20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2658 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

Umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi kom inn á það í upphafi máls síns, að ekki lægju fyrir samningar um sölu á gaffalbitum til Sovétríkjanna á þessu ári. Hér er ekki um nýtt mál að ræða, því að þannig hefur það gengið til á undanförnum árum. Það mun láta nærri að vera nákvæmlega eitt ár síðan ég, með samþykki þáv. hæstv. viðskrh., átti viðræður við ráðh. í því rn. í Moskvu, sem fer með utanríkisviðskipti, um sölu á lagmeti. Þá lá ekkert fyrir um það, hvað yrði keypt á árinu 1978, og þá hafði ekkert slíkt komið fyrir sem hér hefur verið gert að umræðuefni. Það stóð á því í þessum viðskiptum, að við í okkar miklu verðbólgu þurftum á að halda mun hærra verði en árið á undan, en viðsemjendur, sem halda verðbólgu niðri og finnst mikið að nefna jafnvel 3–4% hækkun á milli ára, skilja ekki þessar öru verðbreytingar. Og jafnvel þó að minnst sé á kaup á olíunni, að við mundum sætta okkur við óbreytt verðlag á lagmeti ef við hefðum óbreytt verð á olíu, þá var svarið að það heyrði undir annað rn.

Það undarlega skeði fyrir nokkrum árum, að lagmetisiðnaðurinn var settur undir iðnrn., en ekki undir sjútvrn., með setningu laga um lagmetisstofnunina. Hins vegar heyra stofnanir, sem hér hefur verið vitnað til, undir sjútvrn., bæði Framleiðslueftirlit sjávarafurða og sömuleiðis Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Hráefnisöflunin fyrir lagmetisiðnaðinn er tvímælalaust sjávarútvegsmál. Eðli málsins samkv. hefði þessi breyting aldrei átt að verða og ætti sannarlega að taka hana til athugunar. Ekki svo að skilja, að það sé snúist gegn núv. hæstv. iðnrh., nema síður sé. Það er fyrst og fremst vegna þess að þetta eru skyld mál, þetta eru málefni sjávarútvegsins og þar ætti þessi starfsemi öll að eiga heima.

Framleiðslueftirlit sjávarafurða hefur farið fram á mjög auknar fjárveitingar á undanförnum árum. Í sjútvrn. voru tillögur þess skornar mjög verulega niður, en hins vegar lagði sjútvrn., á þeim árum sem ég var þar, til að það yrði orðið við mun fleiri tillögum Framleiðslueftirlits sjávarafurða vegna aukinna verkefna og aukinna umsvifa. Það er auðvitað ekki hægt að setja menn til þess að fylgjast með framleiðslu, nema þá sem eru hæfir til þess hver á sínu sviði. En ég verð að játa, að þó að það sé sjálfsagt að fjvn. sýni mikla aðgát í meðferð peninga, þá var þar of langt gengið á s.l. ári og sömuleiðis og ekki síður við gerð þeirra fjárl. sem nú er starfað eftir. Ég ætla ekki að blanda mér í deilur sem hafa orðið á milli ákveðinna stofnana, eins og Siglósíldar og Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins, fyrir alllöngu. En ég legg áherslu á að það, sem hér hefur komið upp, verði rannsakað til hlítar og reynt verði að læra af þeim mistökum sem hér hafa átt sér stað, hver sem þau svo eru, til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Það er sérstaklega raunalegt þegar í hlut á verksmiðja sem hefur unnið sé álit bæði innanlands og hjá viðskiptaaðilum sínum, sem eru aðallega Sovétmenn, og verður fyrir jafngeigvænlegu áfalli og hér ber raun vitni.

Ég held að það sé gagnslaust fyrir alþm. að pexa út af blaðaskrifum eða deilum sem orðið hafa. Ég held að aðalatriði þessa máls sé að þau rn., sem þessi mál heyra undir, vinni að því að gera skýrslu, ítarlega hlutlausa skýrslu um hvað átt hefur sér stað og hvað komið hefur fyrir, og koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig, því að það verður að segja eins og er, að það að hafa bæði Framleiðslueftirlit sjávarafurða og Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins ætti að fyrirbyggja með öllu að slíkir gallar gætu komið fyrir.

Ég ætla að síðustu, til þess að hv. 4. þm. Norðurl. e. standi ekki í einhverri villu, að segja við hann, að ég kipptist ekkert við út af því, hverjum væri kennt um ýldu í fiski. Hins vegar kipptist ég svolítið við þegar hann sagði frá austur-þýska fiskinum, að lyktin væri slík enn þá, eftir 18 ár, að þeir, sem ekki hefðu verið fæddir þegar fiskurinn kom, mættu ekki einu sinni heyra íslenskan fisk nefndan. Mér fannst undarlegt hjá hv. þm. að vilja eiginlega láta liggja að því, að þetta gengi í erfðir, ef foreldrarnir fyndu slæma lykt af einhverjum mat gengi það í erfðir til barnanna sem ekki voru fædd þegar þeir urðu fyrir þessum ósköpum.