21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2681 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

148. mál, orlof

Félmrh. (Magnús H. Magnússon):

Herra forseti. Ég lýsi mig algerlega andvígan þessari brtt. Við verðum að athuga það, að með reglugerð hefur Póstgíróstofunni verið falið að greiða orlof hvort sem launagreiðandi hefur greitt það eða ekki. Launagreiðandi, sem greiðir ekki orlof, brýtur þau lög. Er honum þá treystandi til þess að gefa réttar upplýsingar um það, hvað hann hefði átt að borga? Mundi hann ekki reyna að draga þar úr?

Póstgíróstofunni verða gefin fyrirmæli og hún skylduð til með reglugerð að borga orlofsfé hvað sem líður greiðslum frá launagreiðendum, og ég sé ekki hvernig hún ætti að geta gert það, ef hún getur ekki sjálf gengið úr skugga um hvað launagreiðandinn á að greiða. Hér er um að ræða opinberan aðila, sem er bundinn þagnarskyldu og öðru slíku sem til þarf. Ég held að það sé mjög tryggilega frá þeim hnútum gengið, a.m.k. eins og er og á meðan innheimtan og orlofið eru í þeim skorðum sem þau eru í dag.

Ég legg eindregið til að þessi brtt. verði felld. Verði hún samþykkt, finnst mér að búið sé að kippa stoðunum undan því, að Póstgíróstofan greiði orlof þó að launagreiðandinn hafi ekki greitt það til hennar.