14.02.1979
Neðri deild: 51. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2580 í B-deild Alþingistíðinda. (2022)

168. mál, útvarpslög

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég hef ekki nennu til að lengja þessa umr. mjög, en sumt af því, sem sagt hefur verið hér, er þess eðlis að ég vil ógjarnan sitja undir því, eins og það, að tveir hv. þm., sem hafa talað hér, hafa nefnt okkur Alþfl.-menn „kerfiskarla“. Séum við „kerfiskarlar“, þá held ég að þeir séu peningakerfiskarlar í ljósi þess sem þeir hafa hér sagt. Þeir eru alla vega talsmenn þeirra sem fjármagninu ráða. Sömuleiðis vil ég leiðrétta hv. alþm. Friðrik Sophusson með það að ég hafi ritstýrt Alþýðublaðinu. Svo hátt komst ég aldrei í metorðastiganum þar. Það er misskilningur.

Það hefur verið bent á það hér, að þessu frv. fylgi bara réttindi, engar skyldur. Líka hefur verið bent á það, að það er ekki hugsað sem útvarp fyrir landið allt, þetta svokallaða frjálsa útvarp, sem er þó engan veginn frjálst, heldur er það eingöngu hugsað og eingöngu ætlað fyrir þéttbýlissvæðin. Svo leyfa hv. þm. sér það, eins og Friðrik Sophusson áðan, að tala um dreifbýlishugsunarhátt. Takið eftir þessu: dreifbýlishugsunarhátt! Hvað er það? Ef það er að tala það sem ég tel að sé mál skynseminnar í þessu máli, þá er það góður hugsunarháttur. Ég hef ekki orðið var við að menn hugsuðu með tvenns konar hætti, eins og hann vill vera láta og talar í sérstaklega niðrandi merkingu um dreifbýlishugsunarhátt. Ég held að við eigum í þessu máli eins og öðrum að freista þess að láta skynsemina ráða.

Í grg. með þessu frv. segir, með leyfi forseta:

„Með frv. þessu eru lögð drög að því, að á Íslandi ríki hliðstætt tjáningarfrelsi og þekkist í vestrænum lýðræðisríkjum á sviði hljóðvarps og sjónvarps.“

Ég veit ekki betur en hér ríki alveg sama tjáningarfrelsi. Það ríkir að vísu ekki sama frelsi og menn hafa notið og peningavaldið hefur notið t.d. í Bandaríkjunum til að reka þar svokallaðar frjálsar útvarpsstöðvar og sjónvarpsstöðvar. Ég veit ekki betur en hér gildi sömu reglur í þessum efnum og gilda víðast hvar í Vestur-Evrópu. Ég veit ekki til þess, að það séu lagðar nokkrar sérstakar hömlur hér á tjáningarfrelsi. Hins vegar miðar þetta frv. að því. Ég leyfi mér að vitna enn á ný til 10. gr. þessa frv., sem ég held að hafi kannske farið fram hjá ýmsum og kannske þeir, sem sömdu frv., hafi ekki gert sér grein fyrir hvert var verið að fara. Þar segir, með leyfi forseta: „Með sama hætti og að framan greinir skal öðrum útvarpsstöðvum heimilað að afla tekna með auglýsingum“ — og takið eftir: „eða sérstöku gjaldi vegna útsendingar fræðslu- og skýringarefnis eða annars efnis, sem viðskiptavinir viðkomandi stöðvar kynnu að vilja koma á framfæri við almenning.“ (Gripið fram í.) Þetta hefur ekki verið skýrt hér svo viðhlítandi sé. Eftir orðanna hljóðan þýðir þetta ósköp einfaldlega að þeir aðilar, sem kæra sig um og hafa til þess peninga, geti keypt upp dagskrártíma eins og þeim væntanlega sýnist. Menn geta ósköp vel ímyndað sér hvernig dagskrár slíkra frjálsra útvarpsstöðva yrðu þegar fer að draga að kosningum. Ætli kæmi þá ekki býsna vel í ljós, hverjir réðu dagskránni, og ætli það væri ekki það frelsi peninganna, sem áður hefur verið minnst á hér, sem þá mundi rík ja í þessum svokölluðum frjálsu útvarpsstöðvum?

Hv. þm. Friðrik Sophusson talaði um dreifbýlishugsunarháttinn í sambandi við litsjónvarp að þá væri hér ekki komið neitt litsjónvarp. Um þetta mál var talað af sömu vanþekkingu og ýmislegt annað. Það var ekki spurning um það, hvort ætti að taka hér upp litsjónvarp. Þetta ætti hv. þm. að vera fullvel kunnugt þar sem hann hefur átt sæti í útvarpsráði. Svarthvít tæki sjónvarpsins voru löngu úr sér gengin og svarthvít tæki fyrir sjónvarp eru ekki framleidd lengur, þau eru ekki til. Ef átti að endurnýja tækjakost íslenska sjónvarpsins, sem var óhjákvæmilegt ef það átti ekki hreinlega að leggjast niður, var ekki spurning um neitt annað en litsjónvarp. Þetta er rétt að leiðrétta.

Það var vikið að Nordsat, sem er rétt að ég hef hér talað fyrir og mælst til aukinnar umr. um þau mál. Ég held að það mál horfi heldur til heilla. Ef það kemst í framkvæmd, eins og um er talað, verður það ekki fyrir einhverja ákveðna landshluta eða ákveðin þéttbýlissvæði, þá eiga allir aðgang að því. Það er hluti miklu stærra máls, sem ekki er kannske ástæða til að ræða sérstaklega hér. En þetta frv., sem hér er til umr., um svokallað frjálst útvarp, sem er engan veginn frjálst og kostar mikið fé þó í það sé látið skína hreinlega að þetta kosti hér um bil ekki neitt, er vanhugsað og þess vegna er ég því andsnúinn.