20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (2077)

344. mál, loðnuveiðar

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Fyrri liður fsp. er þannig: „Verður veiði á loðnu takmörkuð við ákveðið magn á þessari vertíð?“

Um það vil ég segja þetta:

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar um ástand nytjastofna á Íslandsmiðum og aflahorfur 1978, sem samin var í lok ársins 1977, var talið að veiðiþol íslenska loðnustofnsins væri á bilinu 1–1.5 millj. lesta árlega, en fram til þess tíma höfðu veiðar verið langt innan þeirra marka. Í skýrslunni var svo lagt til að hámarksafli tímabilsins 1. júlí 1978 til 30. júní 1979 skyldi ákveðinn við neðri mörk þessa veiðiþols, verða 1 millj. lestir.

S.l. sumar og haust lagði Hafrannsóknastofnunin verulega áherslu á að finna stærð þess stofns er hrygna mundi nú á þessari vetrarvertíð, og var m.a. tekin upp ný aðferð við að mæla stærð stofnsins með bergmálsaðferðum. Segir í skýrslu stofnunarinnar, að bæði þessi aðferð og loðnumerkingar hafi gefið svipaða niðurstöðu og bendi til þess, að 1 millj. lesta afli sé hrygningarstofni ársins 1979 sem betur fer ekki ofviða. Þótti í þessari síðustu skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar ekki ástæða til þess að endurskoða fyrri tillögu stofnunarinnar fyrr en stærð hrygningargöngunnar hefði verið endurmæld nú í þessum mánuði.

Fyrstu daga þessa mánaðar var rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson við slíkar mælingar út af norðanverðum Austfjörðum. Þaðan hélt skipið á Vestfjarðamið til að kanna hvað hæft væri í því áliti margra, að þar væri einnig um allmiklar loðnutorfur að ræða. Fann leiðangursstjórinn, Hjálmar Vilhjálmsson, þá verulegt magn af hrygningarloðnu sunnanvert við Kögurgrunn og var hún í torfum og veiðanlegu ástandi. Þessum leiðangri lauk fyrir 10 dögum og sagði Hjálmar að honum loknum, að hann teldi ekki ráðlegt að veiða meira en 350 þús. lestir úr þeirri hrygningargöngu er var á hinni hefðbundnu slóð út af Austfjörðum, en hins vegar væri rétt að beina bræðsluveiðum að Vestfjarðaloðnunni, þar sem óvíst væri á hvaða leið hún væri og hvort hún mundi hrygna á svæði þar sem skilyrði væru til þess að klak heppnaðist.

Rannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson hafði skamma viðdvöl í landi og hélt mánudaginn 12. þ. m. aftur á loðnuslóðina út af Vestfjörðum og hefur verið þar síðan við magnmælingar og til að fylgjast með hegðun loðnunnar. Hefur leiðangursstjórinn, Hjálmar Vilhjálmsson, fundið meira magn en hann hefur áður talið að væri á ferðinni. Hefur loðna verið á suðurleið og var í gær komin að Víkurál. Gefur það vonir um að hún muni velja sér stað góðra skilyrða til að hrygna. Ekki hefur verið veiðiveður á Vestfjarðamiðum frá því á fimmtudag, en nú munu 5 bátar a.m.k. vera komnir á þetta svæði.

S.l. 5 daga hefur einnig verið bræla á miðunum við Suðausturland, nema síðustu nótt og veiddust þá tæpar 13 þús. lestir. Loðnan var að mestu friðuð þennan tíma vegna veðurs. Þessari göngu hefur miðað vel áfram frá því að Hjálmar var við magnmælingar sínar suður af Langanesi í byrjun þessa mánaðar og mun gangan nú vera komin vestur undir Ingólfshöfða. Á sama tíma hefur gangan þést og komist miklu nær landi. Loðnuskipstjórar munu mjög almennt þeirrar skoðunar, eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að bæst hefði í þessa göngu og það jafnvel verulega frá því að Hjálmar gerði mælingar sínar fyrir rúmum hálfum mánuði, þrátt fyrir það sem veitt hefur verið á þessu tímabili. Nú hafa verið veiddar 256 þús. lestir úr þessari göngu. Vonir standa til þess, að fiskifræðingar geti athugað þessa göngu á næstu dögum til að staðreyna hvort þessi skoðun loðnuskipstjóra hefur við rök að styðjast. Má segja að þá verði þekking okkar á hrygningargöngum þessa árs orðin eins fullkomin og hún getur orðið.

Eins og sjá má af því, sem nú hefur verið greint frá, hafa loðnuveiðar á þessari vetrarvertíð verið stundaðar undir nánast daglegu vísindalegu eftirliti. Þykir ekki tímabært á þessari stundu að ákveða að vertíðaraflinn skuli takmarkaður við 350 þús. lestir. Rannsóknir, gæftir og veiðar næstu dagana munu væntanlega hafa úrslitaáhrif á þá ákvarðanatöku og þá einnig það, hvort veitt verður og þá hve mikið úr Vestfjarðagöngunni. Til greina kemur að beina loðnuflotanum með stjórnunaraðgerðum af suðaustursvæðinu á Vestfjarðasvæðið, t.d. í einhvern ákveðinn tíma, en ekki hefur enn þótt þörf slíkra aðgerða. Hefur friðun miðanna s.l. 5 sólarhringa vegna brælunnar haft nokkuð að segja í því efni og mun að sjálfsögðu tekið mið af því, hvenær veiðar geta vegna veðurs hafist á ný og hvaða stefnu þær muni þá taka. Veðurspá er nú slæm, bæði fyrir Vesturlandssvæðið og Ingólfshöfðasvæðið, og þykir rétt á þessu stigi málsins að bíða með að ákveða aðgerðir þar til betur verður séð hve mikilli friðun veðurguðirnir ætla að standa fyrir.

Seinni liður fsp. hljóðar þannig, með leyfi forseta: „Hyggst sjútvrh., ef svo verður, gera ráðstafanir til að unnt verði að framleiða í gerða sölusamninga á frystri loðnu og loðnuhrognum? Samningar þessir eru mjög verðmætir og mikilvægir fyrir framtíðarsölu okkar á markaðnum og fiskvinnslu á Suðvesturlandi.“

Um þetta vil ég segja: Til þess að unnt verði að framleiða í hina mjög mikilvægu sölusamninga, sem gerðir hafa verið um fyrsta loðnu og loðnuhrogn, er talið að veiða þurfi allt að 100 þús. lestir og má búast við að hægt verði að hefja hrognafrystingu um næstu mánaðamót eða jafnvel fyrr, en loðnufrystingin er þegar hafin. Þetta atriði er vissulega haft í huga, og verða stjórnunaraðgerðir á veiðunum, ef þeirra mun þykja þörf, miðuð við það að hægt verði að framleiða í þessa samninga. Má búast við því, ef gripið verður til aðgerða í þessu skyni eða til takmörkunar veiða að öðru leyti, að þá verði lítill eða enginn fyrirvari á því að þær aðgerðir verði látnar taka gildi.