22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2721 í B-deild Alþingistíðinda. (2145)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal ekki gera umr. þessa um till. að almennum umr. um iðnaðarmál. Ég vil þó leyfa mér að segja hér nokkur orð og geta þess, að ég tel að þessi till., sem borin er fram af hv. 1. þm. Suðurl., eigi fullan rétt á sér og sé þannig að efni til að ástæða sé til að hugleiða vel það sem hún hefur fram að færa.

Það er alveg augljóst mál, að iðnaðurinn, verksmiðjuiðnaðurinn og reyndar allur iðnaður er ákaflega mikilvægur fyrir okkar þjóðfélag. Það hefur farið sívaxandi á síðustu 40–50 árum, hversu iðnaðurinn er mikilvægur fyrir okkar þjóðfélag. Hann er meira að segja svo mikilvægur, hygg ég, að á þessum árum, þegar fólksfjölgun hefur verið hvað örust og mest í landinu allt frá upphafi Íslandssögu, þá held ég að iðnaðurinn eigi verulegan þátt í að hægt var að taka við öllu því vinnuafli sem varð til í okkar þjóðfélagi, þannig að þjóðfélagslegt gildi iðnaðarins er ekkert smáræði.

En ég vil líka minna á það sem er reyndar uppistaðan í þessum tillöguflutningi, og það er hversu innlendi markaðurinn, heimamarkaður, er mikilvægur fyrir iðnaðarvörur, fyrir iðnaðinn. Við skulum muna það, að sá iðnaður, sem nú er í landinu, hefur að verulegu leyti vaxið upp í skjóli vissrar markaðsverndar, innflutningshafta eins og þau voru hér á árabilinu upp úr 1930 og lengi þar á eftir. Og það er einmitt á þessum árum sem iðnaðurinn fer að vaxa. Það þýðir ekkert að leyna sig þeirri staðreynd, að það var einmitt í skjóli þessara hafta sem iðnaðurinn varð til, óx upp og byggðist á hinum innlenda markaði.

Ég vil ekki gera lítið úr því að breyta til í þessu efni. Auðvitað er að ýmsu leyti mjög gallað fyrirkomulag að vera með strangverndaðan markað og hæfir sjálfsagt ekki til lengdar í þeirri veröld sem við búum í nú. Samt sem áður megum við ekki gleyma því, eins og kemur fram hjá hv. flm., að innlendi markaðurinn skiptir miklu máli fyrir iðnaðinn. Þess vegna er sannarlega ástæða til þess að finna leiðir, sem standast þó allat eðlilegar frelsiskröfur, til að auka sölumöguleika innlendra vara á okkar íslenska markaði. Þetta er sjálfsagt hægt að gera með ýmsum hætti. Það er auðvitað hægt að gera það, eins og gert er, með auglýsingum og með því að skora á allan almenning að kaupa íslenskar iðnaðarvörur, og það er nokkuð gert að því. Þó er ég ósköp hræddur að íslenski iðnaðurinn sé varbúinn að mæta því sterka auglýsingaflóði sem er í okkar þjóðfélagi og er til þjónustu fyrir útlendar iðnaðarvörur. Þetta er mál sem þarf að athuga, hvort séu möguleikar á því að finna einhverja leið til þess að innlendi iðnaðurinn fái einhvers konar betri aðstöðu en nú er til að auglýsa sínar vörur og gera þær kunnar og eftirsóttar hjá íslenskum neytendum. Sannleikurinn er sá, að mjög mikið af þeim vörum, sem innlendur iðnaður framleiðir, er í reyndinni alveg jafngóð vara eða a.m.k. vara sem vel má notast við og er ekki miklu lakari en mörg útlend vara sem hér er á boðstólum, jafnvel þó að margir gangi fram hjá innlendum iðnvarningi.

Hitt er líka augljóslega mjög mikilvægt, eins og fram kemur hjá flm., að beita opinberum aðgerðum til þess að fá ríkis- og bæjarfyrirtæki til þess að nota innlenda vöru fram yfir útlenda. Ég tel að það sé mjög mikið atriði að leitað sé ráða í því efni að slíkt megi verða í miklu ríkari mæli en nú er.

En sem sagt, ég vil aðeins geta þessara fáu atriða í sambandi við þessa till. Ég álít að þarna sé hreyft mjög mikilvægu máli, og ég vil undirstrika það, að heimamarkaðurinn er afar mikilvægur fyrir iðnaðinn í landinu og það þarf að leita allra ráða til þess að sá markaður nýtist sem best, án þess að við förum að taka upp ströng höft og meiri skorður, sem að ýmsu leyti er gallað og við höfum reyndar hafnað með því að vera nú aðilar að EFTA í nærri 10 ár. Þó að það þurfi sjálfsagt að gæta sín í þeim samtökum og vera ekkert of ákafur í þeim efnum, þá er sjálfsagt að halda sig þó við það enn um sinn að vera í þessum samtökum, því að þegar til lengdar lætur hygg ég að það verði íslenskum iðnaði til góðs. Hitt held ég samt að sé rétt, að við finnum líka leiðir til þess að vernda okkar innlendu framleiðslu með þeim aðferðum sem samrýmast eðlilegu frelsi.