21.02.1979
Neðri deild: 52. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (2133)

73. mál, samvinnufélög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ekki dettur mér í hug að það vaki fyrir flm. þessa frv. að skerða almennt lýðræði í þessu landi. Ég er sannfærður um að fyrir þeim vakir að auka lýðræði. Það, sem þessir ungu þm. finna að íslensku lýðræði, er það áhugaleysi sem almenningur sýnir iðulega á að beita rétti sínum. Ef við verðum varir við slíkt áhugaleysi innan tiltekinna stéttarsamtaka, þá er að mínum dómi ekki þar með sagt að það eigi að setja löggjöf til að bæta úr því. Ég er ekki viss um að það sé rétta leiðin til að auka tilfinningu einstaklingsins fyrir lýðræðislegum réttindum sínum að setja lög um það.

Hér er verið að tala um Samband ísl. samvinnufélaga, og það er ekki að ástæðulausu að menn ræða um lýðræði innan þeirra samtaka. Það væri argasta hræsni að segja að þar sé ekkert að, og því miður er margt að víðar í fjöldasamtökum.

Ég ætla ekki að flytja langa ræðu þó sannarlega væri ástæða til þess í tilefni af þessu frv. En ég ítreka það, að ég er sannfærður um að á hak við þetta frv. liggur það viðhorf og sá skilningur, að það er ekki nærri nógu virkt lýðræði í þessu landi. Að því leyti er ég innilega sammála flm. þessa frv. Aftur á móti er ég satt að segja hissa á þessum ungu mönnum, að þeir skuli ekki vera bersögulli en þeir hafa reynst að því er varðar Samband ísl. samvinnufélaga og hvernig því er iðulega beitt, — ég get næstum því sagt: hvernig því er stöðugt beitt þannig að um er að ræða hneykslanlegt brot á lýðræði.

Vinur minn ágætur, þm. af Vesturl., Halldór E. Sigurðsson, sagði áðan að Framsfl. væri og hefði alla tíð verið hurðarás samvinnuhreyfingarinnar, en því færi fjarri að hann ætti hvern einasta mann þar í stjórnum. Þetta átti sjálfsagt að sýna hvað þessi flokkur væri lýðræðislega sinnaður. Auðvitað hefur þessi flokkur þarna öll völd eða sama sem öll völd. Og það er ekki endilega rétt að Framsfl. sé burðarás samvinnuhreyfingarinnar, alveg eins má segja að samvinnuhreyfingin sé burðarás Framsfl. Ég veit a.m.k. ekki sem einn af félagsmönnum kaupfélagsins í Borgarfirði um nein ákvæði þess efnis, að Tímanum skuli dreift á vegum kaupfélagsins og blaðgjaldið síðan innheimt líka á vegum kaupfélagsins. Þetta gildir um fleiri kaupfélög. Ég veit mörg dæmi þess, að Tíminn kemur heim á bæina með mjólkurbílnum dag eftir dag, viðkomandi bóndi kærir sig ekki um það blað og hefur e.t.v. orð á því, en það heldur áfram að koma. Það er ekki fyrir það að menn, sem stjórna kaupfélaginu í Borgarnesi, séu meiri ofríkis — eða ofstækismenn en annars staðar. Því fer fjarri. Þetta eru hinir ljúfustu menn.

Upp af þessari voldugu hreyfingu er sprottið ákveðið viðhorf, ákveðið andrúmsloft, sem veldur þessum viðbrögðum. Menn taka við Tímanum dag eftir dag og gera ekki aths. við að það hefur verið tekið út af reikningum þeirra til þess að borga Tímann. Ástæðan til þess er sú, að þarna þrumir yfir þessu fólki vald sem hefur mikla þýðingu að því er varðar afstöðu þess í ýmsum stórmálum. Það er spurning hvort Framsfl. er burðarás samvinnuhreyfingarinnar eða samvinnuhreyfingin burðarás Framsfl.

Ég er satt að segja hissa á þessum ungu mönnum, að þeir skuli ekki vekja athygli á þessu. Kannske þetta standi í sambandi við stjórnarsamstarfið. Ég leyfði mér að flytja tillögu snemma á þessu þingi — hafði gert það áður í félagi við sjálfstæðismann varðandi beinar greiðslur til bænda. Ég fékk aths. frá einum í samstarfsflokki, Framsfl., þar sem mér var bent á að þetta væri ekki heppilegt, ég yrði að reyna að hafa gott samstarf. Ég hélt satt að segja að Alþb. hefði ekki myndað stjórn með SÍS, heldur með Framsfl. En þetta sýnir skilninginn, það átti að vera eitt og hið sama.

Þetta vildi ég sagt hafa í tilefni af þessu frv. Við það er að vísu, eins og t.d. hv. þm. Páll Pétursson benti áðan á, ýmislegt athugavert, en líka ýmislegt gott.