15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2605 í B-deild Alþingistíðinda. (2038)

Umræður utan dagskrár

Viðskrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Þessar umr. eru nú komnar nokkuð á við og dreif. Forsrh. fór þess á leit við mig, að ég hlypi undir árar hjá honum varðandi olíuverðið og ég skal gjarnan aðstoða hann með að svara því. Hitt vil ég segja fyrir okkur alla Alþb.menn, að við viljum í pólitík yfirleitt gjarnan ráða því, hvaða fleytu er róið, og sú fleyta, sem nefnd hefur verið drög að frv. hæstv. forsrh. Ólafs Jóhannessonar, er ekki af því tagi sem við höfum áhuga á að róa. Sé það svo hins vegar, að Alþfl. hafi áhuga á af blygðunarkennd sinni einni saman að klæðast þeim flíkum, sem í frv. þessu felast, þá er það okkur Alþb.-mönnum að sjálfsögðu að meinalausu með öllu.

Við ráðh. Alþb. höfum birt bókun sem við gerðum í ríkisstj. fyrr í vikunni, þar sem það kemur fram að við höfnum alfarið tveimur mikilvægum þáttum þess frv. sem kennt er við forsrh. og er auðvitað einvörðungu frv. hans eins og sakir standa.

Við höfnum því í fyrsta lagi að gera ráð fyrir að lögbinda sjálfvirk kauplækkunarákvæði. Það kemur ekki til greina að við samþykkjum slíkt, hvað svo sem tillögumaðurinn eða tillöguflokkurinn kann að heita.

Í annan stað höfum við hafnað þeim meginþætti þessa frv., sem í rauninni hefði í för með sér keðjuverkandi samdrátt í atvinnulífinu hér á landi og þar með stórfellda hættu á atvinnuleysi. Slík ákvæði samþykkjum við Alþb.-menn ekki. Við stöndum því ekki að þessu frv. óbreyttu, og við munum ekki standa að því að flytja það óbreytt. Þetta er atriði sem hv. Alþ. þarf að vera alveg ljóst og einnig hv. elskulegum samráðh. okkar, svo að ég taki mér í munn þau orð sem hæstv. forsrh. varpaði á mig áðan.

Ég vil einnig taka það fram sem mína skoðun, að ég tel sjálfsagt og raunar nauðsynlegt að hirta þetta frv. í heild með aths. þess. Ég taldi rétt vinnubrögð að kynna það samráðsaðilum og einnig stjórnarandstöðunni að sjálfsögðu strax og áður en það yrði birt opinberlega. En nú er búið að koma þessu frv. á framfæri við samráðsaðila ríkisstj. og stjórnarandstöðuna trúi ég. Það mun hafa verið gert í dag, eða svo upplýsti hv. 4. þm. Reykv. áðan. Úr því að er búið að sinna þessum formlegu og pólitísku skyldum, þá á auðvitað að birta þessi drög hæstv. forsrh. að frv. um efnahagsmál o.fl. þannig að almenningur í landinu geti áttað sig á hvers konar flíkur það eru sem ýmsir menn, eins og hv. 3. þm. Norðurl. e., kjósa að klæða í pólitíska nekt sína nú á úthallandi vetri 1979.

Sá róður hins vegar, sem ég lofaði að sinna hér sem ráðh. í ríkisstj., snertir sérstaklega olíumál, olíuverðlagsmál, sem hv. 4. þm. Reykv. spurði um. Mér er ljúft og skylt að verða við þeirri beiðni hans að svara þar nokkrum fsp., að svo miklu leyti sem ég hef getu til.

Það hefur verið rætt um það nokkuð í fjölmiðlum að undanförnu, að gífurlegar hækkanir hafa átt sér stað á olíu og bensíni á erlendum mörkuðum. Þessar upplýsingar eru margar hverjar nokkuð misvísandi. Ég hafði búið mig undir það að svara hér á þriðjudaginn hv. 5. þm. Austurl. nokkru um þessi mál, og ég held að það sé ekki úr vegi að ég komi einhverju af þeim upplýsingum á framfæri núna.

7. febr. s.l. hafði bensínverð frá 11. febr. 1978. samkv. skráningu í Rotterdam hækkað um 129.3%, þ.e.a.s. úr 129.75 dollurum tonnið upp í 297.50 dollara tonnið fob. Gasolían hafði á sama tíma, þ.e.a.s. frá 11. febr. 1978 til 7. febr. 1979, hækkað um 111.3%, eða úr 117.13 dollurum tonnið í 247.50 dollara tonnið. Svartolían hafði hækkað frá 30. jan. 1978 úr 79 dollurum tonnið í 98.50 dollara tonnið eða um 24.7%. Nú vill svo vel til að það er ekki allt þetta hækkunarstökk sem við þurfum að taka á okkur strax. Það verð, sem ég nefndi áðan frá upphafi ársins 1978, var auðvitað lægra en meðalverð þess árs. Frá meðalskráningunni í Rotterdam á árinu 1978 til skráningarinnar 7. febr. var um að ræða tvöföldun á verði á bensíni og gasolíu, en 25% hækkun á svartolíu. Í þeirri erlendu viðmiðun bensín- og olíuverðs, sem nú er inni í olíuverðinu í landinu, er gert ráð fyrir að hvert tonn af bensíni kosti 191.10 dollara tonnið, að gasolían kosti 142 dollara tonnið og svartolían 185 dollara tonnið. Frá þeirri hækkun, sem nú er inni í verðlaginu í landinu, og til þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á skráningunum í Rotterdam 7. febr., þ.e.a.s. frá því verði, sem er inni í verðlaginu í dag, og til þeirrar hækkunar, sem við getum búist við að fá inn í okkar verðlag á útmánuðum, trúi ég, — bilið þarna er annars vegar á bensíni 56% og gasolíu um 70%. Við eigum hér í landinu núna allmiklar birgðir af bensíni, gasolíu og svartolíu. Talið er að bensínbirgðirnar geti enst út apríl, gasolíubirgðirnar fram í miðjan apríl og svartolíubirgðirnar fram í miðjan apríl, þannig að sú hækkun, sem við þurfum nú að taka inn í verðið á þessum olíutegundum, er óveruleg miðað við það sem við getum átt von á að verði ef þessi hái toppur í Rotterdam verður varanlegur. Um það er auðvitað mjög erfitt að segja. Ég kynnti mér það rétt áðan, hvort verðskráningarnar hefðu breyst frá 7. febr., og samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef, sýnist mér að bensínið hafi aftur heldur lækkað, um 5 dollara tonnið eða svo frá því 7. febr., gasolían hafi hins vegar hækkað enn mjög verulega, um það bil 25 dollara tonnið, og svartolían hafi einnig hækkað nokkuð. Þessi óhagstæða verðlagsþróun virðist því enn þá halda áfram og erfitt að segja til um hvernig þeim málum vindur fram.

Meginástæðurnar fyrir þessum gífurlegu hækkunum á olíum og bensíni nú á þessum vetri eru ýmsar. Aðalástæðan er ókyrrðin í Íran, vegna þess að Íranir hafa framleitt um 20% af heimsmarkaðsþörfinni fyrir olíu og bensín.

Önnur ástæða fyrir þessum miklu hækkunum er það kuldakast sem gengið hefur yfir Vestur-Evrópu að undanförnu.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að sá markaður, sem við miðum þetta við, Rotterdammarkaðurinn, er mjög viðkvæmur fyrir eftirspurnasveiflum og þar virðist ríkja hálfgert uppboðsástand eins og sakir standa. Var þó talið hentugt á sínum tíma og menn þóttust geta sýnt fram á með rökum að það væri skynsamlegra að miða við Rotterdam-vísitöluna heldur en Curacao-vísitöluna, sem hafði verið notuð sem viðmiðun, fyrst alfarið, en síðan að hálfu á móti Rotterdam-vísitölunni. Ástæðan til þess, að menn hurfu — ekki bara á Íslandi, heldur líka miklu víðar — frá Curacao-vísitölunni, var sú, að hún er ekki hreinn markaðsvísitala. Curacao-vísitalan er að sumu leyti ákveðin með tilliti til pólitískrar afstöðu stjórnvalda þar í landi á hverjum tíma. Rotterdam-vísitalan er hins vegar hreinn markaðsmælir og þar af leiðandi einnig um þessar mundir spekúlasjónsmælir, þar sem hlutirnir snúast með ótrúlegum hraða þegar jafnmiklar sveiflur verða og nú ber raun vitni.

Þegar þessi mál lágu fyrir og raunar fyrr eða um áramótin, — það var líklega 12. des., — skrifaði ég verðlagsstjóra og bað hann um úttekt á olíuverðmynduninni í landinu og því, hvernig hver þáttur þessara mála kæmi út. Ég hef nýlega fengið skýrslu um þetta og um hana er í sjálfu sér ekki ástæða til að fjölyrða hér. Þó er rétt að geta þess, að þar kemur greinilega fram, að við þetta miklar hækkanir erlendis aukast tekjur ríkissjóðs hér í landinu mjög myndarlega umfram það sem ella væri, nema gerðar séu sérstakar takmörkunarráðstafanir.

Ég hef hreyft þeirri hugmynd lítillega á opinberum vettvangi, hvort hugsanlegt væri að beita slíkum takmörkunarráðstöfunum, hvort væri t.d. hugsanlegt að beita ríkissjóð í þessum efnum 30% reglunni. Um það hefur lítillega verið rætt, en um það er takmörkuð samstaða eins og sakir standa. Ég vil engu um það spá, hver niðurstaðan verður, því að á málinu hefur ekki verið endanlega tekið í ríkisstj.

Það var 8. febr. að við skipuðum fjögurra manna starfshóp viðskrn., fjmrn., sjútvrn. og iðnrn. til að athuga olíumálin sérstaklega með tilliti til vandamála sjávarútvegsins. Ég held að það sé rétt að ég láti það koma hér fram, að niðurstaða hópsins varð sú, að ekki væri rétt á þessu stigi málsins að gera mjög víðtækar, róttækar ráðstafanir í þessum efnum og ekki fyrr en séð væri hvaða þróun markaðurinn á olíu tæki. Ég ætla að lesa hét niðurstöður nál. þessa fjögurra manna hóps, en þar segir, með leyfi forseta: „Nauðsynlegt er að ræða olíuvandamálið við fulltrúa Landssambands ísl. útvegsmanna og sjómannasamtakanna“ o.s.frv. — og síðan segir: „Ein ástæðan fyrir því að fresta ákvörðun um aðgerðir er að væntanlega fæst í aprílbyrjun skýrari mynd en nú um þróun olíuverðlagsins á heimsmarkaðinum. Ekki er ólíklegt að mesti þrýstingurinn á verðlagið hafi þá dvínað og bráðabirgðaráðstafanir dugi til að taka af verðkúfinn. Varast ber að koma á nokkru nýju kerfi til að hafa varanleg áhrif á olíuverðið í bili.“

Ég greindi frá þessari niðurstöðu hópsins á ríkisstjórnarfundi á þriðjudaginn var, og þá var ákveðið að vísa málinu til sérstakrar athugunar hæstv. sjútvrh. — og það er hæstv. félmrh. sem nú gegnir því starfi. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir, sem er ekki að fullu enn, mun ríkisstj. taka ákvörðun um hvaða tökum hún tekur þetta sérstaka vandamál sem er mjög stórfellt. Talið er að sú hækkun, sem hér er um að ræða, þýði eina 20–25 milljarða kr. í aukaútgjöld fyrir Íslendinga á árinu 1979 miðað við verðlag ársins 1978, meðaltalsverðlag og meðaltalsgengi, þannig að hér er um að ræða mjög stórfellt vandamál sem verður að taka á. Og ég held að þar sé um að ræða nokkra þætti, sem gefi sig alveg sjálfir.

Í fyrsta lagi er það auðvitað afkoma sjávarútvegsins sem er að sjálfsögðu afar viðkvæmur í þessum efnum. Talið er að miðlungsfiskiskip eyði, trúi ég, 15–20% af útgerðarkostnaði í olíu. Í tengslum við það mál hefur verið athugað sérstaklega á vegum iðnrn. hvort hugsanlegt væri að stuðla að því, að fleiri skip tækju upp svartolíunotkun en verið hefur. Munum við reyna eftir föngum að greiða fyrir því, þó að það sé að sjálfsögðu hverjum útgerðaraðila frjálst hvað hann gerir í þessum efnum.

Annar hópur, sem þarna er sérstaklega viðkvæmur, eru þeir sem kynda hús sín með olíu. Ég hef ekki undir höndum tölur um það, hvaða kostnaðarauka leiðir af þessum hækkunum. Hæstv. iðnrh. mun hafa slíkar tölur og gerði m.a. grein fyrir þeim á ákveðnum fundi með fréttamönnum og fleiri í gær, eins og kemur fram í fjölmiðlum í dag. Við ákvörðun fjárl. var ákveðið að hækka olíustyrk um 50% í krónutölu frá árinu 1978 til 1979 og það var auðvitað fyrst og fremst hugsað til þess að reyna að vinna upp þá raungildislækkun, sem orðið hafði á olíustyrknum í tíð hæstv. fráfarandi ríkisstj. Ég tel að þessi nýju viðhorf í olíumálum kalli hins vegar á viðbótarátak í þessum efnum, bæði með fjárframlögum og eins með sérstöku átaki til þess að stuðla að orkusparnaði, sem ég mun ekki fara út í að ræða nánar hér.

Mér skildist á hv. 4. þm. Reykv., að hann væri að hreyfa þeirri hugmynd, hvort hugsanlegt væri að hefja sérstakar viðræður við Sovétríkin og Portúgal þá væntanlega líka um breytta olíuverðlagsviðmiðun eða um breytt fyrirkomulag af einhverju tagi í þessum efnum. Ég get tekið undir þessa hugmynd og hef velt henni dálítið fyrir mér. Ég vil aðeins skýra frá því, að nú á dögunum, þegar gerður var olíusamningur við Portúgal, var aðeins um þessi mál hugsað og þá kom í ljós að þeir héldu sig ákaflega fast við Rotterdam-vísitöluna, og ég held að flestallar þjóðir í Vestur-Evrópu miði nú orðið við hana. Ég held að það sé þannig. Ef hins vegar er einhver annar flötur til á þessu máli, þá er mér að sjálfsögðu skylt og hæstv. ríkisstj. að reyna að kanna hann, þannig að þessi mikla hækkun á olíu og bensíni geti orðið sem viðráðanlegust fyrir þjóðarbúið.

Hæstv. forsrh. vék nokkrum almennum orðum að því frv. hans, sem ber hvað hæst í umr. manna um þessar mundir. Ég ætla ekki hér að ræða einstök efnisatriði þess frekar, en ég er reiðubúinn til að ræða um það mál á opinberum vettvangi hvenær sem ástæða og tækifæri gefst til. Ég tel ekki viðeigandi að lengja umr. hér frekar en ég hef þegar gert, en vænti að ég hafi svarað hv. 4. þm. Reykv. þeirri fsp. sem hann bar fram áðan.