20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2672 í B-deild Alþingistíðinda. (2079)

344. mál, loðnuveiðar

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Karlsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þau svör sem hæstv. settur sjútvrh. gaf mér, sem mér finnast í sjálfu sér ákaflega loðin og lítilvæg. Þær vangaveltur, sem þarna voru, getum við haft með okkur hver og einn sjálfur. En mér sýnist einhvern veginn að í svari hans hafi komið að vissu leyti svipað fram og ég var einmitt að gefa í skyn í mínu máli. Hann segir að fyrir veturinn hafi fundist nú mun meira magn en áður af loðnu. Það sýnist vera að það sé í sjálfu sér sami íslenski stofninn og er fyrir Vestfjörðum sem gengur vestur með suðurströndinni, og þess vegna getum við ekki leyft okkur þá bjartsýni að ætla að fiskifræðingar muni, ef svo verður að þeir verði sendir til að rannsaka gönguna með suðurströndinni, finna mun meira magn, eins og skipstjórnarmenn okkar vilja nú ætla að sé, en fiskifræðingar hafa fundið áður.

Ég vil leggja áherslu á og óska þess, að rannsóknarskip verði þegar í stað sent austur með suðurströndinni til þess að fá úr því skorið, hvort ástæða sé til að takmarka þá veiði sem þarna á að fara fram eða ekki. Við megum ekki láta veðurguðunum eftir þær ákvarðanir. Þær ákvarðanir verða aðrir að taka.