12.02.1979
Neðri deild: 50. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2514 í B-deild Alþingistíðinda. (1968)

168. mál, útvarpslög

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Á þessu þingi hafa verið lögð fram tvö frv. til breytinga á útvarpslögum. Annað er það sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er 1. flm. að og flutti framsögu fyrir áðan. Enn fremur hefur verið lagt fram í vetur frv. til l. á þskj. 94, 86. mál, en það er frv. hv. þm. Ellerts B. Schram. Í því frv. er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið geti veitt landshlutasamtökum eða einstökum sveitarfélögum heimild til að reka sjálfstæðar og staðbundnar útvarpsstöðvar. Síðan segir í því frv., að gefin skuli út reglugerð um slíkan útvarpsrekstur sem sé háður samþykki ríkisútvarpsins.

Í grg. með frv. sínu fjallar hv. þm. Ellert B. Schram um það frv., sem hér er til umr., og segir m.a. svo með leyfi forseta:

„Á síðasta þingi flutti Guðmundur H. Garðarsson alþm, frv. til l. um frjálsan útvarpsrekstur. Það frv, náði ekki fram að ganga. Það er þó skoðun flm., að þess verði ekki langt að bíða að öllum þorra manna þyki slíkur útvarpsrekstur sjálfsagður. Pólitískir fordómar og þröngsýni koma þó í veg fyrir að þingið samþykki slíkt frv.“

Það er athyglisvert, sem kemur fram í grg. hjá hv, þm. Ellert B. Schram, sem var til skamms tíma varaformaður útvarpsráðs.

Ekki er blöðum um það að fletta, að það frv., sem hér liggur fyrir og er til umr., á mikinn hljómgrunn, ekki síst meðal ungu kynslóðarinnar. Að sjálfsögðu verðum við að hafa það í huga, að tæknilegar framfarir valda því, að nú geta mun fleiri en áður komið sér upp útvarpsstöðvum, og þegar ég nefni útvarpsstöðvar á ég fyrst og fremst við hljóðvarpsstöðvar. Enn virðist vera talsvert langt í land, að það sama gildi um sjónvarp, þótt eflaust komi að því innan ekki mjög margra ára.

Í því frv., sem hér liggur fyrir, eru ýmis merk atriði og þó sérstaklega það, að einokuninni er nánast aflétt. Frv. gerir ráð fyrir að menntmrh. geti veitt ýmsum aðilum leyfi til útvarpsrekstrar, en leita þurfi umsagnar útvarpsráðs og póst- og símamálastjórnarinnar. Það er því engan veginn sjálfgefið, að hér verði stundaður útvarpsrekstur í öðru hverju húsi. Hver sá sem vill afla leyfis verður að uppfylla ströng skilyrði. T.d. verður að starfa reyndur dagskrárstjóri og tæknimenntaður tæknistjóri hjá útvarpsstöðinni. Þá eru gerðar verulegar kröfur um fjölbreytni í efnisvali og óhlutdrægni. Og loks er leyfisveitingin bundin við þrjú ár. Af þessu hlýtur að sjást að þeir, sem óttast menningarlegt hrun þjóðarinnar, þurfa ekki að óttast það.

Eins og kom fram hjá hv. flm. dagaði frv. uppi á síðasta þingi. Þá var það flutt í annað sinn. Ég skal ekki leggja dóm á það, hvað hafi valdið því að þetta frv. fékk ekki afgreiðslu, en þó trúi ég að hér á landi sé enn landlægur ótti við svokallaða peningamenn og að þeir komi til með að ráða mestu í þessum efnum. Allt of fáir virðast átta sig á því, hve ódýrt og auðvelt það er í raun að reka litlar og staðbundnar útvarpsstöðvar. Svokallaðir peningamenn eru áreiðanlega saklausari útvarpsrekendur en aðrir, því að þeir mundu fyrst og fremst leitast við að flytja vinsælt efni sem fengi víðtæka hlustun. Hættan á einlitum áróðri kemur ekki úr herbúðum peningamannanna svokölluðu, heldur miklu fremur pólitískra öfgahópa, sem stundum freistast til að hefja útvarpsrekstur í áróðursskyni. Þannig var það t.d. — og reyndar er — á Ítalíu, þar sem fjöldi útvarpsstöðva er rekinn af mismunandi rauðum marxistahópum. Stöðvarnar hafa reynst heldur áhrifalitlar, því að áróðurinn fellur ekki öllum í geð og stenst ekki samkeppni við aðrar stöðvar, sem flytja léttara efni.

Hugmyndin um frjálsan útvarpsrekstur, sem Guðmundur H. Garðarsson ásamt okkur fleiri þm, flytur í sínu frv. og nú er endurflutt, hefur áreiðanlega átt sinn þátt í því að vekja athygli manna á ýmsum nýjungum innan Ríkisútvarpsins. Þannig var t.d. í síðasta útvarpsráði samþykkt shlj. till. frá þáv. varaformanni útvarpsráðs, Ellert B. Schram, en í þeirri till. var gert ráð fyrir að hafnar yrðu útsendingar í stereo og sett yrði upp stúdió á þremur stöðum úti á landi með það fyrir augum að reka staðbundnar stöðvar nokkra tíma á dag og loks að senda út létta tónlist á sérstakri bylgjulengd. Við þetta hefur síðan bæst nú á allra síðustu dögum till. um næturútvarp. Að því að ég get best ímyndað mér fær slík till. jákvæða meðferð hjá útvarpsráði. Spurning er reyndar, hvort slík hugmynd strandar á fjármagni hjá yfirvöldum útvarpsins. Of fljótt er að segja til um það. Verið er að rannsaka það mál. En allt þetta sýnir að gífurlegur þrýstingur er á Ríkisútvarpið um að auka þjónustu sína og fjölbreytni.

Ég er meðflm. frv. og tel að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, felist nægileg trygging fyrir því að ekki verði rasað um ráð fram, þótt það sé að sjálfsögðu mun róttækara en þær hugmyndir sem eru uppi innan útvarpsráðs. Ég er eindregið þeirrar skoðunar að taka eigi meira tillit til hlustenda en gert er í dag með því að bjóða annað efni samtímis. Allir vita hve auðvelt er með góðum móttökutækjum að hlusta á erlendar útvarpsstöðvar. Innlendar stöðvar starfræktar samkv. íslenskum lögum geta varla haft skaðlegri áhrif. Með frjálsari útvarpsrekstri eygir maður jafnvel afnám pólitískrar dagskrárstjórnar Ríkisútvarpsins.