20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2647 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

Umræður utan dagskrár

Finnur Torfi Stefánsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er höfum við Íslendingar átt í Sovétríkjunum mjög mikilvægan útflutningsmarkað fyrir niðurlagða gaffalbita. Það er til marks um mikilvægi þessa markaðar, að á árinu 1978 var heildarútflutningur lagmetis 1600 tonn, þar af fóru til Sovétríkjanna rúmlega 1000 tonn. Verðmæti þess, sem fór af lagmeti til Sovétríkjanna einna, var 1100 millj. kr., sem er 69.4% af heildarverðmæti útflutts lagmetis. Þarna er því um gífurlega mikilvægan markað að ræða fyrir þessa ungu og vænlegu iðngrein.

Síðustu daga hafa fjölmiðlar skýrt frá því, að enn þá hafi ekki náðst neinir samningar um sölu á gaffalbitum til Sovétríkjanna á árinu 1979. Það ríkir þess vegna fullkomin óvissa um þessi mál eins og þau standa nú. Það hefur verið skýrt frá því enn fremur í fjölmiðlunum, að þetta eigi sér þær ástæður og orsakir, að í haust hafi Sovétmenn kvartað undan göllum í þeim gaffalbitum sem þeir fengu senda. Sölustofnun lagmetis, sem hefur umsjón með sölu á þessari vöru þangað austur, sendi þá sendimenn til að semja um bætur fyrir gallana og náðist, eftir því sem mér skilst, samkomulag um að senda Sovétmönnum nýja ógallaða vöru í staðinn. Nokkru seinna í haust barst ný kvörtun frá Sovétmönnum um það sama. Þeir höfðu fundið frekari galla í gaffalbitum. En þessir gaffalbitar munu allir hafa komið frá fyrirtæki á Akureyri, sem nefnist K. Jónsson h/f.

Sölustofnun lagmetis sendi síðan eftir áramótin aftur sendimenn til Sovétríkjanna og freistaði þess að semja enn á ný um bætur, og þá stóð líka til að semja um sölu á þessari framleiðsluvöru á árinu 1979. Árangurinn af þeirri för var, að því er virðist enginn, þ.e.a.s. hafa ekki náðst samningar um neina sölu á þessari vöru til Sovétríkjanna. Þarna eru mjög miklir hagsmunir í húfi. Þessu til viðbótar mun fyrirtækið K. Jónsson ekki geta staðið við samningana sem Sölustofnun lagmetis gerði um bótagreiðslur, þ.e.a.s. þetta fyrirtæki á Akureyri mun ekki hafa neina ógallaða vöru til að senda í staðinn, og þar að auki mun fyrirtækið ekki heldur hafa neitt ógallað hráefni, þannig að það getur ekki einu sinni framleitt nýja ógallaða vöru. Málin eru sem sagt öll í óvissu. Og því má bæta við, að það er annað mjög mikilvægt fyrirtæki sem annast framleiðslu á sömu vöru, Siglósíld á Siglufirði. Það fyrirtæki hefur framleitt mjög góða og viðurkennda vöru, en starfsemi þess mun núna vera í mikilli óvissu vegna þess að það hefur ekki fengist, eins og ég gat um áður, nein vissa um sölusamninga á þessu ári sem nú er byrjað að líða.

Nú er það svo, að það munu vera einar þrjár opinberar stofnanir sem hafa afskipti af framleiðslu þessara afurða og sölu. Það er Framleiðslueftirlit sjávarafurða, sem mun hafa það hlutverk að athuga gæði hráefnisins. Í öðru lagi er um að tefla Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, sem ber ábyrgð á því að rannsaka hina fullunnu vöru. Og í þriðja lagi er um að ræða söluaðilann, Sölustofnun lagmetis, sem hefur það hlutverk, eins og ég hef getið um, að koma vöru til kaupenda og selja hana. Og Sölustofnun lagmetis hefur einkarétt á því að selja þessa vöru til Austur-Evrópulanda. Af þessum ástæðum og einkum því, að hér eru mjög miklir hagsmunir í veði, hef ég leyft mér að kveðja mér hér hljóðs til að spyrja hæstv. iðnrh. eftirfarandi spurninga:

Hvaða skýring er á þessum mistökum, sem hafa orðið þarna, og hver er ábyrgur fyrir mistökunum? Hvað eru bótakröfur Sovétmanna háar, og hvernig er ætlunin að greiða bæturnar? Hvaða ráðstafanir hefur hæstv. iðnrh. hugsað sér að viðhafa til að koma í veg fyrir að slík mistök gerist aftur? Enn fremur: Hvaða áhrif hafa þessir atburðir á markað okkar í Sovétríkjunum fyrir gaffalbita og traust Sölustofnunar lagmetis þar eystra? Og í síðasta lagi: Er mönnum kunnugt um að samkv. stjórnarsáttmála skyldi gera nokkra úttekt á bæði innflutningsverslun, sem þegar hefur verið hafin að nokkru leyti, og líka á útflutningsverslun Íslendinga.

Ég vil spyrja að síðustu: Hafa þessir atburðir það í för með sér, að ríkisstj. muni hraða þeirri úttekt á útflutningsversluninni sem stjórnarsáttmálinn gefur fyrirheit um?