30.10.1978
Efri deild: 9. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

48. mál, félagsheimili

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hér er hreyft athyglisverðu máli, og ég stend ekki upp til að andmæla þessu frv. Ég vil þvert á móti taka það fram, að ég er sammála því sem hv. 1. flm. sagði um þýðingu Menningarsjóðs félagsheimila og þeirrar starfsemi sem sjóðnum er ættað að styðja. En meginefni þessa frv. er að setja Menningarsjóði félagsheimila sérstaka stjórn. Þegar við ræðum um þetta, þá hlýtur að vakna önnur spurning og það er um stjórn Félagsheimilasjóðs. Fé Félagsheimilasjóðs á að verja samkv. lögum til byggingar félagsheimila 90%, en 10% af tekjum Félagsheimilasjóðs eiga að renna til Menningarsjóðs félagsheimila. Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir að setja sérstaka stjórn til að ráðstafa 10% af þessu fjármagni. Mér virðist óhjákvæmilega vakna sú spurning, hvort ekki sé þá ástæða til að setja stjórn yfir þann þátt sem varðar 90% af því fjármagni sem Félagsheimilasjóður hefur með að gera.

Í mínum huga er þetta þó ekki þannig, að það þurfi endilega að vera rétt að setja á fót tvær stjórnir: annars vegar stjórn yfir Félagsheimilasjóð og hins vegar stjórn yfir Menningarsjóð félagsheimila. Mér kemur til hugar, hvort ekki sé eðlileg lausn á þessu máli að stofna til þess, að Félagsheimilasjóður fái stjórn og sú stjórn fjalli um ráðstöfun alls þess fjármagns sem Félagsheimilasjóður hefur yfir að ráða, fjalli bæði um 90% og 10%.

Ég geri ráð fyrir, eins og raunar hv. 1. flm. tók fram, að það geti komið til álita, hvernig eigi að skipa stjórn sem væri fyrir Félagsheimilasjóð í heild. En mér sýnist að það þurfi ekki að fara illa á því,.að sú stjórn sé skipuð fulltrúa frá Bandalagi ísl. leikfélaga og einnig fulltrúa frá Sambandi isl. sveitarfélaga, eins og gert er ráð fyrir að stjórn Menningarsjóðs félagsheimila sé skipuð samkv. frv. því sem hér liggur fyrir. Hv. 1. flm. tók fram, að honum væri ekki fast í hendi eða þeim flm., hvernig sú stjórn, sem gert er ráð fyrir samkv. þessu frv., yrði skipuð. Þegar ég tala um stjórn fyrir Félagsheimilasjóð í heild, þá finnst mér að það komi mjög til greina, að til viðbótar þeim aðilum, sem nefndir eru í þessu frv., komi bæði Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands. Ég hygg að sá þáttur í starfi félagsheimilanna, sem lýtur að íþróttum og málum skyldum íþróttum, sé svo veigamikill að það sé naumast hægt að ganga fram hjá þessum aðilum. Það má líka minna á það, að í lögum um félagsheimili er sérstök áhersla lögð á þennan þátt starfseminnar sem ætlað er að fram fari í félagsheimilunum, vegna þess að það er tekið fram í gildandi lögum, að það skuli veita styrki úr Félagsheimilasjóði að fengnum tillögum íþróttanefndar og raunar líka að fengnum tillögum fræðslumálastjóra. Nú mun þessi embættismaður, fræðslumálastjóri, ekki vera lengur til. En það er hins vegar ekkert óeðlilegt, að tekið sé tillit til þeirra aðila sem sérstaklega fjalla um uppeldismál, og að mínu viti gæti vel komið til greina, að í stjórn fyrir Félagsheimilasjóð, eins og ég hef látið mér koma til hugar, að hún ætti að vera, væri einnig fulltrúi frá samtökum kennara í landinu.

Þetta eru aðeins hugleiðingar sem ég vildi láta koma fram við 1. umr. þessa máls. En ég sé ekki annað en þær séu þess eðlis, að það þurfi að athuga þær hugmyndir nánar.