21.02.1979
Efri deild: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2688 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

117. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Að vísu tel ég ekki ástæðu til að bæta neinu við ræðu hv. frsm. sjútvn. um þetta frv., en vil þó láta það koma fram, að ástæðan fyrir því, hvað afgreiðsla frv. hefur dregist í nefndinni, er sú, að n. varð sammála um, er málið kom á borð hennar rétt fyrir jólin í vetur, að nauðsynlegt væri að leita umsagna um málið. Er umsagnirnar komu varð ljóst að stjórn aflatryggingasjóðs taldi nauðsynlegt vegna laga um aflatryggingasjóð, eins og þau nú eru, að gera lítils háttar efnisbreytingu á frv., sem kemur fram í brtt hennar, og taldi að með þeim hætti einum, að breyting yrði gerð í þessa átt, væri hægt að skjóta loku fyrir að þessi breyting, þó að hún væri gerð með sérstöku tilliti til rækjuveiðanna fyrir vestan og þess sérstaka ástands sem skapaðist á miðunum í Djúpinu vegna seiðagengdar, gæti hróflað við anda laganna.

Því er ekki að neita, að sjútvn.-menn í Ed. hafa sætt talsverðum þrýstingi af ónefndum aðilum í Nd. og þá sérstaklega hinum svonefnda Vestfjarðaklúbbi um að afgreiða þetta mál án breytinga. Ég vil aðeins ítreka að af hálfu sjútvn. Nd. hefur alls ekki verið neinn leikur að tefja afgreiðslu málsins og það er ekki af neins konar hrekk eða meinfýsi sem því er nú vísað aftur til Nd., heldur af nauðsyn. Hefur hér komið fram rétt einu sinni að Ed. er Alþingi hin nytsamlegasta.