13.02.1979
Sameinað þing: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2525 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

173. mál, könnun á atvinnu- og félagsmálum Suðurnesja

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Við þessari fsp. hefur mér borist svar Framkvæmdastofnunar ríkisins, svo hljóðandi:

„Í júní 1978 barst Framkvæmdastofnun ríkisins bréf, dags. 12. júní, frá Geir Hallgrímssyni, þáv. forsrh. Með bréfinu var stofnuninni falið að athuga vinnuaðstöðu og félagslega aðstöðu íbúa byggðarlaganna í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Tilefnið var þál. frá 6. maí 1978.

Framkvæmdastjóri byggðadeildar, Bjarni Einarsson, ræddi þetta mál við formann Samstarfsnefndar sveitarfélaga á Suðurnesjum, Jósef Borgarsson. Bjarni lýsti byggðadeild reiðubúna til að takast á við ofangreint verkefni í samstarfi við heimamenn.

Vegna endurskipulagningar á Samstarfsnefndinni var formlegt samstarf þó ekki hafið fyrr en í desember 1978. Þetta gerðist nánar tiltekið þegar nokkrir starfsmenn byggðadeildar sátu fund 11. desember í Njarðvík með Samstarfsnefndinni og formönnum atvinnumálanefnda viðkomandi kaupstaða og kauptúna. Rætt var um byggðamál Suðurnesja.

Þar sem sjávarútvegsmál höfðu þegar fengið sérstaka meðhöndlun var talið rétt að beina athyglinni einkum að iðnaðar- og þjónustugreinum. Byggðadeild taldi eðlilegast að gerð yrðu drög að byggðaþróunaráætlun fyrir Suðurnes, sem fæli í sér þá athugun sem þáltill. frá 6. maí gerði ráð fyrir. Verkið verður unnið eftir því sem takmarkaðir starfskraftar byggðadeildar leyfa.

Nú er ætlunin að hefja könnun á vaxtarmöguleikum í iðnaði og þjónustugreinum sem fyrir eru á umræddu svæði. Auk þess verður reynt að athuga mögulegar nýjungar í atvinnulífi þar. Í athugun er hvernig standa eigi að könnun á félagslegri aðstöðu íbúanna. Á því virðist þó vera við ýmis aðferðafræðileg vandamál að glíma.

Eftirfarandi hugmynd af ástandi mála á Suðurnesjum má gefa út frá þeim lauslegu upplýsingum sem fyrir liggja:

1. Samkvæmt bráðabirgðatölum fjölgaði íbúum um rúmlega 2% milli áranna 1977 og 1978. Þetta er meira en landsmeðalfjölgun og hefur svo verið undanfarin ár.

2. Framtaldar tekjur einstaklinga hafa verið í kringum 10% yfir landsmeðaltali undanfarin ár.

3. Samgöngu-, vega- og hafnamál virðast í góðu lagi.

4. Fiskiðnaður á í erfiðleikum. Auka þarf verulega framleiðni þar, en þá minnkar mannaflanotkun, ef heildaraflamagn og verkunaraðferðir breytast ekki.

5. Samkvæmt lauslegri mannaflaspá bætast um 200 manns á vinnumarkað á ári að meðaltali næstu 5–10 árin. Verulegur vöxtur þarf því að verða í iðnaði og þjónustu ef fólki eiga að bjóðast störf í heimabyggð sinni.

6. Í lok desember voru milli 170 og 180 skráðir atvinnulausir á Suðurnesjum. Tölur fyrir janúar hafa ekki borist, en vísbending er um að talan hafi lækkað í Keflavík a.m.k.“

Undir þetta skrifar Bjarni Einarsson.