er til umr., flutt af hv. þm. Finni Torfa Stefánssyni, er auðvitað sjálfsagt réttlætismál, sem fjallar um að auka réttaröryggi, tryggja að menn séu ekki beittir misrétti þegar verið er að varðveita hagsmuni samfélagsins alls. Hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson hefur flutt rök fyrir máli sínu, sem ég hygg raunar að séu svo sjálfsögð að ekki þurfi að hafa fleiri orð málinu til stuðnings. Hér er vakið máls á sjálfsögðu réttlætismáli, sem væntanlega mun eiga greiðan gang í gegnum þingið.

En það horfir öðruvísi við þegar helstu nátttröll þingsins koma til að mæla fyrir þessu máli og fara blanda inn í það allsendis óskyldum hlutum. Að helsta nátttröll þingsins, hv. þm. Páll Pétursson, sá sóma sinn í því er raunar ekki einsdæmi í flokki hans, hvorki sögulega né að öðru leyti. Nú um helgina var verið að rifja upp í einu af dagblöðum landsins þegar ágreiningur varð um stafsetningu á stríðsárunum og formaður flokks hv. þm. skrifaði forustugrein í blað sitt þar sem hann lagði til að þeir, sem notuðu ólögbundna stafsetningu, yrðu settir í þrælkunarvinnu, hvorki meira né minna, og er augljóst að þetta er enn hugarfar þessara helstu nátttrölla þessarar hv. stofnunar.

Þm. er að blanda inn í umr. um þetta sjálfsagða mál því sem kallað hefur verið rannsóknarblaðamennska. Mér sýnist að hann vilji þyngja mjög verulega öll viðurlög við slíku.

Ég geri mér fullkomlega ljóst að þetta kemur ekki því máli, sem Finnur Torfi Stefánsson flytur, á minnsta hátt við, en þar sem þm. gefur tilefni til þess, að þetta sé rifjað upp í örfáum orðum, er auðvitað sjálfsagt að verða við þeirri óbeinu ósk hans.

Það, sem hann væntanlega á við, þó hann nefni það ekki beinum orðum, — í sumum flokkum eru menn öllu skýrari en í öðrum stjórnmálaflokkum og nefna hlutina sinum réttu nöfnum, — eru blaðaskrif sem urðu fyrir u.þ.b. þremur árum og fjölluðu um svokölluð Klúbbmál. Ef honum þykir ástæða til að þessi mál séu reifuð í sambandi við þetta frv. hv. þm. Finns Torfa, þá er það auðvitað sjálfsagt mál.

Þetta hafa ekki allir gert sér ljóst og m.a. ekki hv.1. þm. Austurl., Lúðvík Jósepsson,sem ruglaði hlutum nokkuð ósæmilega í blaðagrein nýverið, að þessi blaðaskrif fjölluðu um málefni veitingahúss í Reykjavík og afskipti rn. Þau fjölluðu um ólöglega áfengisflutninga og afskipti rn. Þrátt fyrir ábendingar embættismanna var ekkert aðhafst. Svo gerðist það seinna, og það var allt annað mál, að aðstandendur þessa sama veitingahúss voru með hræðilegum hætti — það vitum við nú — bornir ósönnum sökum og blandað inn í afar óhugnanleg mál. Þetta voru hins vegar og eru tvö algjörlega aðskilin mál. En menn hafa séð sér hag í því, svo sem ljóst var af máli síðasta ræðumanns, að rugla þessu saman og gera að einu og sama málinu og koma með aðdróttanir um að það hafi verið gerð tilraun til að blanda dómsmrh.inn í morðmál, svo notuð séu orð hv. 1. þm. Austurl.

Ég vek á því athygli að þrátt fyrir þá áróðursherferð, sem farin hefur verið, var hér um að ræða tvö algjörlega óskyld mál og í öllum skrifum svonefndra rannsóknarblaðamanna, ekki aðeins þess, sem hér talar, heldur annarra, var það frá upphafi mjög rækilega undirstrikað, og það er hagur allt annarra en okkar að gera þetta að einni og sömu bendunni, einum og sama hnútnum. Það höfðu farið fram afar óviðurkvæmileg afskipti á þessum tíma. Sú var skoðun embættismanna í dómskerfinu, svo sem rækilega var rakið í blaðaskrifum og með gögnum. Ég veit vel hverra hagur það er að blanda þessu saman, gera þetta að einu og sama málinu, gera engan greinarmun á ólöglegum áfengisflutningum annars vegar, efnahagslegum afbrotum af því tagi sem þar áttu sér stað, og hins vegar morðmáli. Og þeim hefur tekist það, ræðumönnum á borð við þann síðasta, að rugla jafnágæta menn í ríminu og hv. þm. Lúðvík Jósepsson. Ég veit að hann vill fara með satt og rétt mál, en er orðinn ruglaður í ríminu vegna þessara sagna, sem voru á borð bornar í síðustu ræðu og hafa verið ítrekaðar aftur og aftur. Ég veit hins vegar að þingheimur veit, eða allur þorrinn, þ.e.a.s. auðvitað þeir sem vilja vita, að hér var um tvö aðskilin mál að ræða. Það þurfti að greina rækilega þar á milli. Það var enginn dómfelldur fyrir fram. Það er rangt. Það er söguburður sem eftir á hefur fram komið.

Hv. þm. Páll Pétursson bað um þennan útúrdúr, og hann hefur fengið hann. Það kemur að sjálfsögðu ekki því sjálfsagða réttlætismáli við sem hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson hefur flutt. Það fjallar um að auka öryggi einstaklingsins í landinu gagnvart ópersónulegu kerfi. Af undirtektum, sem það hefur fengið hér í hv. deild, er ekki annað að heyra og sjá en að málið muni eiga nokkuð greiðan gang í gegn og því ber auðvitað mjög að fagna. En bæði á þessum vettvangi og öðrum, vilji hv. þm. Páll Pétursson eiga við mig eða aðra orðastað um þessi mál, þá er það auðvitað velkomið. Ég held það sé honum og öðrum þeim, sem honum standa nálægt, hollt að athuga þessi mál betur. Þjóðin veit um hvað þessi mál snerust. En ef hann óskar, þá er ég til.