12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2510 í B-deild Alþingistíðinda. (1965)

37. mál, meðferð opinberra mála

Vilmundur Gylfason:

Herra forseti. Það er sjálfsagt að skemmta þingheimi örlitla stund lengur, enda hefur hann vafalaust mikinn áhuga á þessum málum. Ég sakna þess að hæstv. fyrrv. dómsmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur, en því valda vafalaust miklar annir.

Kjarni málsins er sá, hv. þm. Páll minn Pétursson, að í þessari forsíðufrétt, sem þú last, var þetta sami maðurinn. Og vandi þessa var sá, að þegar við höfum búið við langvarandi dugleysi, langvarandi spillingu, langvarandi ósæmileg afskipti í einhverju kerfi eða af einhverju kerfi, þá verður kerfið duglaust og því verður vantreyst af öllum almenningi. Á árinu 1976, hvort sem þér, hv. þm., eða öðrum líkar það eða mislíkar, var ástandið orðið slíkt vegna langvarandi óstjórnar í þessum tiltekna málaflokki, að ekki var ástæða til að treysta gerðum yfirvalda. Og langvarandi óstjórn, dugleysi, það er að hætt skyldi vera að segja frá málum eins og Klúbbmálinu, sem fjallaði um efnahagsleg afbrot, var að leiða til fullkominnar ógæfu og hefði getað leitt til þess enn fremur, að fleira saklaust fólk hefði fengið ranga dóma almennings eða annarra. Ævinlega þegar svo hefur farið fyrir kerfi, þegar langvarandi dugleysi, langvarandi afskiptasemi á óviðurkvæmilegan hátt, langvarandi spillingarástand hefur skapast, þá er sú hætta fyrir hendi að myndist óbrúanlegt bil milli fólksins í landinu og þess kerfis sem um ræðir hverju sinni. Svona var ástandið í þessum málaflokki. Það hefði getað haft enn skelfilegri afleiðingar ef rannsóknarblaðamenn og almenningur hefðu ekki fengið áhuga á þessum málum.

Ég er sannfærður um það þrátt fyrir allt, að sterkt almenningsálit hefur umfram allt lyft björgum síðan þetta gerðist. Ég nefni sem dæmi, að ein breyting í kjölfar þessarar bylgju var Rannsóknarlögregla ríkisins, sem mér er ekki til efs að hefur orðið til verulegs góðs í þessum efnum. En hinu skulum við aldrei gleyma, hvernig ástandið var þegar byrjað var að fjalla um þennan málaflokk, þegar almenningur fékk áhuga á þessum málaflokki. Þá var hér alvarlegt ástand að skapast. Og hvað á almenningsálit að gera? Það er ljóst að árið 1976 er rifjað upp fjögurra ára gamalt sakamál, sem fjallar um efnahagsleg afbrot og um óviðurkvæmileg afskipti stjórnvalda af mönnum sem efnahagslega hafa brotið lög. Það var þá alveg augljóst hverju barni, að þar hefðu farið fram óviðurkvæmileg afskipti. Og þegar svo koma upp ný mál af allt annarri náttúru og miklu alvarlegri, hvað á almenningsálit að halda eða gera? Málin voru komin í slíkt óefni, að til enn alvarlegri hluta hefði getað leitt ef verulegar breytingar hefðu ekki átt sér stað í kjölfarið.

Þetta er kjarni málsins, og ég hygg að það sé næsta þýðingarlítið að koma nú þremur árum seinna og reyna að rugla þessu öllu saman, að rugla saman dagsetningum, hræra þessu öllu í einn graut, segja að það sé allt saman eitt og sama málið.

Kjarni málsins er þetta: Ástandið á þessum tíma var orðið með þeim hætti að þessi stofnun t.a.m. hefði átt að sýna þeim málum að eigin frumkvæði meiri áhuga. En það gerði hún ekki. Almenningsálit var það sem þurfti til, sterkt almenningsálit, meiri áhugi almennings á tilteknum málaflokki en oft, bæði fyrr og síðar. Það var þá fyrst sem þessi stofnun tók við sér. En það er alkunna að þessa stofnun hefur æðioft skort jarðsamband. Í kjölfar þessa kom t.a.m. frv. um Rannsóknarlögreglu ríkisins. Það hafði ekki gerst áður. Það hygg ég að hafi verið allnokkur ávinningur. En eftir sem áður er um þetta Klúbbmál, um þessi efnahagslegu afbrot, mörgum spurningum ósvarað, og eftir sem áður mnn enginn skreyta sjálfan sig blómum eða baða sig í rósum vegna Klúbbmála, vegna þeirra afbrota eða vegna þeirra laga, sem þar voru brotin, og vegna ósæmilegra afskipta stjórnvalda af því máli. Sá minnisvarði stendur eftir sem áður, hvað sem hv. þm. Páli Péturssyni kann að finnast um það mál.