15.02.1979
Sameinað þing: 53. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2044)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það með hv. þm. Sverri Hermannssyni, að þetta eru furðulegar umr. En það er ennþá furðulegri stjórnarandstaða, sem við höfum hér í þinginu. Hér er hafin umr. utan dagskrár að tilhlutan foringja stjórnarandstöðunnar um eitthvert mesta og umdeildasta mál sem ríkisstj. fjallar um um þessar mundir og svo koma málsvararnir hver um annan þveran og tala um brennslu á svartolíu — gott ef ekki laxerolíu — og tala út og suður hér uppi í ræðustól, eins og þeir væru komnir á málfund í menntaskóla. Þetta er alveg furðulegt, en gott dæmi um hvernig stjórnarandstaða Sjálfstfl. er orðin, að Sjálfstfl. heldur það ekki einu sinni út að senda þrjá menn hingað upp í ræðustólinn til að tala um það málefni sem brennur hvað heitast í landinu í dag, heldur hlaupa þeir upp til handa og fóta, talandi út og suður um málefni sem koma ekki þessu máli nokkurn skapaðan hrærandi hlut við. Það hefði verið miklu nær af hv. þm. Sverri Hermannssyni að eyða löngum ræðutíma sínum hér uppi í stól við að segja okkur þm. söguna af því, miklu skemmtilegri sögu, þegar hv. þm. hékk fastur á öðrum enda línu og lax á hinum undir brú 5 klukkutíma í lotu norður í landi með bílana keyrandi yfir sér. Það hefði verið mun meira gaman að hlusta á það heldur en þusið um svartolíuna. En þetta er furðulegt og lýsandi dæmi um það, hvernig stjórnarandstöðu Sjálfstfl. er háttað, að þurfa að eyða tíma þingsins í að hlusta á svona tölu.

Ég vil láta það koma fram hér, að mér finnst mjög ánægjulegt að það skuli vera orðin samstaða í hæstv. ríkisstj. um að birta opinberlega frv. það sem hér um ræðir. Það er ekkert launungarmál, að á fundi ríkisstj. strax á þriðjudag óskuðu ráðh. Alþfl. eftir því, að það yrði gert, og það er heldur ekkert launungarmál, að hæstv. forsrh. tók undir þá ósk, þannig að það er hvorki sök Alþfl. né Framsfl. né forsrh. að almenningi var ekki kynnt frv. daginn eftir að það var lagt fram í ríkisstj. Hins vegar voru aðrir sem vildu fá ráðrúm til þess að kynna sínum mönnum efnisatriði frv. áður en þeir gætu skoðað það sjálfir með eigin augum.

Það liggur að sjálfsögðu alveg ljóst fyrir að þær till., sem ríkisstj. hefur verið að ræða og hæstv. forsrh. hefur fjallað um í sínu frv.; eru ekki nýjar till. Þetta eru mál, sem hafa legið á borðum stjórnarflokkanna allt frá því að þeir byrjuðu að ræðast við eftir kosningarnar á s.l. sumri. En það er alveg furðulegt með suma menn, að það er eins og þeir meðhöndli öll mál, sérstaklega þau, sem erfið eru viðfangs, líkt og maður sem veltir stöðugt heitri kartöflu á milli handanna. Gagnvart sumum aðilum er gersamlega útilokað að knýja fram hreint og klárt já eða nei gagnvart slíkum efnisatriðum.

Sú saga er sögð, að á bæ einum í Þistilfirði hafi verið vinnumaður sem var svona heldur ánægður með sjálfan sig og sperrtur. Maðurinn hét Gunnar og fékk viðurnefnið stertur. Um hann sagði húsbóndi hans, að það væri undarlegt með Gunnar stert, alltaf þegar ég ætla að tala við Gunnar stert um umgengni í hlöðunni, þá fer Gunnar stertur að tala um veðrið. Og því miður virðist það vera þannig um allt of marga menn, að þegar á að tala við þá um umgengnina í hlöðunni, um það að gera hreint fyrir sínum dyrum, hvort sem það eru dyr flokks eða ríkisstj., þá vilja þeir endilega fara að tala um veðrið. Og auðvitað gefur það auga leið, að á meðan Gunnar stertur vill ekki tala um neitt nema veðrið, þá gerir hann ekki hreint í hlöðunni.

Það hefur komið fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, að hann hefur sagt: Alþb. vill ekki standa að þessu frv. hæstv. forsrh. — Gott og vel. Á þeim tíma, sem hæstv. ríkisstj. hefur haft til umfjöllunar um efnahagsmál, hafa henni horist tvær till. í frv.-formi, frv. frá þingflokki Alþfl. og frv. frá hæstv. forsrh. Aðrar fullfrágengnar till. hefur ríkisstj. ekki. Þá er kominn tími til, ef menn vilja ekki ganga að þeim till. sem fyrir liggja, að þeir geri till. sjálfir.

Það kann ekki góðri lukku að stýra að halda áfram á þeirri braut sem hæstv. forsrh. lýsti hér áðan, sem hefur leitt til þess, eins og hann sagði, að 15 vísitölustigum hefur verið eytt. Með tvennum aðgerðum hefur hæstv. ríkisstj. eytt 15.5 vísitölustigum. Ég dreg ekki í efa að þær aðgerðir hafi verið nauðsynlegar og réttlætanlegar. En ég vil leyfa mér að spyrja: Ætlar hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar að láta sér það lynda, að allar aðgerðir hæstv. ríkisstj. takmarkist af því að krukka stöðugt á þriggja mánaða fresti í vísitöluna, í kaupið hjá fólkinu, og síðan ekki söguna meir? Það liggur fyrir, að við Alþfl.-menn viljum þetta ekki. Það getur verið óhjákvæmilegt að leggja byrðar á launafólkið, en ríkisstj., sem vill kalla sig vinstri stjórn og vill vera hliðholl verkafólki og launþegum í þessu landi, getur ekki starfað þannig að gera ekkert nema krukka í kaupið á 3 mánaða fresti. Þess vegna er kominn tími til að hæstv. ríkisstj. sýni eitthvað annað frá sér heldur en eilíft kaupkrukkerí. Við Alþfl.-menn höfum lagt slíkar till. fram, hæstv. forsrh. hefur lagt slíkar till. fram, en Alþb. ekki. Og ég á fastlega von á því, að þeir Alþb.-menn hafi sömu afstöðu í þessum málum og við og Framsfl., að það sé ekki verjandi fyrir vinstri stjórn að gera ekkert annað en krukka í kaupið á þriggja mánaða fresti. Þeir hljóta þá að vera nú í stakk búnir til þess að leggja fram till. um aðrar aðgerðir en eilíft kaupkrukkerí, eilíft vísitölufálm á þriggja mánaða fresti.

Hv. 1. þm. Austurl. sagði áðan að meginatriði frv., sem því miður hefur ekki verið sýnt enn, en verður það væntanlega fljótlega, væri að binda kaup, sem þýði kauplækkun. Það er rangt. Hæstv. forsrh. hefur tekið það fram, að till. hans í vísitölumálum og kaupgjaldsmálum, sem hann hafi gert í þessu frv., séu settar fram með öllum fyrirvörum um að þær verði skoðaðar og aths. við þær gerðar frá verkalýðshreyfingunni og endanleg afstaða tekin að því loknu. Hæstv. forsrh. hefur sérstaklega tekið fram að þessi kafli sé hér fram settur til þess að ekki yrði sýnt frv. án ákvæða um kaupgjaldsmál, en það væri ekki ætlun hans að lögbinda þetta hvað sem hver segði. Auðvitað er ljóst að núv. ríkisstj. setur ekki lög á verkalýðshreyfinguna, hún lögbindur ekki kaup í fjandskap við verkalýðshreyfinguna. Þetta veit hæstv. forsrh. og hefur sagt, þetta vitum við Alþfl.-menn og þetta veit Alþb. líka. Það er því algerlega út í högg að vera að lýsa þessu frv. svo. En jafnvel þó að það næðist samkomulag við verkalýðshreyfinguna um allar þær aðgerðir sem felast í kaup- og kjaramálakafla frv., — ég býst ekki við að það náist samkomulag við verkalýðshreyfinguna um öll þau efnisatriði, — en jafnvel þótt slíkt samkomulag næðist og lögfest öll þau atriði sem þar eru, þá liggur það á borðinu, að kaupmáttur tímakaups á árinu 1979 yrði sá sami og hann var á árinu 1978. Það er niðurstaða Þjóðhagsstofnunar, sem ég bað sérstaklega um að skoða þetta atriði fyrir okkur Alþfl.-menn í gær, að jafnvel þó að þetta næði fram að ganga óbreytt, þá væri ekki um neina kauplækkun að ræða á milli áranna 1979 og 1978 enga. Auðvitað er það samt sem áður ljóst, að það hlýtur að takmarka eitthvað olnbogarými fólks þegar leitast er við að ná verðbólgu úr 40–45% niður fyrir 30% á einu ári. Það verður ekki gert með þeim hætti, að menn ætli sér að gera allt fyrir alla. En það er rangt að Framsfl. og Alþfl. stefni að því, að það verði gert með því einu að ráðast á kaup launafólksins í landinu. Þvert á móti er það hvorki stefna okkar, þeirra né Alþb.

Þá sagði hv. 1. þm. Austurl. einnig, að annað meginefni þessa frv. væri að stórauka atvinnuleysishættuna í landinu. Því miður er það oft þannig, að menn, sem tilheyra flokki hv. 1. þm. Austurl, — ég tek fram að þar á ég ekki við hann sjálfan og ekki við þm. hans flokks, heldur ýmsa aðra sem eru kannske svolítið nær þeim þankagangi sem hv. 1. þm. Austurl. hafði á árunum áður þegar hann var formaður kommúnistadeildarinnar á Norðfirði, — margir af þessum aðilum hafa þá grundvallarafstöðu að trúa á hið illa í manninum, trúa á að andstæðingar þeirra vilji þjóðinni illt, þeir stefni að því leynt og ljóst t.d. að svipta fólk atvinnu og helst svelta það til bana. Á þessari trú á hið illa í manninum grundvalla menn svo gjarnan haturspólitík sem er slík að mönnum er kennt frá æsku að hata og fyrirlíta andstæðinga sína vegna þess að þeir séu illa innrættir. Ég trúi því ekki, að Alþb. ætli að halda því fram, að það sé stefna Alþfl., Framsfl., Sjálfstfl. eða nokkurs flokks í þessu landi að gera þjóðfélagsþegnana atvinnulausa. Ætla Alþb.-menn að leyfa sér að koma hér upp í ræðustól og benda á þm., sem sitja hér fyrir framan okkur, og segja: Þessir menn stefna að því að gera launafólkið í landinu atvinnulaust til þess að kúga það og svelta. — Enginn, hvorki samherji né andstæðingur, stefnir að slíku, og það er til vanvirðu fyrir stjórnmálamenn að halda slíku fram um andstæðinga sína. Það er til vanvirðu og þeim einum til svívirðingar að koma fram með slíkt.

Það má segja, og sjálfsagt hefur hv. 1. þm. Austurl. átt við það, að með frv. hæstv. forsrh. væri tekin áhætta í sambandi við atvinnumálin. En svo er ekki, vegna þess að fyrsta setning frv., áður en nokkuð annað er þar sagt, leggur áherslu á að fyrsta höfuðmarkmiðið með frv. sé að treysta og vernda atvinnuöryggi. Það ætti hv. 1. þm. Austurl. að lofa kjósendum sínum að sjá áður en hann fer að leggja út af efni frv. Og hann ætti líka að lofa hv. kjósendum sínum og annarra að sjá að ávallt þar sem einhver ákveðin stefna er mörkuð um tilteknar efnahagstæðir er sagt að frá þessari tilteknu stefnumörkun megi víkja, t.d. ef atvinnuöryggi sé í hættu.

Frv. hæstv. forsrh. er árangurinn af viðræðum sem farið hafa fram milli stjórnarflokkanna í nú bráðum 8 mánuði. Það þarf enginn að segja mér og enginn kjósendum þessara flokka að segja, að niðurstaðan af þeim viðræðum sé frv. um atvinnuleysi, vegna þess að í þessu frv. hefur verið tekið jafnmikið tillit til till. Alþb.-manna og till. okkar, þ.e.a.s. þeirra till. sem varða það viðfangsefni sem ríkisstj. setti sér með lagasetningu þessari: Stefnumótun í efnahagsmálum til tveggja ára til þess að vernda atvinnuöryggi og takast á við verðbólgu. — Séu ekki nægilegar margar af till. Alþb. í frv., þá er það einfaldlega vegna þess að þær hefur skort.

Við skulum líka hyggja að því, að ríkisstj. hefur lagt fram á Alþ., allir fyrir einn og einn fyrir alla, ákveðna, stóra málaflokka um mótun efnahagsstefnu. Fjárlög hafa þegar verið afgreidd. Hvaða stefna var mótuð þar? T.d. sú stefna, að útgjöld og tekjur ríkisins á árinu 1979 skyldu vera innan við 30% af vergri þjóðarframleiðslu. Sú stefna var mótuð í fjárl., sem Alþfl., Alþb. og Framsfl. hafa sameiginlega þegar samþykkt. Þar er líka mótuð sú stefna, að ákveðnu aflafé skuli varið til þess að greiða niður erlendar skuldir þjóðarinnar. Þar er líka mótuð sú ákveðna stefna, að greiðsluafgangur skuli vera rýmilegur hjá ríkissjóði á árinu 1979. Ætla menn að samþykkja þessa stefnu í fjárlögum, en hafna henni annars staðar?

Í dag lagði hæstv. ríkisstj. fram á Alþ. skýrslu ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun árið 1979. Hvaða stefnu skyldi ríkisstj. vera að móta þar? Hún leggur hana öll fram, allir flokkar ríkisstj. Hún segir í sambandi við fjárfestingar- og lánsfjáráætlun, að með samræmdum aðgerðum verði fjárfestingum beint í tæknibúnað, endurskipulagningu og hagræðingu í þjóðfélagslega arðbærum atvinnurekstri. Hún segir, að setja skuli samræmdar lánareglur fyrir fjárfestingarsjóðina. Hún segir, að draga skuli úr fjárfestingu á árinu 1979 og heildarfjármunamyndun verði ákveðin takmörk sett. Hún segir, að dregið skuli úr verðþenslu með því að takmarka útlána- og peningamagn í umferð. Hún segir, að fjárfestingarhlutfall af þjóðarframleiðslu skuli ekki fara yfir 25%, og hún segir, að á þessu ári skuli fjárfestingin í hlutfalli af þjóðarframleiðslu vera 24.5%. Það stendur á bls. 5 í þessari skýrslu. Og hún segir, að ákvörðuð skuli lánskjör hjá bæði bönkum og sparisjóðum þannig að raunhæf vaxtakjör verði sett á. Og hún segir, að gert sé ráð fyrir 9–10% samdrætti fjármunamyndunar á árinu 1979. Hún segir, að gert sé ráð fyrir samdrætti í framkvæmdum hins opinbera um 5%. Hún segir, að gert skuli ráð fyrir samdrætti í hitaveituframkvæmdum um 13–14%. Og hún segir: Í forsendum fyrir þjóðhagsspá fyrir árið 1979 er miðað við að neysluvöruverð hækki um 33% að meðaltali á þessu ári og um 30% frá upphafi til loka ársins. Þetta fæli í sér umtalsverða verðbólguhjöðnun á þessu ári, segir hæstv. ríkisstj. og bætir síðan við: Sá árangur næst þó ekki nema fylgt verði þeirri stefnu í kauplags- og verðlagsmálum, að hækkun peningalauna verði minni en fylgir óbreyttu kerfi vísitölubindingar launa. — Þetta allt saman segir hæstv. ríkisstj. í skýrslu sinni um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem lögð er fram í dag. Þar boðar hún það sem Alþb. nú kallar kauplækkun. Þar boðar hún fjárfestingarhlutfallið 24.5% af vergri þjóðarframleiðslu o.s.frv., o.s.frv. Þetta liggur á borðinu sem stefna hennar. Svo leyfir Alþb. sér að segja, að þetta séu efnisatriði í till. hæstv. forsrh. sem stefni að atvinnuleysi, og er sjálft aðili að till. um nákvæmlega sömu efni sem dreift hefur verið á borð þm. í dag. Það þýðir ekkert að ætla að hegða sér eins og maðurinn sem hafði fyrir sig sér til andlegrar upplyftingar og líkamlegrar hressingar að hlaupa á hverjum morgni hringinn í kringum blokkina sína og komst svo að þeirri niðurstöðu, að hann hefði ekki lengur þol til að standa í því, og eftir það hljóp hann aðeins hálfa leiðina og síðan til baka aftur. Það þýðir ekkert fyrir hv. Alþb. að ætla að fara að stunda slíkar kúnstir.

Einhvern tíma sagði hæstv. forsrh., að það væri rétt að stikla yfir vaðið í stuttum skrefum, en þó þannig að áleiðis miðaði. Það er líka harla lítil von til þess, að þeir Alþb.-menn uppskeri mikið, þegar þeir eru komnir út í miðja ána og fer að sundla, að steypa sér þá til sunds. Það er harla lítill ávinningur í því fólginn. Ég hvet sem sagt menn og þá ekki síst Alþb.-menn sjálfa til þess að kynna sér þær afgreiðslur, sem þeir hafa þegar tekið ábyrgð á í sambandi við atkv. sitt með fjárl. sem eru að sjálfsögðu byggð á ákveðinni stefnumótun, og jafnframt þau markmið sem skýrsla ríkisstj. um fjárfestingar- og lánsfjáráætlun 1979 gerir ráð fyrir og ég var að kynna áðan. Þessi atriði, sem þar eru og ríkisstj. leggur fram, eru sömu atriði upp á stafkrók og Alþb. segir að stefni til atvinnuleysis í till. hæstv. forsrh. Ætlar þá Alþb. að leggja slíkar atvinnuleysistillögur fram í dag og fella þær á morgun?