22.02.1979
Sameinað þing: 57. fundur, 100. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

60. mál, innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Umr. hafa nú farið heldur á við og dreif í þessu máli. Það er e.t.v. ekkert skrýtið að menn leyfi sér aðeins að sletta úr klaufunum — (StJ.: Þegar Norðurlandaráð er.) — já, þegar Norðurlandaráðsfundur stendur yfir, og þegar ég segi: sletta úr klaufunum, þá á ég hvorki við sauðfé né kommúnista sem eru á beit í Vesturlandskjördæmi og þarf að girða fyrir til að þeir komist ekki inn á svæði Grundartanga. Síður en svo var það mér í huga. En hér hefur verið rætt um margt og mikið í sambandi við innkaup opinberra aðila á íslenskum iðnaðarvörum og talið m.a. borist að sjónvarpinu og auglýsingum í því.

Ég skal vissulega taka undir orð þeirra sem hér hafa talað um sjónvarpsauglýsingar, að það er kominn tími til þess að huga að því máli sérstaklega. Þá á ég við það, að hugað sé að því hvort það geti verið að auglýsingar, sem sýndar eru í íslenska sjónvarpinu, hafi skaðleg áhrif á börn. Hitt, hvort auglýsingar, sem koma frá Coca-Cola eða Pepsi-Cola, séu verri eða siðlausari en aðrar auglýsingar, skal ég ekki fjalla um.a.m.k. ef Coca-Colaauglýsing er siðlausari en aðrar, sem þarna eru sýndar, þá er ýmislegt orðið siðlaust í sjónvarpinu. Það má þó vera að þýðingin á þessari auglýsingu fari á milli mála eftir því hver þýðir, og má vera að fyrri ræðumaður hv. hafi verið að ýja að því. Og þá skal viðurkennt að það má sjálfsagt þýða „real thing“ með ýmsu móti á íslensku og skal ekki farið nánar út í þá sálma.

Ég held samt sem áður að það sé ekki rétt sem hér hefur komið fram um það, hverjar reglur sjónvarpsins séu um auglýsingar. A.m.k. er það svo, að þær reglur hafa verið túlkaðar með þeim hætti, að það nægði í sjónvarpinu að íslenskur texti kæmi fram einhvers staðar í auglýsingunni. Það má vel vera að þurfi að breyta þessu, en þetta hefur verið túlkað á þennan veg og aths. hafa ekki, svo að ég muni, komið upp í útvarpsráði varðandi það mál sérstaklega. (Gripið fram í.) Nei, af því að hv. þm. Jónas Árnason spyr að því, þá er síðast í þessari auglýsingu slegið upp mynd þar sem stendur eitthvað á þessa leið: „Drekkið Coca-Cola ískalt“, svo að það fari ekkert á milli mála. Ég biðst afsökunar á því að vera kominn hér í ræðustól til þess að auglýsa Coca-Cola, en hér var auglýstur hálfáfengur drykkur kenndur við ágætan höfðingja sem áður bjó á Vesturlandi. (Gripið fram í: Hann bjó þar lengst af.) Já, þar sem nú býr annar ágætur höfðingi sem er meðal okkar í dag og er skáld gott líka. Um þetta ætla ég ekki að fjalla lengur. Ég vildi þó að það kæmi fram til leiðréttingar hvernig á þessu stæði.

Hins vegar er ástæða til að fara nokkrum orðum um þau sjónarmið, sem komu fram í ræðu hv. þm. Stefáns Jónssonar um EFTA og iðnaðinn. Það þarf nefnilega að koma skýrt fram, að það er varla hægt að tala um kvaðir á iðnaði þegar við gengum í EFTA. Ég held að það væri ósanngjarnt að segja það, vegna þess að í raun naut iðnaðurinn áður þeirra réttinda og skjóls sem tollar veita innlendum atvinnuvegi. Við verðum að hafa það hugfast, að forustumenn í iðnaði studdu inngöngu okkar í EFTA á sínum tíma, og við verðum enn fremur að hafa það í huga, að gagnrýni þeirra hefur fyrst og fremst verið beint að stjórnvöldum. Þeir hafa talið að íslensk stjórnvöld hafi ekki nýtt aðlögunartímann nægilega vel. Það hafi ekki verið nægilega farið eftir tillögum iðnrekenda og annarra samtaka iðnaðarins um þau efni. Það þýðir ekki það og er ekki það sama og kom fram hjá hv. þm. Stefáni Jónssyni, að iðnaðurinn hafi verið á móti því eða sé nú að átta sig á því, að hann hefði átt að vera á móti inngöngu Íslands í EFTA. Við megum ekki gleyma því, að inngangan í EFTA var einnig gerð til þess að skapa okkur tækifæri á mörkuðum, nýjum mörkuðum í EFTA-löndunum. Tollalækkunin var auðvitað ekki einhliða. Það vorum ekki aðeins við sem lækkuðum tolla á vörum sem komu til okkar, heldur lækkuðu að sjálfsögðu tollar annars staðar á þeirri vöru sem við höfum haft tækifæri til að flytja til annarra þjóða. Hitt má svo deila um, hvort aðlögunartímabilið hafi verið nægilega nýtt, en þetta má ekki gleymast þegar rætt er um EFTA.

Hv. 4. þm. Vesturl., Jónas Árnason, talaði um að nú væru sjálfstæðismenn hættir að tala um frjálsa samkeppni og frjálsan markað. Ég get huggað hann með því, að þetta er ekki rétt. Hann á enn þá andstæðinga í þingsölunum. (Gripið fram í. ) Málið er það, að við verðum að viðurkenna að það er ekki hægt að koma á fót hér á landi og stunda allan iðnað sem nöfnum tjáir að nefna. Við verðum að velja úr og við verðum að velja úr þann iðnað sem er arðsamastur, arðgæfastur, gefur okkur mest í aðra hönd, og þegar um það er talað verðum við að hafa samanburð. Samanburðinn höfum við í innflutningnum eða ef margir framleiðendur eru á sama markaði. Ef við teljum okkur trú um að við getum lokað landinu — og landið var einu sinni lokað — og byrjað enn þá einu sinni að framleiða eins og hvergi annars staðar sé framleitt í heiminum, á grundvelli þess að hér á Íslandi ríki séríslenskar aðstæður, þá verðum við að átta okkur á því, að afleiðingin verður séríslensk kjör, máske miklu verri kjör en voru hér áður. Það getur vel verið að við verðum jafnhamingjusöm, jafnvel hamingjusamari. En ég hef hvergi séð það á stefnuskrá nokkurs stjórnmálaflokks, að hann vilji láta lífskjörin á Íslandi versna, og þá á ég við efnaleg lífskjör. Þessu verðum við að átta okkur á. Það er um þetta sem valið stendur.

Auðvitað á hið opinbera hlutverki að gegna í þessum málum. Hér hefur verið bent á það rækilega í þessari ágætu þáltill., hvernig einn þáttur þessa máls er. En þeir eru fleiri. Ríkisvaldinu ber t.d. að ganga á undan á vissum sviðum, kanna hverjir eru kostir hér á landi til þess að koma upp arðbærum iðnaði. Þetta gera t.d. rannsóknastofnanir okkar, þetta er hlutverk Iðntæknistofnunar, og það þarf að styðja það hlutverk. Og ríkinu ber að sjálfsögðu að útvega fjármagn til þess að ríkið og ríkisstofnanir geti staðið undir nafni. Ég hef bent á það hér fyrr í ræðu, að það er hægt að útvega slíkt fjármagn með því t.d. að losa um þá peninga sem eru bundnir í félögum sem ríkið á aðild að eða á alfarið, með því að selja þau einstaklingum, nýta síðan það fjármagn, sem þar losnar um, til þess að setja sem áhættufé eða fé í nýiðnaði, sem svo er kallaður, í nýjum atvinnutækifærum í iðnaði. Þetta verðum við að hafa í huga.

Um þá till., sem hér liggur fyrir, skal ég ekki verða langorður. Ég styð hana. Ég veit að starfshópur hefur starfað að þessu máli undir forustu ágæts manns, Þorvarðar Alfonssonar, og ég veit um það líka, að von er á því innan mjög skamms tíma að sá hópur skili áliti og niðurstöðum. Ég er viss um að í því áliti verða margar gagnlegar ábendingar. Ég vil aðeins að lokum nota tækifærið til þess að þakka hv. flm. og eins hæstv. fyrrv. iðnrh. fyrir það frumkvæði sem þeir hafa sýnt í þessu máli.