13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (2001)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. síðasti ræðumaður komst svo að orði, að hér væri verið að ræða um „vatnsból á Keflavíkurflugvallarsvæðinu“. Ég veit reyndar um þennan hv. þm. að ekki er þannig komið fyrir honum að hann vilji fara að nefna Suðurnesin „Keflavíkurflugvallarsvæði“, þetta svæði hefur heitið Suðurnes hingað til, þessi byggðarlög, enda segir í grg. með þeirri ágætu till. sem hér er til umr., að „afhugað verði sérstaklega hversu mikil hætta stafar af olíumengun gagnvart vatnsbólum byggðarlaga á Suðurnesjum“. Ég lýsi yfir stuðningi mínum við þessa till. og vek um leið athygli á því, að þeir tveir menn, sem helst hafa um þessi mál fjallað hér á þingi, — og hef ég þó ekki gleymt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, því að hann gerði það líka, — þessir tveir menn eru annars vegar aldursforseti þingsins, Oddur Ólafsson, sem gerði þetta rækilega, að ég hygg 1975 og raunar oftar, og svo hins vegar yngsti þm., Gunnlaugur Stefánsson. Ég vona að þetta sé góðs viti. Þarna er þó a.m.k. ekki um neitt kynslóðabil að ræða.

En öll er historía þessi hin skrýtnasta. Aftur og aftur liggur það fyrir að um mjög alvarlega mengun er að ræða á Suðurnesjum, svo alvarlega, eins og segir í grg. með till. að ef svo heldur fram sem horfir, þá gæti svo farið að „allt atvinnulíf á stórum hluta Suðurnesja fari endanlega í rúst.“

Þessi ágæti ungi þm. notar orðið „endanlega“ að sjálfsögðu ekki af tilviljun. Hann gerir sér ljóst hvað hefur verið að gerast að undanförnu. Atvinnulíf á Suðurnesjum hefur smám saman verið að fara í rúst. Ástæðan til þess er auðvitað ekki olíumengun. Ástæðan til þess er herstöðin sem hefur sogað til sín vinnuafl og valdið því, að út af hafa lagst þýðingarmiklar atvinnugreinar á Suðurnesjum. Það eru ýmsir sem veigra sér við að ræða þessa hlið málsins, en aftur á móti aðrir sem gefa þessu rækilegan gaum, þ. á m. þm. Reykn., hv. þm. Gils Guðmundsson og hv. þm. Geir Gunnarsson, sem flutt hafa till. um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum til að hamla gegn þessari þróun. En nú er ástandið orðið svona, eftir því sem þessi ungi þm. segir, að afgangurinn af atvinnulífi á Suðurnesjum er í hættu vegna mengunar frá Keflavíkurvelli!

Ég ætla ekki að fara út í hinar ýmsu tegundir mengunar sem stafa frá Keflavíkurflugvelli, slíkt er ekki til umr. hér undir þessum dagskrárlið. En umhugsunarefni má það vera mönnum, að sú n., sem heitir því göfuga nafni varnarmálanefnd og hefur aftur og aftur verið beðin að athuga þetta mál og gera eitthvað í því, hefur ekki gert neitt, enda hefur það verið plagsiður þeirrar n. að taka alltaf svari Ameríkana þegar um er að ræða eitthvert ágreiningsmál milli Ameríkana annars vegar og Íslendinga hins vegar. Ég efast um að nokkurs staðar-og er þá mikið sagt — sé íslenskur undirlægjuháttur á því stigi sem hann er í varnarmálanefnd. Eitt er a.m.k. víst, að varnarmálanefnd virðist ekki líta á það sem hlutverk sitt að sjá um varnir gegn mengun.

Og nú kemur hæstv. utanrrh. og segir okkur að búið sé að setja n. til þess að fara í þetta mál, — þetta mál sem hefur legið fyrir, eins og nú hefur verið lýst, árum saman. Það þýðir ekkert að tala um að við séum núna allt í einu að uppgötva mengun, menn hafi ekki uppgötvað mengun fyrr en fyrir 10 árum eða svo. Menn hafa löngum vitað hvað mengun var. Á sveitabæjum á Íslandi hafa þau slys orðið annað veifið, að runnið hefur úr fjóshaugnum saman við drykkjarvatnið í brunninum eða læknum. Ég tala hér líkingamál varðandi Keflavíkurflugvöll. Olíumengun hefur verið þekkt viða um lönd síðan farið var að bora eftir olíu. Og hér koma mér í hug þær furðulegu upplýsingar sem hæstv. utanrrh. hefur eftir mesta sérfræðingi í borunum og vatnsleit á Íslandi, að það sé stórhættulegt að bora þarna suður frá eftir vatni, vegna þess að allar líkur séu á því að upp komi olía.

Hæstv. utanrrh. er búinn að setja n., sem á að vinna að þessum málum. Mætti ég beina því til hæstv. ráðh., hvenær n. fór af stað. Eru 3–4 mánuðir síðan eða lengra? Ég held að það sé einir 5 mánuðir. (Utanrrh.: Nefndin var skipuð í janúar.) Janúar, ekki fyrr. Þá spyr ég: Hvernig í ósköpunum stendur á því, að hún var ekki skipuð fyrr? Ég veit ekki betur en að þessi mengunarmál þar suður frá hafi verið eitt fyrsta mál þingsins. Ég held að þessi ungi þm. hafi komið hér upp utan dagskrár á einhverjum allra fyrstu dögum þingsins til að ræða þessi mál. Og svo er það ekki fyrr en í janúar sem flokksbróðir hans, hæstv. utanrrh., tekur sig fram um að skipa þessa n. Það hljóta að vera heldur en ekki úrvalsmenn, þessir þrír sem eru í henni, úr því að svo löng var leitin að þeim.

Ég þarf náttúrlega ekki að segja hv. þm. Gunnlaugi Stefánssyni hvaða ráð er best til þess að fyrirbyggja mengun frá Keflavíkurflugvelli. „Á skal að ósi stemma,“ sagði Þór, og í þessu sambandi merkir ós ekki það sem orðið merkir í dag, eins og þið vitið. Við komum að sjálfsögðu í veg fyrir þessa mengun og aðra, sem stafar af Keflavíkurflugvelli, með því að losa okkur við herstöðina sem þar er. Og gleður mig sérstaklega sú vitneskja, að þessi hv. ungi þm. er sama sinnis og ég í þessu efni, þó að hann hafi vegna einhverrar kompásskekkju lent í Alþfl.

Ég held að ég hafi svo ekki meira að segja að sinni um þetta, vil enda ekki tefja fundinn með lengri ræðu. Ég endurtek þó það sem ég sagði áðan, að ráðið til þess að kippa hlutum í lag á Suðurnesjum er að sjálfsögðu það sem þeir tveir hv. þm., Gils Guðmundsson og Geir Gunnarsson, leggja til: að gera áætlun um uppbyggingu þarna, áætlun um að reisa við eðlilegt íslenskt atvinnulíf og par með manndóm á Suðurnesjum.

Ég tek eftir því, að hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson er með aðra till., og það er till. þess efnis, að í hina svonefndu varnarmálanefnd verði teknir fulltrúar frá samtökum launþega, vinnuveitenda og sveitarfélaga á Suðurnesjum, þessu fólki verði tryggð aðild að n. Þetta er náttúrlega sjálfsagt, svo fremi í þessa n. veljist góðir menn. En ég hef ekki, því miður, það traust á öllum verkalýðsforustumönnum þar syðra að þeir muni bæta stórlega samkvæmið. Ég hef ekki það traust á því fólki sem stendur í þessum ræðustól og emjar yfir því, að það eigi að segja upp fleiri en ráðnir eru á Keflavíkurflugvöll, — ég hef ekki það traust á því fólki, að ég telji að það bæti þetta samkvæmi. Hins vegar má segja að lýðræðislega sé þetta sjálfsagt og rétt, og undir þetta tek ég þá líka með þeirri ósk, að einhverjir góðir og heiðarlegir alþýðumenn á Suðurnesjum fái sæti í þessari n., sem því miður er ekki skipuð fólki af því tagi.