15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

Umræður utan dagskrár

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Um leið og ég vil þakka. árangur af þeirri gagnrýni, sem ég kom fram með í gær, vil ég mega leiðrétta það sem fram kom í ræðu hæstv. forsrh., þar sem hann sagði, með leyfi forseta:

„Það, sem mér fannst meginatriði í þeirri gagnrýni, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen bar hér fram, var að þetta frv. eða frv.-drög hefðu verið sýnd ákveðnum aðilum og afhent þeim til þess að óska eftir áliti þeirra og umsögn um málið. Ég held að hv. þm. þurfi ekkert að vera hissa á þessu.“

Ég vil taka fram að ég gagnrýndi ekki það að hæstv. ríkisstj. sendi frv. eða frv.-drögin til umsagnar einhverra aðila. Í ræðu minni sagði ég orðrétt, með leyfi hæstv. forseta — og í því, sem eftir mér var haft í fjölmiðlum, hafði þetta skilist:

„Ég skal síður en svo finna að því, að hæstv. ríkisstj. hafi samráð við einn eða annan í sambandi við þessi mál. En ég hefði haldið að áður en slíku frv. væri útbýtt á meðal þessara samtaka hefði stjórnarandstaðan á Alþingi Íslendinga átt siðferðilegan rétt á því að fá málið í hendur, ekki til umsagnar, heldur aðeins til upplýsingar, þannig að Alþ. hefði allt í höndum sér það sem ríkisstj. var þá að óska eftir að almannasamtök í landinu segðu skoðun sína á.“

Gagnrýni mín var um að Alþ. hefði ekki fengið upplýsingar um það sem ríkisstj. hafði þegar afhent stuðningsflokkum sínum, en var að senda almannasamtökum til umsagnar.

Þá vil ég að lokum víkja að því sem hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, þar sem hann sagði að stjórnarandstaðan á Alþ. væri vissulega góð, en Sjálfstfl. væri þó ekki enn orðinn samráðsaðili núv. hæstv. ríkisstj., eins og hann orðaði það. Þá hef ég skilið illa þau fræði sem hæstv. forsrh. kenndi mér, ef alþm. á Alþingi Íslendinga eru ekki fyrst og fremst samráðsaðilar um löggjafarstörf á Alþingi.