14.02.1979
Efri deild: 56. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2554 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

166. mál, grunnskólar

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem fyrir liggur á þskj. 322, hefur legið fyrir þessari hv. d. í nokkurn tíma og fjallar um tvö efnisatriði sem varða samskipti grunnskólans annars vegar og foreldra eða forráðamanna nemenda hans hins vegar. Ég mun fyrst gera í örstuttu máli grein fyrir þeirri meginhugsun, sem liggur að baki þessu frv., og síðan aðdragandanum að því, að það var flutt, og loks víkja að efnisatriðum frvgr. hverrar um sig.

Meginhugsunin, sem liggur á bak við þetta frv., er sú lífsskoðun, að fjölskyldan sé grundvallarhópeining þjóðfélagsins og fjölskyldan sé sú félagseining sem börnum sé hollast að alast upp í, í öðru lagi, að heimilið sé börnum hollasti uppeldisstaðurinn og foreldrarnir beri höfuðábyrgð á uppeldinu, dagvistarstofnanir og skólar séu hjálparstofnanir heimila og forráðamanna, en eigi ekki að koma í stað þeirra, og í þriðja lagi, að börnin séu frá fæðingu sjálfstæðir einstaklingar og eigi að njóta atlætis og aðbúðar í uppvextinum í samræmi við þarfir hvers og eins. Þessi atriði hafa verið grundvallarsjónarmið í þessum efnum og grundvallarlífsskoðanir einnig í okkar þjóðfélagi og mörgum öðrum um langan aldur og eru raunar staðfest í ýmsum alþjóðlegum mannréttindayfirlýsingum. M.a. segir í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, 16. gr., 3. tl., að fjölskyldan sé í eðli sínu frumeining þjóðfélagsins og beri þjóðfélagi og ríki að vernda hana. Að sama brunni bera ýmsar aðrar greinar í öðrum sáttmálum, t.d. í sáttmála sem nú liggur fyrir í Sþ., 119. mál, þskj. 137, þar sem ríkisstj. ber fram till. til þál. um að ríkisstj. verði veitt heimild til að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi ásamt bókun og alþjóðasamningum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi sem samþykktir voru á 21. Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York hinn 16. des. 1966. Í alþjóðasamningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi segir svo í 10, gr., fyrri hluta þeirrar greinar:

„Ríki þau, sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna að:

1. Mesta mögulega vernd og aðstoð skuli látin fjölskyldunni í té, en hún er hin eðlilega grundvallarhópeining þjóðfélagsins, sérstaklega við stofnun hennar og á meðan hún er ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna.“

Þarna kemur einnig fram og er undirstrikuð þýðing þess, að fjölskyldan sé ábyrg fyrir umönnun og menntun framfærsluskyldra barna. Í mannréttindayfirlýsingu Evrópuráðsins, Evrópusáttmálanum um verndun mannréttinda og mannfrelsis ásamt viðbótarsamningum hans segir í 2. gr. í viðbótarsamningi frá 20. mars 1952, með leyfi hæstv. forseta:

„Engum manni skal synjað um rétt til menntunar. Hið opinbera skal í öllum ráðstöfunum sínum virða rétt foreldra til þess að tryggja það, að slík menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“

Og enn fremur segir í 26. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna frá 1948, þeirrar yfirlýsingar sem nú nýlega hefur átt afmæli og það verið hátíðlegt haldið, eins og raunar afmæli Evrópusáttmálans var líka hátíðlegt haldið fyrir nokkru, — í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Foreldrar skulu fremur öðrum ráða, hverrar menntunar börn þeirra skuli njóta.“

Þessar yfirlýsingar og ýmis önnur atriði undirstrika hið nána samband sem í grundvallaratriðum er gengið út frá að sé á milli foreldra og barna og á milli þeirra uppeldisaðila sem foreldrar fela menntun eða forsjá barna í sínu umboði.

Nú um langan aldur hafa verið miklar og vaxandi umr. um það í mörgum löndum, hvernig vernda beri og hvernig unnt sé að vernda friðhelgi einkalífs einstaklinga í heimi þar sem tækni til alls kyns fjölmiðlunar fer vaxandi og æ meiri ásókn er af ýmsum aðilum til þess að hafa áhrif og grípa inn í þróun einkalífs einstaklinganna, fjölskyldnanna og barnanna. Mikið starf hefur verið unnið á vegum margra fjölþjóðlegra stofnana til að samræma lagareglur um þetta efni. Sérstaklega hafa þessi mál verið í brennidepli eftir að tölvunotkun í opinberu kerfi og eins í störfum einkastofnana hefur orðið almennari og verið talin þörf á lagareglum sem sérstaklega varða það efni. Þá hefur athyglin ekki síst beinst að því, hvernig eigi að sýna persónuvernd einstaklinga þá virðingu og sess sem henni ber eftir öllum grundvallarsjónarmiðum í þessu þjóðfélagi og hvaða lagareglur á því sviði sé unnt að samræma milli landanna. Þessi atriði hafa legið fyrir Alþ. í frv.-formi nú á síðasta ári t.d., en lög um þetta efni, að því er varðar skráningu persónuupplýsinga, hafa ekki enn þá verið sett hér á landi.

Það er ljóst, að að því leyti sem upplýsingasöfnun fer fram á skólastigum, þar sem börnum er lögum samkv. skylt að vera, er enn þá brýnni nauðsyn að setja reglur um þetta efni.

Þegar rætt er um verndun friðhelgi einkalífs kemur auðvitað margt fleira. til en slík atriði sem upplýsingaöflun, um persónuhagi. Fjöldi atriða hefur verið í sviðsljósinu í þessu sambandi, og það er á þessu sviði eins og mörgum öðrum, að á réttindum í tilteknu efni verður að halda þannig að þau gangi ekki gegn öðrum réttindum sem sams konar verndar njóta, og er ég þá fyrst og fremst með í huga réttindi manna til friðhelgi einkalífs. Það er svo, að allt athafnafrelsi í þjóðfélaginu takmarkast af sams konar frelsi annarra borgara. Við höfum ekki leyfi til að beita athafnafrelsinu svo að það skaði annan, og við höfum ekki heldur leyfi til að beita fjölmiðlun eða öðrum áhrifum svo að skaði annan. Þetta er meginatriðið á hak við hugsunina um friðhelgi einkalífs.

Það efni, sem þetta frv. fjallar um, veit að mikilvægum þætti friðhelgi einkalífs. Vitanlega eru fjölmörg atriði sem koma til athugunar í því sambandi, en þetta frv. fjallar aðeins um eitt takmarkað atriði, en engu að síður mikilvægt að mínu mati. Það fjallar um friðhelgi einstaklinganna á heimilum þeirra, í fjölskyldum þeirra, friðhelgi barna og friðhelgi foreldra. Að því er varðar meginhugsunina á bak við þetta frv. er ekki úr vegi að minna á það, að á þessu ári, því margumrædda ári barnsins, er tímabært að fjalla um málefni sem þetta. Þótt tilgangur Sameinuðu þjóðanna með því að helga þetta ár sérstaklega börnum sé fyrst og fremst að rétta hlut þeirra barna sem við neyð búa og hvergi eiga höfði sínu að að halla, er líka tímabært að sérstakri athygli sé beint að stöðu barna hvar sem er, í velferðarríkjum sem annars staðar.

Þegar ég legg áherslu á þau atriði sem ég hef gert að umtalsefni, að fjölskyldan sé sú félagseining, sem börnum er hollast og eðlilegast að alast upp í, heimilin séu börnum hollasti uppeldisstaðurinn og foreldri eða forráðamenn beri ábyrgð á uppeldi barnanna, þá vaknar sú spurning, hvernig nútímaþjóðfélag með sínum fjölhreyttu útbreiðslumöguleikum tækni og fjölmiðla fer með þá möguleika til þess að lifa í samræmi við þessar grundvallarhugmyndir. Taka þarf til gaumgæfilegrar athugunar hvaða áhrif þróun nútímaþjóðfélags hefur á þessa þætti og hvaða leiðir er hægt að fara til þess að nútímaatvinnuhættir samrýmist þörfum fjölskyldu og barna. Í því sambandi þarf sérstaklega að sýna skilning og að ég tel aukinn skilning á þörf ungra barna fyrir umönnun beggja foreldra sinna. Það hlýtur að vera nauðsyn að vekja athygli á því, að settar séu reglur í þjóðfélaginu sem beinast að því að virtur sé réttur foreldra til að vernda börn sín gegn óhollum uppeldisáhrifum. Eins og foreldrar bera ábyrgð á uppeldi barna sinna hljóta þeir einnig að eiga rétt á því börnum sínum til handa, að hjálparstofnanir heimilanna, skólar og dagvistarstofnanir, sem og aðrir opinberir aðilar sem vinna að málefnum barna, vinni að sömu aðalmarkmiðum uppeldis og þeir. Ég tel að þau atriði séu augljósar forsendur fyrir andlegu öryggi barnanna.

Í stuttu máli: Meginhugsunin á bak við þetta frv. er sú, að það sé nauðsynlegt að skólinn og heimilið vinni að sameiginlegu uppeldismarkmiði, að samstarf kennaranna, starfsmanna skólanna og foreldra og forráðamanna barnanna sé virkara með sameiginleg uppeldismarkmið í huga til þess að auka andlegt öryggi barnanna og auka traust þeirra almennt í lífinu.

Ég læt þetta nægja almennt um hugsunina á bak við frv. Ég vil víkja aðeins að því, hvernig stóð á því að þetta frv, var samið. Ég get játað að ég gerði mér ekki alveg ljósa fyrir nokkru þörfina á slíkum lagaákvæðum sem gert er ráð fyrir í þessu frv. En athygli mín var vakin á því fyrir alllöngu, að fram hefði farið gífurlega viðtæk könnun á persónulegum högum nemenda í heilum árgangi grunnskóla í Reykjavík. Vöknuðu vissar áhyggjur hjá foreldrum í þessu sambandi. Það kom fyrir, að börn spurðu heima hjá sér eða viku lauslega að því, að fram hefði farið könnun í skólanum þess eðlis að þau veltu því fyrir sér, hvort það væri í raun og veru ætlast til að þau gætu svarað þeim spurningum sem þar voru fram lagðar. Þess vegna var það, að foreldrar tóku að spyrjast fyrir um hverjar þessar spurningar voru. En það var mála sannast, að það var gersamlega útilokað fyrir foreldra að fá að sjá hvaða spurningar höfðu verið lagðar fyrir börn þeirra, hvað þá að þeim hefði verið frá því skýrt fyrir fram.

Þegar athygli mín hafði verið vakin á þessu spurðist ég fyrir um það, ekki opinberlega í þinginu, heldur sneri ég mér til fyrrv. menntmrh. og fékk hjá honum þau skjöl, sem um var að ræða, sem trúnaðarmál. Af hverju þau voru trúnaðarmál veit ég ekki. Hér var um að ræða verkefni sem lagt hafði verið fyrir skólaskylda nemendur í Reykjavík og vörðuðu að miklu leyti m.a. hag barna og heimili, foreldra, heimilisháttu ýmiss konar, m.a. samkomulag milli foreldra, en þetta var allt að einu trúnaðarmál. Við athugun þessara gagna sannfærðist ég um að það væri nauðsynlegt að setja reglur um slíka starfsemi. Með þessu er ég alls ekki að segja að það geti ekki verið gagnlegt að framkvæma ýmsar rannsóknir í grunnskólanum. Þvert á móti hygg ég að það geti verið mjög gagnlegt. Hitt er annað mál, að þegar fjallað er um málefni sem varða persónulegan hag barna og heimila þeirra, málefni sem varða foreldra þeirra, þá tel ég ekki samrýmast almennu réttaröryggi að gera slíkt án samþykkis foreldranna.

Ástæðan til þess, að frv. var ekki lagt fram fyrr í vetur, heldur nú nýlega, var sú, að ég hafði beint formlegri fsp. til menntmrh. um þetta efni, þannig að ekki færi á milli mála um hvað væri verið að fjalla, og bað um það skjal sem hér hefur verið lagt fram. Það hefur ekki fengið þingskjalsnúmer, en er skriflegt svar við fsp. um viðtæka könnun á persónulegum högum og viðhorfum nemenda í 8. bekk grunnskóla, og sú fsp. var á þskj. 229. Ég taldi rétt að þetta frv. kæmi fram um það leyti er þessi svör lægju fyrir, þannig að menn sæju hver þörf væri á því að setja lagareglur um upplýsingaöflun meðal nemenda á grunnskólastigi.

Vinnan við undirbúning þessa máls, athugun þessara gagna, þessa skjals sem er svar við fyrirspurn minni, og hugleiðingar í kringum það atriði vöktu einnig spurningu um það, hvort nægilega tryggilega væri frá því gengið að foreldrar hefðu til þess aðgang og lagaheimild að fylgjast með því, hvað það væri sem gerðist í grunnskólanum þar sem börn þeirra væru við nám. Sú er ástæðan fyrir því að þetta frv. er flutt.

Þá vil ég víkja sérstaklega að efnisatriðum frvgr. 1. gr. er byggð á 2. gr. úr viðbótarsamningi við Evrópusáttmálann um mannréttindi, þ.e.a.s. sú breyting sem í henni felst frá því sem nú er í grunnskólalögum. Frvgr. hljóðar svo:

„2. mgr. 2. gr. laganna orðist þannig:

Grunnskólinn skal leitast við að haga störfum sínum í sem fyllstu samræmi við eðli og þarfir nemenda og stuðla að alhliða þroska, heilbrigði og menntun hvers og eins.“ Síðan kemur það sem er nýmæli, tekið upp úr mannréttindasáttmálanum, þó ekki orðrétt, ég vek athygli á því. Í frvgr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Virða skal rétt forráðamanna nemenda til þess að tryggja það, að menntun og fræðsla gangi ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra.“ Þetta atriði er byggt á mannréttindasáttmálanum, en orðalag hans er dálítið öðruvísi. Það hljóðar svo, með leyfi hæstv, forseta: „Virða skal rétt forráðamanna nemenda til þess að tryggja það, að menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra.“

Ég hafði í uppkasti að frv. raunar orðað þetta svo, en þóttist vita, eins og sums staðar hefur komið á daginn, að það kynni að valda misskilningi, menn teldu að þetta væri erfitt túlkunaratriði. Má vel vera að það ætti fremur að orða þetta algjörlega í samræmi við mannréttinda sáttmálann, og ég hef í sjálfu sér ekkert við slíka breytingu að athuga ef hv. þm. sýnist svo. En mér virtist að það væri lágmarkskrafa, að í grunnskólalögum stæði, þótt ekki væri meira en þetta, ákvæði um rétt forráðamanna nemenda til að tryggja að menntun og fræðsla gengju ekki gegn trúar- og lífsskoðunum þeirra. Á þessu er hert í næstu mgr., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í skólastarfinu skal forðast einhliða áróður um slíkar skoðanir og um álitaefni og ágreiningsmál í þjóðfélaginu.“

Það lætur að líkum, að því er þetta varðar, að ég hef fyrst og fremst í huga að einhverjar skorður séu reistar gegn pólitískum áróðri í skólum. Mér er ljóst að það eru fjölmargir aðilar í þjóðfélaginu sem segja: Er þá ekki pólitískt uppeldi eða pólitískur áróður að haga skólastarfinu í samræmi við þær grundvallarhugmyndir þjóðfélagsins sem ríkjandi eru? — Menn geta haft um það mismunandi skoðanir, en ég er þeirrar skoðunar að svo sé ekki. Foreldrar hljóta að ganga út frá því, að þær hugmyndir, sem séu ríkjandi í skólum hins opinbera, séu þær hugmyndir sem lögverndaðar eru í stjórnarskrá og öðrum lögum landsins, og þá á ég fyrst og fremst við tvennt: annars vegar kristindóminn og hins vegar friðhelgi heimila.

Þegar ég minnist í þessu sambandi á friðhelgi heimila, þá er ég komin aftur að þeim grundvallarhugmyndum sem ég gat um í upphafi: fjölskyldunni, sambandinu milli foreldra og barna. Það er skoðun mín, að það geti ekki talist pólitískur áróður, að skólastarfi sé hagað í samræmi við gildandi lög í landinu, og við þetta má bæta, að í sjálfum grunnskólalögunum, 2. gr., er einnig talað um samvinnu við heimilin: „Hlutverk grunnskólans er, í samvinnu við heimilin, að búa nemendur undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi, sem er í sífelldri þróun“ o.s.frv.

Í næstu setningu þessarar greinar grunnskólalaga segir, með leyfi hæstv. forseta: „Starfshættir skólans skulu því mótast af umburðarlyndi, kristilegu siðgæði og lýðræðislegu samstarfi.“ Auðvitað er þarna í raun og veru stefnumörkun. Ég lít svo á að í þessu felist ekki pólitískur áróður. Hins vegar lít ég svo á að skólastarf, sem beinist gegn þessu, sé pólitískur áróður. Um þetta hefur staðið mikil og hávær umræða í ýmsum löndum, ekkí síst hjá frændþjóðum okkar árum saman, en svo einkennilegt sem það virðist hefur verið hljótt um slíkt hér á landi. Ég veit ekki hvað veldur því. Mér dettur í hug að það sé fámennið. Hér þekkir hver annan, hér eru menn þess vegna e.t.v. smeykari við að vekja athygli á því opinberlega sem þeim finnst aflaga fara í starfi grunnskólans. Menn óttast líka að það kunni að reynast börnum þeirra erfitt ef þeir láta í sér heyra í gagnrýnisátt að þessu leyti. Engu að síður tel ég að jafnmikil nauðsyn sé á slíkri umr, hér á landi og annars staðar og satt að segja ekki síður nauðsyn á reglum um þetta hér en annars staðar. Í sumum löndum hefur verið unnið mikið starf af hálfu skipulagðra foreldrasamtaka í því skyni að efla skilning á því, að það sé siðferðilega rangt að ganga gegn þeim grundvallarskoðunum um samband foreldra og barna sem ríkja í almennri fræðslu í þessum löndum, og menn hafa snúist hart gegn pólitískum áróðri, ekki síst þegar hann er í þá veru að grafa undan trausti barna á foreldrum sínum. Það atriði, hvort sem það gerist beint eða óbeint, tel ég hið allra ámælisverðasta á þessu sviði.

Ég mun ekki tína til einstök dæmi úr skólastarfi á Íslandi að þessu leyti. Hitt er ljóst, að það getur ekki verið nema til góðs að hafa varnagla í lögunum að þessu leyti. Hvers vegna skyldum við vera að gerast aðilar að alþjóðasamningum sem binda land okkar að þjóðarétti og hafa að geyma ákvæði um þessi efni, ef við treystum okkur ekki til að leiða slíkt í lög í okkar landi? Það er svo, að Evrópusáttmálinn, sem ég gat um áðan og hefur að geyma ákvæði um rétt forráðamanna til að tryggja að menntun og fræðsla sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir þeirra, hefur lagagildi í mörgum Evrópuríkja, allur eins og hann leggur sig, og í öðrum Evrópuríkjum eru einstök ákvæði hans í dreifðum lögum. Í þessu frv. er lögð á það áhersla, að þetta ákvæði um börnin sem eru skyldug til að ganga í skóla sem á Íslandi er hér um bil í öllum tilfellum rekinn af hinu opinbera, það atriði sáttmálans, sem þau varðar og foreldra þeirra, sé í lög leitt í þeim lagabálki sem fjallar um grunnskólann. Fæ ég ekki annað séð en það séu nánast mistök að slíkt skuli ekki þegar vera lögleitt og hneisa ef það verður ekki gert. Ef við treystum okkur ekki til að lögleiða slík ákvæði, þá skulum við ekki heldur undirrita sáttmála um jafnsjálfsögð mannréttindi og þessi.

Þegar ég vék áðan að alþjóðlegum sáttmálum, þá gat ég ekki um einn mikilvægan sáttmála enn og reyndar aðra sáttmála honum skylda, sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem varða réttindi barna. Eitt mjög mikilvægt ákvæði í grundvallarsáttmálanum um réttindi barna er það, að börn skuli eiga rétt á ást og umhyggju foreldra eða þeirra sem koma í þeirra stað. Þetta og aðrir þeir alþjóðlegu sáttmálar, sem ég hef getið um áður í máli mínu, styðja þá skoðun, að það sé bæði tilhlýðilegt og nauðsynlegt að setja reglur um þetta í lögin sem fjalla um menntun barna.

Ég hef orðið þess vör, að þetta ákvæði stingur óþyrmilega í augun vissan pólitískan flokk manna hér á landi. Það undrar mig í sjálfu sér ekki og samrýmist þeim aðferðum sem sá flokkur notar, að kalla þá, sem fyrir slíkum lagaákvæðum vilja berjast, mannréttindafasista og slíkum nöfnum. (Gripið fram í: Hvaða flokkur hefur notað slík nöfn?) Það er flokkur sem hv. þm, er nú kannske eitthvað svolítið farinn að kynnast, þó hann hafi nú ekki verið þar lengi. (Gripið fram í: Vill þm. nefna tilvik um það?) Ég las í málgagni hv. þm., Þjóðviljanum, nú fyrir nokkrum dögum, grein sem bar þessa glæsilegu fyrirsögn: „Mannréttindafasismi“, og greinin útlistaði hvernig fólk, sem fjallaði um mannréttindi, væri eiginlega að prédika fasisma. Ég tel að það sé ekki nauðsynlegt að fara nánar út í þetta nú, en greinar sem þessi eru þarfar því að þær varpa ljósi á starfsaðferðir þess flokks sem þarna á hlut að máli, Alþýðubandalagsins, sem er skjól og skjöldur allra þeirra vinstri öfgahópa sem eru að mínu mati hættulegastir uppeldi barna í þessu landi. Ég skal doka við á meðan hv. þm. skrifar þetta. (Gripið fram í: Það þarf ekki. Ég er nægilega fljótur að gera það.)

Það er engin ný uppfinning hjá mér, að það sé nauðsynlegt að snúast gegn aðferðum sem t.d. birtast í þessu greinarkorni og fleiri skrifum Þjóðviljans þegar fjallað er um réttindi barna til þess að fá vernd gegn óhollum uppeldisáhrifum. M.a. eru þeir, sem gagnrýna misnotkun á möguleikum til þess að koma með ódýru móti á framfæri ýmsu lesefni fyrir börn, þeir, sem gagnrýna slíka misnotkun sem fram hefur farið í pólitískum tilgangi, — þeir eru sagðir — ég er nú búin að gleyma öllum þeim ókvæðisorðum sem yfir dundu í því sambandi, en þeir eru sagðir krefjast — (Gripið fram í: Biksvart íhald.) Já, biksvart íhald. Það er nú ekkert nema heiðursnafn að mínu mati, en þeir eru — (Gripið fram í: Það er kjarni málsins.) Ég tel það vera kjarna málsins að vera íhaldssamur á það sem til heilla hefur horft í okkar þjóðfélagi. Það skulum við reyna að vera og setja lög þess eðlis, að við höfum rétt til að halda því sem gott er börnum okkar til handa í þeim stofnunum sem hið opinbera hefur á sínum snærum, hvort sem það eru fjölmiðlar eða skólar.

Ég var, þegar frammíköll byrjuðu, í þann veginn að vekja athygli á því, að ég á ekkert einkaleyfi á þeirri uppfinningu, að nauðsynlegt sé að reisa skorður við pólitískum áróðri í slíkum stofnunum. Ég hafði bent á að fólk hefur fyrir löngu vaknað í öðrum löndum. En það er eins og gengur, að oft berast bylgjurnar, illar eða góðar eftir atvikum, í þessu tilfelli góðar að mínu mati, fólk vaknar hér áður en það er um seinan. Og ekki er síst þörf á því þegar þeir, sem vilja beita pólitískum áróðri í skólum, telja sér nú auðvitað alla vegi fremur færa þar sem Alþýðubandalagið, skjól og skjöldur vinstri öfgamanna, fer með þriðjung ríkisstjórnarinnar í landinu. (Gripið frsm í: Er þetta frv. gegn Alþb.?) Þetta er frv. gegn pólitískum áróðri, herra forseti. (Forseti: Hv. þm. er næstur á mælendaskrá.) Ég leyfi mér að biðja hæstv. forseta að hlutast til um að þm. hlíti þingsköpum.

Það er ekki að ástæðulausu, veit ég, að hv. þm., sem fram í greip, bar fram spurningu sína. Hann spurði hvort þetta væri frv. gegn Alþb. Það er eðlilegt að hv. þm. spyrji. Ég man ekki betur en að fyrir nokkrum dögum hafi mikilvæg síða í Þjóðviljanum sem fjallar mjög um samskipti foreldra og barna, Rauðsokkasíðan, fjallað um þýðingu fjölskyldunnar. Þar kom fram að fjölskyldan væri þar á bæ talin fyrirbrigði sem væri heldur til óþurftar. Ég veit að hv. þm. Alþb. og kannske fleiri kannast við kenningar úr einhverjum hópum sínum um það, að fjölskyldan sé afsprengi hins að þeirra dómi slæma kapítalíska þjóðfélags og sé börnum til hinnar mestu óþurftar. Lái mér það hver sem vill, að ég vilji snúast gegn slíkum kenningum. Mér þykir engin ástæða til að innleiða slíkt í íslenskar menningarstofnanir. Vafalaust geta þeir foreldrar, sem hafa þessar skoðanir, komið málum svo fyrir að blessuð börnin sannfærist um þetta. En ég tel rétt að skorður séu reistar gegn því, að slíkt sé látið ganga yfir börn almennt, a.m.k. séu stefnumótandi ákvæði í grunnskólalögunum, þar sem undirstrikuð sé nauðsyn þess að forðast einhliða áróður um álitaefni og ágreiningsmál í þjóðfélaginu.

Herra forseti. Ég mun ekki fjalla nánar um 1. gr. frv. í framsöguræðu minni, en vík að frv. að öðru leyti. Síðari greinarnar fjalla í raun og veru um annað atriði, þó að þessi atriði skarist nokkuð að segja má. 2. gr. fjallar um upplýsingar sem veittar eru um nemendur í grunnskólanum.

Áður en ég fer út í sjálfa greinina tel ég nauðsynlegt að víkja nokkuð að því skjali sem hæstv. menntmrh, bar fram hér á Alþ. sem svar við fyrirspurninni nú í vetur og var þess eðlis, að áhyggjur — að ég ekki segi óhug — hefur vakið hjá ýmsum sem litið hafa á þetta skjal. Efni málsins var það, að nokkrir stúdentar við háskóla erlendis fengu heimild menntmrn. til að fara í grunnskólana og spyrja börnin í heilum árgangi á grunnskólastigi í Reykjavík margvíslegustu spurninga sem varða foreldra þeirra eða þau sjálf eða viðhorf þeirra til margvíslegra efna í þeim tilgangi að afla sér efnis í prófritgerðir.

Í Tímanum 8. febr. kom fram eftirfarandi frá ráðuneytisstjóranum í menntmrn., ég leyfi mér að lesa úr hlaðinu, herra forseti: „Menntmrn. leyfir allar kannanir“,svo kemur þankastrik og undirfyrirsögn: „vísindalegs eðlis.“ Fréttin hljóðar svo eða öllu heldur viðtalið:

„Við leyfum þær kannanir yfirleitt sem undir okkur eru bornar, enda höfum við þá áður ráðgast við Háskólann um það, sagði Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri í menntmrn. í samtali við Tímann í gær, þegar við forvitnuðumst um skoðanakannanir í skólum.

Þetta eru yfirleitt kannanir í þágu vísindalegra rannsókna, sagði Birgir, en það er nauðsynlegt að fá löggjöf um þær. Fyrir löngu síðan var skipuð sérstök n. til þess að semja frv, til laga um rannsóknastörf hér á landi í þágu hugvísinda. Í þessari n. eiga sæti Ólafur Björnsson prófessor, sem er formaður, dr. Gaukur Jörundsson prófessor, dr. Guðmundur Magnússon prófessor og dr. Sigurjón Björnsson sálfræðingur. Þeir eru ekki búnir að skila áliti, en ég á nú von á því innan tíðar.“

Ég hef kynnt mér störf þessarar nefndar og ég hef þær fregnir af henni, að hún hafi litið svo á að skömmu eftir að hún var skipuð af fyrrv. menntmrh., Gylfa Þ. Gíslasyni, hafi sú þróun mála orðið að hún liti nánast svo á að þetta verkefni væri niður fallið, þar eð ekkert heyrðist frá næsta menntmrh. og að ég held ekki frá þar næsta, en nú mun hafa verið haft samband við n. fyrir nokkrum dögum.

Það er auðvitað satt og rétt, að nauðsynlegt er að fá löggjöf almennt um rannsóknir vísindalegs eðlis á sviði hugvísinda. En þetta atriði, sem hér er um fjallað, er einungis um slíkar rannsóknir á grunnskólastigi og um það atriði tel ég nauðsynlegt að gildi sérstakar reglur, jafnvel enn nákvæmari en almennt væri, þar eð hér er um að ræða að börnin, sem eru skyldug til skólavistar, séu notuð sem efniviður og upplýsingamiðlarar fyrir aðila sem vilja fræðast um eitt og annað í lífi þeirra og foreldra þeirra.

Ég vil þá víkja nánar að þessari sérstöku könnun sem kynnt hefur verið á Alþ. með svari hæstv. menntmrh. Við hana er ýmislegt stóralvarlegt að afhuga. Ég vil þó taka fram að ég efa ekki að bæði hafi leyfið verið í góðum hug veitt og rannsóknin gerð af fróðleiksfýsn og vafalaust í góðum hug. En þegar á málum er haldið með þeim hætti sem hér var gert tel ég að það sé hvorki greiði gerður börnum, foreldrum, þjóðfélaginu yfirleitt né þeirri fræðigrein sem fékkst við úrvinnslu þessara gagna.

Ég er í hópi þeirra sem telja að sálfræðiþjónusta í skólum hafi mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Hins vegar tel ég að vinnuaðferðir, sem rýra traust á þessari fræðigrein, séu mjög bagalegar. Og ég tel að það geri skaða að ekki séu reglur um slík störf sem séu þess eðlis að ekki sé unnt að tortryggja þau vinnubrögð sem viðhöfð eru.

Þær spurningar, sem ég bar fram fyrir hæstv. menntmrh., hljóðuðu svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Hve margir nemendur í Reykjavík tóku þátt í könnuninni og hve stór hundraðshluti nemenda í Reykjavík á því námsári?“ — þ.e. veturinn 1975–1976.

„2. Hve stór hundraðshluti nemenda þessa árgangs á hverjum stað annars staðar á landinu tók þátt í könnuninni?

3. Hverjir stóðu að umræddri könnun, stjórnuðu henni og framkvæmdu hana?

4. Hverjir leyfðu könnunina?

5. Hverjum öðrum en börnunum sjálfum var sýndur spurningalistinn?

6. Hvernig hljóðaði skjalið með spurningunum og skýringum, sem lagt var fyrir börnin?

7. Var unnið úr upplýsingunum í tölvum erlendis?

8. Hvenær barst rn. skýrsla um framkvæmd könnunarinnar og úrvinnslu úr henni og hvernig hljóðaði skýrslan?“

Svörin við þessum spurningum voru þau, að 1427 nemendur eða 93.3% nemenda á 8. námsári hafi tekið þátt í könnuninni. Þetta atriði eitt er að mínu mati algerlega ótækt. Þegar fjallað er um fjölmargar og margvíslegar persónulegar upplýsingar, þá held ég að það sé alls staðar viðurkennt, þar sem slík upplýsingavinnsla er komin á eitthvert menningarstig, að hún verði að miðast við úrtak, en ekki heildarsöfnun. Unnið hefur verið geysilega mikið starf á vegum alþjóðlegra stofnana einmitt á þessu sviði og alls staðar er niðurstaðan þessi, að þær upplýsingar, sem fyrir liggja um persónulega hagi, megi ekki vera úr stærri úrtökum en svo að dugi til að komast að sennilegri niðurstöðu frá tölfræðilegu sjónarmiði. Þegar ekki er um úrtak að ræða, heldur svona heildarkönnun, þá er um miklu minna öryggi að ræða fyrir einstaklinginn sem þátt tók í könnuninni.

Svarið við 2. spurningu minni var um það, að slík könnun hefði ekki verið gerð annars staðar á landinu, þ.e.a.s. ekki þessi könnun. Enginn veit hve margar aðrar kannanir svipaðs eðlis kunna að hafa verið gerðar nú upp á síðkastið. Fyrir mörgum árum var gert mikið veður út af því og það gerði Þjóðviljinn ekki síst, þegar núv. varaþm., Bragi Jósepsson gerði könnun á atferli eða högum nemenda vestur á Snæfellsnesi. Þá gekk svo mikið á að einn núv. þm. Alþb. tók til máls í Alþingi utan dagskrár. Mikið var rætt um svívirðilegar persónunjósnir o.s.frv. og sagt að vísast væru þær gerðar á vegum CIA. Nú heyrist ekki mikið hljóð úr þessu horni. En sagt er í svari hæstv. ráðh., að til þess að prófa spurningaskrána var raunar gerð könnun á Selfossi og þar tóku 69 nemendur þátt í könnuninni.

Í þriðja lagi segir í svari ráðh., að vísindalegur stjórnandi og ábyrgðarmaður könnunarinnar hafi verið dr. philos. Edvard Befring, þáv. prófessor í uppeldissálfræði við Árósaháskóla, nú rektor við Sérkennaraskólann í Osló. Mér er kunnugt um að nafn þessa prófessors varð til þess að auka traust á þeirri könnun sem þarna fór fram. Mér er líka kunnugt um að nafn þessa prófessors varð til þess að könnunin var styrkt fjárhagslega af ýmsum aðilum. Hér er getið um að vísindalegur stjórnandi og ábyrgðarmaður hafi verið þessi umræddi doktor og prófessor. Þegar átti af hálfu foreldra að afla sér upplýsinga um hvað það var, sem börnin voru látin gera í skyldunámi sínu í allt að þremur klukkustundum samfleytt þann dag, sem skoðanakönnunin fór fram, var spurningum um það beint eftir ábendingu menntmrh. til þessa vísindalega stjórnanda og ábyrgðarmanns, honum skrifað bréf, en það leið og beið og ekki barst svar frá honum. Prófessornum var skrifað ítrekunarbréf og enn leið og beið. Síðan kom bréf frá stúdentunum, þar sem þeir segja að þeir hafi fengið framsent bréf prófessorsins og þar eð þeir beri ábyrgð á könnuninni og geri hana telji þeir rétt að þeir svari bréfinu. Þarf því einhvern veginn að ganga betur úr skugga um að sú vísindalega ábyrgð sé þar sem hún er sögð vera.

Nú má vera að prófessorinn hafi með einhverjum hætti hætt sinni forustu eða brugðist forustu sem hann ætlaði að veita stúdentunum. Það má vera, og mér þykir trúlegt að það hljóti að vera einhvern veginn með þeim hætti. En þá á ekki að halda áfram að segja að þessi starfsemi sé á vísindalega ábyrgð og undir stjórn þessa prófessors.

Nú er það svo, að þegar bréfi var svarað um þetta efni fékkst þó allt að einu ekki svar við því sem spurt var um, en það var umræddur spurningalisti. Því var enn skrifað og spurt um hann, en hann fékkst ekki. Síðan þarf ég ekki að rekja þá sögu nánar, því að ég gerði það áðan, að spurningalistinn fékkst ekki með neinu móti nema formlegri fsp. á Alþingi.

Við 5. spurningu minni, hverjum öðrum en börnunum sjálfum var sýndur spurningalistinn, kom svo hljóðandi svar, með leyfi hæstv. forseta:

„Rn. er ekki kunnugt um að við fyrirlagningu spurningaskrárinnar hafi hún verið sýnd neinum öðrum en þeim unglingum sem svöruðu henni.“

Þetta atriði er einnig stórathugavert. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa forráðamanna skólanna, að starfsemi, sem fer fram innan veggja skóla, sé að öllu leyti kynnt skólastjórunum. Skólastjórunum sjálfum var ekki sýndur þessi spurningalisti. Það hlýtur líka að vera lágmarkskrafa, að foreldrum ósjálfráða barna sé skýrt frá því, um hvaða efni er verið að spyrja börn þeirra. Ég held að svo hafi verið gert í ákaflega mörgum tilfellum þegar þjóðfélagsfræðirannsóknir eða sálfræðirannsóknir hafi verið gerðar hér á landi, þá hafi verið leitað samþykkis bæði viðkomandi barna og foreldra þeirra. (Menntmrh.: Svarið er aðeins lengra.) Ég mun koma að því síðar. Hjá foreldrunum, skólastjórunum og kennurunum var ekki leitað samþykkis, heldur var þvert á móti börnunum gerð rækileg grein fyrir því, að engir aðrir fengju að sjá þessar spurningar, hvorki kennarar, foreldrar né aðrir. Hvaða tilgangi þjónar það? Hvaða tilgangi þjónar að koma með slíkt stórverkefni inn í grunnskólann og taka rækilega fram: Þetta er bara okkar í milli, það voru að vísu margir tugir manna sem unnu í þessu, en þetta er bara okkar í milli, foreldrar ykkar fá ekki um þetta að vita? — Það kann vel að vera að þetta þyki fyrirmyndarvinnubrögð hjá einhverjum fræðimönnum, en ég er hrædd um að hjá ábyrgum fræðimönnum þyki það ekki, að gengið sé þannig að börnum og þau notuð sem upplýsingamiðill um heimilishagi, um hagi foreldra og um ýmis atriði sem þau skilja varla sjálf.

Svarið er aðeins lengra, sagði hæstv. ráðh., og mun ég nú lesa framhaldið af þessu svari, með leyfi hæstv. forseta.

„Áður hafði könnunin verið kynnt skólastjórum þeirra skóla, sem hlut áttu að máli, á fundi með fræðslustjóra. Var þeim þar látinn í té allrækilegur útdráttur úr spurningaskránni þar sem fram komu öll þau meginatriði sem um var spurt.“

Ég geri hér hlé á upplestrinum úr þessu svari. Við þetta er það að athuga, að þó að skólastjórum hafi verið frá þessu sagt og þeim gerð grein fyrir þessu, þá var þeim ekki sýndur spurningalistinn, og það er það sem máli skiptir vegna þess sem ég kem að síðar. Spurningarnar eru margar mjög leiðandi. Síðan held ég áfram lestrinum úr þessu svari:

„Þeir aðilar, sem nefndir voru í 4. lið,“ — það voru fræðsluyfirvöld, — „höfðu að sjálfsögðu athugað skrána áður en leyfi var veitt. Því má bæta við að vissulega er hugsanlegt að þeir fræðimenn og stúdentar, sem aðild áttu að könnuninni, hafi sýnt öðrum spurningaskrána á einhverju stigi máls.“

Að vísu skiptir þetta nokkru máli, en meira máli skiptir þó annað sem ég kem að síðar, og það er meðhöndlun gagnanna. Ég kem að því síðar.

Svo kemur bein spurning: Var leitað samþykkis foreldra? Svarið við því var nei.

Síðan er birtur sá formáli sem hafður var yfir börnunum til skýringar áður en könnunin fór fram. Í hann vantar eitt atriði áberandi. Engin grein virðist nemendum vera gerð fyrir því, að þeir geti neitað að svara. Þvert á móti ef þeir skyldu hafa látið undir höfuð leggjast að svara einhverri spurningu er beðið um skýringu á því, af hverju þeir hafi ekki svarað?

Eitt atriði enn, sem er afar sérkennilegt við það starf sem þarna fór fram, er að það voru aðilar utan skólans sem framkvæmdu þessa könnun í skólatímanum. Það er sjálfsagt óhjákvæmilegt að starfsmenn skólans, kennarar og aðrir, fái ýmsar upplýsingar um einkahagi nemenda. Það er eins og gengur, það skapast mikil kynni milli þessara aðila. En bæði þarna og í ýmsum öðrum tilvikum hefur það gerst, að aðilar utan skólans geta gengið inn í skólana, að vísu að forminu til með leyfi menntmrn., og spurt skólabörnin um hvað eina sem þeim sýnist. Ég sé ekki betur á þessu plaggi. Þetta á sér jafnvel stað um áhugamannahópa. Nú má vel vera að það sé mat menntmrn., að þarna hafi verið um vísindalega rannsókn að ræða, og ég get vel trúað því, að ýmsar deildir háskólans hafi ekki gert sér ljósan þennan möguleika, að það væri hægt að ganga inn í barnaskólana og nota krakkana sem úrvinnsluefni í ýmsum prófverkefnum. (Gripið fram í: Krakkarnir svara nú oft ýmsu til.) Það getur verið dálítið erfitt þegar staðið er að málum eins og þarna er, því að hér er rækilega tekið fram að enginn viti nafn svarenda, og þar er ég kominn að langalvarlegasta atriðinu í þessu máli.

Vel má vera að þeir, sem spurðu, hafi talið að um nafnleynd væri að ræða, og í ströngum skilningi var það svo. Það var ekki spurt um nafn nemandans. En svo margar eru spurningarnar sem gefa möguleika til þess að þekkja svarandann, að sérfræðingar á sviði tölvísinda segja mér að það sé örskammrar stundar verk að finna út, hver hver einasti þátttakandi var og hverjir foreldrarnir eru. Eins og við vitum eru skrár yfir nemendur í grunnskóla opinber gögn hér á landi. Það liggur líka fyrir hverjir eru foreldrar nemenda á grunnskólastigi. Þarna er tekið, eins og ég sagði, ekki úrtak, heldur heildarsöfnun. Þar er um alvarlegasta atriðið að ræða að mínu mati. Þess vegna er rangt þegar börnunum er sagt að enginn viti um nafn svarendanna. A.m.k. gefa spurningarnar fyllilega möguleika á að komast að því.

Það kemur fram í svörum hæstv. menntmrh., að öðrum aðilum en stóðu að framkvæmd könnunarinnar hafi ekki verið sýndar þær spurningaskrár sem hér var um að ræða. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. menntmrh. áður en hann fer úr salnum: Gæti hann gert gangskör að því að athuga, hvort öðrum aðilum hefur verið afhent eintak af úrvinnslugögnunum, t.d. spóla úr þeirri tölvuúrvinnslu sem fram fór erlendis. (Gripið fram í: Það mætti nú leita í VL-spólunum í leiðinni.) Það mætti gera það, og vafalaust mundi hv. þm. þá finna út að í VL-spólunum voru ekki lyklar, eins og nafnnúmer og slíkt, þannig að það er ekki nokkur leið að bera þær spólur saman við nein önnur tölvuprógrömm. Það er ekki hægt að græða nokkurn skapaðan hlut á þeim gögnum sem hv. þm. eða a.m.k. núv. flokksbræður hans fóru mikla herferð út af um árið. Í þeim gögnum er vitanlega ekki nokkur skapaður hlutur alvarlegri en það sem er í félagaskrá hvers einasta stjórnmálaflokks í landinu og fjölmörgum öðrum skrám, tölvuskrám víðs vegar á landinu. — Má ég biðja hæstv. forseta að biðja þdm. að gera svo vel og hlíta þingsköpum svo að unnt sé að tala fyrir málum? (Forseti: Ég vil taka það fram, að ég tek nú venjulega ekki strax fram í fyrir mönnum, þó að þeir kalli fram í, vegna þess að mér finnst það stundum lífga upp á umr. og koma sér sérstaklega vel fyrir góða ræðumenn eins og þann sem nú stendur í ræðustólnum. En auðvitað eiga menn að virða þingsköp og láta þeim, sem hefur orðið, eftir að tala).

Herra forseti. Ég mun leyfa mér að lesa nokkur atriði úr álitsgerð eins færasta stærðfræðings á landinu um þessi gögn sem hér liggja fyrir. Ég leyfi mér þá að hefja lesturinn:

„a) Könnunin nær til svo margra og sundurgreinandi persónuupplýsinga að ómögulegt er að telja að svarendur séu tryggir í nafnleysi sínu. 1. spurningin skiptir nemendum þegar í rösklega 12 hópa, 2. spurningin í tvo hópa, 3. spurningin í um 30 hópa. Ef unnt væri að fá upplýsingar um hæð nemenda í skólum Reykjavíkur“en um það var ein spurningin — „þetta tiltekna ár ættu þessar þrjár spurningar einar að nægja til þess að finna nafn hvers einasta svaranda. Sundurgreiningaratriðin eru þegar með þessum þremur spurningum orðin rúmlega 600. En það kemur fram í úrvinnslu gagnanna, að þau voru geymd aðgreind eftir skólum, og hóparnir, sem spurðir voru í hverjum skóla, eru allir minni en 200 nemendur. Atriðin, sem greina má sundur eftir þremur fyrstu spurningunum, eru því alls staðar þrisvar sinnum fleiri en hópurinn sem greina þarf sundur til að finna nöfn nemendanna. En auk þessara þriggja persónuspurninga og aðgreiningar eftir skólum eru enn 19 spurningar sem nota mætti á sama hátt, og sumar þeirra spurninga eru betur fallnar til sundurgreiningar hópsins en spurning 3, af því að ekki þarf að leita eftir upplýsingum sem ekki eru opinberar.

Íbúaskrá Reykjavíkur og skattskráin mundu á grundvelli spurninga 10 og 16–18 í listanum“ — sem hv. þm. hafa á borðum sínum — „gefa öllum svarendum nöfn. Við sundurgreininguna yrði varla mikið meira en ein villa í höndum manns sem hefði staðþekkingu venjulegs Reykvíkings.

b) Spurningarnar eru margar hverjar stefnandi (tendentiös) í því, að þær beina athygli svarenda í gagnrýnisátt á þeim sviðum sem spurt er um. Jafnframt er í sumum spurningunum greinileg stígandi eða fallandi í svörunum sem kostur er gefinn á. Hvort tveggja þetta er líklegt til að rýra trúverðugleik svaranna.

c) Margar spurninganna eru mótandi um allt viðhorf nemendanna til þess málaflokks sem spurt var um og þá ekki aðeins á þeim tíma sem könnunin fór fram, heldur um alla framtíð. Jafnframt horfir listinn allur til gagnrýnisáttar almennt, án þess að unnt sé að tiltaka að hverju sérstöku gagnrýnin beinist. Spurningalistinn gerir ráð fyrir og/eða leiðir til mótvægra skoðana eða tekur á flóknum og mikilvægum sviðum mannlífsskoðana sem unglingar á aldri svarenda hafa líklega aldrei íhugað og eru fullkomlega vanbúnir að taka afstöðu til. Margir svarmöguleikanna eru því mjög leiðandi (suggestívir).

Könnunin er þannig sjálf áhrifa- eða kennslutæki, en henni er beitt án þeirra markmiða og þess aðhalds sem venjulegt skólastarf er undirorpið. Auk þessa rýra þessar „suggestivu“ spurningar trúverðugleik svaranna að svo miklu leyti sem þær lúta að staðreyndum, þar sem vísast er að vanþroskuð tilfinningaviðbrögð við slíkum svörum valdi því, að röng verði svör við þeim vísvitandi eða ómeðvitað.“

Ég mun ekki lesa alla þessa grg., en ég vil nefna aðeins eitt atriði enn:

„d) Könnunin var ekki gerð með neinar kenningar eða fræðilegar spurningar í huga fyrir fram. Könnunin nær til mjög margra og margbreytilegra atriða sem oft er ekki fyrir fram ljóst að hafi neitt eðlislegt samband sín á milli, og einmitt vegna þessarar dreifingar og hve spurningarnar eru sundurleitar geta svörin ekki skorið úr um það, hvort þær fylgnitölur, sem unnt er að vinna úr svörunum, séu eftirmynd eðlisþátta í viðfangsefninu, hvað þá að þær gefi tilefni til nýrra lögmála eða kenninga.“

Ég held, herra forseti, að ég lesi ekki alla þessa grg. Í niðurlagi hennar fjallar höfundur hennar sérstaklega um hættuna af könnuninni. Ég hef þegar gert nokkra grein fyrir henni. Hafi hv. þm. lesið þann spurningalista sem hæstv. menntmrh. lagði fram, þá held ég að þeim hljóti að vera ljóst hver hætta felst í því, ef ekki er unnt að treysta fullkominni nafnleynd í upplýsingaöflun sem þessari. En auk þessa atriðis skiptir það líka máli, jafnvel þótt nafnleynd væri, hvers efnis listinn er. Hann fjallar, eins og ég hef áður sagt, um ýmis atriði, sem börnin eru vafalaust mörg hver vanbúin að svara, og um svo margvísleg persónuleg efni að það ætti einnig að byggjast á leyfi foreldra þegar svo ung börn eiga í hlut. A.m.k. átti að gera börnunum rækilega grein fyrir því, að þau gætu neitað að svara.

Til að hlaupa á örfáum atriðum, hvers efnis þessar spurningar voru og að hvaða leyti þær fela í sér afar óviðeigandi upplýsingar, ef ekki er fullkomin nafnleynd, mun ég nefna nokkur atriði.

Í fyrsta lagi var spurt mjög rækilega um foreldra, störf þeirra, aldur o.s.frv. 17 spurningar voru um samband barnsins við foreldra og um samband milli foreldranna. Spurning í 11 liðum var um eigin líðan og þrír möguleikar á einu svari við hverjum lið.

Spurningar voru um þátttöku í félögum eða klúbbum, í hvaða félögum og hvaða klúbbum og af hverju verið væri í þessum félögum eða af hverju væri hætt í þeim, ef viðkomandi var þar ekki lengur. Ef svarmöguleikarnir voru ekki allir taldir upp á blaðinu voru þau spurð í hvaða félögum og klúbbum öðrum? Ég er hrædd um að einhvern tíma hefði eitthvert blað talað um persónunjósnir í þessu sambandi.

Síðan var spurt: Hvaða bækur lestu? Hvaða blöð lestu? Lestu dagblöð? Hvaða dagblöð? Síðan voru talin upp Alþýðublaðið, Dagblaðið, Morgunblaðið, Tíminn, Vísir og Þjóðviljinn og átti að krossa við það hve oft hvert blað væri lesið, hvort það væri aldrei, tvisvar til þrisvar í mánuði, einu sinni í viku, tvisvar til þrisvar í viku eða svo til daglega. Síðan voru mjög margir svarmöguleikar um það, hvaða efni væri lesið í blöðunum, hvort það væri pólitískar greinar, minningargreinar eða hvað annað, það gefur auðvitað miklar upplýsingar um almenn pólitísk viðhorf nemenda eða möguleika á pólitískum viðhorfum þegar öll þessi svör eru tengd saman.

Í spurningakafla um hnupl, afbrot, prakkarastrik o.fl. er tekið fram og undirstrikað í listanum að engir aðrir en þeir, sem að könnuninni standa, sjái þau svör. Þá vaknar spurningin: Af hverju er þetta undirstrikað við þessa spurningu? Hvað þá um hinar spurningarnar? Var börnunum ekki í upphafi gerð grein fyrir því, að enginn fengi að sjá nein þessi svör, að um þetta væri alger leynd. Allt ber þetta að þeim brunni að ekki hafi verið nægilega tryggilega frá þessu máli gengið.

Til að sýna fram á að niðurstöðurnar hafi e.t.v. ekki verið óumdeilanlegar má nefna t.d. niðurstöður eins og þær, sem töluvert var gert með fyrr í vetur og margir drógu þá ályktun af, að nú væri búið að sýna fram á að þeir unglingar, sem væru í íþróttafélögum og skátafélögum eða slíku starfi — gott ef KFUM var ekki talið líka, hneigðust fremur til afhrota en aðrir unglingar í þjóðfélaginu. Dæmi um það, sem byggt hefur verið á í þessu sambandi, hljóta að vera svörin t.d. í þessum hnuplkafla spurninganna. Þar eru spurningar eins og þessi: „Hefur þú nokkurn tíma tekið peninga eða aðra hluti í leyfisleysi frá foreldrum þínum eða öðrum í fjölskyldunni?“ Það hefur e.t.v. komið játandi svar frá samviskusömu barni sem hefur borgað t.d. blaðreikning, tekið peninga fyrir strætisvagnafari eða farið og keypt mjólk og brauð úti í búð, ef foreldrarnir voru ekki komnir heim, fyrir peninga úr mjólkurpeningakrukku eða kassa sem er í mörgum eldhússkápum á heimilum á Íslandi. Jafnvel hefur foreldrunum verið gefin skýrsla um þetta við heimkomu þeirra, en engu að siður hefur samviskusömu barni fundist að þessi taka væri því óheimil í þeirri andrá þegar hún fór fram.

Í kaflanum um tóbak, fíkniefni og áfengi er m.a. spurning, nr. 87, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Myndir þú þiggja eða afþakka, ef þér byðust eftirtalin fíkniefni?“ Síðan voru möguleikar á svörum: Hass/marihuana. LSD. Amfetamín („speed“). Þef-efni (t.d. þynnir, blettavatn, lím). Önnur efni. — Vandséð er í hvaða tilgangi slík spurning er borin fram. En það er eins og með annað í þessum spurningalista, að niðurstaðan á að vera svo víðtæk að hún gefi efni í prófritgerðir um allt mögulegt sem tengst geti unglingum. Í því er kannske að finna svarið.

Í kaflanum um kynlífsspurningarnar er barnið fyrst spurt hvort það sé kynþroska og á að svara já eða nei. Síðan er tekið fram að ef það skilji ekki spurningarnar skuli það ekki hika við að rétta upp höndina. Ég hygg að flestir þm. muni skilja það ef þeir muna sína tíð þegar þeir voru unglingar, að það er ekkert fýsilegt fyrir barn 14 ára gamalt að rétta upp höndina í hópi bekkjarfélaga sinna og játa vankunnáttu sína á þessu sviði. En ef barnið gerði þetta var því gefinn kostur á útskýringum viðstadds leiðbeinanda sem ráðinn hafði verið í þetta sérstaka verkefni. En í því verkefni var mikill hópur manna. Því miður láðist mér að staðreyna upplýsingar um hve bekkjardeildirnar á þessu skólastigi hefðu verið margar þetta skólaár. En ég má segja að það hafi verið hópur, milli 80 og 90 manns, úr þjóðfélagsfræðum í Háskólanum og nemendur úr Kennaraháskóla Íslands sem ráðnir voru til þess að vera í hverri skólastofu til að útskýra fyrir krökkunum, ef þau skyldu e.t.v. ekki skilja einhver orð í spurningunum. Kennararnir voru hvergi nærstaddir.

Ég mun ekki, herra forseti, hafa fleiri orð um þetta stóra plagg, þennan spurningalista, því að hann sjálfur er ekkert aðalatriði. Það er í sjálfu sér ekki hægt að áfellast þá, sem gerðu þessa könnun, fyrir að hafa gert hana, því að þeir fengu tilskilin leyfi hjá þar til bærum yfirvöldum, sem — eins og ég sagði fyrr í ræðu minni þegar ég vitnaði til ummæla ráðuneytisstjóra menntmrn. — leyfa allar kannanir, að vísu sem þeir kalla „vísindalegs eðlis,“ en ekki var skilgreint hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að kannanirnar séu vísindalegs eðlis.

Nú er það vel kunnugt, að í mörgum löndum hefur farið fram mikil vinna til undirbúnings lagareglna um verkefni eins og það sem ég hef hér fjallað um. Í frv., sem ég vék að og lagt var fyrir Alþ. í fyrra um vernd manna gegn skrásetningu upplýsinga um persónuleg efni, er tekið fram í einni grein að úrvinnsla í tölvum erlendis sé í öllum tilvikum bönnuð. Þetta hefur ekki verið lögfest enn þá hér á landi. Ég dreg þetta fram til að undirstrika nauðsynina á að staðið sé að slíku máli tryggilega og fullkomlega faglega rétt — og þá á ég ekki aðeins við það fag sem er verið að vinna að, heldur einnig tölfræðilega og ekki síst siðfræðilega. Meðal þess, sem menn ræða mjög um þessi efni er setning löggjafar um notkun tölvu og hvaða skilyrðum þurfi að fullnægja þegar persónuupplýsingar eru geymdar í tölvubönkum. Ég sé ekki betur en einhver slík ákvæði séu mjög tímabær hér á landi.

Í Noregi hefur verið unnið mikið starf til undirbúnings löggjafar á þessu sviði og ný löggjöf gildir þar um þetta efni. Á meðan sú n. var að störfum var sérstök eftirlitsnefnd á vegum menntmrn. sem hafði það verkefni að líta eftir því, að kannanir, sem fram færu í skólum, fullnægðu þeim skilyrðum sem gera verður til slíks af ýmsum ástæðum, m.a. þeim ástæðum sem ég hef rakið hér á undan. Í engu tilviki má gera slíkar kannanir, þar sem safnað er persónulegum upplýsingum sem geymdar eru í tölvubönkum, nema með sérstökum leyfum. Enn fremur eru opinberar skrár um hverjir hafi fengið slíkt leyfi, í hvaða tilgangi og hver hópurinn sé sem slíkar upplýsingar séu til um. Ég held að það sé fyllilega tímabært að slíkt komi til hér á landi, en að sérstaklega nákvæmar reglur þurfi að vera um þetta atriði að því er tekur til sjálfs grunnskólans, þannig að það geti verið til gagns bæði þeirri fræðigrein, sem starfsins nýtur, og börnunum og þjóðfélaginu í heild.

Með þessu frv. mínu er alls ekki verið að vinna gegn vísindalegum rannsóknum. Þvert á móti er gert ráð fyrir töluvert rúmum undantekningarákvæðum og möguleikum á leyfisveitingum. Mér er vel ljóst að slíkar rannsóknir þjóna mikilvægum tilgangi, en nauðsynlegt er að þar sé allrar varúðar gætt vegna þeirra einstaklinga, sem í hlut eiga, og líka vegna þeirra fræðigreina, sem í hlut eiga. Enn fremur þarf að gá að því, hvert er verkefni grunnskólans. Það er ekki alveg sjálfsagt að grunnskólinn, þótt hann sé forvitnilegur, sé notaður til margs annars en að uppfræða börnin, en vissulega geta miklir þjóðfélagshagsmunir eða miklir vísindahagsmunir mælt með því, og þá er gert ráð fyrir að til slíks sé möguleiki. Frv. um slík lagaákvæði eru hér lögð fyrir Alþ., og ég vona að hv. alþm. sjái að það geti verið öllum aðilum til gagns að slík ákvæði séu sett.

Herra forseti. Ég hef nú orðið fjölorðari en ég hefði e.t.v. átt að vera um þetta atriði. Ástæðan er sú, að það er svo flókið og grípur inn í svo margar flóknar greinar, bæði tæknilegar og siðfræðilegar, að ég taldi það óhjákvæmilegt. Ég vil einungis undirstrika, að nauðsynlegt er að fullnægt sé skilyrðum um að vinnubrögð við slíkar kannanir, ef leyfi er veitt til þeirra, séu þannig að ekki sé hægt að gagnrýna niðurstöðuna. Vissulega getur þar verið um matsatriði að ræða. En aðalatriðið er að foreldrar og börn eiga að hafa frið til að sinna sinum verkefnum: foreldrar að sinna sínu uppeldishlutverki á þann veg sem þeir telja skynsamlegast og börn sinna sínu skólastarfi, meðtaka þá fræðslu og það uppeldi sem þar er fram boðið í anda þeirra laga sem gilda í landinu. Virða þarf mikilvægi þess að efla samstarf skólanna og heimilanna og treysta samband foreldra og barna, til þess að samstarf allra þessara þriggja aðila geti orðið til þess að undirbyggja hamingju og menntun barnanna, sem við öll viljum koma til hins mesta vits og þroska.

Herra forseti. Ég lýk máli mínu með því að segja að það, sem hér hefur verið til umr., er að mínu mati sameiginlegt nauðsynjamál fyrir okkur öll í þessu þjóðfélagi, fyrir börnin fyrst og fremst, fyrir foreldrana, og það ætti ekki að vera ágreiningsmál milli stjórnmálaflokkanna.