21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2707 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

73. mál, samvinnufélög

Flm. (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Þessi umr. hefur farið nokkuð á við og dreif, en ég get ekki stillt mig um að víkja nokkrum orðum að ýmsum misskilningi sem hefur komið fram við þessa umr.

Þar sem hv. 1, þm. Austurl. hefur eiginlega haft forustu í umr. fyrir þeim sem hafa mælt gegn þessu frv. mun ég einkum víkja orðum mínum að ummælum hans hér. Hann gat þess, að íhaldið hefði áður flutt sams konar frv. á Alþ. Nú hef ég skemmri þingreynslu en hv. þm. Lúðvík Jósepsson, en ég fullyrði að þetta er rangt. En af því að ég met þm. mjög mikils og tel hann merkan stjórnmálamann, þá gef ég honum kost á því að leggja frv. þetta fram hér í umr. þegar málið kemur úr n. og hlakka til að sjá það frv., ef það er til.

Í annan stað kom fram hjá hv. 1, þm. Austurl. einn alveg furðulegur misskilningur. Allir vitum við að samvinnufélag er rekstrarform, það er samvinnurekstur. Þetta er ástæðan fyrir því, að mjög skýr og ákveðin lagafyrirmæli eru í íslenskum rétti um þessi félög. Telur hv, þm. Lúðvík Jósepsson, að Alþýðusamband Íslands sé rekstrarform? Maður gæti einna helst haldið það af þeim ummælum sem hér komu fram áðan. Þegar menn eru að ræða félagafrelsi í sambandi við rekstrarform, þá eru menn annaðhvort að blekkja sjálfa sig viljandi eða þeir hafa ekki vit á því sem þeir eru að tala um. Það er um annaðhvort að ræða.

Þannig er mál með vexti, sem allir þekkja sem hafa nennt að glugga eitthvað í þessi mál, að í samvinnufélögum er höfð í frammi mjög mikilvæg efnahagsleg starfsemi. Þar er um að ræða mjög mikla peningalega hagsmuni félaganna. Þess vegna hefur alltaf verið talin þörf á því, að það væru mjög skýr lagafyrirmæli um hvernig ætti að fara með þessi réttindi. Einhver sagði áðan að samvinnulöggjöfin væri rammalöggjöf, einhver missti það út úr sér. Þetta er fullkominn misskilningur. Það eru mjög ítarleg ákvæði í samvinnulöggjöfinni og ég bið menn að kynna sér hana. Menn geta t.d. flett upp í IV. kafla, 18.–23. gr., sem fjalla mjög nákvæmlega og í smáatriðum um hvernig skuli haga félagsfundum í samvinnufélagi. Er samvinnulöggjöfin brot á félagafrelsinu? Eru þeir hv. ræðumenn, sem hafa verið að tala um félagafrelsi hér og haldið því fram að við flm. þessa frv. séum á móti félagafrelsi, — eru þeir þá á móti samvinnulöggjöfinni, vilja þeir nema þá löggjöf úr gildi? Ég vil fá svör við þessu. Eða vita menn ekki hvað þeir eru að tala um?

Ég er sannfærður um að hinir almennu félagar í samvinnufélögunum hafa sjálfir áhuga á meira lýðræði í samtökum sínum, og hugmyndin um beinar lýðræðislegar kosningar í stjórn Sambandsins á örugglega verulegan hljómgrunn meðal þeirra. En því miður hafa þeir engin skilyrði qg engin völd til þess að koma fram slíkum breytingum. Það er einmitt hlutverk okkar hér á Alþ., sem viljum berjast fyrir hagsmunum þessa fólks, að koma slíkum breytingum fram. Við höfum einir tækifæri og réttindi til þess. Þetta stafar einfaldlega af því, að þessi lagaákvæði eru þegar í gildi og enginn getur breytt þeim nema við. Þess vegna verð ég að segja það, að mér líkar það mjög miður þegar menn hafa verið að sveifla þessari umr. út og suður og tala um jafnvel kaupgjaldsmál og vísitölu, sem auðvitað eru merkileg mál, en eiga ekkert skylt við þessa umr., eða þá að tala um að hér standi til að leggja einhverjar lögbindingar á starfsemi verkalýðsfélaga. Það er algerlega út í hött, gersamlega óskylt mál. Og ég ítreka það við hv. 1. þm. Austurl., ef hann veit það ekki, að verkalýðsfélag er ekki rekstrarform. Ég vona að það sé alveg ljóst.

Ég ætla að ítreka það, að það kom fram hjá hv. þm. Halldóri E. Sigurðssyni að honum fannst eiginlega hálfgerð frekja hjá flm. að ætlast til þess að þetta frv. yrði afgr. á einu þingi. Hvílík ósvífni, að menn skuli ekki ætla sér mörg þing til að afgreiða eitt lítið mál! En þarna held ég að sé raun og veru skýringin á tregðu manna til þess að taka vel undir þetta mál. Hún er einfaldlega sú, að hér er um að ræða nýtt mál, þetta er ný hugmynd, og því miður er seinagangur stofnunarinnar slíkur að menn geta ekki áttað sig fljótt á nýjum hugmyndum. Það tekur fleiri en eitt þing. Þetta er sorglegt, en mér sýnist þetta vera skýringin. Skýringin er einfaldlega sú, að menn sjá að þetta er eitthvað nýtt. Menn verða hræddir við það, sem nýtt er, og vilja ekki taka afstöðu til þess fyrr en það er orðið gamalt, en þegar svo er komið geri ég ráð fyrir að hv. Alþ. verði e.t.v. tilbúið að samþ. þetta frv. Þetta er því miður svona. Þrátt fyrir það held ég að það sé brýn skylda allra þeirra, sem hafa trú á samvinnurekstri og vilja að sá rekstur blómgist, og allir þeir, sem hafa yfirleitt áhuga á því að almenningur í landinu geti haft virk afskipti af atvinnulífi, hljóti að halda svona viðleitni áfram, jafnvel þó að gangi treglega í fyrstu. Ég vona að takist ekki að fá þetta frv. lögfest á þessu þingi, þá takist það á því næsta.