15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2616 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Upphaf þessara umr. utan dagskrár má rekja til þeirra umr. sem fóru fram í gær í hv. Nd. Þar kvartaði fulltrúi Sjálfstfl. undan því, að Sjálfstfl. hefði verið settur hjá í sambandi við það frv. sem hæstv. forsrh. hefur samið og lagt fram í ríkisstj, og mikið hefur verið um rætt. Ég skildi þessar umr. þannig, að hér væri fyrst og fremst um það að ræða að verið væri að finna að vinnubrögðum, finna að því, hvernig hefði verið staðið að þessu mikið umtalaða og stóra máli. Og ég skildi reyndar viðbrögð hæstv. forsrh. á þá lund, að hann viðurkenndi þær aths. sem þarna komu fram, að það væri alls ekki eðlilegt, eins og þetta mál væri vaxið, að stjórnarandstaðan á þingi fengi aðgang að því frv. sem var verið að ræða um, og hann mundi beita sér fyrir að úr því yrði bætt. Það hefur reyndar komið fram í umr. í dag, að búið er að gefa Sjálfstfl. kost á því að sjá þetta frv.

Ég vil að það komi hér fram af minni hálfu, að ég tek algerlega undir þær aðfinnslur sem hér hafa komið fram varðandi vinnubrögð. Ég tel að eins og þetta stórmál hefur borið að verði það að teljast mjög afbrigðilegt. Fyrst er búið að halda svo að segja allri þjóðinni í háspennu út af því í fréttaflutningi, að á leiðinni sé eitt geysilega merkilegt frv. sem eigi að vera framtíðarlausn á því voðalega máli, efnahagsmálunum, sem menn hafa verið að glíma við síðustu áratugina. Síðan er tilkynnt að haldinn verði sérstakur fundur í ríkisstj. kl. 11 fyrir hádegi til að afhenda þetta frv. Allir eru þar á hlaupum, fréttamenn sem aðrir, til þess að sjá hvernig menn liti út þegar þeir koma frá því að sjá þetta frv. og annað þessu líkt í sambandi við þá spennu sem búin var til í sambandi við málið. Síðan er farið að skýra frá þessu. Við vitum að það leið ekki á löngu þar til þessu frv. var dreift þannig að allir 40 alþm., sem standa að núv. hæstv. ríkisstj. hér á Alþingi, 2/3 þm., fengu afhent frv. Síðan upphófst hitt, að það var farið að bera frv. í allþungum bunkum til fjöldamargra annarra aðila í bænum. Ég býst við að um þetta leyti hafi málin staðið þannig, að ekki sé ólíklegt að hátt í 100 manns hafi verið búnir að fá þetta frv., sem þó var stimplað á trúnaðarmál. Þetta er að vísu ekki í fyrsta skipti sem það er gert hér á hv. Alþ., að menn nota þennan stimpil sí og æ, að stimpla á öll möguleg plögg trúnaðarmál, þegar til þess er svo að segja ekkert tilefni, og er því ósköp eðlilegt að menn fari að taka þennan stimpil ósköp léttilega. Ég skil það mætavel, þegar svona er að málum staðið, að þá sé eðlilegt að stjórnarandstaðan á Alþ. telji sig afskipta í þessu öllu saman, að fá ekki að sjá þetta margumtalaða frv., og vilji fá aðstöðu til að geta tekið hér þátt í umr. um málið, af því að umr. um efni málsins voru líka hafnar.

Það vakti athygli margra, að um þetta leyti höfðu fréttamenn útvarps viðtal við þrjá ráðh. um málið og sá, sem þar talaði fyrstur, hæstv. landbrh., vék sér umyrðalaust í það að rekja efni einstakra kafla í frv., vitnaði í einstakar greinar og hvað þar væri um að ræða og var reyndar alltaf að reyna að verjast ýmsum ásóknum sem höfðu verið hafðar uppi í sambandi við efni þessa frv. Svo kom næsti hæstv, ráðh. í viðtalið. Hann hafði greinilega ekki heyrt ummæli hins fyrsta og sagði að það væri ekki búið að birta málið, þetta væri trúnaðarmál, og hann væri ekki tilbúinn að ræða efni þess. Hann hefur litið á stimpilinn, að þetta væri trúnaðarmál. Þetta eru auðvitað óvenjuleg vinnubrögð og svona vinnubrögð á ekki að viðhafa. En það er eins og hefur komið fram í þessum umr. hjá hæstv. forsrh., það eru til skýranlegar ástæður fyrir öllum þessum óvenjulegheitum í þessu máli.

Stjórnarandstaðan rekur sig nú á það, að það er auðvitað komið fram í þessum umr. öllum að hér er ekki um neitt venjulegt frv. að ræða. Þetta er ekki frv. ríkisstj., og hæstv. forsrh. hefur gefið í skyn að e.t.v. geti dregist lengi að leggja frv. fram, það geti orðið í allt öðrum búningi o.s.frv. Ég býst við að við venjulegar aðstæður hefði hér miklu fremur verið um að ræða vinnuplagg í ríkisstj., sem sýnilega er ekki búin að koma sér saman um það frv. sem hún ætlar að leggja fram. En til þessa alls liggja ástæður.

Hæstv. forsrh. vitnaði í það, að ástæðurnar væru þær, að hann hefði á sínum tíma, um það leyti sem átti að fara að afgreiða fjárlög, gefið yfirlýsingu á Alþ. um að n. manna yrði sett til þess að semja frv. og leggja það fram í ríkisstj., lengra hefði yfirlýsing hans ekki náð. Og það er búið að búa til frv. og það er búið að leggja það fram í ríkisstj. og þar með hefur þetta verið uppfyllt. En stjórnarandstaðan hefur greinilega misskilið málið, því að hún hefur haldið að þetta væri alvörufrv. sem væri að koma á borð þm. til afgreiðslu. En svo er upplýst að það er alls ekki þannig. Þetta er ekki frv. ríkisstj. enn þá. Hér er aðeins um till. að ræða sem ekki hefur orðið samkomulag um í ríkisstj. og enginn veit um enn hvort ríkisstj. leggur hér nokkurn tíma fram.

Ég tek eftir því, að talsmenn Alþfl., sem hafa tekið þátt í þessum umr., segja: Þetta eru engin frv.-drög, eins og forsrh. orðaði það, — þetta eru engin frv.-drög, þetta er frv. og frv. á að leggja fram á Alþ. og frv. á að ræða á Alþ. — Þetta minnir mann á það, að ekki er mjög langt síðan þessi flokkur hafði sjálfur búið til frv., sem hann kallaði í sífellu frv. og birti í blöðum. Það hefur ekki komist enn þá inn í Alþ. bara minnst á það í umr., aldrei tekið hér formlega til umr. Þetta alvörufrv. þeirra hefur aldrei verið lagt fram. Það var vitanlega vegna þess að þar var um að ræða till. Alþfl. í þessu máli og Alþfl. hefur ekki enn þá viljað gera það að formlegu þskj. hér og flytja það sem frv.

Allt þetta sérkennilega ástand í sambandi við þessi vinnubrögð hefur leitt af því, í stuttu máli sagt, að það gerðist á dögunum fyrir jól, að einn af stuðningsflokkum ríkisstj. fékk slíkar innantökur að hann ruddist hér áfram og það varð að gefa hér ákveðnar yfirlýsingar honum til handa um að menn skyldu fara í það að búa til frv. og það skyldi þó komast til ríkisstj. En auðvitað var hér ekki um það að ræða, að ríkisstj. eða stuðningsflokkar ríkisstj. væru búnir að koma sér saman um venjulegt þingmál sem hér ætti að leggja fyrir. Því samkomulagi var enn ekki náð og er ekki enn í dag. Af þessum ástæðum hafa gerst öll þessi óvenjulegu vinnubrögð, að hér verður til frv. með þessum líka litla gauragangi og menn taka að ræða frv. og vilja fá frv. hver á sitt borð, þó að það hafi alls ekki verið lagt fyrir Alþ. og ríkisstj. hafi alls ekki komið sér saman um málið.

Ég vil undirstrika það fyrir hönd míns flokks, að hann stendur ekki að þessu frv., enda held ég að það hafi komið mjög skýrt og greinilega fram hjá hæstv. forsrh., að hér sé um að ræða frv.-drög hans sem hann hefur lagt fram. Það hefur að vísu einnig komið fram, að Alþfl. er tilbúinn að standa að þessu frv. án nokkurra sérstakra aths. Hitt liggur líka alveg ljóst fyrir, að þriðji flokkurinn í ríkisstj. vill ekki standa að þessu frv. Auðvitað hefur það alltaf legið fyrir, og væntanlega hafa Alþfl.-menn skilið það, að þeir hafa haft rétt og hafa hann enn í dag til þess að leggja bæði fram sitt frv. og kannske annarra frv. líka á borð alþm. og láta á það reyna, hvort þeir eigi meiri hl. hér á Alþ. fyrir frv. sínum. Þá auðvitað gerist það, sem ég hef tekið fram áður, að skapist meirihlutaaðstaða á Alþ. um frambúðarstefnu í efnahagsmálum, þá eru þeir, sem að slíkum meiri hl. standa, að sjálfsögðu skyldir til að mynda um slíkt stórmál ríkisstj. og standa saman um að framkvæma þá stefnu. Þó að við Alþb.-menn kunnum þar að verða á móti, þá getum við vitanlega ekki stöðvað það, aðeins 14 þm. hér á Alþ., að hér geti skapast meiri hl. fyrir einhverri nýrri frambúðarstefnu í efnahagsmálum. Ef sá meiri hl. er til, þá kemur hann, ef menn eru þá ekki hræddir við að sá meiri hl. komi í dagsljósið.

Enn sem komið er hef ég skilið málið þannig, að núv. stjórnarflokkar væru ekki búnir að ljúka sínu verki í þeim efnum, hvort þeir geti komið sér saman um frv. sem yrði lagt hér á borð alþm. eða ekki. Það gerir lítið gagn að koma hér í ræðustól og hrópa á það, að þetta frv. verði lagt fram, því að það verður ekki lagt fram með stuðningi okkar Alþb.-manna í þeim búningi sem það er. Í þessum efnum höfum við talað þannig að það á ekki að fara neitt á milli mála. Við föllumst ekki á frv. í þeim búningi sem það er. Við hinu höfum við auðvitað ekkert að segja, ef hér er til annar meiri hl. sem vill lögbinda þetta frv., þá sá meiri hl. um það.

Ég tek undir það, sem hér hefur komið fram, að ég tel eðlilegt, eins og að máli þessu hefur verið staðið á mjög óvenjulegan hátt, vegna þess hvernig þetta er allt saman til komið frá upphafi, þetta margumtalaða frv., að þessi trúnaðarstimpill verði þveginn af plagginu og plaggið birt. Það er alla vega til gagns, úr því sem komið er, að menn fái að sjá hvað það er, sem hver og einn leggur til í þessum efnum, hvað það er, sem aðrir vilja styðja, og hvað það er, sem aðrir neita að styðja. Við Alþb.-menn höfum ekkert við það að athuga, að þetta frv. komi fram. En hitt hefur líka legið alveg ljóst fyrir frá því að núv. hæstv. ríkisstj. var mynduð, að við munum ekki taka þátt í löggjöf um að binda kaup, sem þýðir kauplækkun, eða gerhreyta vísitölugrundvelli frá því sem launþegasamtökin í landinu geta fallist á. Við munum ekki heldur taka þátt í því að samþykkja löggjöf sem mundi alveg örugglega stórauka atvinnuleysishættu í landinu með alhliða samdrætti sem ýmsir menn virðast stefna mjög ákveðið að. Það þarf aðra en okkur Alþb.-menn til að standa að slíku.

Ég ætlaði mér ekki að fara út í almennar umr. um einstaka liði þessa frv. Til þess gefst eflaust tækifæri nú á næstunni. Þar er um fjöldamarga liði að ræða, — ég segi fjöldamarga, — sem við Alþb.-menn erum algerlega ósáttir við, þó að nokkrir þeirra séu þar miklu stærri en aðrir. Ég hélt líka að menn væru þegar búnir að heyra það og sjá, að ýmsir af þekktustu forustumönnum launþegasamtakanna í landinu hafa þegar í stað brugðist þannig við þessu frv., að þeir vilja ekki að því standa. Ég vænti að það hafi ekki farið fram hjá neinum, að þegar fulltrúar launþega bregðast þannig við í sambandi við það starf sem þeir voru að vinna í hinni svonefndu vísitölunefnd, að þeir sögðu þar af sér og létu störfum sínum lokið vegna framkomu þessa frv., þá auðvitað fólust í því mikil og hörð mótmæli.

Það er í rauninni ekki ástæða til að við stöndum hér langan tíma í umr. utan dagskrár til að deilda um það frv. sem varla má tala um, af því að það hefur ekki verið formlega lagt hér fram. En ég vil segja, að það er algerlega þýðingarlaust að gera einhverjar kröfur um það frekar en orðið er, að þetta frv. verði lagt fram í þeim búningi sem það er, þannig að Alþb. standi að því. Það er þýðingarlaust. Þar eru menn að tefja tímann. Ef Alþfl. vill gera þetta frv. að sínu hér, sem formlegu þskj., þá stendur málið opið fyrir hann, eða ef hann vill leggja fram sitt gamla frv. frá því í desembermánuði, þá getur hann gert það. Við höfum enga aðstöðu til að hefta hann í því. En við höfum enn vald á því að neita að vera við flutning á slíku frv. eins og því sem okkur hefur verið sýnt í ríkisstj.

Að lokum vil ég aðeins segja þetta: Ég tek undir þær aðfinnslur sem hér hafa komið fram varðandi vinnubrögð í þessu máli. En ég ásaka ekki hæstv. forsrh. fyrir þessi vinnubrögð. Hann hefur, eins og hann hefur gert hér grein fyrir, raunverulega verið knúinn til þess að standa að þessu máli á þennan veg vegna óeðlilegra krafna sem gerðar voru á sínum tíma um að það yrði hafist handa um að semja frv. og leggja það fram í ríkisstj. og til þess ætlast að hægt væri að beygja menn fyrirstöðulítið undir hvað sem væri í því frv. En það er nú einu sinni þannig með okkur Alþb.-menn, að þegar við eigum í samstarfi við aðra, þá þarf að ræða við okkur um meginefnisatriði. Við látum hvorki litla né stóra hrópa okkur niður af ástæðulausu.