22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2722 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Íslenskur iðnaður hefur tekið miklum stakkaskiptum á hinum síðustu árum og aukist mjög að fjölbreytni og gæðum. Kom það ekki síst fram á því iðnkynningarári sem efnt var til ekki alls fyrir löngu. Ég varð þess mjög var, þar sem ég átel þess kost að taka þátt í iðnkynningardögum og sýningum víðs vegar um land á því ári, hversu skorti á vitneskju hjá fjölda manna um hvers íslenskur iðnaður er orðinn megnugur, hversu fjölbreytni hans og gæði eru orðin mikil og verðið viðast hvar sambærilegt við erlendar vörur. Það var iðulega sem ég heyrði frá heimamönnum, sem komu á iðnsýningar þar sem sýndar voru vörur sem framleiddar voru í því byggðarlagi, þessi orð eða eitthvað á þessa leið: Er þetta virkilega framleitt hér hjá okkur?

Ég er í engum vafa um að þessi iðnkynning hefur opnað augu landsmanna fyrir gildi, fjölbreytni og þýðingu íslensks iðnaðar og er það vel. Hinn er ekki að neita, að mjög hefur skort á að íslensk stjórnvöld, bæði ríkis og sveitarfélaga og ýmissa stofnana, hafi sýnt nægan skilning á íslenskum iðnaði, og til þess liggja margar ástæður. Sumpart kemur tregðulögmálið til greina. Þeir. sem eru vanir því að panta erlendar vörur, eru e.t.v. tregir til að breyta út frá því þar sem um er að ræða viðurkenndar vörur og viðurkennd framleiðslufyrirtæki. Önnur ástæðan er vafalaust sú, að ýmsir þeir sérfræðingar, sem undirbúa innkaup og útboð, hafa hlotið menntun í erlendum skólum og þar hafa þeir kynnst og heyrt um ýmis viðurkennd fyrirtæki sem framleiða vörur undir viðurkenndum merkjum. Þeir hafa því ósjálfráða tilhneigingu, þegar heim er komið og á að undirbúa útboð, að byggja þau á slíkum vörum fremur en íslenskum, sem eru ekki eins þekktar og ekki er búið að reyna eins fyllilega. Ég nefni þessar ástæður, en þær eru auðvitað margar, margar fleiri.

Ljóst er að hér verður að verða breyting á. Þess vegna var það á iðnkynningarári, að ég flutti till. um það í þáv. ríkisstj. að efnt yrði til könnunar í þessu efni og settur á laggirnar samstarfshópur til að gera ákveðnar till. um hvernig mætti haga innkaupum opinherra aðila þannig að þau yrðu til að efla íslenskan iðnað. Ákveðið var að þrjú rn. skyldu tilnefna fulltrúa í þennan starfshóp: viðskrn., fjmrn. og iðnrn. Af hálfu iðnrh. var tilnefndur til þessa starfs Þorvarður Alfonsson, sem var formaður þessarar n. Nefndin hefur nú lokið störfum og mun skila till. sínum til hæstv, ríkisstj., að ég ætla, í næstu viku. Er því of snemmt að fara hér að ræða um störf hennar eða væntanlegast till., en vonandi verður það gert opinbert áður en langt um líður.

Ástæðurnar til þess, að ekki aðeins iðnrn., heldur viðskrn. og fjmrn. voru með í þessu starfi, voru þær, að vitanlega verður að hafa hliðsjón af viðskiptasamningum okkar við aðrar þjóðir, en þeir heyra fyrst og fremst undir viðskrn., en undir fjmrn. heyrir Innkaupastofnun ríkisins, sem er mestur ráðaaðili í þessu landi um innkaup ríkisins. Vitanlega eru það mörg rn. önnur sem þetta mál snertir. Við vitum, að ýmiss konar stofnanir, sem sjá sjálfar um innkaup sín án þess að þau gangi í gegnum Innkaupastofnun ríkisins, fjalla um mjög háar fjárhæðir þar sem spurning getur verið um kaup á innlendum eða erlendum iðnaðarvörum. En aðalatriðið er að leggja verður ríka áherslu á að auka stórlega innkaup á innlendum iðnaðarvarningi, enda er hann fyllilega samkeppnisfær um gæði og verð á fjölmörgum sviðum, það hefur reynslan sýnt. Vitanlega verðum við að gæta hér allrar hagkvæmni. Hins vegar er það vafalaust rétt sem hv, flm. gat um, að sú regla, sem upp hefur verið tekin hjá Reykjavíkurborg til hliðsjónar, og svipuð regla, sem notuð er allvíða í öðrum löndum í framkvæmd þó að e.t.v. sé ekki í laga- eða reglugerðarformi, þessar reglur eru miðaðar við það að fyllilega sé forsvaranlegt og hyggilegt að öðru jöfnu að kaupa heldur innlenda vöru, þótt hún sé nokkru dýrari en hin erlenda, vegna margvíslegs hagræðis fyrir þjóðina sem af því leiðir.

Ég held að það hafi verið tímabært og fullkomið tilefni hjá hv. flm. þessarar till. til að hreyfa henni. Þó að þessi n., sem ég gat um, hafi starfað og starfað vel að undanförnu er nauðsynlegt að Alþ. marki hér stefnu og lýsi yfir ótvíræðum vilja sínum í þá átt að þannig skuli stefnt.

Það er ástæða til að þakka hv. flm. fyrir flutning þessarar till. Vænti ég þess, að hún fái greiða för í gegnum Alþ. og Alþ. samþykki þannig einróma stefnu sína í þessu efni.

Þegar rætt er um eðlilega fyrirgreiðslu fyrir íslenskum iðnaði kemur m. a, eitt atriði upp í hugann, og það er hið mikla misrétti sem augljóst er á hverjum degi milli íslenskrar iðnaðarvöru og erlendrar. Á ég þar við auglýsingar, fyrst og fremst í áhrifamesta fjölmiðlinum, sjónvarpinu. Á hverjum einasta degi dynja yfir okkur auglýsingar og áróður fyrir ýmiss konar erlendum iðnaðarvörum. Vitanlega þarf geysilegt fjármagn til að útbúa til sýningar slíkar myndir, auglýsingar og kvikmyndir, og munu ekki aðrir ráða við það en mjög fjársterkir erlendir aðilar, sem senda þær svo hingað umboðsmönnum sínum og greiða kostnaðinn við birtingu þeirra. Íslensk iðnaðarfyrirtæki hafa enga möguleika til að ná hér jafnræði. Þau hafa enga möguleika til að leggja í svo rándýra framleiðslu á kvikmyndum eða auglýsingamyndum til að keppa við hinar erlendu. Hér er mikill vandi á höndum. Án þess að ég sé að leggja til að bannaðar séu auglýsingar á erlendum iðnaðarvörum, þá held ég að óhjákvæmilegt sé að staldra hér við og að réttir aðilar, t.d. útvarpsráð, kanni hvort ekki er hægt með einhverjum eðlilegum reglum að koma mér meira samræmi á, því að hér er um að ræða hróplegt misrétti íslenskum iðnaði í óhag. Mér er kunnugt um að sums staðar erlendis hefur verið gengið alllangt í því að takmarka — og það verulega — auglýsingar í sjónvarpi á erlendum iðnaðarvörum. Ég skal engar till. um þetta gera nú, en aðeins varpa því fram, að ég tel brýna nauðsyn að réttir aðilar taki þetta alvarlega vandamál til ,meðferðar og reyni að finna eðlilegar reglur sem geti rétt nokkuð hlut hins íslenska iðnaðar.