20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2665 í B-deild Alþingistíðinda. (2072)

340. mál, hvar í dómskerfinu eru stödd nokkur mál sem teljast til efnahagslegra afbrota

Fyrirspyrjandi (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör hans við þessum fsp. Mér er raunar kunnugt um að hann brást skjótt við og var tilbúinn með svör fljótlega eftir að þessar spurningar komu fram, þó að dagskrá hér í Sþ. hafi svo háttað að svör hafi dregist allnokkuð, svo sem fram kom af máli hans. En allt um það á hæstv. ráðh. auðvitað góðar þakkir skildar fyrir svörin.

Kjarni málsins er engu að síður sá, að það getur varla farið fram hjá neinum, sem hlýðir á svör hæstv. ráðh., að hér er enn sem fyrr við verulegan vanda í samfélagsgerð okkar að etja. Það er varla fráleitt að draga þá ályktun að öll þessi stóru mál, sem hafa orðið beinlínis áberandi þáttur í samfélagsgerð okkar á undanförnum árum, hljóta einhverja sérstaka skýringu að eiga. Mér er nær að ætla að ein meginskýring þessa sé sú óðaverðbólga sem hér hefur geisað á undanförnum árum, og manni sýnist í fljótu bragði að ekki sé óskynsamlegt að ætla að aukning þessarar tegundar afbrota gangi nokkurn veginn hönd í hönd við hraðara stig verðbólgu, eins og verið hefur allan þennan áratug. Það hefur í fleiri löndum en hér fylgt óðri verðbólgu, að verðmætamat manna brenglast meira og minna, og manni sýnist af þeirri ófögru lýsingu, sem hér var lesin upp áðan, að þessi samanburður fái staðist. Auðvitað er það svo þegar mál eins og Pundsmál virðist fyrnast að mestu fyrir misskilning í kerfinu, eins og hér var lýst. Annað stórmál, kennt við Friðrik Jörgensen, hefur staðið allt frá 1966. Ég efast ekki um góðan vilja hæstv. ráðh., að hann þurfi ekki að standa hér að ári til þess að fjalla enn um það mál. Af þessu tvennu, þó að ekki sé annað tiltekið í bili, hlýtur að vera ljóst að hér er enn sem fyrr við verulegan vanda að etja.

En aðalatriði þessa máls sýnist manni þó vera það, að það má ekki gerast að hin gömlu sannindi eigi ekki lengur við: afbrot eiga ekki að borga sig. Auðvitað er það svo þegar verðbólga veður áfram og í efnahagslegum afbrotum af þessu tagi er ekki um verðtryggingar að ræða, að þá er hætt við að sá, sem hefur verið að brjóta leikreglur samfélagsins, hagnist á þeim langa drætti sem á sér stað. Þetta eru miklar hættur sem við kerfinu blasa. Það er auðvitað beinlínis hryggileg samfélagslýsing ef það, sem eigi við, er hitt: efnahagsleg afbrot beinlínis borga sig í því samfélagi og þeirri samfélagsgerð sem hér hefur verið að myndast á undanförnum árum.

En það er von að spurt sé út frá svörum hæstv.ráðh.: 1) Er kerfið nægjanlega vel í stakk búið til þess að eiga við þau mál sem hér hafa verið gerð að umræðuefni? Mér er næst að ætla að svo sé ekki. 2) Er þá þetta sama dómskerfi svo yfirhlaðið störfum að málin þar hlaðist upp án þess að fá nokkra úrlausn?

En allt um það ber að þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóð svör við þessum spurningum. Á hitt ber að lokum að leggja rækilega áherslu, að í þessum efnum ber að búa svo um hnútana að afbrot af því tagi, sem hér hafa verið gerð að umræðuefni, mega undir engum kringumstæðum borga sig. Og sé komið í veg fyrir það, þá erum við a.m.k. búin að koma í veg fyrir stóran hluta þess vanda sem hér hefur verið gerður að umræðuefni og vissulega er mikill.