12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

37. mál, meðferð opinberra mála

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að gera þessa aths. Mér þykir fyrir því að vera búinn að tala mig dauðan í þessu máli í bili, og ég skal vera stuttorður. Ég er með ljósrit úr Vísi frá sama ári, sama degi og hv. þm. var að tilgreina. Þetta er föstudagurinn 30. jan. 1976. Ég vil fá að lesa frétt sem birtist þar á forsíðu. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alvarlegar ásakanir á hendur dómsmrn. Sakað um að hefta rannsókn í Geirfinnsmálinu“ — í Geirfinnsmálinu, takið eftir.

„Í föstudagsgrein sinni í Vísi í dag gerir Vilmundur Gylfason harða hríð að dómsmrn. fyrir afskipti þess af rannsóknum mála. Hann segir að tvisvar sinnum hafi rn. haft óeðlileg afskipti af slíkum málum. Á einum stað í greininni segir Vilmundur:

„Á meðan rannsókn stóð sem hæst vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar s.l. vetur, var maður nokkur yfirheyrður af lögreglumönnum og ýmsar athuganir gerðar á högum hans. Þar var á vettvangi sami maður og nú hefur aftur og vegna annarra upplýsinga verið hnepptur í gæsluvarðhald. Þegar lögreglumenn voru að yfirheyra hann kom bréf frá dómsmrn. Þar var efnislega lögreglumönnum sagt að hætta að áreita þennan mann. Féll málið mikils til niður og var það svo, þangað til nú fyrir nokkrum dögum. Í a.m.k. annað sinn hindraði dómsmrh. gang réttvísinnar, og það hefði hugsanlega getað verið í eitt skipti fyrir öll. En nú hafa þessi mál fengið á sig nýja mynd.“

Vísir hafði samband við Vilmund Gylfason og spurði hann, hverjar heimildir hans væru fyrir þeim ásökunum sem hann ber dómsmrn. „Heimild mín fyrir síðara dæminu sem ég nefni er Haukur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður úr Keflavík.“ — Það var sannleiksvitnið. — „Einnig hafði blaðið samband við dómsmrh. Ólaf Jóhannesson og spurði hann, hvort rétt væri að dómsmrn. hefði í tvígang heft framgang réttvísinnar í þeim málum sem Vilmundur nefnir í grein sinni. En dómsmrh. neitaði að tjá sig um málið fyrr en hann hefði kynnt sér ásakanir þær sem bornar eru á rn. Blaðamaður bauðst þá til að lesa upp hverjar þær ásakanir væru, en allt kom fyrir ekki, engin yfirlýsing fékkst.“

Undir þessari grein standa stafirnir ÁG/VS. Ég hygg að það séu ekki framsóknarmenn.

Hérna segir svo, neðar á sömu síðu, næsta grein heitir: „Átti að sitja inni vegna dauða þriggja manna.“ — Eitthvað hefur þetta nú skolast í minni hv. þm.

Ég gleymdi áðan að nefna eina grein enn sem um þetta mál fjallar. Hún er að vísu ekki eftir hv. þm. Vilmund Gylfason, hún er eftir rannsóknarblaðamann, sem heitir Þorsteinn Thorarensen, og birtist í Dagblaðinu föstudaginn 6. febrúar 1976. Hún heitir: „Að þagga niður.“ Greinin er myndskreytt, þar er mynd af þáv. dómsmrh. og á bak við brotið gler. Samtök í Ameríku sem ég vil nú síður nefna, „hantéra“ svona ljósmyndir af andstæðingum sínum.