20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

Umræður utan dagskrár

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins til frekari upplýsinga örstutt aths.

Það kom fram í máli hv. þm. Hannesar Baldvinssonar, að það hefði ekki borið neitt á göllum í fullunninni vöru hjá K. Jónssyni á s.l. ári og Rannsóknastofnun hefði ekki orðið vör við slíkt. Það er ekki með öllu rétt, heldur var það tilefni til þess bréfs, sem ég las áðan, að það varð vart við gallaða fullunna vöru hjá Rannsóknastofnuninni, og þess vegna óskuðum við eftir að þessar báðar stofnanir, Rannsóknastofnunin og Framleiðslueftirlitið, tækju þetta mál út, eins og í bréfinu var farið fram á.

Hv. þm. bar einnig saman úttekt Framleiðslueftirlits sjávarafurða á síld, sem Siglósíld fékk á Hornafirði, og síld, sem K. Jónsson keypti þar og var í rauninni söltuð þar á hans ábyrgð. Það er því rétt að fram komi það rétta í því máli, að síldin var söltuð fyrir K. Jónsson á Hornafirði. (Gripið fram í: Vildi hann hafa hana svona?) Það má vel vera. Hann hefur viljað hafa síldina eins og hún var söltuð. Ég hef ekki séð að það hafi neitt komið fram sem sannar hið gagnstæða. — En ég vil í því sambandi segja, að samkv. því, sem K. Jónsson segir okkur hjá Sölustofnun lagmetis, var sérstaklega óskað eftir úttekt á þessari síld. Framleiðslueftirlitið sagði að hún væri óúttektarhæf á þeim tíma sem hún var flutt til Akureyrar — þá var hún það ung — og því var hún ekki verkuð. En það var óskað eftir þessari úttekt síðar, að okkur er tjáð. Ég er ekki að ásaka neinn með þessum orðum. Ég er bara að segja frá því, hvað er staðreynd í málinu að því sem okkur er tjáð hjá Sölustofnun lagmetis. Og ég vil taka alveg sérstaklega undir það með hæstv. iðnrh., að það eru ekki efni til þess að fara að finna einhvern sökudólg í þessu máli. Það er eftir að kanna það til hlítar. Það er a.m.k. ekki mjög heiðarlegt, og allra síst af hv. Alþ., að fella dóma í málum sem ekki eru að fullu leyti könnuð. En höfuðatriðið er að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að slíkt geti endurtekið sig sem hér hefur orðið.

Kannske var ástæðan fyrir því, að ég bað hæstv. forseta að leyfa mér að segja hér nokkur orð, að ég gleymdi að taka fram eitt ákveðið atriði út af ummælum fyrirspyrjanda. Hann spurði um það, hvort þessir atburðir hefðu ekki áhrif á úttekt á útflutningsversluninni, og nefndi í því sambandi einkarétt Sölustofnunar lagmetis til sölu á lagmeti í Austur-Evrópu. Ég vil undirstrika í þessu sambandi, til þess að þingheimi sé það ljóst, að hér er að sjálfsögðu ekki um einsdæmi að ræða. Það er svo með mörgum þjóðum, að það er náin samvinna milli útflytjenda, sem flytja út til Austur-Evrópulandanna, eins og t.d. gerist hér hjá SH og SÍS. Þar er mjög náin samvinna um sölu til þessara landa. Og svo er t.d. í einu nágrannalanda okkar, þar sem lagmetisiðnaðurinn er verulega öflugur, hjá Norðmönnum, sem hafa sérstaka samstarfsnefnd sem sér um öll slík útflutningsmál til austantjaldslandanna. Og hér er ekki um neina tilviljun að ræða. Í þessum löndum kaupir einn aðili vöruna. Og ef það eru margír aðilar frá sama landi að bjóða einum aðila sams konar vöru, kannske á mismunandi verði, þá sjá náttúrlega allir hvaða afleiðingar það hefur fyrir viðkomandi land. Það verður til þess að lækka vöruna í verði og torvelda mjög samningsstöðu þegar margir eru að bjóða einum aðila.

Það gegnir allt öðru máli þegar um er að ræða markaðsaðstæður eins og eru á Vesturlöndum, þar sem eru margir innkaupaaðilar. Þar er að sjálfsögðu um að ræða, að margir aðilar geta verslað við þá og jafnvel á betra verði en ef um einkarétt er að ræða. Hins vegar er þetta svo — ég vil undirstrika það — að hér er um vinnuaðferð að ræða, sem við höfum notað á öðrum sviðum gagnvart Vestur-Evrópulöndunum og aðrar þjóðir nota af mjög einföldum ástæðum og af skynsamlegum ástæðum, tel ég, vegna þess að það er eðlilegt að þar sem einn aðili kaupir, þá sé einn aðili til að selja.