22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2720 í B-deild Alþingistíðinda. (2144)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Gunnlaugur Stefánsson:

Herra forseti. Ég held að það sé ekki ástæða til að hafa mörg orð um þessa till. Ég vil þó sérstaklega fagna framkomu hennar og lýsa stuðningi mínum við till. Ég tel, að hér sé hreyft brýnu þjóðþrifamáli. Það hefur verið vandamál undanfarin ár, að ríki, sveitarfélög og ýmsar opinberar stofnanir hafa í of miklum mæli beint viðskiptum sinum í iðnaðarvörur erlendis frá, á meðan sömu vörur eða svipaðar er hægt að fá á íslenskum markaði, framleiddar af íslenskum iðnfyrirtækjum. Þetta er vandamál sem þarf að leysa, og ég tel að þessi þáltill. muni verða skref í rétta átt, á þann veg a.m.k. að vekja athygli á vandamálinu þannig að það kunni að verða tekið fastari tökum í iðnrn. og á öðrum þeim stöðum sem um þessi mál fjalla.

Það er nú svo, að á þeim tímum þegar fiskverndunarmál eru ofarlega á baugi og mikið rædd nauðsyn þess að vernda fiskstofnana í sjónum, þá er hitt ekki minna mál, hvernig við verndum gjaldeyri okkar. Fiskur er undirstaða gjaldeyrisöflunar og mikilvægt hvernig við eyðum gjaldeyri. Það er allt of lítið um þetta atriði rætt, að það er ekki síður mikilvægt en hitt, að vernda fiskstofnana í sjónum, hvernig við eyðum gjaldeyrinum sem fyrir fiskinn úr sjónum fæst.

Ég verð að segja það alveg eins og er, að á undanförnum árum hefur verið farið illa með þann gjaldeyri sem við höfum aflað, m.a. með því að opinberar stofnanir hafa verið að kaupa erlendar iðnaðarvörur þó að sams konar vörur hafi verið framleiddar hér í landinu. Einnig er rétt að benda á í þessu sambandi, að þegar mikil áróðursherferð fór af stað og stóð yfir um íslenska iðnkynningu, þá fóru einnig af stað umr. um það, hvort verðlag íslenskra iðnaðarvara væri samkeppnisfært við erlendar iðnaðarvörur. Það er nú svo, að þó að reynt sé að venja þjóðina á ákveðnar innkaupavenjur, þá leitast fólk við að kaupa þá vöru sem er best og ódýrust. Þetta þýðir nákvæmlega það, að íslenskur iðnaður verður að vera samkeppnishæfur við útlendan iðnað og við innfluttar iðnaðarvörur til landsins. Það er því hlutverk stjórnvalda — og það verður að taka fastari tökum á næstu mánuðum — að skapa svigrúm hér í landinu til þess að íslenskur iðnaður verði samkeppnisfær á verðlagsgrundvelli og í samkeppni við erlendar iðnaðarvörur.

Eftir að við gengum í EFTA og eftir samningana við Efnahagshandalagið er það svo, að kjör íslensks iðnaðar hafa að nokkru leyti verið skert. Staða íslensks iðnaðar í samkeppni við innflutning iðnaðarvara er verri eftir samningana, sem gerðir voru við Efnahagsbandalagið, heldur en áður, og það er sérstaklega vegna þess að sá aðlögunartími, sem gefinn var, var ekki nýttur á réttan hátt og við þau loforð, sem gefin voru, var ekki staðið. Þetta verður að taka allt til endurskoðunar á ný, vegna þess að enn komum við til með að standa frammi fyrir nýjum tollalækkunum við næstu áramót. Við stóðum frammi fyrir þeim um síðustu áramót. Þá var talinn of stuttur tími til að fresta þeim, vegna þess að ekki var nægjanlegt svigrúm til að kynna slíkar frestanir og vinna þeim fylgi á erlendum vettvangi. Ef áfram heldur sem horfir lendum við í sömu tímaklípunni um næstu áramót, ef ekki verður strax mörkuð stefna um hvernig að þessum tollalækkunum á að standa um næstu áramót, ef ekki verður betur búið að íslenskum iðnaði á þeim fáu mánuðum sem eftir eru þar til við stöndum frammi fyrir þessum nýju tollalækkunum.

Þetta vildi ég láta koma hér fram vegna þess að það tengist þessu máli, vegna þess að hér er um að ræða atvinnugrein sem hefur átt undir högg að sækja. Hún á að vissu leyti í samkeppni við aðrar atvinnugreinar. En svo kann að fara að eftir nokkur ár sjáum við eftir því að hafa ekki hugað betur að þessum málum en gert hefur verið til þessa.