21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2698 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

73. mál, samvinnufélög

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég vil segja um þetta mál nokkur orð. Í rauninni er það mál, sem hér er á ferðinni, ekki nýtt á Alþ. Um þetta atriði hafa farið fram umr. áður og þá á nokkru breiðari grundvelli en nú hefur átt sér stað.

Ég skal strax taka fram að ég er andvígur þessu frv. Ég tel ekki rétt að snúast við þeim vanda, sem rætt er um í grg. sem fylgir með þessu frv., á þann veg sem hér er lagt til, með lagasetningu af þessu tagi. Hér er sem sagt um það að ræða, að lagt er til að fyrirskipa með lögum hvernig tiltekin félagasamtök í landinu skuli haga sínum innri málum, þ.e.a.s. í sambandi við hvernig eigi að kjósa til yfirstjórnar þeirra og hvernig eigi að haga þeim innri málum sem almennt eru ákveðin í félagasamtökunum sjálfum.

Það gefur alveg auga leið að ef frv. af því tagi, sem hér liggur fyrir, væri samþ. mundi leiða af því mjög hliðstæðar ákvarðanir um mörg önnur félagasamtök í landinu sem iðulega hafa einnig komið fram tillögur um. Það væri auðvitað alveg á sama hátt hægt að koma fram með frv. um að fyrirskipa Alþýðusambandi Íslands að gerbreyta þeim reglum sem þar gilda nú um kosningar á fulltrúum í æðstu stjórn þeirrar stofnunar, ákveða að fara skyldi fram almenn kosning allra þeirra sem eru félagsmenn í þeim samtökum. Þetta væri vitanlega hægt að gera við fjöldamörg önnur almannasamtök í landinu sem hafa sumpart með að gera stórkostlegan rekstur.

Þetta er gömul till. sem íhaldið hefur flutt nokkrum sinnum hér á Alþ. varðandi samvinnuhreyfinguna, verkalýðshreyfinguna og önnur slík samtök. Þetta er í rauninni að mínum dómi brot á því grundvallaratriði, sem við byggjum á og er staðfest í stjórnarskrá okkar, sem er um frjáls félagasamtök. Hér er verið að þrengja það frelsi sem þessi félagasamtök hafa. Menn hafa rétt til þess að mynda félög og hyggja upp félagasamtök. Til þess hafa hafa þeir fullkomið frelsi, og þeir verða að hafa rétt til þess sjálfir hver og einn að skipa sínum innri málum. Þetta eru ástæðurnar til þess, að ég er á móti því að taka á þessu vandamáli eins og rætt er um í þessu frv.

Hitt skal ég taka undir, að það er ekkert um að villast að hér er um að ræða allverulegt vandamál, sem ekki á sér aðeins stað í samvinnuhreyfingunni, heldur einnig í flestum öðrum fjöldasamtökum í landi okkar. Það ber allt of mikið á því, að hinn almenni félagi í samtökunum verði nokkuð óvirkur og hann sætti sig við að stjórnir viðkomandi félaga eða stjórnir heildarsambanda verði í framkvæmdinni svo að segja sambandið sjálft eða hreyfingin öll. Þarna er á ferðinni mjög varhugarvert mál sem þarf að fjalla um. Auðvitað á að vinna að leiðréttingu í þessum efnum innan samtakanna þar sem eru fullkomin lýðræðisleg réttindi til þess að taka á þessum málum. Ég er algerlega mótfallinn því að löggjafinn fari að grípa inn í og takmarka hið eiginlega félagafrelsi með því að fyrirskipa hvernig hin einstöku félagasamtök hagi sínum innri málum varðandi kosningar í stjórnir og stöður. Og ég er sannfærður um að ákaflega hörð átök yrðu í þessum félagasamtökum ef löggjafinn færi inn á að ætla að fyrirskipa þetta. Það gæti kannske haft það eitt gott í för með sér, að þá rumskuðu menn í þessum hreyfingum og gættu að innri réttindum sínum. — Ég er á móti því að fara löggjafarleiðina og fyrirskipa þetta. Það er auðvitað alveg augljóst mál að hér yrði ekki um samvinnuhreyfinguna eina að ræða, enda væri ekki neitt réttlæti í því að ætla að taka hana eina út úr. Af því hlyti að leiða að löggjafinn færi að grípa inn í hin almennu félagasamtök í landinu í stórum stíl og takmarka rétt þeirra til að skipa innri málum sínum.

Ég skal svo ekki tefja það að þetta mál nái að ganga til n. og fái eðlilega skoðun í n. og þinglega afgreiðslu, en vildi láta það koma fram, að ég er andvígur frv. af því að ég er á móti þeirri stefnu sem í því felst, að takmarka þann félagslega rétt sem er virtur og er í gildi í hinum ýmsu samtökum í landinu. Ég viðurkenni að það er rétt, sem kemur fram í sambandi við flutning þessa máls, að þarna er um veikleika að ræða í félagsstarfinu og þyrfti að koma því til leiðar að almenningur væri þarna virkari. En ég dreg mjög í efa að við leystum þann vanda, sem þarna er um að ræða, þó að fyrirskipað yrði að hafa beinar kosningar. Ég dreg mjög í efa að slíkt leysti hinn eiginlega félagslega vanda sem hér er um að ræða.