20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2666 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

340. mál, hvar í dómskerfinu eru stödd nokkur mál sem teljast til efnahagslegra afbrota

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að það hafi komið í ljós í svörum hæstv. ráðh. að dómskerfið virðist ekki vera eins svifaseint og hv. fyrirspyrjandi virðist vilja berja inn í þjóðina. Ég held líka að við verðum að fara afskaplega varlega í að ýta það fast á eftir dómskerfinu að það fari að flýta sér um of í viðkvæmum málum. Eru margar ástæður til þess, ekki bara afbrotanna vegna, heldur líka með tillitssemi við þá, sem handteknir eru, og eins fjölskyldur þeirra og fleiri aðstandendur.

Ég gerði það að gamni mínu, þegar ég vissi að hæstv. ráðh. mundi svara fsp. einhvern næstu daga, að kynna mér eitt þessara mála, bara til þess að vita nokkurn veginn hvernig það mál stæði og hver væri munurinn á þeim dómi, sem almenningur hefur þegar fellt, og á málinu eins og það stendur í dag. Og ég verð að segja alveg eins og er, að eftir situr hjá mér viss hryggð yfir því, að það skuli vera opin leið í þjóðfélagi okkar til að koma á framfæri ásökunum með alvarlegustu afleiðingum fyrir viðkomandi án þess að ótvíræðar sannanir liggi fyrir frá kæranda hálfu.

Ég skal ekki segja hvor aðili það var í svonefndu Pundsmáli sem þoldi auðsjáanlega ekki þá pressu sem Pundsmálið setti á þann aðila, en hann hefur samkv. úrskurði lækna ekki haft heilsu til þess að vera yfirheyrður. Það hefur ekki verið hægt að tala við hann eins og maður talar við mann frá því að ákæra barst í þessu máli. Nú veit ég ekki hvort um er að ræða þann, sem ákærir, eða hinn, sem er kærður.

En oft er það svo, að vegna skrifa í dagblöðum hefur almenningur dæmt fyrir allar ákærur. Þetta mál, sem ég reyndi að kynna mér, var mál Friðriks Jörgensens. Hann hefur verið ákærður á 15 vélrituðum blaðsíðum, þ. á m. um gjaldeyrissvik, sem voru á 9 af þessum 15 ákærusíðum. Þessar 9 ákærusíður af 15 hafa verið felldar niður. En ég hef ekki séð frá hendi rannsóknarblaðamanna að þeir hafi gert sér far um að biðja afsökunar á skrifum sínum út af þeim ákæruatriðum sem dómsvaldið hefur fellt niður, en almenningsálitið þegar dæmt viðkomandi aðila fyrir þungum sökum. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég óska eftir að fá að halda ofurlítið lengur áfram. Ég held að þetta sé það alvarlegt mál að ég verði að óska eftir því að fá að halda svolítið lengur áfram. Alhæfingar í fjölmiðlum um svik þegar á byrjunarstigi rannsókna eru svo hættulegt athæfi, að hið opinbera verður að gera hegningarlöggjöfina svo úr garði að hún reynist handteknum mönnum vörn og verji viðkomandi svo að þeir eða fjölskyldur þeirra handteknu líði ekki umfram það sem eðli lögbrota gefur tilefni til. (Forseti hringir.)

Óskar forseti eftir að ég hætti? (Forseti: Ég vil benda hv. ræðumanni á, að samkv. 32. gr. þingskapa hafa ræðumenn, aðrir en fyrirspyrjandi og ráðh., aðeins tvær mínútur til umráða. Og enn fremur, eftir því sem hæstv. dómsmrh. lýsti yfir áðan, mun bráðlega verða hér til umr. dómsmálaskýrsla hans.) Má ég þá ljúka orðum mínum með mjög stuttri tilvitnun í samsvarandi mál? Ég skal þá vera mjög stuttorður.

Hver á að standa Sigfinni Sigurðssyni skil á mannorði hans eftir þær ákærur sem hann hefur núverið sýknaður af?