13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2539 í B-deild Alþingistíðinda. (1997)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Flm. (Gunnlaugur Stefánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram þáltill. um athugun á olíumengun í jarðvegi í nágrenni Keflavíkurflugvallar og varnir þar að lútandi. Þessi þáltill. er nú búin að liggja fyrir þinginu alllengi og hefur ekki komist til umr, fyrr vegna anna hér í Sþ. Þáltill. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela utanrmn. Alþingis að láta rannsaka hversu mikil mengun hefur nú þegar hlotist af olíu í jarðvegi umhverfis Keflavíkurflugvöll. Athugað verði sérstaklega hversu mikil hætta stafar af olíumengun gagnvart vatnsbólum byggðarlaga á Suðurnesjum. N. kanni einnig réttarstöðu byggðarlaga á Suðurnesjum gagnvart afleiðingum olíumengunar af einu eða öðru tagi. Lögð verði áhersla á í athugun þessari að hafa náin samráð við stjórnir sveitarfélaga í nágrenni við Keflavíkurflugvöll. Störfum verði hraðað eins og kostur er.“

Í grg. með till. segir svo, með leyfi forseta:

„Hér eru á ferðinni alvarleg mál sem kominn er tími til að tekin verði fastari tökum en hingað til virðist hafa verið gert. Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum hafa tjáð flm. að nú sé aðeins tímaspursmál hvenær vatnsból nokkurra byggðarlaga á Suðurnesjum verði ónothæf vegna olíumengunar.

Í skýrslu, sem hreppsnefnd Njarðvíkurhrepps lét gera 1970–1972, kemur ýmislegt fram sem vert er að athuga nánar. Þar segir m.a.: „Svo alvarlega er í þessum málum komið að búast má við í náinni framtíð algeru neyðarástandi viða hér syðra í neysluvatnsmálum, og er þá jafnframt átt við vatnið sem notast í fiskiðnaði, ef marka má skoðanir jarðeðlisfræðinga eins og að framan greinir.“ Síðan segir í sömu skýrslu: „Nefndin telur sig geta rökstutt það með fjölmörgum ábendingum að ekki mörg hundruð tonn af olíum og bensíni og ýmsu þrýstiloftsflugvélaeldsneyti, heldur margar þúsundir tonna hafa runnið út í jarðveg Keflavíkurflugvallar á umliðnum áratugum frá byggingu hans ... enn þann dag í dag streymir olían í tugum tonna út í jarðveginn af slysni, kæruleysi eða þekkingarleysi án þess að nokkuð sé að gert.“

Þessar tilvitnanir í 6 ára gamla skýrslu sýna að enn er við sömu vandamál að stríða, án þess að mikið hafi hingað til verið gert til varnar og athugunar svo vitað sé. Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum upplýsa að mjög hefur á undanförnum árum skort á samstarf þeirra aðila í utanrrn., sem með Keflavíkurflugvallarmál hafa farið, við sveitarfélögin á þessu svæði. Úr þessu þarf að bæta.

Í nágrenni við vatnsból þúsunda íbúa á Suðurnesjum liggja grafnir olíutankar og olíuleiðslur. Sums staðar má heita að vatnsból og olíutankar liggi nánast hlið við hlið. Mengun vatnsbóla er yfirvofandi og hljóta allir að sjá hver vá er fyrir dyrum ef slíkt á sér stað. Þá má heita að allt atvinnulíf á stórum hluta Suðurnesja fari endanlega í rúst.“

Þannig hljóðar þáltill. og grg. sem þáltill. fylgir. Taldi ég rétt að rifja upp þennan aðdraganda málsins, þar sem svo langt er síðan málið var lagt fyrir hér á Alþingi.

Það er ljóst af skýrslum og umr, um þessi mál allt frá árinu 1969, að mikil olía hefur lekið í jarðveg á svæði umhverfis Keflavíkurflugvöll með ýmsum hætti um nokkurra áratuga skeið án þess að samstaða hafi náðst á meðal viðkomandi aðila, stjórnvalda sem þessi mál snerta, á undanförnum árum til varnar og aðkallandi rannsókna. Þessir aðilar eru m.a. heilbrrn., Heilbrigðiseftirlit ríkisins, embætti vatnsveitustjóra, varnarmáladeild utanrrn., Orkustofnun ríkisins, sveitarfélög á Suðurnesjum og bandarísk stjórnvöld. Allir þessir aðilar hafa á einn eða annan hátt tengst umr. um þessi mál á undanförnum árum án þess — og þá er miðað við þann tíma þegar þáltill. var lögð fram — að fullnægjandi rannsóknir og athuganir hafi verið gerðar. Ég tel því fullkomlega eðlilegt að Alþ. grípi hér í taumana tafarlaust og hafi forustu um að viðeigandi athuganir verði gerðar og ráðstafanir framkvæmdar svo að ekki hljótist tjón af þeirri yfirvofandi mengunarhættu sem er á þessum slóðum. Ég tel að utanrmn. Alþ. sé rétti aðilinn til þess að hafa á hendi stjórnina og gefi Alþ. skýrslu um störf sín. Ég tel að það verði ekki hvað síst hlutverk n. að samræma störf þeirra aðila, sem með þessi mál eiga að fara í stjórnkerfinu, og ráða fram úr þeim vandamálum sem hamlað hafa því, að viðeigandi ráðstafanir hafi verið gerðar.

Olíumengunarhætta á Keflavíkurflugvelli kom til umr. hér á Alþ. ekki alls fyrir löngu. Þar svaraði hæstv. utanrrh. fsp. frá hv, alþm. Ólafi Ragnari Grímssyni um tiltekna olíumengun frá stærsta flugskýlinu á Keflavíkurflugvelli. Kom m.a. fram í svari utanrrh., hvernig aðstæðum væri þar háttað, og leidd rök að því, hvernig staðið gæti á olíulekanum sem þarna var. Fram kom í þessum umr., að mengunarhætta vegna olíu, sem lekið hefði út í jarðveginn á undanförnum árum, var meiri en ástæða var til að ætla. Að gefnu tilefni skal það sérstaklega undirstrikað, að handaríski herinn og þeir aðilar, sem hafa aðstöðu sína innan vallargirðingar, nota ekki sömu vatnsból og nálæg byggðarlög, heldur hefur vallarsvæðið eigin vatnsból.

Umr, og athuganir árin 1973–1975 um þessi mál fjölluðu m.a. einmitt um nauðsyn þess, að samtenging vatnsbóla vallarsvæðisins og nágrannabyggðarlaga færi fram, því mikið umframvatnsmagn er fyrir hendi í vatnsbólum innan vallarsvæðisins og vatnsból þess ekki í bráðri hættu vegna olíumengunar, eins og vatnsból nágrannabyggðarlaga á Suðurnesjum. Vegna þessa hafa bandarísk stjórnvöld ekki sameiginlegra hagsmuna að gæta við hagsmuni sveitarfélaga á Suðurnesjum, og þess vegna er bandaríkjastjórn ekki endilega kappsmál að neysluvatn byggðarlaga á Suðurnesjum mengist ekki, enda virðist sem áhugi bandarískra stjórnvalda hafi verið mjög takmarkaður á að taka höndum saman með ýmsum áhugasömum aðilum innan íslenska stjórnkerfisins um framgang málsins, eins og t.d. fyrrv. heilbrrh.

Um það, hvort bandarísk stjórnvöld hafi nú vaknað til lífsins og breytt afstöðu sinni til málsins, skal ég ekki segja, en ljóst er, að þau eru ásamt öðrum ábyrg gagnvart hugsanlegum skaða sem olíumengunin getur valdið. Það, sem valdið hefur e.t.v. tregðu bandarískra stjórnvalda til þess að horfast í augu við raunveruleikann, er m.a. það, að þau hafa ekki viljað bera kostnað af rannsóknum, sem gera þarf, og framkvæmdum í framhaldi af þeim.

Í svari fyrrv, heilbrrh. við fsp. á Alþ. um olíumengunarmál í nágrenni Keflavíkurflugvallar á þingi 1974–1975 segir fyrrv. heilbrrh. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Heilbrrn. hefur fyrir sitt leyti talið að hér væri um að ræða kostnað sem greiðast ætti á sama hátt og annar kostnaður vegna framkvæmda innan varnarliðssvæðisins, en varnarmáladeild utanrrn. hefur enn ekki formlega tekið afstöðu til málsins og framkvæmdir við rannsóknina hafa því ekki farið af stað, því miður.“

Segja má að þarna hafi málið strandað, því að ekki er vitað til þess, að varnarmáladeild utanrrn. hafi enn tekið formlega afstöðu til þess, hverjir eigi að bera kostnaðinn, bandarísk stjórnvöld eða íslenskir aðilar, eða hvernig kostnaðinum yrði skipt. Að því er ég fæ best séð af þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér, hefur staðið á því, að till. um ákveðnar rannsóknir væru framkvæmdar, auk þess sem mér sýnist vera tilhneiging til þess að tefja málið með því að flækja það í stað þess að hefja framkvæmd á raunverulegri alvörurannsókn á olíumenguðum jarðvegi í nágrenni Keflavíkurflugvallar.

Það var árið 1969 að Jón Jónsson jarðfræðingur vekur athygli á því, að mikil mengunarhætta sé yfirvofandi vegna olíu í jarðvegi í nágrenni Keflavíkurflugvallar og mikil hætta gagnvart vatnshólum á Suðurnesjum. Þrátt fyrir viðvaranir Jóns Jónssonar var ekkert aðhafst í málinu innan ríkiskerfisins þrátt fyrir að utanrrn. hafi verið kunnugt um viðvaranir hans eftir því sem best verður séð. En í framhaldi af viðvörun Jóns ákveður hreppsnefnd Njarðvíkurkaupstaðar haustið 1970 að skipa nefnd heimamanna til að gera nánari frumathugun í málinu. Helstu niðurstöður n., sem fram komu árið 1972, hafa þegar verið kynntar hér á Alþ. og er m.a. að finna í grg. með þáltill. þeirri sem hér er til umr. Utanrrn. voru kynntar m.a. þessar niðurstöður, og enn var ekkert aðhafst í málinu. En í mars árið 1973 birtist í blaðinu Suðurnesjatíðindum grein undir nafninu „Vatnsból Rosmhvalaness í bráðri hættu“ og í þessari grein var rætt um umbúnað olíugeyma neðanjarðar á svæði Keflavíkurflugvallar. Þá fyrst komst málið til kasta heilbrrn. og virtist þá einlægur vilji þar til þess að taka þetta mál föstum tökum. Til að rifja upp viðskipti nokkurra aðila á þessum tíma vil ég — með leyfi forseta — vitna í svar fyrrv. heilbrrh. á Alþ. 1975 við fsp. þessu varðandi, en fsp. fjallaði einmitt um olíumengunarmál í nágrenni Keflavíkurflugvallar. Þar segir svo með leyfi torseta:

„Vegna þessarar fsp. er rétt að upplýsa að þetta mál var fyrst tekið upp í rn. fyrir rúmlega tveimur árum og var tilefnið það að hinn 16. mars 1973 birtist í blaðinu Suðurnesjatíðindum grein undir nafninu „Vatnsból Rosmhvalaness í bráðri hættu“ og í þessari grein var rætt um umbúnað olíugeyma neðanjarðar á svæði Keflavíkurflugvallar. Hinn 26. mars 1973 ritaði rn. Heilbrigðiseftirliti ríkisins og vakti athygli þess á þessari grein og óskaði eftir að Heilbrigðiseftirlitið kannaði málið. Jafnframt ritaði rn. varnarmáladeild utanrrn. og vakti athygli þess á greininni og skýrði frá því að Heilbrigðiseftirlitinu hefði verið ritað um málið.

Heilbrigðiseftirlit ríkisins svaraði með bréfi, dags. 27. mars, og upplýsti, að það hefði þegar hinn 20. mars ritað varnarmáladeild utanrrn. um þetta mál, og skýrði frá því að það hefði þegar hafið könnun á málinu.

Svar við bréfi rn. frá varnarmáladeild utanrrn. barst hins vegar 26. apríl 1973 og var þar skýrt frá því að varnarmáladeild hefði þegar verið tekin að kanna þetta mál áður en bréf heilbrrn. barst og hefði óskað eftir sérstakri umsögn varnarliðsins um málið. Niðurstöður þessarar könnunar voru afhentar varnarmáladeild 25. apríl 1973 og voru þær sendar með fyrrgreindu bréfi sem fskj.

Í bréfi varnarmáladeildar kom fram að forstöðumaður Heilbrigðiseftirlits ríkisins eða einhver sérfræðingur frá þeirri stofnun gæti hvenær sem er sett sig í samband við varnarliðið fyrir milligöngu varnarmáladeildar og fengið þær upplýsingar sem óskað yrði eftir. Heilbrigðiseftirliti ríkisins var sama dag og rn. ritað um málið.

Með nýju bréfi, 27, sept. 1974, ritar varnarmáladeild rn. enn um þetta mál. Í þessu bréfi er rakið hvað gerst hafi í málinu, en óskað eftir því, að starfsmenn Heilbrigðiseftirlits ríkisins taki málið til athugunar, og því lýst yfir, að varnarliðið og varnarmáladeild séu sem fyrr reiðubúin til hvers konar aðstoðar í málinu.

Vegna þessarar beiðni varnarmáladeildar ritaði rn. Heilbrigðiseftirlitinu bréf 30. okt. 1974 og óskaði eftir því að gerð yrði könnun á olíumengun á Keflavíkursvæðinu, einkum með tilliti til þeirrar hættu sem vatnsbólum á þessu svæði stafaði frá olíumengun. Rn. barst niðurstaða af þeirri könnun, sem Heilbrigðiseftirlit ríkisins gerði með bréfi 19. febr. 1975. Þar skýrir Heilbrigðiseftirlitið frá því, að eftir að þessi tilmæli bárust hafi það unnið að þessum málum í samráði við sveitarstjórnarmenn á þessu svæði. Það, sem einkum var gert, var að kanna sérstaklega staðsetningu olíugeyma á flugvallarsvæðinu og í næsta nágrenni, bæði þeirra, sem enn eru í notkun, svo og hinna, sem lagðir hafa verið niður. Þá segir í þessu bréfi að í ljós hafi komið að mikil olía og fljótandi eldsneyti af ýmsum gerðum hafi farið niður í jarðveg á öllu þessu svæði og sums staðar hafi komið fram olíumengun í neysluvatni og þvottavatni, eins og t.d. við hraðfrystihúsið í Keflavík, en þar hafi orðið að leggja niður borholu af þessum sökum. Jafnframt skýrir Heilbrigðiseftirlitið frá því að á sjálfu flugvallarsvæðinu hafi borholur mengast og hafi flugvallarmenn, t.d. varnarliðið, orðið að flytja nokkrar borholur fyrir sig út fyrir vallarsvæðið. Niðurstaða Heilbrigðiseftirlitsins er sú, að í raun ríki hættuástand á þessu svæði og hugsanlegt sé að grunnvatn, sem í notkun er, kunni að mengast fyrr eða síðar.

Í þessu fyrrgreinda bréfi gerir Heilbrigðiseftirlitið tillögur um ákveðnar aðgerðir og rannsóknir til þess að geta gert sér betur grein fyrir því hvers vænta megi. Tillögur þess eru þannig:

1. Könnun á því, a.m.k. í nánd við þær borholur, sem nú eru í notkun, hvað olíumengun kunni að vera komin nálægt þeim jarðvegi og jarðlögum. Til þess að framkvæmda þessar rannsóknir telur Heilbrigðiseftirlitíð að þurfi aðstoð Orkustofnunar ríkisins til að taka borkjarna.

2. Að kanna heildargrunnvatnsstöðu á Rosmhvalanesi með hæðamælingum yfir allt þetta svæði til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir hvar og hvenær beri að bora nýjar holur ef það sýnir sig að þær eldri séu í yfirvofandi hættu vegna aðsteðjandi olíumengunar.

3. Að gera meiri kröfur en nú er um aðgát og meðferð á olíu á vallarsvæðinu, þar með að gamlir olíugeymar, sem faldir eru í jörðu, verði teknir upp og fjarlægðir.

Bréf Heilbrigðiseftirlitsins upplýsti einnig að þær rannsóknir og aðgerðir, sem rætt var um, mundu taka 4 menn 2 mánuði, auk þeirrar vinnu sem Orkustofnun tæki að sér í sambandi við borkjarnatöku.

Að fengnu þessu bréfi Heilbrigðiseftirlits ríkisins ritaði rn. 24. febr. s.l. utanrrn. eða varnarmáladeild þess bréf, þar sem sent var með ljósrit af bréfi Heilbrigðiseftirlitsins. Heilbrrn. sendi þau tilmæli til varnarmálanefndar að hún tæki till. Heilbrigðiseftirlitsins um frekari rannsóknir svo og aðgerðir til athugunar. Þá lýsti rn. því sem skoðun sinni að tafarlaust þyrfti að gera þær aðgerðir sem Heilbrigðiseftirlitið legði til, og rn. taldi eins og málum væri háttað eðlilegt að þessi aðgerð færi fram á vegum varnarmáladeildar, en í samráði við Heilbrigðiseftirlitið og heilbrrn. eftir því sem kostur væri. Þá gerði rn. ráð fyrir því að allur kostnaður við þessar rannsóknir yrði greiddur á sama hátt og annar kostnaður við framkvæmdir innan varnarliðssvæðisins.

Rn. leitaði 21. apríl símleiðis til varnarmáladeildar utanrrn. og spurðist fyrir um hvort kannanir, sem fyrr eru nefndar, hefðu verið gerðar og fékk þær upplýsingar að svo væri ekki, málið væri enn í athugun hjá varnarmáladeild og lægi enn ekki fyrir að varnarmáladeild samþykkti að kostnaður af aðgerðunum yrði greiddur á þann veg sem heilbr.- og trmrn. hafði talið eðlilegast.

grg., sem hér var flutt, svarar í raun öllum þeim spurningum frá hv, þm. sem hann hefur borið fram. Heilbrigðiseftirlit ríkisins hefur gert tillögu um að þær rannsóknir, sem upp eru taldar í þessari fsp., verði gerðar. Heilbrrn. hefur fyrir sitt leyti talið að hér væri um að ræða kostnað sem greiðast ætti á sama hátt og annar kostnaður vegna framkvæmda innan varnarliðssvæðisins, en varnarmáladeild utanrrn. hefur enn ekki formlega tekið afstöðu til málsins og framkvæmdir við rannsóknirnar hafa því ekki farið af stað, því miður.“

Tilvitnun í svar við fsp. frá Alþ. 1975, þar sem hv. þm. Oddur Ólafsson spurði um olíumengunarmál á Suðurnesjum, gefur ýmislegt til kynna, og ég taldi rétt að rifja þetta upp vegna þess að það varpar nýju ljósi á málið, þegar við ræðum það í dag. Af þessum viðskiptum og frumkönnunum má ljóst vera að ekki gekk samstarfið snurðulaust, og þó ekki sé tekið dýpra í árinni má segja að einhvern vilja hafi skort af hálfu varnarmáladeildar og bandarískra stjórnvalda til þess að bregða skjótt við, hvað þá ef vitnað er til bréfs varnarmáladeildar frá 20. maí 1975, — ég undirstrika: 20. maí 1975, eitt af því síðasta sem hirtist um þetta mál á því tímabili. Og svo liðu 3 ár án þess að neitt hafi verið gert, a.m.k. ef marka mætti bréfaskriftir. 20. maí 1975 skrifar utanrrn., varnarmáladeild bréf til heilbrrn., svo hljóðandi:

„Vísað er til bréfs heilbrrn., dags. 24. febr. 1975, varðandi könnun á olíumengun á Keflavíkurflugvelli, er fylgdi ljósriti af bréfi Heilbrigðiseftirlits ríkisins, dags. 19. febr. 1975. Í bréfi sínu byggir Heilbrigðiseftirlitið tillögur sínar á staðreyndum sem varnarmáladeild kannast ekki við að séu réttar. Vill því þetta rn. hér með óska eftir afriti af skýrslu um rannsókn þá er Heilbrigðiseftirlitið framkvæmdi í málinu.

F.h. varnarmáladeildar,

Hannes Guðmundsson.“

Í grg. með till. Heilbrigðiseftirlits ríkisins um það sem gera þarf er að finna lýsingu á meðferð olíu á vallarsvæðinu. Þar kemur fram að á 17 svæðum á Keflavíkurflugvelli, þar sem olía er geymd í tönkum eða meðhöndluð á annan hátt, hafi olía farið út í jarðveginn og valdið mengun. Mjög algengt orðalag í þessari grg. er: geymslutankur sem hefur lekið í mörg ár.“ Í þessari grg. kemur einnig fram atriði sem skýtur dálítið skökku við þær upplýsingar sem fram hafa verið bornar nú fyrir stuttu um olíumengun vegna flugskýlisins, þaðan sem olían er talin hafa lekið út nú í haust og olli umr. á Alþ. fyrir skemmstu. En í grg. Heilbrigðiseftirlits ríkisins frá árinu 1974 segir að við svæðið við stóra flugskýlið, takið eftir: svæðið við stóra flugskýlið, sem nú síðast lak olía frá s.l. haust og olli hér umr. og deilum á þingi, — í grg. Heilbrigðiseftirlits ríkisins frá árinu 1974 segir að við svæðið við stóra flugskýlið hafi farið mikil olía niður og um tíma hafi flugvélar verið þvegnar þar upp úr steinolíu, en síðan hafi olíunni verið veitt niður í holræsin, en vegna mikillar gasmyndunar í holræsum var hætt við þá aðferð og olían látin fara út í jarðveginn í grenndinni í nokkur hundruð metra fjarlægð frá vatnsbólum Njarðvíkinga t.d.

Annað mál er svo hitt, að ekki er aðeins þörf að aðgæta ástand olíugeyma og meðferð olíunnar almennt, heldur liggja um flugvallarsvæðið olíuleiðslur mjög víða sem eftir nánustu heimildum eru margar hverjar orðnar mjög mismunandi trosnaðar, þannig að rök eru að því leidd að þar leki mikið olíumagn út í jarðveginn á hverju ári.

Það er ljóst af því, sem hér hefur fram komið, að bregðast verði skjótt við og gera nauðsynlegar rannsóknir, eins og Heilbrigðiseftirlit ríkisins lagði til í fullu samráði við sveitarstjórnaraðila á svæðinu fyrir nokkrum árum, en þessar rannsóknir hafa enn ekki verið framkvæmdar svo að vitað sé né viðeigandi varúðarráðstafanir í framhaldi af þeim. Þetta mál fjallar ekki einungis um það að kanna mengunarhættu gagnvart vatnsbólum, heldur tryggja að sveitarfélög á Suðurnesjum og allur sá mikilvægi atvinnurekstur, sem þar fer fram, verði varinn fyrir því, að einn daginn stöðvi olíumengun þar allt atvinnulíf og neyðarástand skapist og jafnvel slys. Horfa verður því til framtíðar og búa þannig um hnútana að íbúar á Suðurnesjasvæðinu megi búa við öryggi í vatnsöflunarmálum. Og þá hlýtur ein leiðin í málinu að koma þar sérstaklega til greina: að leita nýs og öruggari vatnsforða fyrir svæðið.

Varnarmáladeild leitaði 1975 til Þórodds Th. Sigurðssonar vatnsveitustjóra og óskaði skýrslu frá honum um valkosti vegna framtíðarinnar í vatnsöflunarmálum fyrir Suðurnesin. Niðurstaða hans er m.a. sú, að samtenging vatnsveitu vallarsvæðis og Keflavíkurkaupstaðar og Njarðvíkur komi þar sérstaklega til greina. En Þóroddur dregur í skýrslu sinni úr mengunarhættu vegna olíu gagnvart vatnsbólum í nágrenninu, þó hann mótmæli henni ekki, eins og komist er að orði. „Þó eigi verði á móti henni mælt.“

Vonandi verður sú umr., sem hér hefur farið fram á árunum 1978 og 1979 um olíumengunarhættu, til þess að stigin verði alvöruframkvæmdaskref, — skref sem fyrir löngu hefðu átt að vera stigin. Þetta mál hefur þvælst og velkst í kerfinu án þess að á því hafi verið tekið réttum tökum.

Herra forseti. Máli mínu er nú senn lokið. Að síðustu vil ég leggja áherslu á að við áframhaldandi meðferð málsins verði samráð með sveitarfélögum á Suðurnesjum efld, því að það er grundvöllur þess, að heillavænleg niðurstaða náist.

Ég legg til að málinu verði vísað til utanrmn.