19.02.1979
Sameinað þing: 54. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

57. mál, fæðingarorlof kvenna í sveitum

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Flm., hv. þm. Árni Gunnarsson, kvaðst vænta þess, að mál þetta fengi hér góðar undirtektir, og vissulega vil ég taka undir það með honum. Það er ekkert réttlæti í því að sumar þær konur, sem úti vinna, eins og það er kallað, útivinnandi konur, fái þessi réttindi, en aðrar ekki. Þar á auðvitað að vera samræmi.

En þetta mál er ekki alveg svo einfalt, að eingöngu þyrfti að veita útivinnandi konum, eins og það er kallað, þessi réttindi, en ekki innivinnandi konum, ef það yrði líka nýyrði. Þar er í mörgum tilfellum verið að stuðla að auknu óréttlæti, en ekki meira réttlæti. Auðvitað er það svo og við þekkjum það allir, sérstaklega við sem þekkjum vel til í sjávarþorpum úti um land og á minni stöðum, að þar eru e.t.v. tiltölulega fáar fjölskyldur sem hægt er að kalla fátækar. Sem betur fer er lítið orðið af fátæku fólki á Íslandi. En hvert er þetta fátæka fólk? Það er fyrst og fremst það fólk þar sem börnin eru mjög mörg, þar sem konan getur aldrei unnið úti. Sú kona fær ekki greitt fæðingarorlof, en það fær hins vegar önnur kona sem á kannske stálpað barn og fer svo að vinna úti í 1–2 ár og á svo aftur barn, eftir að bæði hjónin hafa unnið úti og haft miklar tekjur. Þessi kona á heimili sem er vel stætt, kannske mjög vel efnað, fær þetta orlof, en fátæka konan aldrei.

Það er einhvern veginn eins og í þessari virðulegu stofnun gleymist algjörlega hagur þess kvenfólks sem vinnur kannske meira en nokkur maður annar á þessu landi. Það er konan sem á mörgu börnin og er bláfátæk. Það tekur aldrei nokkur maður upp hanskann fyrir þessa konu. Ég hef ekki heyrt neina rödd um það í þessari virðulegu stofnun. Þess vegna þarf að skoða þetta mál frá grunni, og það á auðvitað að haga tryggingastarfsemi þannig að hún hjálpi þeim mönnum, þeim einstaklingum og þeim fjölskyldum, sem á hjálpinni þurfa að halda fyrst og fremst, en ekki þeim sem ekki þurfa hennar.

Ég endurtek, að auðvitað er það fullkomið réttlæti að allar útivinnandi konur sitji við sama borð. En það er fullkomið óréttlæti að innivinnandi konur megi ekki líka njóta þessara réttinda, a.m.k. í þeim tilfellum þar sem um mikla fátækt er að ræða og mikla ómegð og útilokað er að konan geti nokkru sinni unnið úti. Það er fátæka fólkið í landinu sem býr við þessi kjör. Enginn hv. þm. hefur tekið undir að það þurfi að bæta kjör þess.