20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

340. mál, hvar í dómskerfinu eru stödd nokkur mál sem teljast til efnahagslegra afbrota

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hæstv. forseta og hæstv. dómsmrh., að eðlilegur vettvangur almennra umr. um dómsmál er að sjálfsögðu þegar hæstv. dómsmrh. flytur skýrslu sína. Þá gefst okkur þm. tækifæri til þess að gera það í lengra og ítarlegra máli en nú.

Ég vil aðeins í sambandi við það, sem kom fram hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni, vekja sérstaka athygli á því, að það er ekki síður í þágu þess, sem meint afbrot hefur unnið, að rannsókn málsins gangi greiðlega, svo að hægt sé að skera úr því án ónauðsynlegra tafa hvort: ástæða er til þess að gefa út ákæru og láta málið ganga til dóms eða ekki. Þannig er öllum í hag, hæði þeim, sem liggja undir grun, dómskerfinu í landinu, dómstólum og þeim sem við þessar rannsóknir fást og þjóðfélaginu í heild, að málin geti gengið sem allra greiðlegast fyrir sig, en þó þannig að undirbúningur sé vandaður.

Það fer auðvitað ekki á milli mála, eins og kom raunar fram hjá hæstv. dómsmrh. áðan, að það hefur tekið allt of langan tíma að ganga frá rannsókn og meðferð í dómskerfinu á mörgum þeim málum sem hv. þm. Vilmundur Gylfason spurði um. Ég vil t.d. vekja athygli á því með þessi nýlegri mál sem umfangsmikil eru, hversu langur tími virðist liða frá því að rannsóknaraðilarnir skila rannsókninni af sér og þangað til saksóknari treystir sér til að gefa út ákæru eða komast að þeirri niðurstöðu að ákæra skuli ekki gefin út. Þetta er mjög óæskilegt. Ég vil sérstaklega í því sambandi minna á að við rannsókn á einu slíku umfangsmiklu máli, sem er kallað ávísanakeðjumálið, óskaði rannsóknaraðili, sem sérstaklega var skipaður, eftir því í miðjum klíðum rannsóknarinnar, þegar hann taldi nauðsynlegt að marka rannsókninni ákveðna stefnu, að saksóknari tæki ákvörðun um í hvaða átt rannsókninni ætti að beina miðað við þær upplýsingar, sem þá lágu fyrir, og hvað ríkissaksóknari hygðist gera í sambandi við væntanlega útgáfu ákærunnar. En ríkissaksóknari var ekki reiðubúinn til að gera þetta þá. Það hefur komið í ljós, að frá því að rannsókn lauk er liðinn alllangur tími.

Ég held að meginatriði málsins sé það, og skal þá ljúka máli mínu á því, að það sé tryggt að maður, sem með röngum hætti aflar sér fjár, fái ekki slíkt fé með betri kjörum en sá sem aflar sér fjár með réttum hætti sem lántakandi. Því vil ég mjög ýta undir það að frv. hv. þm. Ellerts B. Schram um dómvexti fái afgreiðslu á þinginu sem nú stendur.