14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2577 í B-deild Alþingistíðinda. (2019)

168. mál, útvarpslög

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Mér þykir rétt að taka til máls um þetta efni þegar það er á dagskrá, því yfirleitt hefur það verið svo, að þegar þessi mál hefur borið á góma hér í þingi á undanförnum árum hef ég sagt álit mitt á þessu efni.

Þetta frv., sem er til umr. núna, er engan veginn nýtt. Þetta mál hefur verið flutt áður og borið hér á góma beinlínis áður, ég veit nú ekki hversu oft, en ég hef yfirleitt, þegar þetta mál hefur verið til umr., nákvæmlega þetta mál, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur verið helsti hvatamaður að, sagt álit mitt á því og hef út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta, heldur vil ég aðeins endurtaka það, að ég er ekki fylgjandi því að einkaleyfi Ríkisútvarpsins verði afnumið. Ég tel að það sé naumast tímabært að tala um slíkt. Auk þess held ég, að þetta sé ekki sérlega auðvelt í framkvæmd, og gæti tínt til ýmsa annmarka, sem eru á þessari hugmynd. Ég get tekið undir þau andmæli sem komið hafa fram gegn frv. hjá ýmsum hv. þm. sem um þetta hafa talað, og skal ég ekki hafa um það öllu fleiri orð.

Hins vegar þykir mér rétt að benda á frv. sem er 87. mál þingsins- þ.e. frv. frá hv. þm. Ellert B. Schram sem hér var að ljúka máli sínu áðan. Ég held að ég hafi tekið til máls um það, þegar það var til umr. í vetur, og lýst þá skoðun minni á meginstefnu þess frv. sem hv. þm. Ellert B. Schram flytur, að útvarpið taki upp eða beiti sér fyrir að tekið verði upp eins konar landshlutaútvarp eða komið upp staðbundnum útvarpsstöðvum, eins og segir í þeirri frvgr. sem hv. þm. Ellert B. Schram flytur.

Ætlun mín með því að taka til máls hér var reyndar sú að beina máli mínu til hæstv. menntmrh., sem mun ekki vera í þingsalnum, enda á hann reyndar ekki sæti í þessari þingdeild, og hann mun ekki heldur vera í þinghúsinu og mun hafa forföll, þannig að ég á svolítið erfitt með að beina máli mínu til hans beinlínis. En eigi að síður ætla ég að bera fram þá stuttu fsp. sem ég er með. Ég sé a.m.k. einn hæstv. ráðh. í stól sínum í salnum og hann væri kannske svo vinsamlegur að koma boðunum til hæstv. menntmrh.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. menntmrh. eða ríkisstj. hvort hæstv. menntmrh. og ríkisstj. hafi tekið fyrir ósk Ríkisútvarpsins um að taka á leigu útvarpsstúdíó á Akureyri. Það hefur verið undirritaður skilyrtur samningur við eigendur útvarpsstúdíós á Akureyri um leigu af hálfu Ríkisútvarpsins á þessu stúdíói. Leigumálar sýnast vera mjög hagstæðir. Mánaðarleigan mun vera 85 þús. kr., sem gerir á ári rétt rúma 1 millj. kr. Það verður varla sagt að sé stór upphæð í rekstri slíkrar stofnunar sem Ríkisútvarpið er, sem veltir hundruðum millj. kr., en hins vegar er mér það vel kunnugt, og það mun fleiri kunnugt af blaðaskrifum, að þessi samningur, sem Ríkisútvarpið hefur gert, hefur „staðnað í kerfinu“, eins og menn segja, hann hefur ekki verið staðfestur og ýmsu borið við.

Nú skal ég ekki lengja mál mitt mikið um það, hvaða rök kunna að vera fyrir því að stöðva þennan samning mánuðum saman. En ég vil fyrst og fremst beina þeirri spurningu til hæstv. menntmrh., eða biðja þá ráðh. sem hér kunna að vera staddir, að flytja þau boð til hæstv. menntmrh. frá mér, hvort ekki séu líkur til þess að þessi samningur verði staðfestur. Ég held að ég megi segja frá því hér, að mér var sagt það af starfsmönnum og ráðamönnum í Ríkisútvarpinu í morgun að starfsmenn Ríkisútvarpsins, starfsmennirnir sjálfir, hefðu gert samning um að taka þetta stúdíó á leigu, þeir mundu sem sagt kosta leiguna sjálfir og greiða úr eigin vasa þá leigu sem þarna er um að ræða, þannig að Ríkisútvarpið gæti með sæmilegu móti flutt dagskrárefni frá Akureyri.

Ég var að minnast á frv. hv. þm. Ellerts B. Schram sem ég tel að fari í rétta átt í höfuðatriðum. Það frv. gerir einmitt ráð fyrir að reknar séu staðbundnar útvarpsstöðvar. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi hugmynd eigi verulegan hljómgrunn á Alþ. Það á auðvitað eftir að sýna sig í meðferð málsins frekar í n. hversu fer um afdrif þessa frv. hv. þm. Það má vel vera að það þurfi að breyta því eitthvað, en ég er þeirrar skoðunar að það eigi að samþ. breytingu á útvarpslögunum sem fer í svipaða átt og hv. þm. gerir ráð fyrir. Þar af leiðir að ég hlýt að láta í ljós undrun mína yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa staðfest þann samning sem stjórn Ríkisútvarpsins hefur gert við stúdíóið á Akureyri um rekstur útvarpsstöðvar þar.

Ég tel sem sagt að þarna sé um mjög góð leigukjör að ræða og það yrði til framdráttar þeirri hugmynd sem við margir hér aðhyllumst og höfum verið að ræða á undanförnum árum, að Ríkisútvarpið víkki út starfsemi sína með því að reka útvarpsstöðvar viðar en í Reykjavík. Þess vegna hef ég vakið máls á þessu og gert þessa beinu fsp. um það, hvort ríkisstj. ætli ekki að verða við ósk Ríkisútvarpsins um að taka á leigu útvarpsstúdíóið á Akureyri.