13.02.1979
Sameinað þing: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2553 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

41. mál, varnir gegn olíumengun í nágrenni Keflavíkurflugvallar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það er vegna orða hv. 4, þm. Vesturl. þar sem hann talaði um manndóm. Mér virðist að staðreyndin sé sú, að Alþ. og vissar stofnanir hafi á undanförnum árum litið svo á að aðrir landshlutar þyrftu frekari fyrirgreiðslu en Suðurnesin og það benti til manndóms þar syðra. Ég verð að segja að mér finnst þetta ómaklega mælt af hv. þm., því að þar syðra hefur ekki skort á manndóm, hvorki fyrr né síðar.

Ég ætla líka að benda á það, að enda þótt, eins og kemur fram í þessari till., um endanlega rúst atvinnulífs á Suðurnesjum kunni að vera að ræða, þá blasir sú staðreynd við okkur samkv. skýrslum, að atvinnuleysi hefur verið minna í Reykjaneskjördæmi eða á Suðurnesjum en í nokkru öðru kjördæmi á landinu fram að síðustu 6 mánuðum. Það er fyrst í tíð núv. stjórnar sem atvinnuleysi verður á Suðurnesjum. (GSt: Það var áður en ríkisstj. tók við völdum.) Nei, þótt einstaka atvinnurekendur kunni að neyðast til að loka húsum sínum í nokkra daga, það er ekki það sem ég á við. En samkv. skýrslum er þetta svona, blasir við alveg frá 1971: hvergi jafnlítið atvinnuleysi og á Reykjanesi. (Gripið fram í.) Þessi staðreynd blasir hins vegar við. Ég er ekki að neita því, að á síðustu árum hefur þetta færst í það horf að tæpt hefur staðið. En við skulum líta í skýrslur og þá munum við sjá þetta, enda bendir skýrsla hæstv. forsrh. í dag einmitt til þess að þar hafi verið tekjur.