20.02.1979
Sameinað þing: 55. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2673 í B-deild Alþingistíðinda. (2082)

179. mál, ráðstafanir vegna birgðasöfnunar mjólkurafurða

Fyrirspyrjandi (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Á þskj. 342 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um ráðstafanir vegna birgðasöfnunar mjólkurafurða. Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„1. Til hvaða ráðstafana hyggst ríkisstj. grípa til þess að mæta þeim vanda, sem skapast hefur vegna gífurlegrar birgðasöfnunar á mjólkurafurðum, smjöri og ostum?

2. Hvaða upplýsingar liggja fyrir eða hvaða upplýsinga er unnt að afla með skyndikönnun á neyslu þessara vara í ýmsum stofnunum og vistheimilum á vegum hins opinbera eða félagasamtaka?“

Það er kunnugt, að miklar birgðir hafa safnast af mjólkurafurðum á síðustu missirum. Í árslok 1978 voru birgðir af smjöri 1338 tonn í landinu eða sem svarar að heildsöluverði 3.8 milljörðum kr. Á sama tíma voru ostabirgðir í landinu 1400 tonn. Er þetta hvort tveggja sem svarar ársneyslu þjóðarinnar á þessum vörum. Horfur eru á að þessar birgðir fari vaxandi á þessu verðlagsári og ekki hægt með vissu að segja til um hvað þær verða orðnar miklar í lok þessa verðlagsárs, ef ekki verður gripið til einhverra ráðstafana.

Nú er það svo, að ef ætti að flytja þessar birgðir út, t.d. smjörbirgðirnar, er talið að verð á smjöri á erlendum markaði sé nú aðeins 405 kr. og fengist þá fyrir þetta magn um 1/2 milljarður kr. eða kringum 500 millj. kr., aðeins lítill hluti af því verðmæti sem heildsöluverðið nemur. Það vantar sem sé upp á verðið, ef smjörbirgðirnar væru fluttar á erlendan markað, um 3.3 milljarða kr. Væru ostabirgðirnar fluttar út er talið að vantaði um 1.5 milljarð kr., eða samtals um 4.8 milljarða kr. upp á heildsöluverð ef þessar vörur væru fluttar á erlendan markað.

Til viðbótar við þetta er það vitað eftir horfum, að framleiðsla á þessu verðlagsári muni verða það mikil að á skorti í útflutningsbótafé til þess að fullu verði verði náð álíka fjárhæð, eða 4.7–.8 milljarða kr.

Hér er um mjög mikið vandamál að ræða og birgðasöfnun, einkanlega á smjöri, hefur í för með sér að geymslukostnaður verður óhæfilegur og því naumast um annað að ræða en að koma þessari vöru í lóg að verulegu leyti með einhverjum hætti. Nokkuð öðru máli gegnir með ostabirgðirnar, vegna þess að eðlilegt er að nokkurt magn, sem svaraði 2/5 af þessu magni eða eitthvað þess háttar, væri í birgðum, vegna þess að ostarnir þurfa tíma til gerjunar í geymslu áður en þeir eru settir á markað. Þrátt fyrir það er hér um alvarlegt vandamál að ræða, sem ég hef leyft mér að spyrjast fyrir um hvaða ráðstafana hæstv. ríkisstj. hyggst grípa til að mæta.

Annar liður þessarar fsp. lýtur að því, hvort fyrir liggi nokkrar upplýsingar um eða hvort unnt sé í skyndi að afla upplýsinga um hvernig neyslu þessara vara sé háttað í ýmsum opinberum stofnunum og á vistheimilum á vegum hins opinbera eða félagasamtaka. Það er ákaflega mikils virði að hugað sé að því að haga vinnslu þessara vara á þann hátt, að unnt sé að mæta þörfum markaðarins, eins og hann er á hverjum tíma. Og breytingar á þjóðfélagsháttum hafa leitt til þess, að mæta þarf markaðnum á nýjan hátt. Maður heyrir sagnir af því, að t.d. börnum í skólum, sem fá í skólastofnuninni hluta af sínu fæði, sé þar boðið kók og prins-póló eða annað slíkt, en hinar hollu landbúnaðarafurðir, sem hrannast upp sem birgðir í þjóðfélaginu, séu þar lítt á borðstólum. Enn fremur hafa heyrst sagnir um að á sumum vistheimilum hins opinbera sé smjör helst ekki horið á borð. Mér væri mikil þökk á því að fá upplýst, hvort hæstv. ráðh. getur gefið einhverjar réttar upplýsingar um þetta efni, því að ef hér er rétt með farið er um alvarlegt mál að ræða.

Í sambandi við þetta mál þarf vitaskuld að huga að því á allan hátt, hvernig þessum birgðum verði komið í lóg. Hér var upplýst á Alþ. fyrir skömmu, að t.d. varnarliðið kaupi ekki þessar vörur. Væri eðlilegt a.m.k. að teknir væru upp samningar um sölu á hluta af þessu vörumagni til þeirra sem á Keflavíkurflugvelli dveljast.

Ég mun ekki hafa lengri framsögu fyrir þessari fsp. Mér er ljóst að hér er um alvarlegt vandamál að ræða, og það er auðvitað beðið eftir því að heyra hvað ríkisstj. hyggst gera til að mæta þessum vanda. Ég vonast til að hæstv. ráðh. geti gefið við því einhver svör.