30.10.1978
Efri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

47. mál, heilbrigðisþjónusta

Bragi Níelsson:

Herra forseti. Hér er nú viðrað mál, frv. um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu, og ég get ekki stillt mig um að koma aðeins að þessu máli

Eins og 1. grein hljóðar hér, með leyfi forseta: „Norðfjarðarumdæmi. 2. undirliður í lögunum orðist svo: Eskifjörður H 2, starfssvæði: Eskifjarðarkaupstaður, Helgustaðahreppur, Reyðarfjarðarhreppur og suðurbyggð Reyðarfjarðar“ — þá er ég algerlega með þessari tillögu, því að mér er fyllilega kunnugt um það, að eitt af þeim atriðum, sem gera heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni erfiða eða öllu heldur erfitt að fá lækna til að þjóna þar, er hin faglega einangrun lækna. Það er lítt fýsilegt fyrir lækna að fara út á landsbyggðina, þar sem þeir þurfa að standa einir að verkum. Þetta hefur kristallast í því, að nú að undanförnu — og ekki síður í haust en oft áður — hafa ekki fengist læknar til að sinna nærri því öllum læknishéruðum á landinu. Það er mun auðveldara að fá lækna til að gegna læknisþjónustu þar sem heilsugæslustöðvar eru fyrir tvo lækna heldur en hinar. En samt er það nú svo, að landlæknir hefur tjáð mér að frá næstu áramótum vanti 14 lækna til þess að þjóna landsbyggðinni.

Í þessu sambandi vill ég lýsa ánægju minni með það, að menn hugsi til þess að á Eskifirði verði heilsugæslustöð 2. Það er auðveldara að byggja upp heilsugæsluþjónustuna þar sem tveir læknar vinna saman heldur en þar sem einn er fyrir, og það er staðreynd, að þjónustan verður þeim mun betri.

En svo komum við því miður að því í þessu frv. eða grg. þess, að sagt er: „Er þá með því reiknað að annar læknirinn sitji á Reyðarfirði“. Með þessu álit ég að sé verið að ganga þvert ofan í anda þeirra laga, sem samþykk't voru 1973 og aftur með breytingum á s.l. vori, laga um heilbrigðisþjónustu. Með því móti á sem sagt að reyna að halda gamla skipulaginu, að drita læknum hingað og þangað um landsbyggðina, við lélegustu aðstæður oftast, í stað þess að byggja upp sæmilega góða læknisþjónustu í kjörnum svæðanna.

Hvað varðar það svæði sem hér er um að ræða, þá er aðeins 15 km vegalengd milli Eskifjarðar og Búðareyrar, og svipað háttar til víða um land. Svo að ég nefni aðeins örfá dæmi, þjónar heilsugæslustöð í Borgarnesi Kleppsjárnsreykjahéraði, í Ólafsvík Hellissandi, á Blönduósi Skagaströnd og svo mætti lengi telja.

Ég tel að fenginni reynslu minni og annarra, þar sem ég hef unnið við bæði skilyrðin, sem heilsugæslulæknir við fullkomna heilsugæslustöð og sem héraðslæknir á gamla mátann, að það sé mjög stórt skref aftur á bak, ef við ætlum að fara í þessa dritunarpólitík, eins og ég vil kalla það, að setja einn lækni hjálparvana á sem flesta staði á landinu.

Ég fagna því samt, að þetta frv. er komið fram, og vona að það verði einn af steinunum til þess að byggja upp betri heilbrigðisþjónustu en við höfum enn þá fengið. En mér virðist að landfræðilegar aðstæður séu ekki til þess að koma þarna upp tveimur stöðvum, þar sem einn læknir sé á hvorri, en full rök fyrir því að fá tvo lækna til Eskifjarðar.