30.10.1978
Efri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

47. mál, heilbrigðisþjónusta

Flm. (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim tveim hv. þm. sem hafa tekið undir meginefni þessa frv., að á Eskifirði verði H 2 stöð, og þá auðvitað hlýtur það um leið að reka á eftir því, að þar komi sú heilsugæslustöð sem þörf er á fyrir svo stórt hérað sem raun ber vitni. Þar sem við segjum í grg. skoðun okkar á því, að annar læknirinn hafi búsetu á Reyðarfirði, þá vil ég taka það fram, að við ætlumst vitanlega til að báðir læknarnir starfi á heilsugæslustöð á Eskifirði. Við sem sagt vorkennum ekki þeim lækni, sem væri búsettur á Reyðarfirði, að fara, eins og hv. þm. Bragi Níelsson réttilega benti á, þessa 15 km vegalengd til starfa sinna á heilsugæslustöð þar, jafnhliða því sem hann sinnti aðstöðunni á Reyðarfirði, þannig að hér er fyrst og fremst um vissa búsetuspurningu að ræða. Hins vegar komum við auðvitað aldrei til með að setja neitt lagaákvæði þar um nema þá að breyta þeirri heimildargr., sem nú er í dag, því að sú grein hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem tveir læknar eða fleiri eru starfandi á heilsugæslustöð, getur ráðh. ákveðið að fengnum till. landlæknis og heilbrigðisráðs að einn þeirra skuli hafa tímabundna búsetu á heilsugæslustöð í sama umdæmi, enda sé starfs- og húsnæðisaðstaða þar viðunandi að mati landlæknis og héraðslæknis og sérstök staðarleg rök mæli með þeirri skipan.“

Við leggjum kannske svona mikla áherslu á þetta í grg. vegna þess að okkur finnst að þessi heimild nægi okkur ekki, hún sé ekki nægilega mikil til þess arna, og viljum hins vegar undirstrika þá skoðun okkar, að við teldum ekki óeðlilegt að annar tveggja lækna þeirrar heilsugæslustöðvar hefði búsetu á Reyðarfirði til öryggis fyrir fólkið þar. Þarna er auðvitað komið inn á mikla viðkvæmnisspurningu, sem stundum hefur verið rædd hér í hv. deild, þ.e.a.s. hve langt ætti að ganga í því að sjúklingar kæmu til læknis eða læknar til sjúklinga aftur á móti. Hér er vissulega um mikla spurningu að ræða. Ég verð að segja það, að mér finnst sumir hinna yngri lækna og nýútskrifuðu lækna vera stífir á því, að sjúklingar komi skilyrðislaust til þeirra, og ég skil vissulega sum rök þeirra í því efni. En það má öllu ofgera í því líka, og ég hygg, að sumir hafi gengið mjög langt, þó ég ætli ekki að fara að rekja þá sögu sem ég rakti hér í fyrra við almennar umr. um heilbrigðisþjónustu þá.

Ég vildi aðeins taka þetta fram, að við reiknum auðvitað með því, að báðir læknarnir, ef af þessu verður, starfi á Eskifirði, en þessi heimildarmöguleiki verði nýttur. Ég veit að það verður, ef þessi breyting kemst á, knúið mjög á um það af Reyðfirðingum að fá búsetu þessa læknis til sín, þó að aðalstarf hans yrði e.t.v. unnið á Eskifirði, á heilsugæslustöðinni þar. Við viljum sem sagt koma því að þegar í grg. fyrir þessu frv., svo að það fari ekkert á milli mála, hvað við óskum eftir að sé gert í þessu efni, en við gerum okkur ljós vandkvæðin og að e.t.v. þurfi hreina lagabreytingu til þess að þetta standist.